- Þjónusta
- Menntun
- Samgöngur og slökkvilið
- Umhverfismál
- Skipulag og byggingarmál
- Velferð og fjölskyldan
- Stjórnkerfi
- Bæjarstjórn
- Stjórnsýsla
- Akureyri
- Útboð
- Fjármál og tölfræði
- Fyrir fjölmiðla
- Sveitarstjórnarkosningar 2022
- Mannlíf
- Þjónustugátt
Akureyrarbær hefur hafið vinnu við breytingu á deiliskipulagi fyrir reitinn þar sem áður var tjaldsvæði við Þórunnarstræti.
Nú liggur fyrir skipulagslýsing þar sem fram kemur hvaða áherslur bæjarstjórn hefur við skipulagsvinnuna, upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu, fyrirhugað skipulagsferli og hvernig kynningu og samráði verður háttað. Lögð er áhersla á gæði byggðar, umhverfi, samgöngur og samráð.
Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér skipulagslýsinguna og senda ábendingar og hugmyndir í gegnum samráðsvettvanginn Okkar Akureyri eða með tölvupósti á skipulag@akureyri.is Hugmyndum verður safnað í gegnum samráðsvettvanginn Okkar Akureyri frá og með 26. janúar nk. Allar hugmyndir koma til skoðunar við gerð skipulagsins.
Frestur til að senda inn ábendingar er til 10. febrúar nk.
Með gerð skipulagsins er lagður grunnur að hagkvæmri nýtingu lands, blöndun byggðar, vistlegum dvalarsvæðum og almenningsrýmum, góðum tengslum við nærliggjandi umhverfi og þar með umhverfi sem styður við virkan lífsstíl. Skipulaginu er ætlað að stuðla að sjálfbæru og umhverfisvænu skipulagi með heildstæðu yfirbragði í sátt við umhverfi og samfélag. Rík áhersla verður á vistvæna nálgun og stefnt að því að skipulagsáætlunin hljóti vistvottun BREEAM Communities.
Lýsinguna má nálgast hér.
Markmið:
Að móta stefnu um uppbyggingu blandaðrar byggðar sem gefur Akureyrarbæ nýja eiginleika og gæði.
Að skipuleggja umhverfi þar sem almenningssamgöngur og virkur ferðamáti styður við þétta blandaða byggð þar sem einkabíll er val en ekki nauðsyn.
Að móta stefnu í samráði við íbúa Akureyrarbæjar, hagsmunaaðila og viðeigandi stofnanir.
Að styrkja og byggja ofan á núverandi gæði svæðisins, s.s. góð sólarskilyrði, útvist og dvalarsvæði, gróðursæld og tengingar við nærliggjandi þjónustu, afþreyingu og almenningsrými.
Megináhersla:
Að styrkja tengingar við nærliggjandi græn almenningssvæði, nærliggjandi þjónustu og almenningssamgöngur.
Að tryggja framboð á fjölbreyttum íbúðum í blandaðri byggð miðsvæðis í bænum.
Staðsetja verslunar- og þjónusturými þar sem þörf er fyrir þau í nálægð við mikilvægar samgöngutengingar og starfsemi.
Lifandi og virkar jarðhæðir sem efla og styrkja umhverfið og styðja við mannlíf.
Grænt og mannvænt yfirbragð þar sem áhersla er á fjölbreytt mannlíf og vistvænan ferðamáta.
Að bílar taki ekki pláss á yfirborði innan svæðisins.
Fjölbreytt byggðamynstur og yfirbragð sem tekur mið af nærliggjandi byggð og tekur tillit til ríkjandi vindátta og afstöðu sólar.
Byggð með mannlegan skala/mælikvarða.
Fjölbreytt og öruggt bæjarrými og dvalarsvæði fyrir ólíka hópa fólks.
Að uppbygging og þróun taki tillit til þriggja þátta sjálfbærni; samfélags, efnahags og umhverfis.
Að stuðla að hagkvæmri nýtingu lands.
Að notast við umhverfisvænar lausnir þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi, bæði á framkvæmdatíma og að honum loknum.
Frestur til að senda inn ábendingar er til 10. febrúar nk.
Stefnt er að því að skipulagsáætlunin hljóti vistvottun samkvæmt alþjóðlega vistvottunarkerfinu BREEAM Communities. Markmið vottunarinnar er að tryggja gæði í umhverfis- og skipulagsmálum. Til að stuðla að sjálfbæru skipulagi er litið til þriggja meginstoða sjálfbærni við skipulagsvinnuna, samfélags, umhverfis og efnahags. Vottunarkerfið byggir á fjölbreyttum kröfum sem stuðst er við til þess að auka sjálfbærni skipulagsáætlunarinnar, þar með er mikilvægt skref stigið til að skapa aðlaðandi og vel ígrundaða byggð sem hefur þarfir íbúa að leiðarljósi og varðveitir jafnframt einkenni og náttúru skipulagssvæðisins. Í ferlinu er lögð áhersla á samráð. Sjónarmið hagsmunaaðila og nærsamfélagsins eru nýtt til að auka gæði skipulagsins. Vottunin er unnin samhliða skipulagsvinnu og nýtist því sem forsenda við ákvarðanatöku varðandi fyrirkomulag og áform innan svæðisins. Vottunarferlinu er skipt upp í fimm meginflokka sem snerta á helstu atriðum sem styðjast þarf við til að tryggja sjálfbært skipulag:
Fyrir hvern flokk eru settar fram kröfur sem saman tryggja að hugað sé að öllum grundvallaratriðum sem snerta á sjálfbærni skipulagsáætlana. Má þar nefna gerð samráðsáætlunar og þarfagreiningar, kröfur gagnvart efnisvali og förgun efnis, mat á umhverfisáhrifum og greiningu á aðgengi fjölbreyttra ferðamáta. Til að hljóta vottun BREEAM Communities þarf skipulag að uppfylla ákveðnar skyldukröfur (fyrsta stigs vottun) en við fullnaðarvottun deiliskipulags fæst lokaeinkunn í samræmi við þær kröfur sem skipulagið uppfyllir.
Markmiðið er að búa til gott hverfi í samráði við íbúa og þess vegna er óskað eftir hugmyndum. Þær geta meðal annars snúið að byggingum, samgöngum, opnum svæðum, þjónustu, afþreyingarmöguleikum eða einhverju allt öðru. Gagnlegt getur verið að móta hugmyndir út frá sínu nærumhverfi:
Hugmyndum verður safnað í gegnum samráðsvettvanginn Okkar Akureyri frá og með 26. janúar nk. Allar hugmyndir koma til skoðunar við gerð skipulagsins.
Fimmtudaginn 26. janúar kl. 17.00 verður efnt til kynningarfundar í íþróttahöllinni á Akureyri. Gengið er inn um aðalinngang að sunnanverðu.
Á fundinum munu skipulagshönnuðir kynna fyrirhugaða skipulagsvinnu og í kjölfarið verður boðið upp á þátttöku í umræðuhópum. Við hvetjum alla til að mæta og kynna sér spennandi uppbyggingu til framtíðar. Léttar veitingar í boði.