Skólaval

Samkvæmt skólastefnu og fjölskyldustefnu Akureyrarbæjar stendur foreldrum til boða að velja í hvaða skóla börn þeirra fara. Á þessari síðu er að finna stutt ágrip um starfsemi leik og grunnskóla í bænum sem foreldrar eru hvattir til að kynna sér áður en þeir leggja inn umsóknir um skóla fyrir börn sín.

Leikskólar bæjarins eru ekki hverfaskiptir og er helsta ástæða sú að leikskólarnir byggja á mismunandi uppeldisstefnum og því talið nauðsynlegt að foreldrar velji þá skólastefnu sem þeim finnst henta best sínum uppeldisaðferðum. Hér má finna bækling um skólaval leikskóla

Grunnskólarnir eru ekki hverfaskiptir nema að því leyti að hvert barn á rétt til skólagöngu í sínum hverfisskóla og er þá miðað við gömlu skólahverfin. Nemendur til heimilis í Innbæ og Teigahverfi geta litið á Naustaskóla sem sinn hverfisskóla. Hér má sjá kort yfir skólasvæði Akureyrar

Grunnskólarnir bjóða upp á  „opið hús“ í febrúarmánuði sem foreldrar eru hvattir til að nýta sér. Rétt er að taka fram að hvert barn á rétt til skólagöngu í sínum hverfisskóla og er þá miðað við gömlu skólahverfin. Nemendur til heimilis í Innbæ og Teigahverfi geta litið á Naustaskóla sem sinn hverfisskóla.

Opið hús í grunnskólum Akureyrar  2020  verður 12. og 13. febrúar, frá kl. 09:00 - 11:00. Skólunum er skipt niður á þessa tvo daga eins og hér segir:

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020, kl. 09:00 - 11:00
Giljaskóli
Naustaskóli
Oddeyrarskóli

Fimmtudaginn 13. febrúar 2020 kl. 09:00 - 11:00
Brekkuskóli
Glerárskóli
Lundarskóli
Síðuskóli


Skila þarf inn umsókn á heimasíðu Akureyrarbæjar, https://akg.esja.com/form/index.php

Viðmiðunarreglur við innritun
Skólar á Akureyri leggja sig fram um að mæta óskum foreldra og barna og taka á móti þeim börnum sem óskað er eftir skólavist fyrir. Komi til þess að eftirspurn eftir námi í tilteknum skólum verði meiri en skólinn getur annað þarf að gæta jafnræðis og sanngirni gagnvart nemendum þegar tekin er afstaða til inngöngu þeirra í skólann. Eftirfarandi þættir vega þyngst þegar innganga barna í skóla á Akureyri er metin:

  • lögheimili á Akureyri
  • nálægð heimilis við skóla
  • systkini stunda nám í skólanum 
  • skólinn hefur betri forsendur en aðrir til að sinna sérþörfum viðkomandi nemanda
  • aðrar persónulegar ástæður eða aðstæður fjölskyldu. 

Skólastjórnendur í grunnskólum Akureyrarbæjar geta heimilað nemanda með lögheimili í öðru sveitarfélagi en Akureyri skólavist í viðkomandi skóla enda sé nægjanlegt húsrými til staðar, ákvörðunin leiði ekki til viðbótarkostnaðar fyrir Akureyrarbæ og að fyrir liggi samningur við hlutaðeigandi sveitarfélag um greiðslu námskostnaðar. Að öllu jöfnu ganga þeir nemendur fyrir sem eru innritaðir á auglýstum tíma.

Inntaka nemenda

  • Grunnréttur nemanda til skólagöngu miðast við mörk skólahverfa eins og þau hafa verið.
  • Heildarfjöldi nemenda er viðmið um fjölda í hverjum skóla, ekki fjöldi í árgangi eða bekk.
  • Nota skal rafrænt umsóknareyðublað og verður móttaka umsóknar að vera staðfest.
  • Nemendum stendur ekki til boða skólaakstur ef þeir velja skóla fjarri heimili sínu.


Skammtímavistun

Í Skammtímavistun er lengd viðvera fyrir mikið fötluð börn á aldrinum 10-16 ára. Gert er ráð fyrir því að allt að 12 fötluð börn geti nýtt sér þjónustuna sem þar er í boði. Þar gildir sama gjaldskrá og í frístund. Markmið þjónustunnar er að veita börnunum öruggt umhverfi að skóladegi loknum þar sem hlúð er að grunnþörfum þeirra með virkri þátttöku barnanna. Skammtímavistun er staðsett í Þórunnarstræti 99.

Skólamáltíðir

Við alla grunnskólana eru starfrækt skólamötuneyti, þar sem nemendum er boðið upp á heita máltíð í hádegi. Á Akureyri er samræmdur matseðill fyrir alla leik- og grunnskóla. Upplýsingar um gjaldskrá er að finna hér og upplýsingar um sameiginlegan matseðil má finna hér. 

PMTO - styðjandi foreldrafærni og SMT - skólafærni á Akureyri

PMTO – foreldrafærni, stendur fyrir "Parent Management Training Oregon aðferð". PMTO er þjónusta við börn, foreldra og skóla sem hefur það meginmarkmið að fyrirbyggja alvarlega hegðunarerfiðleika og taka markvisst á hegðun barna með aðferðum PMTO. Sjá nánar hér.

SMT- skólafærni, (útfærsla á bandarísku aðferðinni positive Behevior Support/ PBS) byggir á hugmyndafræði PMTO. SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því m.a. að kenna og þjálfa félagsfærni, hvetja æskilega hegðun og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Sjá nánar hér.

Að þessu verkefni koma fræðslusvið og fjölskyldusvið. Verkefnisstjóri er Guðbjörg Ingimundardóttir, félagsráðgjafi og meðferðaraðili PMTO, er hún staðsett á fræðslusviði.

Verkefnið hefur fengið styrk úr forvarnarsjóði. Einnig styrkti Akureyrardeild Rauða-Krossins útgáfu á foreldramöppum á námskeiðum fyrir foreldra.

Verkefnisstjóri PMTO og SMT á Akureyri er Guðbjörg Ingimundardóttir gudbjorging@akmennt.is sími 460 1417

 

Umsókn um grunnskóla

 Síðast uppfært 08. september 2020