Hvað eru leyfisskyldar byggingarframkvæmdir?
Allar húsbyggingar, viðbyggingar, bifreiðageymslur og skýli, breytingar á byggingum og burðarhlutum þeirra, innanhúss sem utan, s.s. breytingar á gluggum, klæðningu húsa að utan, sólstofur, svalaskýli, garðhús, heita potta, sundlaugar, uppsetning á gervihnattadiskum og gerð bifreiðastæða eru m.a. leyfisskyldar framkvæmdir. Meginreglan er því sú, að óheimilt er að hefja framkvæmdir nema sveitarstjórn hafi gefið út leyfi fyrir þeim. Sjá byggingarreglugerð 11. og 12. gr.
Hvað er aðalskipulag?
Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélagið þar sem fram kemur stefna bæjarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili. Aðalskipulag er hægt að nálgast hjá Skipulagsstjóra, Geislagötu 9, eða á heimasíðu Akureyrar.
Hvað er deiliskipulag?
Byggingarframkvæmdir eru bundnar í deiliskipulagi, ákveðin möguleg byggingaráform eru þar afmörkuð, þ.e. hvað má gera á ákveðnu svæði og byggir á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Það er kynnt almenningi með auglýsingu þar sem þeim er gefin kostur á að koma sínum athugasemdum á framfæri. Deiliskipulag er samþykkt af bæjaryfirvöldum og öðrum lögboðnum skipulagsyfirvöldum. Samþykkt deiliskipulög er hægt að nálgast hjá Skipulagsstjóra, Geislagötu 9, eða á heimasíðu Akureyrar, undir landupplýsingakerfi bæjarins á pdf formi.
Hvað tekur langan tíma að breyta deiliskipulagi?
Að breyta deiliskipulagi tekur minnst 3 mánuði, ef allt gengur að óskum. Deiliskipulagstillögu þarf að skila inn til Skipulagsstjóra. Hún er síðan tekin fyrir af Skipulagsnefnd og ef vilji er fyrir breytingunum innan nefndarinnar tekur hún ákvörðun um hvort deiliskipulagsbreytingin er auglýst eða send í grenndarkynningu og afgreiðir erindið til bæjarstjórnar til samþykktar eða synjunar að kynningu lokinni. Deiliskipulagið er sent til Skipulagsstofnunar til yfirferðar sem veitir heimild til að birta auglýsingu um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda.
Hvað er grenndarkynning?
Grenndarkynning felst í því að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, er kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum tekur skipulagsráð málið til afgreiðslu. Skipulagsráð tekur ákvörðun um hvort erindi/mál eru send í grenndarkynningu þegar um er að ræða minniháttar breytingar á deiliskipulagi eða þegar um er að ræða viðbyggingar þar sem deiliskipulag er ekki til.
Breytingar á gluggum og klæðning húsa
- Ef um útlitsbreytingu er að ræða þarf að fá löggiltan hönnuð til að teikna upp breytt útlit hússins.
- Sækja þarf um leyfi til Skipulagsstjóra, Geislagötu 9, sjá umsóknareyðublað.
- Bent skal á að oft er gott að leggja inn fyrirspurn hjá Skipulagsstjóra um hvort leyfi fáist fyrir breytingum á húsinu áður en farið er út í kostnað við hönnun, sjá umsóknareyðublað.
- Einnig þarf byggingarstjóri að undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína á breytingunni, sjá umsóknarblað, og húsasmíðameistari þarf að skila inn ábyrgð sinni á breytingunum, sjá meistarablað.
- Ekkert gjald þarf að greiða til Skipulagsstjóra fyrir leyfið, ef erindið fer einu sinni fyrir afgreiðslufund hjá Skipulagsstjóra, umfram það þarf að greiða fyrir hverja yfirferð skv. gjaldskrá (endurskoðun aðaluppdrátta), sjá gjaldskrá.
Bílskúr, sólstofa, gróðurhús og aðrar viðbyggingar
- Á deiliskipulagi sést hvort byggja megi bílskúr eða aðrar viðbyggingar. Byggingar þurfa að vera innan byggingarreits. Deiliskipulag er hægt að nálgast á skrifstofu Skipulagsstjóra eða á heimasíðu Akureyrar.
- Ekki er til deiliskipulag af öllum eldri hverfum Akureyrar. Ef skipulag er ekki til staðar metur skipulagsráð umsóknina og ef hún telur erindið koma til greina sendir ráðið það í grenndarkynningu.
- Bent skal á að oft er gott að leggja inn fyrirspurn hjá Skipulagsstjóra, um hvort leyfi fáist fyrir hugsanlegum bílskúr eða viðbyggingu, áður en farið er út í kostnað við hönnun, sjá umsóknareyðublað.
- Sækja þarf um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar
- Einnig þarf byggingarstjóri að undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína á byggingunni, sjá umsóknarblað, og meistarar þurfa að skila inn ábyrgðaryfirlýsingu sinni á byggingunni, sjá meistarablað.
- Greiða þarf gatnagerðargjald af bílskúrs og öðrum viðbyggingum, eftir stærð, skv. gjaldskrá og gjaldflokki viðkomandi húsgerðar og byggingargjald skv. gjaldflokki 11 eða 12 (eftir stærð viðbygginga). Sjá gjaldskrá.
- Leita skal til löggiltra hönnuða til að láta hanna og teikna fyrirhugaða byggingu.
Gervihnattadiskur
Sækja þarf um leyfi fyrir uppsetningunni til Skipulagsstjóra, Geislagötu 9, sjá umsóknareyðublað.
Með umsókninni þarf að vera ljósrit af aðalteikningu íbúðarhúss, útliti, þar sem rissuð er inn á fyrirhuguð staðsetning á disknum. Einnig þarf að fylgja samþykki meðeigenda í húsinu ef um fjölbýli er að ræða.
Ekkert gjald þarf að greiða til Skipulagsstjóra fyrir leyfið.
Djúpgámar
Djúpgámar leysa af hólmi sorptunnur eða sorpgáma. Djúpgámi er komið fyrir í steyptum ramma sem er grafinn
niður. Efri hluti djúpgáms líkist hefðbundinni ruslatunnu sem komið er fyrir á götu eða gangstétt, en undir
yfirborðinu er stórt rými sem tekur við úrganginum. Ekki skal blanda saman mismunandi úrgangslausnum innan
sömu lóðar, þ.e.a.s. djúpgámum og tunnum/gámum.
Smellið á hlekkinn til að sækja leiðbeiningar fyrir húseigendur, byggingaraðila og hönnuði.
Leiðbeiningarnar svara spurningum framkvæmdaaðila sem og ráðgjafa og verktaka frá hugmyndastigi
þar til hægt er að byrja að nota djúpgáminn.
Teikningar
Hjá skipulagsdeild, Geislagötu 9, eru allar teikningar, sem skilað hefur verið inn af húsum varðveittar og allir lóðasamningar fyrir leigulóðir. Hægt er að fá ljósrit af teikningum eða nálgast teikningar á pdf eða tiff formi í landupplýsingakerfi bæjarins á heimasíðu Akureyrar. Ljósrit af lóðasamningi fæst á Skipulagssviði.
Hvað er landupplýsingakerfi Akureyrar?
Það er korta- og þjónustuvefur þar sem m.a. er hægt að nálgast teikningar af húsum, skipulög, sjá loftmyndir og ýmsa þjónustu í bænum. Þar er hægt að mæla vegalengdir og prenta út kort sem gott er að nota þegar sótt er um ýmiskonar framkvæmdaleyfi til bæjarins. Landupplýsingakerfið er tengt Fasteignaskrá Íslands og þjóðskrá og þar er hægt að nálgast opinberar upplýsingar fyrir einstaka hús eða stærri svæði. Landupplýsingakerfið er öllum aðgengilegt.
Fyrirspurnir má senda á netfangið: skipulag@akureyri.is