Spurt og svarað

Vinnutími

Hvað er ég að vinna lengi í sumar?

Starfstímabil 14 ára er frá 11. júní - 16. ágúst og þið megið vinna 105 klst. í sumar

Starfstímabil 15 ára er frá 11. júní - 16. ágúst og þið megið vinna 120 klst. í sumar.

Starfstímabil 16 ára er frá 11. júní - 16. ágúst og þið megið vinna 140 klst. í sumar

Starfstímabil 17 ára er frá 01. júní - 20. ágúst og þið megið vinna 175 klst. í sumar

Þarf ég að vinna allan daginn?

Nei, vinnuvikan er frá mánudegi til föstudags, vinnutími 14 ára unglinga er frá 12:15 - 15:45 og vinnutími 15 ára unglinga er frá 8:00 - 11:30. Vinnutíminn er 3,5 klst. og inni í því er 15 mínútna kaffitími sem tekin er á milli 9:45 og 10:00 fyrir hádegi en 14:00 og 14:15 eftir hádegi. Vinnutími 16 ára er 6 klst. fimm daga vikunnar og 17 ára unglinga er 7 klst., fimm daga vikunnar, en það getur verið breytilegt hvenær dags þau byrja.

Get ég tekið frí á starfstímabilinu og unnið það upp?

Já, og hafa til 16. ágúst til að klára tímana sína.

Launamál

Hvenær fæ ég útborgað?

Laun eru greidd fyrsta virka dag hvers mánaðar. Launatímabilið er 11. - 10. hvers mánaðar en það þýðir að fyrstu laun nemenda eru greidd 1. júlí en þá er greitt fyrir vinnu 11. maí - 10. júní. 1. ágúst er greitt fyrir 11.júní - 10. júlí. 1. september er síðan greitt fyrir 11.júlí - 10. ágúst.

Hvað er persónuafsláttur og hvað á ég að gera til að virkja hann?

Allir launþegar á Íslandi sem eiga hér fast heimili og hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á svokölluðum persónuafslætti. Allar upplýsingar um hann er inn á www.skattur.is. Ef upplýsingarnar hafa ekki borist til launadeildar þá þarf launþegi að borga fullan skatt af launum sínum. ATH. það er á ábyrgð ykkar að koma þessum upplýsingum til launadeildar. 

Unglingar sem verða 16 ára á árinu þurfa að skila upplýsingum um nýtingu persónuafsláttar svo ekki verði dregin staðgreiðsla af launum. Upplýsingarnar er að finna á skattur.is. Farið er inn á þjónustugátt Akureyrarbæjar til þess að skrá upplýsingarnar: https://thjonustugatt.akureyri.is

Rétt er að benda á mikilvægi þessa að upplýsingunum sé skilað tímanlega þ.e. í síðasta lagi viku fyrir útborgun svo ekki komi til frádráttar vegna staðgreiðslu.

Hvert fara launin mín?

Launin eru lögð inn á bankareikning nemenda og þurfa því allar bankaupplýsingar að fylgja umsókn. 

Hópar, staðsetning og mæting

Hvert á ég að mæta?

14 og 15 ára unglingarnir mæta á sína starfsstöð sem þau völdu þegar sótt var um vinnuskólann þriðjudaginn 11. júní, nema þau hafi fengið tölvupóst um annað. 16 og 17 ára eiga að mæta á sína starfsstaði sem þeim hafa verið úthlutað.

Get ég skipt um hóp?

Skiptingar á milli hópa eru aðeins mögulegar með samstarfi við foreldra ef góðar ástæður liggja fyrir. Allir hafa þó gott af því að læra að vinna með ólíku fólki og er Vinnuskólinn oft gott tækifæri fyrir ólíka aðila til að kynnast. 

Ég er með ofnæmi og get ekki unnið í garðyrkju. Get ég líka farið í Vinnuskólann?

Já, ef þú ert með ofnæmi sem gerir þér erfitt fyrir að vinna í garðyrkju og ofnæmislyf virka ekki þá reynum við að láta þig fá innivinnu. Til að eiga möguleika á að komast í slíkan hóp þá er mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram í umsókninni og nauðsynlegt er að skila læknisvottorði.

Hvað á ég að gera ef ég er veik(ur)? Fæ ég borgað fyrir daginn?

Veikindi þurfa foreldrar að tilkynna til flokkstjóra strax um morguninn í gegnum síma. Textaskilaboð (sms) eru ekki tekin gild. Veikindadagar eru ekki greiddir.

16 ára unglingar hafa samt veikindarétt, tveir veikindadagar á hverjum mánuði frá byrjun vinnu. Á fyrsta mánuði hafa þeir tvo veikindadaga en á öðrum mánuði fjóra, ef þeir hafa ekki verið veikir í fyrsta mánuðinum. Ónotaðir veikindadagar eru ekki greiddir út við lok vinnu.

Hvað gerist ef ég mæti seint?

Flokkstjórar skrá hjá sér mætingar nemenda og er það alltaf skráð ef nemandi mætir seint til vinnu. Ef viðkomandi kemur alltaf of seint þá dregst það frá vinnutíma dagsins.

Aðstaða og starfsumhverfi

Fáum við vinnufatnað?

Nei, enginn vinnufatnaður verður í boði fyrir utan öryggisklæðnað þar sem við á, t.d. ef nemendur þurfa að slá gras fá þeir viðeigandi öryggisfatnað. Mikilvægt er að nemendur klæði sig eftir veðri og hafi með sér góða garðyrkjuhanska. 

Starfsreglur og annað

Má ég reykja í vinnunni?

Nei, Vinnuskóli Akureyrar er alveg reyklaus vinnustaður. Rafrettur eru einnig bannaðar. Tekið er alvarlega á því ef reglur um reykingar eru brotnar.;

Má ég hlusta á tónlist (t.d. iPod) á meðan ég er að vinna?

Nei, og notkun síma er einnig bönnuð.

Mér líður ekki vel í Vinnuskólanum, hvað get ég gert?

Mjög mikilvægt er að láta flokkstjóra vita og við munum reyna að gera okkar besta til að öllum líði vel í Vinnuskólanum.

Ef einhverjum spurningum er enn ósvarað, sendið þá póst á vinnuskoli@akureyri.is eða orri@akureyri.is

Síðast uppfært 17. apríl 2024