Bæjarstjórnarfundir eru að jafnaði fyrsta og þriðja þriðjudag hvers mánaðar. Í júlí og ágúst er yfirleitt fundarhlé hjá bæjarstjórn og hefur bæjarráð þá heimild til fullnaðarafgreiðslu mála. Fundirnir eru haldnir í sal á 1. hæð í Ráðhúsinu, Geislagötu 9 og hefjast kl. 16:00. Upptökur frá fundunum er hægt að nálgast hér.
Dagskrá bæjarstjórnarfundar 18. mars:
Almenn mál
1. 2025030020 - Breytingar í nefndum - skipulagsráð
Lögð fram tillaga Jóns Hjaltasonar óflokksbundins, um breytingu á skipan varamanns í skipulagsráði. Halla Birgisdóttir Ottesen verði varamaður í stað Skarphéðins Birgissonar.
2. 2024040694 - Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2025-2028 - viðauki
Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 13. mars 2025:
Lagður fram viðauki 2.
Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir viðauka 2 og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.
3. 2025030249 - Norðurslóð - Umsókn um lóð fyrir stúdentagarða
Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2025:
Lagt fram erindi Jóhannesar B. Guðmundssonar dagsett 6. mars 2025, f.h. Fésta þar sem formlega er sótt um lóð D við Norðurslóð á Háskólasvæðinu til samræmis við nýsamþykkta deiliskipulagsbreytingu.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið en þar sem um er að ræða úthlutun lóðar án auglýsingar er afgreiðslu málsins vísað til bæjarstjórnar.
4. 2024050988 - Hafnarstræti Göngugatan - sumarlokun frá júní - ágúst
Liður 8 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2025:
Lagt fram minnisblað þar sem settir eru fram nokkrir kostir varðandi tímabil á lokun gatna í miðbænum sumarið 2025, byggt á reynslu síðasta sumars og fyrirliggjandi óskum um stækkun lokunarsvæðis. Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Steindór Ívar Ívarsson forstöðumaður viðhalds á umhverfis- og mannvirkjasviði kynntu ástand yfirborðs efna í göngugötunni.
Skipulagsráð þakkar Guðríði og Steindóri fyrir kynninguna. Skipulagsráð tekur jákvætt í að göngugötunni verði lokað frá 1. maí til 30. september vegna slæms ástands yfirborðs götunnar og komu skemmtiferðaskipa á þessu tímabili. Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að gerð verði breyting á verklagsreglum fyrir tímabundnar lokanir gatna sem felur í sér lengingu á tímabili lokunar til samræmis við það. Ráðið leggur jafnframt til að settar verði þungatakmarkanir á götuna og að notkun nagladekkja verði bönnuð. Meirihluti skipulagsráðs felur skipulagsfulltrúa í samstarfi við umhverfis- og mannvirkjasvið að vinna að útfærslu þessa. Varðandi hugmyndir um lokanir á hluta Skipagötu þá felur ráðið skipulagsfulltrúa að senda fyrirliggjandi tillögur til hagsmunaðila við götuna og óska eftir áliti þeirra.
Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista samþykkir bókunina nema bann við notkun nagladekkja.
Sindri S. Kristjánsson S-lista óskar bókað: Fulltrúi Samfylkingarinnar styður heilshugar áform meirihluta skipulagsráðs um að halda áfram á þeirri gæfubraut sem mörkuð var síðasta sumar með lokun göngugötunnar og nú með lengingu tímabilsins. Á sama tíma eru það vonbrigði að meirihlutinn sjái sér ekki á þessum tímapunkti fært að koma til móts við hugmyndir og óskir rekstraraðila að loka litlum hluta Skipagötu á sama tímabili. Sami rekstraraðili hefur ítrekað sýnt vilja sinn í verki til að glæða miðbæinn okkar lífi yfir sumarmánuðina með frumlegu viðburðahaldi utandyra þar sem komið er til móts við alla aldurshópa og fjölbreytta flóru ferðamanna. Á meðal bæði bæjarbúa og þeirra sem okkur heimsækja heyrist stundum að ekki sé úr mikilli afþreyingu eða fjölbreyttri menningu í bænum að moða. Bæjaryfirvöld eiga að styðja við frumkvæði lítilla fyrirtækja í bænum sem reyna hvað sem þau geta til að gera bæinn okkar skemmtilegri. Það má hafa gaman.
5. 2025030773 - Miðbær - uppbygging
Rætt um skipulagsmál og helstu framkvæmdir í miðbæ Akureyrar.
6. 2023010626 - Skýrsla bæjarstjóra
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fer yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:
Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 7. mars 2025
Bæjarráð 6. og 13. mars 2025
Skipulagsráð 12. mars 2025
Umhverfis- og mannvirkjaráð 4. mars 2025
Velferðarráð 24. febrúar 2025
Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir