Félagsþjónusta

Félagsleg aðstoð

Á fjölskyldusviði og búsetusviði er veitt félagsleg aðstoð af ýmsum toga. Þjónustan stendur íbúum Akureyrar til boða og einnig hafa nágrannasveitarfélögin Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur og Svalbarðsstrandarhreppur gert samning við Akureyrarbæ um ráðgjafarþjónustu. 

Markmið með félagslegri aðstoð er að koma einstaklingum og fjölskyldum til aðstoðar í tímabundnum erfiðleikum.  Markmið aðstoðarinnar til lengri tíma er alltaf að viðkomandi verði sjálfbjarga og leiðir að því markmiði eru m.a. að veita félagslega ráðgjöf og ýmis félagsleg úrræði. 

Þegar um fatlað fólk og fjölskyldur fatlaðra barna er að ræða  er aðstoð oft til lengri tíma og markmið með þeirri þjónustu er að fatlaðir njóti sömu tækifæra og lífsgæða og aðrir.

Búsetusvið s.460-1410 netfang:  afgreidslabusetusvid@akureyri.is

Fjölskyldusvið s.460-1420  netfang: fjolskyldusvid@akureyri.is


Félagsleg ráðgjöf

Þjónustan er í formi almennrar og sérhæfðrar ráðgjafar. Unnið er eftir lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks. Markmið félagslegrar ráðgjafar er tvíþætt. Annars vegar að veita upplýsingar um félagsleg réttindamál og hins vegar að veita stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda.

Ráðgjöfin sem stendur til boða er:

  • Félagsleg ráðgjöf s.s. vegna uppeldis- og samskiptavanda, skilnaðar, forsjár- og umgengnismála.
  • Ráðgjöf vegna fjármála
  • Ráðgjöf vegna húsnæðismála og/eða þjónustu í búsetu
  • Ráðgjöf er tengist atvinnu og endurhæfingu
  • Sérhæfð ráðgjöf /þjónusta vegna fatlaðra barna

Nánari upplýsingar hjá fjölskyldusviði s.460-1420.

Símatímar félagsráðgjafa eru þriðjudaga til föstudaga frá kl.13:00-13:30.


Fjárhagsaðstoð

Fjárhagsaðstoð er veitt á fjölskyldusviði samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Velferðarráð Akureyrar hefur sett sérstakar reglur um fjárhagsaðstoð sem starfsmenn fjölskyldusviðs vinna eftir. Félagsráðgjafar í félagsþjónustu taka við fjárhagsumsóknum í viðtölum eða á símatíma. Í umsókn þurfa m.a. að koma fram upplýsingar um fjölskyldugerð, atvinnu, húsnæði, tekjur, skuldir og eignir. Öll fjárhagsaðstoð er skattskyld. Fjárhagsaðstoð til einstaklings getur verið allt að kr. 157.567 á mánuði og kr. 252.107 á mánuði til hjóna eða fólks í sambúð. Aðstoðin er óháð barnafjölda þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna. Vaxtabætur og húsaleigubætur mæta mismunandi kostnaði vegna húsnæðis. Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, sbr. IV. kafla í reglum um fjárhagsaðstoð. Ráðgjöf vegna fjármála er veitt þar sem þörf er fyrir hana og alltaf í tengslum við fjárhagslega aðstoð. Allar skattskyldar tekjur eru reiknaðar sem tekjur en undanskyldar eru umönnunarbætur sem foreldrar fatlaðra barna fá. Þegar um launatekjur er að ræða er horft á heildartekjur.

Nauðsynlegar upplýsingar með umsókn

Umsókn um fjárhagsaðstoð skal fylgja staðfest skattframtal sl. árs, staðgreiðsluyfirlit skatta frá yfirstandandi ári ásamt yfirliti yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsóknin er lögð fram og mánuðinn á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingarsjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélögum eða öðrum aðilum. Til að hægt sé að gera sér fyllilega grein fyrir fjárhagslegri stöðu umsækjanda er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um skuldir og föst útgjöld viðkomandi á mánuði (greiðsluþjónusta). Hægt er að senda rafræn skjöl á netfangið: fjolskyldusvid@akureyri.is.


Heimsending á mat

Þeir sem ekki geta annast matseld sjálfir eiga kost á að fá heimsendan mat. Boðið er upp á mat í hádeginu alla daga vikunnar (líka um helgar og hátíðisdaga) og er honum ekið til notenda frá dvalarheimilinu Hlíð. Umsóknir um heimsendan mat skulu berast til búsetusviðs Akureyrarbæjar á umsóknareyðublöðum um heimaþjónustu.

Eyðublöðin er hægt að fá á búsetusviði og í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar Geislagötu 9.
Skrifstofa búsetusviðs er opin alla virka daga kl. 9:00-15:00 og síminn er 460-1410.
Netfang: afgreidslabusetusvid@akureyri.is

Ráðgjöf iðjuþjálfa

Iðjuþjálfi veitir þeim bæjarbúum sem þess þurfa, ráðgjöf inn á heimili.

Starfið felur í sér víðtæka ráðgjöf við einstaklinga með fötlun af margvíslegum toga svo og aldraða með ýmis konar iðjuvanda. Iðjuþjálfi á búsetusviði vinnur í teymi sem metur þörf á heimaþjónustu, félagslegri liðveislu, ferliþjónustu og heimahjúkrun og tekur þátt í mati á þjónustuþörf.

Umsóknir:  Sótt er um ráðgjöf á eyðublöðum sem liggja frammi í afgreiðslu búsetusviðs og hér  

Senda má umsóknir sem viðhengi í tölvupósti á netfangið afgreidslabusetusvid@akureyri.is
Beiðnir um ráðgjöf eru teknar fyrir á fundi matshóp búsetusviðs, einni sinni í viku.

Síðast uppfært 22. júní 2017
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?