Barnvænt sveitarfélag

Barnvæn sveitarfélög er verkfærakista og líkan sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, sem hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga út um allan heim frá 1996. 

Akureyrarbær er fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi samkvæmt skilgreiningu UNICEF og hlaut sveitarfélagið sína viðurkenningu árið 2020.

Innleiðingarferli Barnasáttmála SÞ

Barnvæn sveitarfélög byggja á fimm grunnþáttum

  1. Þekkingu á réttindum barna.
  2. Því sem barni er fyrir bestu.
  3. Jafnræði - að horft sé til réttinda allra barna
  4. Þátttöku barna
  5. Barnvænni nálgun

 

Smelltu hér til að skoða aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar 2019 - 2021.

Smelltu hér til að skoða lokaskýrslu Akureyrarbæjar 2020

Kynningarmyndband UNICEF um verkefnið barnvænt sveitarfélag á Akureyri:

 

Barnvæn sveitarfélög eiga markvisst samráð við börn og ungmenni og nýta raddir þeirra til að bæta þjónustu sveitarfélagsins. Nánar um ungmennaráð

Innleiðingarferli Barnasáttmálans á sér stað í átta þrepum. Hér að neðan sérðu með bláum lit hvaða þrepum er lokið.

1. ÞREP 

Í október 2016 gerðu Akureyrarbær og UNICEF með sér samstarfsyfirlýsingu um að Akureyri yrði fyrsta barnvæna sveitarfélagið á Íslandi

2. ÞREP

Þann 1. desember 2017 var Stórþing barna haldið þar sem rætt var við ungmenni á grunn- og framhaldsskólaaldri um upplifun þeirra á lífinu á Akureyri. Verkefni voru lögð fyrir innan leikskóla Akureyrar þar sem börn veltu fyrir sér réttindum sínum og rætt var við rýnihópa barna um þau aðalatriði sem fram komu á stórþinginu ásamt því að ræða við hópa barna sem ekki áttu fulltrúa á þinginu.

3. ÞREP

Unnið er jafnt og þétt að því að fræða kjörna fulltrúa og starfsfólk bæjarins um barnvæn sveitarfélög og Barnasáttmálann með það fyrir augum að staðfesta innleiðingu aðgerðaráætlunar. 

4. ÞREP

Þann 22. janúar 2019 samþykkti bæjarstjórn aðgerðaráætlun vegna innleiðingar á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Markvisst er unnið að því að allt starfsfólk fái fræðslu um innleiðingu Barnasáttmálans og það hvernig við notum hann sem gæðastjórnunartæki í öllum okkar ákvörðunum.

5. ÞREP

Unnið var markvisst að innleiðingu og framkvæmd aðgerðaráætlunar Akureyrarbæjar. Verkefnastjóri Barnvæns sveitarfélags tók til starfa og hlutverk ungmennaráðs var formgert og það fullskipað.

6. ÞREP

Þann 12. mars 2020 var staða innleiðingar Barnasáttmálans kynnt í bæjarráði og lokaskýrsla þar um. Skýrslan var send til UNICEF.

7. ÞREP

Í maí 2020 gerði UNICEF úttekt á vegferð Akureyrarbæjar sem Barnvænt sveitarfélag. Úttektin gekk mjög vel! Þann 27. maí fékk Akureyrarbær formlega viðurkenningu sem fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhentu Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrarbæjar, viðurkenninguna sem sagði:

„Akureyrarbær hefur einsett sér að vera í fararbroddi þegar kemur að réttindum og lífsgæðum barna og þess vegna erum við afar stolt af þessari viðurkenningu. Mig langar á þessum tímamótum að þakka okkar frábæra starfsfólki sem hefur unnið að verkefninu af miklum krafti á öllum stigum sveitarfélagsins og ungmennum sem hafa tekið þátt í vinnunni með okkur. Viðurkenningin gefur okkur aukinn kraft til að halda áfram og gera enn betur í því að búa börnum og ungmennum gott samfélag þar sem réttindi þeirra og rödd er virt. Þessu verkefni lýkur aldrei þótt fyrsti áfangi sé í höfn."

Hildur Lilja Jónsdóttir fulltrúi ungmennaráðs stýrði athöfninni og sagði meðal annars:

„Ungmennaráð er sérstaklega stolt af aukinni þátttöku barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Það er frábært að stjórnsýsla bæjarins sé farin að sjá og viðurkenna þau verðmæti sem felast í röddum barna. Þessi viðurkenning mun hafa áhrif á komandi kynslóðir og er bara byrjunin."

 

8. ÞREP

Síðast uppfært 06. janúar 2023