Spurt og svarað um nýja gjaldskrá leikskóla

Hér að neðan má sjá algengar spurningar og svör við þeim um komandi breytingar á gjaldskrá leikskóla

Get ég sótt barnið á hádegi á föstudegi og átt inni þá tíma gjaldfrjálsa?

Nei, það er ekki hægt, eingöngu er miðað við 8-14 gjaldfrjálst

Get ég haft sveigjanleika í samræmi við vaktaplan?

Já, í samráði við skólastjóra verður í boði að skrá skólatíma samkvæmt vaktaplani og þá er innheimt fyrir meðalfjölda klukkustunda umfram 8-14. Einnig er hægt að skrá mismunandi skólatíma eftir vikudögum, t.d. alltaf til 16 á mánudögum en 15 á þriðjudögum.

Get ég haft barnið frá 9-15 eða 10-16 gjaldfrjálst?

Nei, eingöngu tíminn frá 8-14 er gjaldfrjáls. Skólastarf hefst kl. 8 að morgni. Í skólastarfi felst daglegt skipulag sem felur í sér leik, máltíðir auk sérstakra stunda þar sem unnið er með afmarkaða þætti (hópastarf, gæðastundir, val, hreyfingu o.s.frv.).

Hvernig er með foreldra í fæðingarorlofi?

Tekjutenging gjaldskrár tekur mið af skattaframtali síðasta árs, en hægt er að sækja um endurskoðun á tekjutengingu ef aðstæður breytast, t.d. við tekjumissi, skilnað eða fæðingarorlof.

Munu skráningardagarnir halda áfram samhliða nýju gjaldskránni?

Já, skráningardagar verða samkvæmt skipulagi a.m.k. út þetta skólaár. Greitt er sérstaklega fyrir þá og er gjaldið 2696 kr. fyrir hvern skráningardag

Hvernig reiknast skráningardagarnir inn í gjaldið á mánuði?

Skráningu fyrir skráningardaga lýkur 20. dag mánaðarins á undan. Þannig greiðist gjaldið fyrir þá með reikningi fyrir þann mánuð sem skráningardagarnir eru í. Dæmi: Skráningu fyrir skráningardaga í desember lýkur 20. nóvember. Gjaldið fyrir skráningardaga í desember greiðist með desemberreikningi. Skólagjöld hvers mánaðar taka því mið af hversu mörgum skráningardögum óskað er eftir hvert sinn.

 Eru einhver sérkjör fyrir starfsmenn sveitarfélagsins sem eiga leikskólabörn?

Nei, starfsmenn Akureyrarbæjar fá ekki sérstakan afslátt af skólagjöldum.

 Verður eingöngu horft á laun foreldra en engar aðrar breytur svo sem húsnæðislán?

Já, eingöngu verður horft til tekna og fjölda barna við útreikning á afslætti af skólagjöldum

Ef þú ert með spurningu um gjaldskrá leikskóla sem er ekki svarað á þessari síðu endilega sendu okkur línu á akureyri@akureyri.is

Síðast uppfært 17. nóvember 2023