Samvinna eftir skilnað - SES

Skilnaðarráðgjöf Akureyrarbæjar

Akureyrarbær býður foreldrum 0-18 ára barna upp á sérhæfða skilnaðarráðgjöf.

Um er að ræða ráðgjöf, til að koma í veg fyrir og/eða til að draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði eða hafa gengið í gegnum skilnað og vilja stuðla að betri foreldrasamvinnu með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Samvinna eftir skilnað (Samarbejde efter skilsmisse - SES) var upphaflega þróað í Danmörku og hafa rannsóknir sýnt marktækan mun á líðan þeirra sem taka þátt í verkefninu og þeirra sem ekki gera það. Um er að ræða gagnreynt námsefni sem er ætlað að hjálpa foreldrum við að takast á við breytingar og áskoranir sem algengar eru í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita. Hér fyrir neðan er stutt myndband um þjónustuna.

Foreldrum er bent á heimasíðuna: www.samvinnaeftirskilnad.is

Ef foreldrar telja sig þurfa meiri stuðning eða fræðslu eftir að hafa farið í gegnum námskeiðin á heimasíðunni stendur þeim til boða:

    • Sérhæfð ráðgjöf hjá SES ráðgjöfum Akureyrarbæjar
    • Hópnámskeið. Námskeið fyrir foreldra þar sem ítarlega er fjallað um áhrif skilnaðar á fjölskyldu. Fyrirhugað er að halda næsta námskeið í byrjun maí 2023, nánar tiltekið mánudaginn 24. apríl, miðvikudaginn 3. maí, og mánudaginn 8. maí. Hvert námskeið skiptist í þrjá áfanga þar sem kennt er einu sinni í viku, þrjá klukkutíma í senn:

 

1. Áhrif skilnaðar á foreldra (vika 1)

2. Viðbrögð barna við skilnaði (vika 2)

3. Samvinna foreldra við skilnað (vika 3)


Umsjónarmenn námskeiðs eru Halldóra Kristín Hauksdóttir, lögmaður velferðarsviðs og Katrín Reimarsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði.

 

Það er ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum.

 

Hefur þú áhuga á að kynna þér málið?

SES ráðgjafar taka vel á móti þér. Sótt er um ráðgjöf í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar eða á netfanginu velferdarsvid@akureyri.is (mælt er með að setja SES sem heiti tölvupóstsins)

Síðast uppfært 03. apríl 2023