Loftslagsmál

Kolefnishlutlaus Akureyri

kolefnishlutlausAKMeð Parísarsamkomulaginu sem samþykkt var í desember 2015, skuldbundu ríki heims sig til að draga úr losun og setja fram mælanlegar aðgerðir með það að marki að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er. Eins og staðan er í dag er hins vegar talið að hitastig á jörðinni muni hækka um 3-5°C nema gripið sé til tafarlausra aðgerða. Þetta hnattræna vandamál sem við stöndum fram fyrir krefst markvissara og staðbundinna aðgerða og því hafa sveitarfélög veigamiklu hlutverki að gegna.

Akureyrarbær hefur undanfarin ár markvisst unnið að markmiði um kolefnishlutleysi, til dæmis varðandi losun frá öllu sveitarfélaginu sem og rekstri Akureyrarbæjar. Sjá nánar í Umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar 2022–2030.

Global Covenent of Mayors

Akureyrarbær er eitt þriggja sveitarfélaga á Íslandi sem hafa gerst aðilar að Global Covenant of Mayors for Climate & Energy (GCoM), sem er sameiginleg yfirlýsing borgarstjóra um heim allan um vilja sinn til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, styrkja viðnámsþol gegn loftslagsbreytingum, birta tölulegar upplýsingar um frammistöðu í loftslagsmálum og setja markmið um enn betri frammistöðu. Með því að taka þátt í GCoM vilja sveitarfélög sýna fram á að staðbundnar aðgerðir geti haft marktæk áhrif á heimsvísu. Akureyrarbær hefur með aðild sinni að GCoM m.a. skuldbundið sig til að gera árlega grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda í sveitarfélaginu og eftir atvikum einnig í eigin starfsemi í gegnum alþjóðlega fyrirtækið CDP. Gögnum um losunarbókhald Akureyrarbæjar hefur verið skilað inn allt frá árinu 2017 og hefur ráðgjafarfyrirtækið Environice aðstoðað Akureyrarbæ við skilin undanfarin ár. Akureyrarbær mun halda áfram að skila inn losunarbókhaldi sínu ár hvert og þannig fylgjast með árangri sveitarfélagsins í loftslagsmálum.

Skýrsla um kolefnisfótspor Akureyrarbæjar 2018

Skýrsla um kolefnisfótspor Akureyrarbæjar 2019 

Skýrsla um kolefnisfótspor Akureyrarbæjar 2020

Skýrsla um kolefnisfótspor Akureyrarbæjar 2021

Skýrsla um kolefnisfótspor Akureyrarbæjar 2022

Grænar lausnir Akureyrarbæjar

Á síðustu árum hefur Akureyrarbær sýnt frumkvæði í umhverfismálum og innleitt mikið af grænum lausnum fyrir íbúa bæjarins. Árið 2009 tók jarðgerðarstöðin Molta til starfa í Eyjafirði. Til að ná settum markmiðum um að minnka magn úrgangs til urðunar á svæðinu var ákveðið að úthluta hverju heimili grænni tunnu undir lífrænan úrgang sem Molta tekur við og breytir í næringarríkan áburð. Árið 2011 hóf fyrirtækið Orkey framleiðslu á lífdísli úr notaðri matarolíu sem er safnað frá heimilum, veitingastöðum og fyrirtækjum víða um land. Frá árinu 2014 hefur metan eldsneyti verið framleitt úr gamla urðunarstaðnum á Akureyri. Allt eru þetta lausnir sem stuðla að hringrásarhagkerfi, þ.e. hráefnum og vörum er viðhaldið í lykkju í stað hins línulega ósjálfbæra hagkerfis "framleiðsla-notkun-förgun". Í hverfum bæjarins geta íbúar losað sig við flokkaðan úrgang á grenndarstöðvum og þannig komið endurvinnanlegu sorpi í réttan farveg. Frítt er í strætó, hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla er að finna víðsvegar um bæinn og bifreiðar sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum hafa forgang að bílastæðum bæjarins.