Kynningarfundur
Miðvikudaginn 10. apríl verður haldinn sérstakur kynningarfundur um Blöndulínu 3. Fundurinn fer fram í Giljaskóla (gengið inn að austanverðu) og hefst kl. 16.30. Á fundinum munu skipulagshönnuðir kynna fyrirhugaða skipulagsvinnu og í kjölfarið verður boðið upp á þátttöku í umræðuhópum.
Áhugasamir eru hvattir til að mæta.
Kynningu Akureyrarbæjar frá fundinum má nálgast hér og kynningu Landsnets hér
Aðalskipulagsbreyting vegna Blöndulínu 3
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur samþykkt að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Blöndulínu 3 til samræmis við niðurstöðu umhverfismats framkvæmdarinnar. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu er kynning á skipulagslýsingu í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem fram kemur hvaða áherslur bæjarstjórn hefur við skipulagsvinnuna, upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu, fyrirhugað skipulagsferli og hvernig kynningu og samráði verði háttað.
Breytingin kemur til vegna þess að Landsnet óskar eftir því að gerð verði breyting á aðalskipulagi Akureyrar vegna Blöndulínu 3 en um er að ræða svæði ofan byggðar frá Rangárvöllum að sveitarfélagsmörkum við Hörgársveit. Breytingin er til komin vegna áforma Landsnets um framkvæmd við Blöndulínu 3, 220 kV háspennulínu frá Blöndustöð að Rangárvöllum á Akureyri.
Breyting á aðalskipulagi mun felast í eftirfarandi:
• Fellt er út iðnaðarsvæði I16 fyrir tengivirki raforku í landi Kífsár.
• Breytt er legu helgunarsvæðis loftlínu frá sveitarfélagsmörkum við Hörgársveit að iðnaðarsvæði við Kífsá. Eftir breytingu mun helgunarsvæðið liggja frá sveitafélagsmörkum til suðurs að helgunarsvæði loftlínanna Rangárvallalínu 1 og Dalvíkurlínu 1. 3 Ekki er að sinni tekin afstaða til þess hvort loftlína eða jarðstrengur verði innan helgunarsvæðisins.
• Vegna breytingar á staðsetningu helgunarsvæðis verður breyting á mörkum skógræktar- og landgræðslusvæði SL7 (Græna treflinum). Þá verður það svæði sem nú er skilgreint sem iðnaðarsvæði I16 skilgreint sem skógræktar- og landgræðslusvæði SL7.
• Þá er sú breyting gerð að loftlínurnar Rangárvallalína 1 og Dalvíkurlína 1 fá þá skilgreiningu að þær muni víkja á skipulagstímabilinu (2018-2030).
Skipulagslýsinguna má nálgast hér
Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér skipulagslýsinguna og senda inn ábendingar, annað hvort með tölvupósti á skipulag@akureyri.is, bréfleiðis til þjónustu- og skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9 eða í gegnum Skipulagsgátt.