Skipulagsráð

276. fundur 25. október 2017 kl. 08:00 - 11:25 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Stefán Friðrik Stefánsson
  • Hólmgeir Þorsteinsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Anna Bragadóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Eva Reykjalín Elvarsdóttir L-lista og Helgi Snæbjarnarson L-lista boðuðu forföll.
Stefán Friðrik Stefánsson D-lista mætti í forföllum Sigurjóns Jóhannessonar.
Hólmgeir Þorsteinsson áheyrnarfulltrúi Æ-lista mætti í forföllum Jóns Þorvaldar Heiðarssonar.

1.Holtahverfi, austan Krossanesbrautar - deiliskipulag

Málsnúmer 2016040101Vakta málsnúmer

Lögð er fram skipulagslýsing fyrir deiliskipulag Holtahverfis, austan Krossanesbrautar, dagsett 18. október 2017 og unnin af Arnþóri Tryggvasyni hjá AVH.

Skipulagsráð frestaði málinu á fundi 27. september 2017.
Tekið til umræðu og frestað milli funda.

2.Sjávargata 4 - umsókn um breytt deiliskipulag vegna verksmiðjuhúss

Málsnúmer 2017100054Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. október 2017 þar sem Gísli Kristinsson fyrir hönd Bústólpa ehf., kt. 541299-3009, sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir hafnarsvæði sunnan Glerár vegna verksmiðjuhúss á lóð nr. 4 við Sjávargötu. Beiðnin er um hækkun á hámarkshæð hússins vegna tengingar við fóðursíló. Skipulagsráð heimilaði umsækjanda á fundi 11. október 2017 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Tillagan er dagsett 3. október 2017 og unnin af Gísla Kristinssyni arkitekt.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða samþykkir skipulagsnefnd að tillagan verði grenndarkynnt samkvæmt 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt verði óskað eftir umsögnum Isavia og Hafnasamlags Norðurlands.

3.Deiliskipulagsverkefni - umfang og forgangsröðun

Málsnúmer 2017090052Vakta málsnúmer

Lagðar eru fram tillögur að næstu deiliskipulagsverkefnum í Akureyrarkaupstað. Skipulagsráð frestaði afgreiðslu á fundi 11. október 2017.
Skipulagsráð samþykkir framlagða forgangsröðun og felur skipulagssviði að hefja forskoðun á svæðum við Naust 3, Síðubraut og svæði milli Laufásgötu og Hjalteyrargötu með hliðsjón af tillögu að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030. Sett verði af stað vinna við deiliskipulag hafnarsvæðis Grímseyjar.

4.Síðuskóli - innkeyrsla

Málsnúmer 2015110127Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla vegna breytinga á innkeyrslu á lóðina var auglýst frá 16. ágúst 2017 með athugasemdafresti til 27. september 2017. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu bæjarins.

2 athugasemdir bárust:

1) Guðmundur Karl Atlason, dagsett 26. ágúst 2017.

Guðmundur kemur með aðrar tillögur að gatnamótum við Síðuskóla.

a) Að hringtorg verði sett á gatnamót Bugðusíðu, Arnarsíðu og innkeyrslu að Síðuskóla.

b) Hámarkshraði á skólalóð verði 15 km/klst.

c) Arnarsíða verði opnuð niður að Hlíðarbraut.

2) Dýrleif Skjóldal og Rúnar S. Arason, dagsett 2. október 2017.

Mótmæla harðlega færslu á innkeyrslu til norðurs. Telja að við það verði umferðarteppan enn verri. Þau leggja til að þrengingum við gangbraut sunnan Arnarsíðu verði sleppt vegna hættu á umferðarteppu, vilja láta færa aðkomu að skólanum í Vestursíðu eða að máluð verði hvít lína fyrir framan gangstéttina á lóð Síðuskóla og sett upp skilti sem segir fólki að það sé að koma út af plani og eigi því ekki rétt fyrir umferð sem kemur úr Arnarsíðu.

1 umsögn barst:

1) Norðurorka, dagsett 22. ágúst 2017.

Í Bugðusíðunni liggur 180PEH vatnsveitu-stofnlögn sem ætti þó ekki að vera í hættu þegar hraðahindrunin verður gerð, en svo liggur heimlögn 75PEH að Síðuskóla undir fyrirhugaðri heimkeyrslu að skólanum. Því þarf að passa heimlögnina að Síðuskóla þegar farið verður í færslu á heimkeyrslunni og hvetjum við til þess að haft verði samband við okkur áður en framkvæmdir hefjast varðandi nánari upplýsingar. Í viðhenginu er mynd af vatnslögnum á svæðinu og þar eru þessar tvær lagnir merktar sérstaklega. Lagnir rafveitu og fráveitu má einnig sjá á meðfylgjandi mynd.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu á fundi 11. október 2017. Umsögn umhverfis- og mannvirkjasviðs fylgir.
Skipulagsráð þakkar fyrir innkomnar athugasemdir.

Skipulagsráð óskaði eftir umsögn umhverfis- og mannvirkjasviðs um umsögnina og athugasemdirnar. Svörin eru í meðfylgjandi skjali: "2017.10.19 Svör við umsögn og athugasemdum v. dsk. Síðuskóla.pdf".

Skipulagsráð tekur undir svör umhverfis- og mannvirkjasviðs og telur því ekki þörf á að breyta kynntri skipulagstillögu og leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

5.Munkaþverárstræti 36 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017100251Vakta málsnúmer

Erindi móttekið 17. október 2017 þar sem Sigurður Hallgrímsson fyrir hönd SSG ehf., kt. 681005-0210, sækir um breytingu á deiliskipulagi vegna húsgerðar á lóðinni Munkaþverárstræti 36. Meðfylgjandi eru skissur eftir Sigurð Hallgrímsson.
Skipulagsráð heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við innkomið erindi. Breytingin verði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Norðurtangi 7 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2017010224Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. janúar 2017 þar sem Þórir Guðmundsson fyrir hönd umhverfis- og mannvirkjasviðs, kt. 410169-6229, sækir um hluta lóðarinnar nr. 7 við Norðurtanga tímabundið fyrir smáhýsi til lausnar búsetuúrræða fyrir heimilislausa.

Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 25. janúar 2017.

Á fundinn komu Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu fjölskyldusviðs, Laufey Þórðardóttir forstöðumaður stoðþjónustu og Róbert Freyr Jónsson varaformaður velferðarráðs til viðræðna um málið.
Skipulagsráð samþykkir að veita vesturhluta lóðarinnar fyrir smáhýsi, tímabundið til 2ja ára.

Samhliða verði sett vinna í gang um varanleg búsetuúrræði fyrir heimilislausa einstaklinga á Akureyri í samvinnu skipulagssviðs og búsetusviðs.

Skipulagsráð beinir því til sviðsstjóra búsetusviðs að hafa frumkvæði að þeirri vinnu.

Ólína Freysteinsdóttir S-lista, Edward H. Huijbens V-lista, Stefán Friðrik Stefánsson D-lista og Tryggvi Már Ingvarsson B-lista, óska bókað að þetta úrræði er algert neyðarbrauð í ljósi aðstöðu sem komin er upp. Jaðarsetning fólks sem stendur höllum fæti í okkar samfélagi er aldrei æskileg og ýtir undir vanda þeirra. Við samþykkjum tímabundna staðsetningu smáhýsanna með þeirri kröfu að þau víki innan tveggja ára og verði hluti uppbyggingar íbúðarsvæða sem fyrirhuguð eru um allt bæjarlandið.

7.Glerárgata 7 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017020148Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. febrúar 2017 þar sem Valþór Brynjarsson fyrir hönd Norðureigna ehf., kt. 461195-2029, sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 7 við Glerárgötu. Óskað er eftir að akreinum á Glerárgötu verði hagrætt þannig að rútur hafi aðstöðu til að hleypa farþegum út austan lóðarinnar nr. 7 við Glerárgötu.

Skipulagsráð fól skipulagssviði að skoða erindið með hliðsjón af vinnu með Vegagerðinni um öryggismál Glerárgötu.

Umsögn Vegagerðarinnar liggur fyrir, dagsett 10. október 2017. Vegagerðin mælist gegn því að veitt verði heimild til þess að setja vasa fyrir rútur meðfram Glerárgötu vegna öryggis óvarinna vegfarenda. Lagt er til að aðrir kostir verði skoðaðir og bendir t.d. á stæði fyrir rútur á Geislagötu milli Smáragötu og Gránufélagsgötu á deiliskipulagi.
Umbeðið rútustæði er á þjóðvegi 1, sem er stofnbraut, of nálægt gatnamótum við Gránufélagsgötu til norðurs og umferðarljósum við Strandgötu til suðurs. Skipulagsráð tekur undir umsögn Vegagerðarinnar og hafnar erindinu.

8.Reglur um lóðaveitingar - endurskoðun 2015

Málsnúmer 2015030039Vakta málsnúmer

Skipulagnefnd fól Tryggva Má Ingvarssyni og Edward Hákoni Huijbens á fundi 23. mars 2016 að leggja fram tillögur til endurskoðunar reglna um lóðaveitingar. Skipulagsráð frestaði málinu á fundi 29. mars og 31. maí 2017. Tillaga að endurskoðuðum reglum er nú lögð fram ásamt umsögn bæjarlögmanns.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og óskar eftir að fullunnar reglur verði lagðar fyrir næsta fund.

9.Ystibær-Miðbær - staðfesting á nýjum landamerkjum

Málsnúmer 2017080036Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. ágúst 2017 þar sem Sæmundur Sæmundsson, Unnur Sæmundsdóttir og Geir Sæmundsson leggja inn umsókn um að skipta jörðinni í fjórar lóðir. Meðfylgjandi er undirrituð staðfesting á þremur nýjum lóðum úr jörðinni Ystabæ-Miðbæ í Hrísey með landnúmeri 152144. Meðfylgjandi er mæliblað með hnitasetningu á nýju lóðunum.

Innkomin endurbætt umsókn og mæliblöð 26. september 2017.
Skipulagsráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

10.Lækjargata 13 - umsókn um hærra nýtingarhlutfall lóðar

Málsnúmer 2017090103Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. september 2017 þar sem Guðrún Stefánsdóttir fyrir hönd Matthildar Ágústsdóttur sækir um hækkun á nýtingarhlutfalli lóðar nr. 13 við Lækjargötu.

Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 27. september 2017 og fól skipulagssviði að leggja mat á nýtingarhlutfall lóðarinnar við Lækjargötu 13.

Lagt fram yfirlit sviðsstjóra sem sýnir núverandi stærðir lóða og húsa við Lækjargötu, gildandi nýtingarhlutfall og tillögu að breyttu nýtingarhlutfalli og byggingarmagni óbyggðra lóða við Lækjargötu.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að láta vinna tillögu að breyttu deiliskipulagi Innbæjar hvað varðar Lækjargötu til samræmis við tillögur um hækkað nýtingarhlutfall á lóðum við Lækjargötu.

11.Lækjargata 3 - umsókn um að breyta bílgeymslu í gestaíbúð

Málsnúmer 2017100126Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 9. október 2017 þar sem Knútur Bruun fyrir hönd Gesthofs ehf., kt. 620202-4010, sækir um að breyta skráningu á bílgeymslu í gestaíbúð (íbúðarrými) til einkanota. Meðfylgjandi eru tillöguteikningar eftir Halldór Guðmundsson.
Samkvæmt deiliskipulagi er ekki krafa um bílgeymslu á lóðinni og getur skipulagsráð því fallist á að bílgeymslunni verði breytt í íbúðarrými sem tilheyri einbýlishúsinu á lóðinni. Byggingarfulltrúi afgreiði umsókn um byggingarleyfi.

12.Þórunnarstræti 114 - fyrirspurn um fjölgun íbúða

Málsnúmer 2017100175Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. október 2017 þar sem Sigurður Hafsteinsson fyrir hönd Arnars Þórs Jónssonar eiganda Þórunnarstrætis 114, óskar eftir umsögn/áliti skipulagsyfirvalda á breytingu eða fjölgun íbúða í húsi nr.114 við Þórunnarstræti.
Í Þórunnarstræti 114 er skráð ein íbúð, læknastofa og bílskúr. Í gildandi deiliskipulagi kemur fram að óheimilt sé að breyta fjölda íbúða í núverandi íbúðarhúsum, en ekki er getið um læknastofu á svæðinu né neinir sérskilmálar um Þórunnarstræti 114 hvað það varðar. Skipulagsráð telur fjölgun íbúða úr tveimur í þrjár í stað læknastofu séu óverulegt frávik frá deiliskipulagsskilmálum í þessu tilviki, sem ætti að draga úr umferð að húsinu og væri þá jákvæð fyrir nágranna.

Skipulagsráð tekur því jákvætt í umbeðna fyrirspurn, en bendir á að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breytingunni.

13.Byggðavegur 136A - umsókn um bílastæði og skráningu eignar á Ásveg

Málsnúmer 2017100181Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. október 2017 þar sem Jón Valgeir Halldórsson og Hulda Sif Hermannsdóttir sækja um að fá að skilgreina skika í botnlanga Ásvegar sem bílastæði sitt. Húsið sem um ræðir tilheyrir Byggðavegi en snýr að Ásvegi svo umsækjendur sækja um að fá heimilisfangið fært til Ásvegar. Sjá myndir.
Skipulagsráð tekur jákvætt í að lóðin Byggðavegur 136A verði skilgreind sem Ásvegur 33 og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ganga frá breytingunni. Umbeðin stækkun á lóð skal grenndarkynnt þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

14.Drottningarbraut - umsókn um byggingarleyfi fyrir göngu- og hjólabrú

Málsnúmer 2017100314Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. október 2017 þar sem Arnar Birgir Ólafsson fyrir hönd umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, sækir um byggingarleyfi fyrir göngu- og hjólabrú við Drottningarbraut. Brúin verður hluti af fjörustígnum sem fyrir er. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Árna Gunnar Kristjánsson.
Skipulagsráð getur fallist á útlit og form fyrirhugaðrar brúar og felur byggingarfulltrúa að afgreiða umsókn um byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

15.Þórunnarstræti 123 - fyrirspurn

Málsnúmer 2016020159Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. febrúar 2016 þar sem Edda Lára Guðgeirsdóttir f.h. eigenda við Þórunnarstræti 123 sendir inn fyrirspurn um byggingu bílskúrs við Þórunnarstræti 123. Innkomnar nýjar teikningar 20. september 2017.

Erindið var grenndarkynnt frá 21. september 2017 með athugasemdafresti til 19. október 2017. Engar athugasemdir bárust.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og felur byggingarfulltrúa að afgreiða umsókn um byggingarleyfi þegar umsókn um það berst.

Edward Hákon Huijbes V-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.

16.Samþykkt Akureyrarkaupstaðar um götu- og torgsölu - endurskoðun

Málsnúmer 2017100305Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. september 2017 þar sem Guðríður Friðriksdóttir f.h. umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarkaupstaðar, kt. 410169-6229, óskar eftir að sölubásar fyrir neðan Skátagil verði teknir og leiksvæði barna sett inn í staðinn.
Skipulagsráð vísar erindinu til endurskoðunar deiliskipulags miðbæjar og að þar verði skilgreint svæði fyrir söluvagna.

17.Hagahverfi - framkvæmdarleyfi fyrir gatnagerð og veitustofnum

Málsnúmer 2015050156Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. október 2017 þar sem Tómas Björn Hauksson f.h. umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarkaupstaðar, kt. 410169-6229, sækir um framkvæmdarleyfi vegna gatnagerðar og lagna í suðurhluta Hagahverfis.
Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmdar við gatnagerð og veitustofna í suðurhluta Hagahverfis, sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag, og samþykkir útgáfu framkvæmdarleyfisins á grundvelli 4. gr.- g "Samþykktar um skipulagsráð".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdarleyfisins:

Framkvæmdin skal vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

18.Hafnarstræti 80 - umsókn um framlengingu framkvæmdafrests

Málsnúmer 2013010305Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. september 2017 þar sem Sverrir Gestsson fyrir hönd Norðurbrúar ehf., kt. 620113-0420, sækir um framlengingu á framkvæmdafresti á lóðinni nr. 80 við Hafnarstræti. Skipulagsnefnd veitti aukinn framkvæmdafrest til 20. ágúst 2017 á fundi sínum þann 14. september 2016. Skipulagsráð óskaði á fundi sínum 27. september 2017 eftir gögnum um sigmælingar á lóðinni og frestaði erindinu milli funda. Lögð var fram samantekt frá Oddi Sigurðssyni jarðvegsverkfræðingi "Farg og sigferlar" dagsett 26. september 2017.

Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 11. október 2017 og veitti umsækjanda framkvæmdafrest til 31. desember 2017 og til að leggja fram frekari gögn varðandi jarðvegssig og tillögur að grundun sem henta í þessu tilviki.
Ólína Freysteinsdóttir S-lista bar upp vanhæfi sitt og var það samþykkt. Vék hún af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.

Skipulagsráð veitir umsækjanda framlengingu á framkvæmdafresti til 30. júní 2018, að því tilskyldu að umbeðin gögn berist fyrir 31. desember 2017.

19.Sómatún 29 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2017100330Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. október 2017 þar sem Björn Þór Guðmundsson fyrir hönd BF Bygginga ehf., kt. 621116-2230, sækir um lóðina nr. 29 við Sómatún. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

20.Espilundur 20 - hljóðvandamál vegna umferðar

Málsnúmer 2017100308Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. október 2017 þar sem Rögnvaldur Harðarson óskar eftir að reist verði hljóðgirðing á lóðarmörkun Espilunds 20 að Skógarlundi og Dalsbraut vegna hljóðmengunar frá hringtorgi.
Tryggvi Már Ingvarsson B-lista bar upp vanhæfi sitt og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.

Skipulagsráð vísar erindinu til umsagnar samráðsfundar skipulagssviðs og umhverfis- og mannvirkjasviðs.

21.Skaðabótakrafa vegna deiliskipulags og framkvæmda við Hafnarstræti 88

Málsnúmer 2016070021Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 23. ágúst 2017 þar sem Andrés Már Magnússon hdl., f.h. eigenda í Hafnarstræti 88, óskar eftir því að Akureyrarbær taki afstöðu til þess hvort hann telji sig skaðabótaskildan gagnvart eigendum vegna deiliskipulags á Drottningarbrautarreit.
Tryggvi Már Ingvarsson B-lista bar upp vanhæfi sitt og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.

Skipulagsráð leggur til að bótakröfunni verði hafnað. Deiliskipulag svæðisins frá 1981, breytt 2004, var í gildi þar til núgildandi deiliskipulag tók yfir árið 2012 (Deiliskipulag Miðbæjar - Drottningarbrautarreitur). Það deiliskipulag gerði ráð fyrir mun meiri útsýnisskerðingu húsa við Hafnarstræti en núgildandi deiliskipulag.

22.Hagahverfi - umsókn um skipulagsbreytingar

Málsnúmer 2017090130Vakta málsnúmer

Teknar fyrir að nýju tillögur að breytingum á deiliskipulagi Hagahverfis. Skipulagsráð óskaði eftir tillögum frá skipulagshönnuði í samræmi við umræður á fundinum. Lagt fram minnisblað frá skipulagshönnuði dagsett 2. október 2017.

Skipulagsmál frestaði afgreiðslu á fundi 11. október 2017.
Skipulagsráð felur skipulagssviði að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis í samræmi við tillögur skipulagshönnuðar.

23.Furuvellir 18 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2017090159Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. september 2017 þar sem Aðalsteinn Þórhallsson fyrir hönd Coca-cola Eur. Partn. Ísland ehf., kt. 470169-1449, sækir um stækkun lóðar nr. 18 við Furuvelli.

Skipulagsráð óskaði eftir umsögn frá Vegagerðinni og umhverfis- og mannvirkjasviði.

Umsögn Vegagerðarinnar, dagsett 18. október 2017.

Ósk um breytt lóðarmörk nær yfir fyrirhugaða gangstétt og að fyrirhuguðum götukanti. Samkvæmt umferðarbanka Vegagerðarinnar og drögum að umferðarreiknilíkani Akureyrarbæjar var ÁDU um Hjalteyrargötu á milli Tryggvabrautar og Furuvalla áætluð á milli 8.000-9.500 ökutæki árið 2016. Ef stuðst er við 2% árlegan vöxt umferðar mun umferðin ná ÁDU 15.000 eftir 20 til 30 ár en þá er eðlilegt að skoða hvort þörf sé á tvöföldun vegarins. Þegar tekin er afstaða til umræddrar lóðarstækkunar bendir Vegagerðin á mikilvægi þess að rými verði tryggt fyrir megingönguleið og fyrirhugaðar aðgerðir sem bæta umferðaröryggi og flæði umferðar um Hjalteyrargötu til framtíðar.

Umsögn umhverfis- og mannvirkjasviðs, dagsett 20. október 2017.

Erfitt er að átta sig á hvar eigi að draga lóðarmörk Furuvalla 18 að austan. Ein leið er að skoða plássþörf Hjalteyrargötunnar einhverja áratugi fram í tímann. Núverandi Hjalteyrargata gæti nálgast þolmörkin árið 2030. Einnig þarfnast gatnamót Hjalteyrargötu og Tryggvabrautar verulegrar yfirhalningar. Ekki er ljóst hvort gatnamótin verða krossgatnamót eða hringtorg. Gerð var tillaga að mjög grófri legu Hjalteyrargötunnar meðfram Furuvöllum 18 sem sýnir línu sem ekki er æskilegt að lóðarmörkin fari út fyrir.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna tillögu umhverfis- og mannvirkjasviðs að æskilegri línu lóðarmarka.

24.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2017

Málsnúmer 2017010027Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 12. október 2017. Lögð var fram fundargerð 649. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.
Lagt fram til kynningar.

25.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2017

Málsnúmer 2017010027Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 19. október 2017. Lögð var fram fundargerð 650. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 12 liðum.
lagt fram til kynningar.

26.Skipulagssvið - ráðning sviðsstjóra

Málsnúmer 2017100390Vakta málsnúmer

Þar sem sviðsstjóri skipulagssviðs mun láta af störfum að eigin ósk fyrri hluta næsta árs, þarf að taka ákvörðun um auglýsingu starfsins. Sviðsstjóri er jafnframt skipulags- og byggingarfulltrúi, og þarf að huga að framtíðarskipan þess starfs. Það er mat sviðsstjóra að skipta beri starfi skipulags- og byggingarfulltrúa upp, þar sem þetta eru ólík störf sem krefjast ólíkrar þekkingar. Það eykur jafnframt valmöguleika í starf skipulagsfulltrúa, sem þarf þá ekki að hafa réttindi til að skila inn aðaluppdráttum fyrir byggingarleyfi.
Skipulagsráð frestar málinu milli funda og felur sviðsstjóra að útbúa drög að auglýsingu um starfið. Skipulagsráð telur að samtímis beri að auglýsa starf arkitekts á sviðinu og felur sviðsstjóra að útbúa drög að þeirri auglýsingu.

Fundi slitið - kl. 11:25.