Aðgerðaáætlun - 1. Hrein orka

Aðgerðir í þessum kafla stuðla að aukinni notkun vistvænna orkugjafa og þar af leiðandi samdrætti í notkun olíu. Samkvæmt losunarbókhaldi bæjarins fyrir árið 2020 var heildarlosunin 151.000 tonn CO2-íg, þar af 55.000 tonn frá samgöngum á landi. Því er ljóst að orkuskipti í samgöngum eru eitt helsta tækifærið til úrbóta í orkumálum bæjarins. Meginmarkmið bæjarins er að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Markmið eftirtalinna aðgerða eru margþætt, en þau eru meðal annars að draga úr losun frá samgöngum og framkvæmdum, bæta loftgæði og lækka kostnað. Auka tækifæri fyrir bæjarbúa til að minnka kolefnisspor sitt og nýta hreina innlenda orkugjafa. Bæta orkunýtni. Auka skilning almennings á mikilvægi orkuskipta í samgöngum. Að orkuþörf Grímseyjar verði að fullu mætt á umhverfisvænni máta en nú er gert. Að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis í höfnum bæjarins.

Aðgerðir í þessum kafla tengjast eftirfarandi heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna:

1.1. Vistvænni ferðir starfsmanna á vegum Akureyrarbæjar

1.1.1. Bifreiðafloti Akureyrarbæjar

Aðgerð: Við endurnýjun fólksbifreiða skal eingöngu fjárfesta í bifreiðum sem ganga 100% á hreinum innlendum orkugjöfum.

Framkvæmd: Við kaup á nýjum fólksbifreiðum eru eingöngu valdir hreinorkubílar. Ef slíkt er ekki talið mögulegt skal sviðsstjóri gera viðkomandi ráði skýra grein fyrir í hvað viðkomandi bifreið er ætluð og ástæðum þess að viðkomandi lausn er valin.

Markmið: 50% af fólksbílaflota sveitarfélagsins verði hreinorkubílar fyrir lok árs 2026. 100% af fólksbílaflota sveitarfélagsins verði hreinorkubílar fyrir lok árs 2030.

Ábyrgð: Sviðsstjórar

Staða: Unnið er að því að taka saman upplýsingar um bifreiðaflota bæjarins til að meta orkuskiptastöðu flotans. Gert er ráð fyrir að birta upplýsingarnar miðlægt í byrjun árs 2024.

1.1.2. Aðkeyptur akstur

Aðgerð: Auka notkun á hreinni innlendri orku í aðkeyptum akstri (og þjónustu) bæjarfélagsins.

Framkvæmd: Í þjónustukaupum skal óska eftir umhverfisvænustu lausn sem er í boði á hverjum tíma. Við mat á tilboðum skal akstur á hreinni innlendri orku metinn til hækkunar á stigagjöf.

Markmið: 50% af aðkeyptum akstri verði á vistvænni orku fyrir lok árs 2026. 100% af af aðkeyptum akstri verði á vistvænni orku fyrir lok árs 2030.

Ábyrgð: Sviðsstjórar

Staða: Leiðbeinandi texti í útboðslýsingar bæjarins varðandi umhverfiskröfur verður gefinn út til allra sviðsstjóra fyrir mitt ár 2024.

1.1.3. Bílaleiga

Aðgerð: Við leigu bifreiða skulu starfsmenn alltaf velja þann kost sem gengur fyrir hreinni innlendri orku, sé hann til staðar. Einnig skulu starfsmenn ekki velja stærri bíl en nauðsynlegt er, né með meira vélarafli en þurfa þykir.

Framkvæmd: Útbúa leiðbeiningar um val á bílaleigubílum fyrir stjórnendur. Skoða að gera rafbíl að sjálfvöldum kosti hjá þjónustuaðilum.

Markmið: 75% leigudaga verði á hreinorkubílum á árinu 2026. 100% leigudaga verði á hreinorkubílum á árinu 2030.

Ábyrgð: Sviðsstjórar og fjársýslusvið

Staða: Í undirbúningi.

 

1.1.4. Flugferðir á vegum sveitarfélagsins

Aðgerð: Greina ástæður flugferða á vegum bæjarins undanfarin ár, meta áframhaldandi þörf og hvort aðrar lausnir en ferðalag séu mögulegar.

Framkvæmd: Hvert svið bæjarins taki saman ferðalög starfsmanna á þeirra vegum síðustu tvö ár og meti m.a. út frá því aðra kosti og áætlaða þörf á ferðalögum fram til 2026.

Markmið: Að draga úr flugferðum á vegum bæjarins.

Ábyrgð: Sviðsstjórar og fjársýslusvið

Staða: Í undirbúningi.

 

1.1.5. Fjarfundir

Aðgerð: Bæta aðstöðu og búnað til fjarfunda og efla fjarfundafærni starfsmanna bæjarins.

Framkvæmd: Útbúa rafrænar leiðbeiningar um fjarfundi og bjóða starfsmönnum fræðslu í góðri fjarfundarmenningu. Sviðsstjórar bera ábyrgð á að koma upp þeirri fjarfundaraðstöðu sem þörf er á.

Markmið: Að bærinn sé fyrirmynd í góðri fundarmenningu og sýni gott fordæmi með því að bjóða alla fundi sem eru boðaðir í nafni bæjarins sem fjarfundi. Sömuleiðis að starfsmenn bæjarins leitist eftir því að fundir sem þeir eru boðaðir á séu í boði sem fjarfundir.

Ábyrgð: Sviðsstjórar

Staða: Í undirbúningi.

1.2. Vistvænni mannvirkjagerð

1.2.1. Orka í útboðum og kolefnisspor verktaka

Aðgerð: Auka notkun á vistvænni orku í verkefnum á vegum sveitarfélagsins.

Framkvæmd: Í útboðum skal notkun á vistvænni innlendri orku og lægra kolefnisspor metið til hækkunar í stigagjöf. Í útboðslýsingum verði skýrt hvernig þessi þáttur verði metinn í hverju verki fyrir sig. Því fylgir þessari aðgerð að vinna þarf leiðbeiningar um hvernig þessu mati verði háttað við vinnslu á útboðum.

Markmið: Að útboðsgögn verði þannig úr garði gerð að verktakar sjái hag í að lækka kolefnisspor framkvæmda á vegum bæjarins eins og mögulegt er. 

Ábyrgð: Sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs

Staða: Í undirbúningi. Leiðbeinandi texti í útboðslýsingar bæjarins varðandi umhverfiskröfur verður gefinn út til allra sviðsstjóra fyrir mitt ár 2024.

1.2.2. Orkunýting í samræmi við GCOM

Aðgerð: Gera sérstaka skýrslu um orkunotkun þar sem metin verða tækifæri til að bæta orkunýtingu í samræmi við skuldbindingar Akureyrarbæjar með aðild að GcoM.

Framkvæmd: Úttekt á orkunotkun þess rekstrar sem tilheyrir A-hluta. Í framhaldi þeirrar úttektar verði útbúin markmið og aðgerðir um bætta orkunýtingu.

Markmið: Skýrsla tilbúin fyrir lok árs 2024.

Ábyrgð: Forstöðumaður umhverfis- og sorpmála

Staða: Í undirbúningi.

1.2.3. Götulýsing

Aðgerð: Auka hlutdeild LED götulýsingar í bænum til að draga úr orkunotkun og ljósmengun.

Framkvæmd: Við endurnýjun skal velja lausn út frá umhverfisáhrifum og kostnaði ljósstunda.

Markmið: Hlutdeild LED í götulýsingu verði a.m.k. 80% fyrir lok árs 2026.

Ábyrgð: Forstöðumaður viðhalds

Staða: Í framkvæmd. 

 

1.2.4. Vistvottun verklegra framkvæmda

Aðgerð: Skipulag, nýbyggingar og önnur ný mannvirki skulu vera umhverfisvottuð samkvæmt BREEAM eða sambærilegum kerfum sé þess kostur.

Framkvæmd: Að nýta aðgerðaáætlunartímabilið til 2026 til að útbúa skýr viðmið og verklag um umhverfiskröfur til nýframkvæmda með það fyrir augum að á næsta aðgerðatímabili verði allar nýframkvæmdir umhverfisvottaðar.

Markmið: Allar ákvarðanir um skipulag, nýbyggingar og önnur ný mannvirki séu metnar út frá viðmiðum vistvottunarkerfa.

Ábyrgð: Skipulagsfulltrúi og sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs

Staða: Í undirbúningi. 

1.3. Orka í samgöngum

1.3.1. Hleðslustöðvar

Aðgerð: Koma upp fleiri rafhleðslustöðvum fyrir rafbíla í eigu Akureyrarbæjar við starfsstöðvar bæjarins.

Framkvæmd: Meta þörf og umfang á rafhleðslustöðvum fyrir rafbíla í eigu Akureyrarbæjar við starfsstöðvar bæjarins. Forgangsraða uppsetningu út frá þörf og kostnaði.

Markmið: Fyrir lok árs 2026 verði komnir upp hleðslumöguleikar við helstu starfsstöðvar í samræmi við þörf og forgangsröðun.

Ábyrgð: Forstöðumaður viðhalds

Staða: Í framkvæmd. 

1.3.2. Hleðsla rafbíla

Aðgerð: Gera áætlun um uppbyggingu á aðstöðu til hleðslu rafbíla og skilgreina safnstæði á svæðum þar sem nálægur möguleiki á einkahleðslu er ekki til staðar.

Framkvæmd: Meta þörf fyrir hleðslustöðvar, hvar möguleg safnstæði geta verið í eldri hverfum sem og gera ráð fyrir slíkum stæðum í skipulagi nýrra hverfa. Forgangsraða uppbyggingu út frá þörf og kostnaði.

Markmið: Að fyrir árslok 2026 verði komin upp safnstæði með hleðslustöðvum á a.m.k. 8 nýjum stöðum víðs vegar um bæinn.

Ábyrgð: Skipulagsfulltrúi og forstöðumaður viðhalds

Staða: Í undirbúningi.

1.3.3. Rafvæðing SVA

Aðgerð: Hefja innleiðingu á rafmagnsstrætisvögnum.

Framkvæmd: Gera áætlun um uppbyggingu hleðsluinnviða og kaup á rafmagnsstrætisvögnum. Hefja á útskipti dísilvagna fyrir rafmagn á áætlunartímabilinu.

Markmið: Hleðsluinnviðum verði komið upp og fyrsti rafmagnsstrætisvagninn kominn í umferð fyrir lok árs 2026.

Ábyrgð: Forstöðumaður rekstrardeildar og umhverfismiðstöðvar

Staða: Í undirbúningi.

 

1.4. Vistvænt eldsneyti

Aðgerð: Auka framboð á vistvænu eldsneyti í sveitarfélaginu. Vinna að Svansvottun vistvæns eldsneytis sem framleitt er á svæðinu.

Framkvæmd: Skoða leiðir til að auka framboð og nýtingu á vistvænu eldsneyti, t.d. sem hluta af líforkuveri í Eyjafirði. Halda áfram þeirri vinnu sem nú þegar er hafin í tengslum við Svansvottun metans á Akureyri. 

Markmið: Að vistvænt eldsneyti verði áfram valkostur sem orkugjafi fyrir íbúa og rekstraraðila í sveitarfélaginu.

Ábyrgð: Forstöðumaður umhverfis- og sorpmála og Vistorka

Staða: Í undirbúningi

1.5. Orkuskipti í Grímsey

Aðgerð: Vinna að fjölbreyttum lausnum sem henta til að mæta orkuþörf Grímseyjar sem er ótengd meginkerfi landsins.

Framkvæmd: Meta komandi þörf fyrir orku og þá kosti sem geta verið staðgenglar núverandi lausnar. Mögulegar lausnir gætu verið í formi vindmylla, sólarsella og að blanda lífdísli við dísilolíu á rafstöðvar.

Markmið: Að Grímsey verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030.

Ábyrgð: Forstöðumaður viðhalds og Vistorka.

Staða: Tilraunir með sólar- og vindorku standa yfir.

1.6. Rafvæðing hafna

Aðgerð: Halda áfram rafvæðingu hafna og skoða möguleikana á að hafa innviðina einnig tilbúna fyrir stærri skip en nú er gert ráð fyrir.

Framkvæmd: Halda áfram samstarfi hafnaryfirvalda, veitufyrirtækja og ríkisins um lausnir á stærri tengingum og hagstæðari innkaupum.

Markmið: Að komið verði upp landtengingu við Tangabryggju og Torfunefsbryggju a.m.k. 1,5 MW hvor fyrir lok árs 2026.

Ábyrgð: Hafnarstjóri

Staða: Í undirbúningi

1.7. Framtíð án jarðefnaeldsneytis

Aðgerð: Búa sveitarfélagið undir framtíð án jarðefnaeldsneytis og hefja samtal við lóðarhafa sölustaða jarðefnaeldsneytis um framtíðarnotkun þeirra svæða sem í dag fara undir slíka starfsemi.

Framkvæmd: Gera áætlun um framtíð án jarðefnaeldsneytis í Akureyrarbæ.

Markmið: Að áætlun verði tilbúin fyrir lok árs 2025. 

Ábyrgð: Skipulagsfulltrúi 

Staða: Í undirbúningi

Síðast uppfært 19. febrúar 2024