Saga Akureyrar

Úr sögu Akureyrar

eftir Jón Hjaltason sagnfræðing

Akureyrar er fyrst getið árið 1562. Þá var kveðinn upp dómur á eyrinni yfir konu sem hafði sængað hjá karli án þess að hafa til þess giftingarvottorð. Það var svo 216 árum síðar, eða 1778, sem fyrsta íbúðarhúsið reis á Akureyri. Aðeins 8 árum seinna varð Akureyri kaupstaður í fyrra sinnið að undirlagi konungs sem vildi með því efla hag Íslands. Íbúar Akureyrar voru þá 12 talsins. Allt fór þetta meira og minna í vaskinn hjá kóngi, enginn vaxtarkippur hljóp í kaupstaðinn og 1836 missti bærinn kaupstaðarnafnbótina og endurheimti hana ekki aftur fyrr en 1862.


Eggert og Rannveig Laxdal fyrir framan LaxdalshúsÞað er viðeigandi tilviljun að nafn Akureyrar er dregið af kornakri sem menn halda fyrir víst að hafi verið í einu gilja bæjarins. (Fleiri skýringar eru til á nafngiftinni en engin álíka skemmtileg og þessi). Ég segi viðeigandi því að Akureyringar hafa allt síðan á öndverðri 19. öld verið þekktir fyrir áhuga sinn á garðyrkju og bærinn annálaður fyrir gróðursæld. Kartöflurækt hófst á Akureyri rétt um aldamótin 1800 og tré uxu þar snemma og töldust til landsundra.

Reyndar voru það ekki innfæddir Akureyringar sem innleiddu þennan áhuga á garðrækt heldur danskir verslunarmenn. Allur sá gróður sem sjá má í kaupstaðnum nú á ofanverðri 20. öld, er því gleggsta dæmið um dönsk áhrif í bæjarlífinu.

Ónefndir höfðingjar á hestbakiAnnað einkenni Akureyrar voru eyrarnar en í árdaga sköguðu ekki færri en fimm eyrar út í Pollinn en svo er sjórinn fyrir framan kaupstaðinn kallaður. Fjórar þeirra eru nú horfnar vegna dugnaðar Akureyringa við að nema land af sjónum. Sú nyrsta, Oddeyrin, er þó enn á sínum stað og vel sjáanleg en inn af henni var skjólið sem kaupmenn fyrri alda sóttust eftir fyrir skip sín. Og út af Akureyri var svo aðdjúpt að stærstu skip gátu legið þar steinsnar frá landi svo á örskammri stund mátti róa fullhlöðnum báti í land.

Kannski voru skjólið og aðdýpið þó ekki afgerandi um uppvöxt Akureyrar sem kaupstaður heldur sú staðreynd að héraðið var gott til landbúnaðar og því betra sem innar dró, og Danir sóttust eftir kjöti og ullarvöru. Á seinni hluta 19. aldar tóku eyfirskir bændur að ganga í samtök til að gera hlut sinn betri gagnvart dönsku kaupmönnunum. Þá varð til Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) sem alla 20. öldina hefur sett mark sitt á Akureyri og stjórnað miklu um uppbyggingu bæjarins, þó heldur hafi dregið úr áhrifum þess síðasta áratuginn eða svo.

Með svolítilli leikfimi má því kalla KEA afsprengi Dana og minningartákn um áhrif þeirra í kaupstaðnum, rétt eins og áhuga bæjarbúa á görðum og gróðri.

OddeyrinEnda þótt margslags iðnaður, tengdur landbúnaðarframleiðslu og iðulega rekinn í skjóli KEA, hafi spilað stórt hlutverk í atvinnulífi kaupstaðarins á 20. öld þá hafa útgerðarfyrirtæki einnig náð að hasla sér þar völl. Og ólíkt flestu öðru í sögu kaupstaðarins þá er nær ógjörningur að tengja þau dönskum áhrifum. Dönsku kaupmennirnir, sem höndluðu forðum á Akureyri, höfðu næsta lítinn áhuga á útgerð og það var ekki fyrr en Norðmenn hófu seinna landnám sitt í Eyjafirði árið 1867 að Akureyringar vöknuðu til vitundar um að græða mátti offjár á sumarsíldinni sem gengið hafði nánast upp á aðalgötu bæjarins í svo mörg ár sem elstu menn mundu.

Í kjölfarið lögðu íbúar bæjarins á sig að læra handtökin við að salta þorsk. Hófst þá útgerðarsaga Akureyringa sem skrifast allar götur síðan en í hana hafa komið miklir deyfðartímar svo að bæjarbúar hafa nánast gleymt öllu sjávarlífi. Nú þegar við horfum fram á nýja öld er Akureyri í hópi mestu útgerðarbæja Íslands og hér er að finna höfuðstöðvar tveggja af fimm stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins.

Síðast uppfært 29. ágúst 2018