Barnavernd Eyjafjarðar

Hlekkur á síðu barnaverndar fyrir börn Hlekkur í tilkynningar til barnaverndar Hlekkur í viðbragðsáætlun vegna barnaverndartilkynninga

Ef málið þolir ekki bið skal hafa samband símleiðis við 112. Bakvakt barnaverndarnefndar Eyjafjarðar sinnir neyðartilvikum utan skrifstofutíma. Skrifstofutími er kl. 9:00-15:00 og hægt er að ná í barnavernd í gegnum símanúmer þjónustuvers Akureyrarbæjar: 460-1000. Netfang barnaverndar: barnavernd[hjá]akureyri.is

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Börn eru börn samkvæmt lögum fram að 18 ára aldri. Starfsfólk kannar aðstæður barna sem talin eru búa við óviðunandi aðstæður og beitir tiltækum ráðum til úrbóta, svo sem ráðgjöf, tilsjónarmönnum, persónulegum ráðgjöfum, stuðningsfjölskyldum og vistun. Sjá einnig Stefnu og framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndarnefndar 2018-2022.

Verkefni barnaverndar er vinnsla mála skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002, félagsráðgjöf í tengslum við fjölskyldur og barnavernd, umsagnir í umgengnis- og ættleiðingarmálum, úttektir á fósturfjölskyldum og stuðningsfjölskyldum, sumardvalir barna og forvarnastarf. Starfsmenn barnaverndar vinna í umboði barnaverndarnefndar og heyra undir velferðarsvið. 

Tilkynning til barnaverndarnefndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi, sjá reglur um málsmeðferð hjá starfsmönnum barnaverndarnefndar Eyjafjarðar. Sjá einnig Viðbragðsáætlun vegna barnaverndartilkynninga

Mikilvægi samvinnu

Mál einstakra barna og fjölskyldna þeirra berast ýmist þannig að fólk leitar eftir aðstoð eða að almenningur og aðilar sem vinna með börnum tilkynna að grunur leiki á að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt að öðru leyti eða að það stofni heilsu sinni í hættu.

Sá sem tilkynnir nýtur nafnleyndar óski hann þess (nema opinberir starfsmenn, s.s. læknar, hjúkrunarfræðingar, starfsfólk leik- og grunnskóla, lögregla o.fl.). Í öllum tilvikum meta starfsmenn barnaverndar mál með tilliti til þess hvort þörf er á stuðningsúrræðum.

Áhersla er lögð á samvinnu við foreldra og samstarf er haft við ýmsa aðila. Þar má nefna samvinnu við Barnaverndarstofu varðandi greiningu, meðferð og fósturráðstafanir. Einnig er samvinna við Barnahús um könnun kynferðisbrotamála gegn börnum og meðferð vegna þeirra og við Barna- og unglingageðdeild

Tilsjónarmaður aðstoðar foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni sem best.

Persónulegur ráðgjafi veitir barni ráðgjöf og leiðbeiningar í þeim tilgangi að styrkja það félagslega, siðferðilega og tilfinningalega, svo sem í sambandi við vinnu, menntun og tómstundir.

Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni, eða barni og foreldri, til vistunar í nokkra daga í mánuði m.a. í því skyni að létta álagi af barni eða fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í forsjárhlutverkinu.                                                

Myndband sem leiðbeinir börnum hvernig þau geta notað "Hnappinn" til að senda skilaboð til barnaverndar

 

Gagnlegir tenglar:
Barnaverndarstofa
Barnaverndarnefnd
Mennta- og barnamálaráðuneytið

Síðast uppfært 13. maí 2022