Viðurkenning fræðslu- og lýðheilsuráðs

VIÐURKENNING FRÆÐSLU- og LÝÐHEILSURÁÐS FYRIR FRAMÚRSKARANDI SKÓLASTARF Í TÓNLISTAR-, LEIK- OG GRUNNSKÓLUM AKUREYRARBÆJAR

Annað hvert ár skal veita þeim einstaklingum eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í skólastarfi viðurkenningar. Markmiðið er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna. Viðurkenning er einnig staðfesting á að viðkomandi skóli/kennari/nemandi er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenning nær til.

Fræðslu- og lýðheilsuráð hefur frá árinu 2010 veitt einstaklingum og/eða stofnunum sem skarað hafa fram úr í eftirtöldum þremur flokkum viðurkenningar, við hátíðlega athöfn. Fræðslu- og lýðheilsuráð staðfestir tilnefningar sem hljóta viðurkenningar að fenginni tillögu frá valnefnd.

Nemendur

Starfsmenn tónlistar- og grunnskóla geta tilnefnt nemendur til viðurkenningar.

Tilnefning er háð því að viðkomandi nemandi sé orðinn 10 ára eða eldri. Viðurkenningu má t.d. veita fyrir góðar framfarir í námi, góðan námsárangur, virkni í félagsstarfi, að vera jákvæð fyrirmynd, sýna frumkvæði eða leiðtogahæfileika, frábæra frammistöðu í íþróttum eða listum, listsköpun eða tjáningu í skólastarfi, félagslega færni, samskiptahæfni og framlag til að bæta eða auðga bekkjaranda/skólaanda, nýsköpun og/eða hönnun.

Kennarar/starfsfólk

Foreldrar, nemendur, kennarar, skólar og bæjarstofnanir geta tilnefnt einstaklinga/kennara/starfsfólk í skólum til viðurkenningar. Tilnefna má nýbreytniverkefni um hvaðeina í skólastarfi sem unnið hefur verið að á yfirstandandi skólaári, nemendavinnu, vinnu einstaklinga, upplýsingamiðlun (s.s. heimasíður og fréttabréf), stefnumótun og skipulag, verkefni í almennri kennslu, sérgreinum eða sérkennslu, framlag annars starfsfólks skóla, forvarnarstarf, félagsstarf (s.s. ýmis samvinnuverkefni milli skóla/landa ofl.) eða foreldrasamstarf.

Þessi samþykkt nær til allra tónlistar-, leik- og grunnskóla sem Akureyrarbær rekur eða styrkir.

Verkefni/skólar

Foreldrar, nemendur, kennarar, skólar og bæjarstofnanir geta tilnefnt verkefni í skólum til viðurkenningar. Tilnefna má nýbreytniverkefni um hvaðeina í skólastarfi sem unnið hefur verið að á yfirstandandi skólaári, nemendavinnu, vinnu hópa, upplýsingamiðlun (s.s. heimasíður og fréttabréf), stefnumótun og skipulag, samvinnu kennara, verkefni í almennri kennslu, sérgreinum eða sérkennslu, framlag annars starfsfólks skóla, forvarnarstarf, félagsstarf (s.s. ýmis samvinnuverkefni milli skóla/landa ofl.) eða foreldrasamstarf.

Þessi samþykkt nær til allra tónlistar-, leik- og grunnskóla sem Akureyrarbær rekur eða styrkir.

Ferlið

Afar mikilvægt er að góður rökstuðningur sé með hverri tilnefningu þar sem hann er hafður til grundvallar um val á viðurkenningum auk þess sem sá texti er lesinn upp á hátíðinni.

Tilnefningar skulu berast rafrænt fyrir miðjan febrúar. Viðurkenningar verða afhentar við hátíðlega athöfn í lok ferbrúar. Valnefnd er skipuð formanni fræðslu-og lýðheilsuráðs, einum fulltrúa frá foreldrum grunnskólabarna sem tilnefndur er af samtökum foreldra og einum fulltrúa frá miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri. Sviðstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs ásamt verkefnastjórum leik- og grunnskóla eru starfsmenn valnefndar.

 

Samþykkt á 47. fundi fræðslu-og lýðheilsuráðs þann 26. febrúar 2024.

Athugið að fylla þarf út sér umsókn fyrir hvern aðila/verkefni/hóp sem tilnefndur er.

 

Næst verður opnað fyrir tilnefningar í febrúar 2025

 

Tilnefna nemanda

Tilnefna kennara eða starfsfólk

Tilnefna verkefni

Síðast uppfært 26. mars 2024