Kynbundið ofbeldi - aðstoð og úrræði

Teiknuð myndskreytingAkureyrarbær vinnur markvisst að því að útrýma kynbundnu ofbeldi með virku samráðu og góðum úrræðum.

Smelltu hér til að lesa Aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum 2018 - 2020

Kynbundið ofbeldi er útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum, það er kerfisbundið, útbreitt og á sér margar birtingarmyndir. Ofbeldið hefur í för með sér ýmiskonar, andlegar, efnahagslegar og líkamlegar afleiðingar á einstaklinginn sem fyrir því verður og getur litað líf hans það sem eftir er. Kynbundið ofbeldi hefur einnig ómældar afleiðingar á fjölskyldur og samfélagið allt. Ýmsir utanaðkomandi þættir geta orðið til þess að kynbundið ofbeldi eykst, má þar nefnda heimsfaraldur á borð við Covid 19 þar sem konur komast sjaldnar út af heimilum, streita eykst og fjárhagsleg óvissa skapast. 

Hér að neðan er yfirlit yfir helstu hugtök sem eru verkfæri, til að skilja betur og bregðast við. Einnig er að finna útskýringar á orsökum, einkennum og afleiðingum kynbundins ofbeldis ásamt upplýsingum um aðstoð og úrræði handa þolendum. 

Aðstoð og úrræði

Fjölmargir aðilar á Akureyri bjóða upp á aðstoð til þolenda og gerenda kynbundins ofbeldis. Hjá Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis er hægt að fá upplýsingar um hvert skal leita. Öll miðar aðstoðin að einhverju leyti að valdeflingu, vernd og fræðslu.

ATHUGIÐ: LÖGUM SAMKVÆMT ER TILKYNNINGASKYLDA EF ÁSTÆÐA ÞYKIR TIL ÞEGAR MÁL VARÐA EINSTAKLINGA UNDIR 18 ÁRA ALDRI.

Hvað er kynbundið ofbeldi? 

Kynbundið ofbeldi

Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. Konur og stúlkur eru í mestri áhættu fyrir því að verða fyrir kynbundnu ofbeldi en karlar og drengir geta hins vegar einnig verið fórnarlömb þess. Hugtakið hefur einnig verið notað um ofbeldi sem beinist að hinsegin fólki eða fötluðu fólki.

Fórnarlamb/þolandi

Sú manneskja sem hefur upplifað kynbundið ofbeldi er þolandi. Hugtakið svipar til hugtaksins fórnarlamb, þolandi vísar þó til þess að viðkomandi hefur viðnámsþrótt, jafnvel í bata.

Samþykki

Nei þýðir nei. Samþykki er samkomulag milli aðila um kynferðislega athöfn eða jafnvel giftingu. Það skal ávallt vera gefið að fúsum og frjálsum vilja og getur ekki verið gefið af einhverjum undir áhrifum fíkniefna eða undir aldri. Samþykkið á við um afmarkaða athöfn, eitt samþykki þýðir ekki að allt sé samþykkt, einnig má draga samþykkið tilbaka hvenær sem er.

Tegundir kynbundins ofbeldis, einkenni og afleiðingar*

Kynbundið ofbeldi fer í margvíslegan búning og til eru ýmsar tegundir af því**.

Afleiðingar geta verið misjafnlega alvarlegar. Þær geta verið líkamlegar, andlegar og/eða félagslegar. Auk líkamlegra einkenna þá koma oft fram andleg einkenni t.d. áfallastreituröskun, kvíði og þunglyndi. Jafnframt eru þolendur líklegir til að finna fyrir skömm, sektarkennd, reiði, ótta, einangrun og hafa lélega sjálfsmynd. 

Hér að neðan eru skýringar á helstu tegundum kynbundins ofbeldis: 

Heimilisofbeldi

Ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn, skyldur eða tengdur, eins og maki, barn, foreldri, barnsfaðir, systkini eða forráðamaður. Um er að ræða hegðunarmynstur þar sem fram kemur valdaójafnvægi milli geranda og þolanda. Þolandi og gerandi þurfa hvorki að búa saman né vera gift til að ofbeldið flokkist sem heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi þarf heldur ekki að vera bundið við heimili geranda eða þolanda. 

Heimilisofbeldi getur verið af ýmsum toga:

Ofbeldi vegna efnahags
Gerandi gerir eða reynir að gera aðra persónu fjárhagslega háða sér og öðlast þannig völd yfir henni. Þolanda er meinaður aðgangur að peningum og jafnvel meinað að fara í nám eða á vinnumarkað.

Andlegt ofbeldi
Andlegt ofbeldi er notað til að brjóta manneskju markvisst niður og höggva í sjálfsmynd og sjálfsvirðingu. Það er meðal annars gert með því að hóta, niðurlægja, barngera, einangra og ráðast að viðkomandi með orðum.

Tilfinningalegt ofbeldi
Tilfinningalegt ofbeldi er einnig notað til að brjóta manneskju markvisst niður og höggva í sjálfsmynd og sjálfsvirðingu. Það er gert með stanslausri gagnrýni, gera lítið úr, uppnefna, eyðileggja samband milli nákominna t.d. þolanda og barna og einangrun. Gaslýsing (e. gaslighting) er eitt þeirra verkfæra sem gerendur tilfinningalegs ofbeldis nota oft, í því felst að buga þolandann, efast um allt sem hann segir og ásaka hann um að gera of mikið mál úr hlutunum. 

Líkamlegt ofbeldi
Ofbeldi þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi, hvort sem líkamlegur skaði hlýst af eða ekki. Líkamlegt ofbeldi er líka þegar haldið er aftur af líkamlegum þörfum viðkomandi. Algengt er að líkamlegu ofbeldi sé beitt í kjölfar andlegs ofbeldis sem hefur verið til staðar um tíma.

Kynferðislegt ofbeldi

Kynferðisofbeldi er þegar fólk er neytt eða þvingað til að stunda kynferðislegar athafnir eða horfa á kynferðislegar athafnir sem það vill ekki. Eins eru kynferðisleg athæfi sem beinast að börnum ofbeldi.

Ýmsar tegundir kynferðislegs ofbeldis:

Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Nauðgun
Refsiverður verknaður fólginn í því að hafa samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans, t.d. með því að beita ofbeldi, hótun um ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðgun, notfæra sér geðsjúkdóm, andlega fötlun manns eða ef þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

Nauðgunarmenning
Þegar viðhorf samfélagið viðurkennir kynferðisofbeldi sem eðlilegan hluta af því. Tiltekið ástand þyki svo sjálfsagt að það teljist eðlilegur hluti af daglegu lífi og þarfnast ekki frekari umhugsunar.

Mansal

Mansal er glæpastarfsemi sem felst í verslun með menn í hagnaðarskyni. Fórnarlömbin eru seld sem vinnuafl í verksmiðjum eða kynlífsiðnaði, börn eru m.a. seld mansali til ólöglegrar ættleiðingar. Mansal er náskylt þrælahaldi og sumir telja að bein tengsl séu milli kláms og mansals.

Stafrænt ofbeldi

Stafrænt ofbeldi felst í notkun tækja og tækni, svo sem síma, tölvu og samfélagsmiðla, til að áreita, beita ofbeldi, ofsækja, niðurlægja eða ógna.
Ýmsar tegundir stafræns ofbeldis

Neteinelti
Netrifrildi, mannorðsspjöll, útskúfun, persónueftirlíking, rafræn áreitni, rafrænt umsátur, rafrænar ógnanir, persónuöryggisbrestur.

Skilaboð með kynferðislegum tón
Smáskilaboð, texti og myndir sendar án samþykkis eða óskar viðtakandans.

*Heimildir: SAFT, Heilsuvera, Kvennaathvarfið, UNwoman.org.

**Kynbundið ofbeldi felur í sér fleiri flokka og tegundir en hér eru nefndir

Valdefling - vernd - fræðsla

Það eru fjölmargar leiðir til þess að fyrirbyggja kynbundið ofbeldi. Valdefling, vernd og fræðsla er það þrennt sem meðal annars er hægt að gera. 

Valdefling er að dreifa valdi og færa það til þeirra sem ekki hafa haft það. Valdefling er að efla vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi meðal annars með því að efla sjálf og sjálfsmynd fólks, sjálfstraust, félagslega stöðu, sjálfsvirðingu og lífsgæði. 

Vernd er að fyrirbyggja ofbeldi með öllum tiltækum ráðum. Í því felst að vinna gegn, uppræta, sækja gerendur til saka og aðstoða þolendur.  

Fræðsla er beitt vopn til þess að fyrirbyggja kynbundið ofbeldi. Með aukinni vitundarvakningu og opinni umræðu er hægt að veita öllum meiri og betri verkfæri til að stöðva allt ofbeldi og takast á við það. 

Lög og reglur

 Kynbundið ofbeldi er skilgreint í lögum og áætlanir og aðgerðir byggja á þeim: 

  • Almenn hegningarlög nr. 19/1940
  • Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
  • Barnaverndarlögum nr. 80/2002.
  • Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
  • Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
  • Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Information in English - Gender based violence

One in three women worldwide experience physical or sexual violence, mostly by an intimate partner. Violence against women and girls is a human rights violation, and the immediate and long-term physical, sexual, and mental consequences for women and girls can be devastating, including death.

If you are in an abusive relationship you can contact 112, social services, or Bjarmahlíð, Family Justice Center for survivors of violence. It is important to call the police and go to the emergency ward or a doctor to get a medical certificate of the injuries sustained if applicable. This may be of importance for the extension of a residence permit after a divorce, as all cases are registered. 

Information on family services in Akureyri

Your rights - important info for immigrants in Iceland (Page in Icelandic - use Google Translate button on the webpage)

The signs of relationship abuse and how to help

 

Síðast uppfært 08. maí 2023