Kollugerðishagi

Akureyrarbær er að hefja vinnu við gerð deiliskipulags sem nær yfir fyrirhugað íbúðarsvæði við Kollugerðishaga vestan Borgarbrautar í Síðuhverfi. Samhliða deiliskipulagi verður gerð breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030.

Grænt, vistvænt og nútímalegt hverfi

Verkefnið snýst m.a. um að afmarka íbúðarlóðir og byggingarreiti, skilgreina fyrirkomulag gatnakerfis, bílastæða, göngu- og hjólastíga, útivistar- og almenningssvæða. Með deiliskipulagi er lagður grunnur að nýju hverfi með fjölbreyttum íbúðargerðum og grænum svæðum sem verður aðlaðandi til búsetu.

Gert er ráð fyrir um 750 íbúðum og er lagt upp með að um 60-80% verði í fjölbýli og 20-40% í sérbýli (einbýli, par- og raðhús). Sjálfbær þróun verður höfð að leiðarljósi og áhersla lögð á góðar tengingar gangandi og hjólandi innan hverfis, við aðliggjandi útivistarsvæði og hverfi.

Skipulagslýsing var samþykkt í bæjarstjórn 20. apríl 2020. Hér er hægt að skoða skipulagslýsinguna en frestur til að gera athugasemd við hana rennur út 19. maí. Athugasemdum er hægt að skila með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is) þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram eða skriflega til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrarbæjar, Geislagötu 9.

Gerum gott hverfi – hugmyndasöfnun

Markmiðið er að búa til gott hverfi í samráði við íbúa og þess vegna óskum við eftir hugmyndum. Þær geta meðal annars snúið að byggingum, samgöngum, opnum svæðum, þjónustu, afþreyingarmöguleikum eða einhverju allt öðru. Gagnlegt getur verið að móta hugmyndir út frá sínu nærumhverfi:

  • Hvað er það besta við þitt hverfi?
  • Hvað vantar í þínu nærumhverfi?
  • Hvaða einkenni þarf grænt, vistvænt og nútímalegt hverfi að hafa?
  • Hvað ber að varast í skipulagsvinnunni?

Hugmyndum er safnað í gegnum samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbæ. Hægt er að senda inn hugmyndir á tímabilinu 5.-31. maí. Allar hugmyndir koma til skoðunar við gerð skipulagsins. 

Hvernig nota ég samráðsvettvanginn Okkar Akureyrarbæ? 

  • Með því að smella á þennan hlekk getur þú skoðað þær hugmyndir sem settar hafa verið fram varðandi nýja hverfið. Allir geta komið sinni hugmynd á framfæri með því að smella á "Bættu við nýrri hugmynd". Við hvetjum fólk til að skrá sig inn í gegnum island.is, Facebook eða búa til nýjan aðgang með netfangi. 
  • Hægt er að kjósa hugmyndir upp/niður með því að smella á örvarnar. 
  • Hægt er að hefja/taka þátt í umræðum um hugmynd með því að skrifa rök með eða rök á móti. 
  • Hægt er að setja inn mynd/myndband máli sínu til stuðnings. 

  

Síðast uppfært 04. maí 2021