Ýmsar upplýsingar um daggæslu í heimahúsum

 Spurningar og svör - smellið hér

Daggæsla barna í heimahúsum / verktakaþjónusta undir eftirliti
Dagforeldrar eru sjálfstæðir verktakar, en fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar hefur umsjón og eftirlit með starfsemi þeirra ásamt því að sjá um ráðgjöf og upplýsingar til dagforeldra og foreldra. Til að fá starfsleyfi til daggæslu í heimahúsum þarf að uppfylla skilyrði sbr. reglugerð um daggæslu í heimahúsi nr. 907/2005

Þjónustustig dagforeldra
Daggæsla í heimahúsi á að vera góð og uppbyggileg fyrir barnið og vera rekin af fagmennsku og umhyggju fyrir börnum. Foreldrar ættu að hafa þetta í huga þegar þeir velja dagforeldri fyrir barnið sitt. Þeir verða að hafa að leiðarljósi að þeir eru að kaupa þjónustu af dagforeldrum og ættu því að gera kröfur um gæði.

Að velja dagforeldri
Foreldrar hringja í dagforeldra og kanna möguleika á plássi.
Mikilvægt er að hafa samband við dagforeldra með góðum fyrirvara þar sem margir dagforeldrar eru með biðlista eftir plássum hjá sér.
Hafið samband við fleiri en eitt dagforeldri.
Fáið ákveðinn heimsóknartíma í samráði við dagforeldra.
Gefið ykkur góðan tíma til að kanna aðstæður og verið óhrædd við að spyrja.
Þegar verið er að velja dagforeldra er ráðlagt að foreldri kynni sér vel þá þjónustu sem í boði er og kanni allar aðstæður á heimilinu sem nýttar eru til starfsins, t.d. leikaðstöðu bæði úti og inni, hvíldaraðstöðu og leikfangakost.

Eftirfarandi spurningar gæti verið gott að hafa í huga.

  • Hvar er börnunum ætlað leikrými, hvíldarrými?
  • Hvernig er útivistaraðstaðan?
  • Hentar húsnæðið ykkar kröfum hvað varðar hlýleika og snyrtimennsku?
  • Er leikfangakosturinn hæfilegur og hentugur?
  • Eru góðar aðstæður til að geyma fatnað, töskur og annað sem fylgir börnunum.


Hvernig geta foreldrar vitað hvort dagforeldri sé með gilt leyfi?
Allir dagforeldrar sem eru með daggæsluleyfi frá sveitarfélaginu hafa leyfisbréf. Ef leyfisbréfið er ekki sýnilegt skaltu biðja um að fá að sjá það. Á leyfisbréfinu kemur fram gildistími leyfis ásamt upplýsingum um fjölda barna sem leyfið gildir fyrir.

Hvernig er niðurgreiðslum háttað?
Akureyrarbær býður foreldrum og dagforeldrum upp á þríhliða þjónustusamning. Greitt er niður allt að 8 tíma á dag. Til að fá niðurgreiddan daggæslukostnað þurfa foreldrar að hafa lögheimili á Akureyri og undirrita þjónustusamning við dagforeldra og Akureyrarbæ. Dagforeldrar fá að fullu greitt fyrir allt að 10 veikindadaga á ári að loknum reynslutíma sem er eitt ár. Á mánaðarlegu yfirlitsblaði sem foreldrar kvitta á hjá dagforeldri er því mikilvægt að allar upplýsingar um fjarveru dagforeldra séu réttar. Mikilvægt er að foreldar kynni sér reglur og fyrirkomulag varðandi þessa þætti. 

Mikilvægi góðrar aðlögunar
Aðlögun barns hjá dagforeldri getur skipt sköpum. Barnið er að fara úr aðstæðum sem það þekkir og er öruggt í, frá foreldrum sínum yfir í daggæslu þar sem þau þurfa, jafnvel í fyrsta sinn, að deila athyglinni með allt að fjórum öðrum börnum. Það er því mjög eðlilegt að börnin bregðist misjafnlega við. Sum eru ósátt til að byrja með og mótmæla látlaust meðan önnur una glöð við sitt. Foreldrar þurfa að horfa í þarfir barnsins vegna þess að barnið þarf að geta treyst dagforeldrinu áður en það sleppir hendi af foreldrunum.

Samskipti við dagforeldra
Til að gæslan gangi vel og allir séu sáttir þurfa samskiptin að vera góð. Ef foreldrar eru ekki sáttir við eitthvað í daggæslunni þá þurfa þeir að ræða það við dagforeldrið án tafar. Hafa skal í huga að mörg mál eru mun smærri þegar þau eru rædd. Ef foreldrum og dagforeldrum tekst ekki að leysa úr málum er hægt að hafa samband við fræðslu- og lýðheilsusvið. 

Barnafjöldi
Leyfilegur barnafjöldi hjá dagforeldri er allt að fjórum börn samtímis fyrsta árið. Að því loknu er heimilt að veita leyfi fyrir einu barni til viðbótar. Þó þannig að eigi skulu vera á heimilinu fleiri en tvö börn undir eins árs aldri að jafnaði. 

Innra eftirlit:
Daglegt eftirlit er í höndum foreldra/forráðamanna. Dagforeldri ber að sjá til þess að allur aðbúnaður sé í samræmi við lög og reglugerðir en verði foreldrar/forráðamenn varir við að umönnun og aðbúnaði barnsins sé ábótavant er þeim skylt að tilkynna það umsjónaraðila/fræðslu- og lýðheilsusviði sbr. reglugerð um daggæslu barna í heimahúsi nr. 907/2005.

Ytra eftirlit
Sérstakur eftirlitsaðili fer þrisvar sinnum á ári í óboðaðar heimsóknir á heimili dagforeldris og kannar aðstæður hverju sinni. Eftirlitsaðili kannar ástand öryggismála hjá dagforeldri, kannar fjölda barna í gæslu og að dagforeldrar séu með gildar slysatryggingar fyrir börnin sem eru í gæslunni. Í hverjum mánuði skila dagforeldrar yfirliti yfir þau börn sem eru í umsjá þeirra, með staðfestingu foreldra. Með undirskrift sinni eru foreldrar að staðfesta umsaminn dvalartíma og eða forföll dagforeldra í mánuðinum. Mánaðarleg skil þessa lista ásamt þríhliða þjónustusamningi eða samþykktri niðurgreiðslubeiðni er forsenda þess að niðurgreiðsla sé veitt.

Upplýsingar frá foreldrum
Rafræn viðhorfskönnun er send út til foreldra einu sinni ári í þeim tilgangi að afla með formlegum hætti upplýsinga um viðhorf þeirra til daggæslu í heimahúsi. Mikilvægt er að foreldrar svari könnuninni svo hægt sé að vinna með niðurstöður til að bæta þjónustuna.

Ráðgjöf í daggæslu
Ráðgjöf í daggæslunni felst annars vegar í fræðslu og ráðgjöf til dagforeldra og hins vegar í leiðbeiningum og upplýsingum til foreldra. Ráðgjöf og stuðningur til dagforeldra er í formi samtala, heimsókna og fræðslu. Heimsóknir til dagforeldra eru a.m.k. tvisvar á ári. Einnig hafa dagforeldrar aðgang að starfsfólki fræðslu- og lýðheilsusviðs með viðtölum og símtölum. Foreldrar/forráðamenn hafa jafnframt aðgang að starfsfólki fræðslu- og lýðheilsusviðs með viðtölum og símtölum ásamt því sem félag dagforeldra, og/eða einstakir dagforeldrar og foreldrar/forráðamenn, hafa fundað með fulltrúa frá fræðslu- og lýðheilsusviði og fengið kynningu á umsjónar- og eftirlitshlutverki bæjarins.

 Hér fyrir neðan er að finna svör við nokkrum algengum spurningum sem fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar hefur borist undanfarin ár.

Hver er réttur hvers?

Áður en gæsla hefst er mikilvægt að foreldrar og dagforeldrar fari yfir hver sé ábyrgð hvors aðila um sig meðan á dvöl barnsins í gæslunni stendur.

Hvað á ég að borga fyrir daggæsluna?

Dagforeldri er sjálfstæður atvinnurekandi og hefur tiltæka gjaldskrá fyrir vinnu sína. Þjónustusamningur milli Akureyrarbæjar og dagforeldra tekur m.a. til þess að sett er þak á gjöld til dagforeldra fyrir allt að 8 tíma dvöl. Dagforeldrar hafa rétt á að vera með frjálsa gjaldskrá fyrir tímann sem fer fram yfir 8 stundir daglega, fyrir yfirvinnu, eftirvinnu og vanefndir.

Hvenær á ég að borga?

Greiðsla fyrir daggæslu er innheimt fyrirfram. Afsláttur vegna frídaga (eftir að frítökurétti félaga dagforeldra líkur) er reiknuð eftir á.

Eiga dagforeldrar rétt á veikindadögum eða frídögum?

Samningur milli dagforeldra og foreldra sem Félög dagforeldra hafa samið, gerir ráð fyrir veikindadögum og starfsdögum á launum.  Foreldrum er bent á að kynna sér vel samninga þessa þar sem þeir kveða á um ýmis réttindi og skyldur dagforeldra.

Af hverju þarf ég að kvitta á niðurgreiðslueyðublöðin í hverjum mánuði?

Samkvæmt reglugerð um daggæslu í heimahúsi ber dagforeldrum að skila undirrituðum lista með upplýsingum um börn í gæslu, um hver mánaðamót. Þetta er jafnframt liður í eftirlitshlutverki sveitarfélagsins. Akureyrarbær og dagforeldrar hafa ekki samið um veikindarétt eða frí á launum, svo dagforeldrum ber að skrá öll forföll á niðurgreiðslulistann. Með undirskrift sinni eru foreldrar að staðfesta að allar upplýsingar á listanum séu réttar.

Hvenær hefst niðurgreiðslan?

Niðurgreiðsla til einstæðra foreldra getur hafist þegar börn þeirra ná 6 mánaða aldri en niðurgreiðsla til giftra foreldra og foreldra í sambúð getur hafist þegar börn þeirra ná 10 mánaða aldri.

Af hverju geta börnin ekki verið inni eftir veikindi?

Samkvæmt ráðleggingum frá heimilislæknum eiga börn að dvelja heima hjá sér í 1 – 3 daga eftir veikindi, allt eftir eðli veikindanna. Dagforeldri þarf að geta sinnt útivistarþörf annarra barna sem eru í daggæslunni og því er ekki hægt að sinna ef börn eru inni eftir veikindi.

Hvenær á dagforeldri að tilkynna forföll eða veikindi?

Í reglugerð um daggæslu í heimahúsum segir að geti dagforeldri af einhverjum ástæðum ekki unnið að daggæslunni skal það tilkynnt foreldrum þegar í stað. Foreldrar bera ábyrgð á barni þann tíma sem dagforeldri getur ekki sinnt starfi sínu. Á sama hátt segir að foreldrum skuli tilkynna dagforeldri um tilfallandi veikindi barns og að óheimilt sé að koma með veikt barn í gæslu.

Af hverju þarf ég að koma með barnið á tilteknum tíma?

Dagforeldrar starfa eftir skipulagi sem felur í sér að þeir reyna að gera svipaða hluti á svipuðum tíma dagsins. Þetta er gert til að barnið læri að þekkja hefðbundnar athafnir í daggæslunni og öðlist þar með öryggi í gæslunni. Því er mikilvægt að foreldrar virði skipulag starfsins til að dagforeldri geti sinnt þessum mikilvægu skyldum.

Af hverju má dagforeldri hafa útidyr á heimilinu sínu læsta á meðan börnin eru í gæslu?

Vinnustaður dagforeldra er jafnframt heimili þeirra og því eðlilegt að þeir setji reglur um umgengni um húsnæðið. Í reglugerð um daggæslu segir að í samskiptum sínum við dagforeldri skulu foreldrar virða það að um heimahús er að ræða.

Hvert á ég að snúa mér ef mér finnst dagforeldrið mitt ekki vera að sinna sínu starfi.

Eðlilegast er að byrja á að ræða við dagforeldrið sjálft. Dagforeldri er í starfi hjá foreldrum og vilja fá að vita ef þeir eru ekki að sinna því þjónustustigi sem foreldrar og dagforeldrar hafa verið ásáttir um í byrjun vistunar. Ef foreldri hefur áhyggjur af heilsu barns eða aðbúnaði barna í daggæslunni ber honum skilyrðislaust að snúa sér til fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar.

Af hverju þarf barnið að vera með beisli í vagninum í daggæslunni.

Í reglugerð um daggæslu segir að dagforeldri sé skylt að stuðla að öryggi barna í hvívetna, svo sem með því að hafa sjúkrakassa á heimilinu og barnalæsingu á skápum með hættulegum efnum. Nota skal beisli í barnavögnum og háum stólum. Allt er þetta gert til að tryggja öryggi barnsins í gæslunni.

Barnið mitt er fatlað, get ég sett það í daggæslu?

Í niðurgreiðslureglum Akureyrarbæjar er kveðið á um að börn sem fötlunar sinnar vegna þurfa sérstaka umönnun og taka því meira en eitt pláss í daggæslu, er niðurgreitt samkvæmt gildandi reglum, ásamt því að greitt er fyrir það pláss sem ekki nýtist. Ákvörðun um tímalengd sem greidd er vegna sérstakrar umönnunar er í höndum starfsmanna fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar.

Mega dagforeldrar vera með gæludýr?

Daggæsla fer fram á heimili dagforeldra og það er ekkert í reglugerð um daggæslu sem bannar þeim það. Hins vegar skal dagforeldri, áður en samningur um vistun er gerður, gera foreldrum grein fyrir aðstæðum á heimilinu sem geta haft áhrif á líðan barns, t.d. ef gæludýr er á heimili. Meðhöndlun dýra skal vera í fullu samræmi við dýraverndunarlög.

Hvað á ég að gera ef ég sé að dagforeldri er með fleiri börn í gæslu heldur en leyfið segir til um.

Í því tilviki ber að tilkynna það þegar í stað til fræðslu- og lýðheilsusviðs. Daggæsla í heimahúsi er leyfisskyld og á leyfisbréfi kemur fram hversu mörgum börnum leyfið gildir fyrir. Í reglugerð um daggæslu í heimahúsi kemur fram að leyfilegur skörunartími er á milli kl. 12 og 13 á daginn og þann tíma má leyfilegur fjöldi barna vera tveimur fleiri en fram kemur á leyfi dagforeldris.

Síðast uppfært 20. janúar 2022