PMTO - foreldranámskeið

Flest börn sýna erfiða hegðun á einhverjum tímapunkti, en oftast gengur það tímabil yfir. Þegar svo er ekki þurfa foreldrar oft á tíðum aðstoð, einkum þegar samskipti barnsins innan fjölskyldunnar, í skólanum eða annars staðar í umhverfinu eru orðin neikvæð. Í PMTO styðjandi foreldrafærni er lögð áhersla á vinnu með foreldrum þar sem þeir eru mikilvægustu kennarar barna sinna.

PMTO styðjandi foreldrafærni er tilboð um:

  • Foreldranámskeið PMTO
  • Foreldrameðferðarhóp PTC
  • Foreldrameðferð PMTO

PMTO foreldranámskeið fyrir foreldra barna á aldrinum 4 - 12 ára eru haldin reglulega á vegum fræðslusviðs og velferðarsviðs  Akureyrarbæjar. Um er að ræða átta vikna hópnámskeið þar sem PMTO meðferðaraðilar kenna foreldrum einu sinni í viku og vinna foreldrar verkefni heima á milli tíma. Bandarískar rannsóknir sýna góðan árangur af slíkri fræðslu fyrir þennan hóp foreldra. Námskeiðin hafa verið haldin á Akureyri frá árinu 2005, allt að fjögur námskeið á ári. Þau hafa verið vel sótt og samkvæmt mati er mikil ánægja með þau og flestir telja sig færari við uppeldi barna sinna eftir námskeiðin en áður.

Til að komast á PMTO foreldranámskeið geta foreldra óskað eftir því að skóli barnsins eða félagsráðgjafar á velferðarsviði hafi milligöngu með umsókn. 

PMTO hópmeðferð (PTC) er 14 vikna hópmeðferð fyrir foreldra barna 7 - 14 ára, með samskipta- og hegðunarfrávik. Lögð er áhersla á ítarlega vinnu með verkfæri PMTO og sveigjanleika til að mæta þörfum hverrar fjölskyldu. Reyndir meðferðaraðilar vinna með hópnum og foreldrar vinna svo heima á milli tíma. Unnið er með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðari hegðun barnsins og draga úr hegðunarvanda. 

Til að komast í PTC hópmeðferð geta foreldrar óskað eftir því að skóli barnsins eða ráðgjafar á velferðarsviði hafi milligöngu með umsókn.

PMTO meðferð er úrræði fyrir foreldra barna með töluverð samskipta- og hegðunarfrávik. Lögð er áhersla á ítarlega vinnu með foreldrum þar sem unnið er sérstaklega út frá þörfum hverrar fjölskyldu. Um er að ræða einstaklingsþjónustu sem felst m.a. í allt að 20 viðtölum hjá PMTO meðferðaraðila. Tímasetning viðtala fer eftir þörfum hverrar fjölskyldu. Unnið er með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðri hegðun barnsins og draga úr samskipta- og hegðunarfrávikum.

Til að komast í PMTO meðferð geta foreldrar óskað eftir því að skóli barnsins eða félagsráðgjafar á velferðarsviði hafi milligöngu með umsókn.

Þetta hafa nokkrir foreldrar að segja að loknu PMTO foreldranámskeiði:´

  • Góð framsetning á áhugaverðu efni, ætti að vera skyldunám allra foreldra
  • Góð blanda af kennslu, æfingum, kaffipásum og samræðum
  • Takk fyrir mig og þá lífsbreytingu sem þið hjálpuðu okkur með
  • Jákvætt, skemmtilegt, gagnlegt. Góð áminning.
  • Frábær verkfæri og úrræði
Síðast uppfært 20. september 2021