Fleiri spurningar um breytingarnar

Hér verður leitast við að svara þeim spurningum sem kunna að vakna í tengslum við breytingarnar. Síðan verður uppfærð með helstu spurningum sem berast frá íbúum. Hægt er að senda inn spurningar á netfangið flokkumfleira@akureyri.is.

Hvers vegna er farið í þessar breytingar?

Lengi hefur verið kallað eftir samræmdu flokkunarkerfi allra sveitarfélaga á landinu. Það hefur nú verið gert með lögum um hringrásarhagkerfi sem tóku gildi árið 2023 og nú er skylt að safna fjórum úrgangsflokkum við heimili í þéttbýli: Pappír, plastumbúðum, matarleifum og blönduðum úrgangi. Með lögunum er heimilum og fyrirtækjum skylt að flokka sinn úrgang og ekki er leyfilegt að urða úrgang sem flokkaður hefur verið til endurvinnslu eða endurnýtingar.

Hvað þýða þessar breytingar fyrir umhverfið?

Nýtt kerfi gerir okkur kleift að bæta flokkun og þannig auka líkur á að halda auðlindum innan hringrásarhagkerfisins. Því betur sem hver og einn flokkar úrganginn sinn, því meiri líkur eru á að hægt sé að endurnýta eða endurvinna hann.

Blandaður úrgangur sem safnað er við heimili eða á gámasvæði er urðaður og honum viljum við halda í lágmarki. Með innleiðingu flokkunar í fleiri flokka við heimili og bætta flokkun í grenndargáma og á safnsvæði getum við minnkað heildarmagn blandaðs úrgangs og þannig dregið úr urðun.

Hvað má fara í nýju ílátin?

Pappír og pappi

Allt pappirsefni, pappír, pappi og fernur fara hér saman í eitt ílát. Þar eru meðal annars pítsakassar, bréfpokar, dagblöð og umbúðir úr pappir og pappa.

Plastumbúðir

Hér er átt við plastumbúðir sem falla til á heimilum, líkt og umbúðir utan af matvælum og það sem kemur frá baðherbergjum (til dæmis sjampóbrúsar). Umbúðir þurfa að vera tómar og brúsar án vökva. Æskilegt er að skola umbúðir svo ekki komi ólykt við geymslu.

Matarleifar

Það sem við Akureyringar höfum í mörg ár safnað í grænu körfurnar okkar. Allar matarleifar fara hingað, m.a. eggjaskurn, kaffikorgur og bein. Það má meira að segja setja afskorin blóm en alls ekki garðaúrgang sem hægt er að fara með á gámasvæðið.

Blandaður úrgangur

Hér fer það sem ekki hentar í endurvinnslu eða moltugerð. Blandaður úrgangur er urðaður og því mikilvægt að flokka allt endurvinnsluefni í rétta flokka. Þar á meðal eru blautklútar, dömubindi, bleyjur, ryksugupokar og tannburstar.

Munu tunnurnar passa í tunnuskýlið mitt?

Mörg heimili hafa komið sér upp skýlum fyrir sín ílát. Mismunandi er eftir gerð skýlanna hvaða tunnur passa. Í sumum tilfellum getur verið að 360L tunnur séu of stórar fyrir skýlin og er íbúum þá bent á að hafa samband [flokkumfleira@akureyri.is] varðandi aðrar samsetningar á ílátum.

Stærðir á tunnum og kerjum:

Tegund Hæð Breidd Dýpt
140L tunna 1.065 mm 490 mm 560 mm
240L tunna 1.061 mm 580 mm 730 mm
360L tunna 1.105 mm 601 mm 877 mm
660L ker 1.165 mm 1.265 mm 775 mm

Hvað verður um grenndarstöðvarnar og gámasvæðið?

Grenndarstöðvarnar og gámasvæðið á Rangárvöllum verða áfram til taks með svipuðu fyrirkomulagi og áður. Þar er tekið á móti þeim úrgangi frá heimilum sem ekki er safnað við hús. Á grenndarstöðvunum verður tekið við málmumbúðum, glerumbúðum, pappír, pappa, fernum og plastumbúðum. Á gámasvæðinu verður áfram tekið á móti ýmsum úrgangi frá heimilum s.s. grófum úrgangi, garðaúrgangi og raftækjum.

Síðast uppfært 11. apríl 2024