Dagskrá næsta bæjarstjórnarfundar

Bæjarstjórnarfundir eru að jafnaði fyrsta og þriðja þriðjudag hvers mánaðar. Í júlí og ágúst er yfirleitt fundarhlé hjá bæjarstjórn og hefur bæjarráð þá heimild til fullnaðarafgreiðslu mála. Fundirnir eru haldnir í sal á 1. hæð í Ráðhúsinu, Geislagötu 9 og hefjast kl. 16:00.  Upptökur frá fundunum er hægt að nálgast hér. 

Dagskrá bæjarstjórnarfundar 19. mars:

Almenn mál

1. 2022030877 - Lausnarbeiðni

Tekin fyrir beiðni Brynjólfs Ingvarssonar um að vera leystur frá störfum sem bæjarfulltrúi og áheyrnarfulltrúi í bæjarráði út kjörtímabilið.

 

2. 2024030658 - Breytingar í nefndum - bæjarráð

Lögð fram tillaga Brynjólfs Ingvarssonar um breytingu á skipan fulltrúa í bæjarráði. Jón Hjaltason verði áheyrnarfulltrúi í stað Brynjólfs Ingvarssonar.

 

3. 2024030659 - Breytingar í nefndum - bæjarráð

Lögð fram tillaga Brynjólfs Ingvarssonar um breytingu á skipan fulltrúa í bæjarráði. Halla Birgisdóttir Ottesen verði varaáheyrnarfulltrúi í stað Jóns Hjaltasonar.

 

4. 2022100188 - Reglur um heimgreiðslur til foreldra í Akureyrarbæ

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 7. mars 2024:
Liður 3 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 26. febrúar 2024:
Umræður um reglur um heimgreiðslur til foreldra í Akureyrarbæ.
Áheyrnarfulltrúar: Anna Lilja Sævarsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Jóhanna María Agnarsdóttir fulltrúi grunnskólastjóra, Harpa Hjartardóttir fulltrúi leikskólakennara, Helena Kristín Gunnarsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.
Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir að framlengja gildistíma reglna um heimgreiðslur til foreldra í Akureyrarbæ fyrir sitt leyti og vísar þeim til bæjarráðs.
Bjarki Ármann Oddsson forstöðumaður skrifstofu fræðslu- og lýðheilsusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti með fjórum atkvæðum að framlengja gildistíma reglna um heimgreiðslur til foreldra í Akureyrarbæ til og með 31. júlí 2025 og vísar málinu til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Bæjarráð felur jafnframt forstöðumanni skrifstofu fræðslu- og lýðheilsusviðs að leggja fram minnisblað um nýtingu og reynslu úrræðisins fyrir bæjarstjórn. Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista situr hjá.

 

5. 2023120857 - Reglur um frágang framkvæmda í bæjarlandinu

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 7. mars 2024:
Liður 12 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. febrúar 2024:
Liður 14 í fundargerð umhverfis- og mannvirkjaráðs dagsettri 6. febrúar 2024:
Lagðar fram til samþykktar verklagsreglur um yfirborðsfrágang vegna framkvæmda í bæjarlandinu.
Tómas Björn Hauksson verkefnastjóri nýframkvæmda og viðhalds gatna og Eiríkur Jónasson verkefnastjóri viðhalds gatna og stíga sátu fundinn undir þessum lið.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir verklagsreglurnar fyrir sitt leyti og vísar þeim til skipulagsráðs.
Skipulagsráð samþykkir framlagðar verklagsreglur fyrir sitt leyti og vísar þeim áfram til bæjarráðs.
Tómas Björn Hauksson verkefnastjóri nýframkvæmda og viðhalds gatna hjá umhverfis- og mannvirkjasviði sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti reglur um frágang framkvæmda í bæjarlandinu með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar þeim til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.

 

6. 2023121791 - Lundargata 2-6 - deiliskipulagsbreyting

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2024:
Lagt fram að nýju erindi dagsett 27. desember 2023 þar sem að Brynjólfur Árnason f.h. Gleypis ehf. óskar eftir breytingum á deiliskipulagi Oddeyrar sem nær til lóða við Lundargötu 2-6. Er meðal annars gert ráð fyrir að lóð nr. 4 verði skipt upp á milli lóða 2 og 6 við Lundargötu og lóð 3-7 við Norðurgötu en lóðamörk á þessu svæði hafa verið óviss. Þá er einnig gert ráð fyrir að húsi á núverandi lóð 6b verði breytt nokkuð auk þess sem gert verði ráð fyrir bílskúr þar sunnan við og minni geymslu upp við lóð Strandgötu 23. Fyrir liggur umsögn Minjastofnunar dagsett 16. nóvember 2023 um tillögur að breytingum á húsi á lóð 4 og 6b.
Forsenda breytinga til samræmis við fyrirliggjandi gögn er að lóðinni Lundargötu 4 verði úthlutað til umsækjanda. Að mati ráðsins er erfitt, ef ekki ómögulegt, að úthluta lóðinni til annarra aðila vegna fyrirliggjandi lóðarsamninga sem gilda um Lundargötu 2 og Lundargötu 4b. Eru umsækjendur lóðarhafar þessara lóða.
Skipulagsráð leggur því til við bæjarstjórn á lóðinni Lundargötu 4 verði úthlutað til umsækjenda án auglýsingar þar sem greiðsla gatnagerðargjalds miðast við heimilað byggingarmagn auk þess sem lagt verður á byggingarréttargjald til samræmis við nýlegar samþykkir þar um, t.d. Gránufélagsgötu 22.
Skipulagsráð frestar ákvörðun varðandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins þar til ákvörðun bæjarstjórnar liggur fyrir.

 

7. 2023110413 - Hafnarstræti 80-82 - fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi

Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. mars 2024:
Auglýsing á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnarstræti 80-80 lauk 1. mars sl.
Á auglýsingartímanum bárust umsagnir frá Norðurorku og Minjastofnun Íslands auk þess að 2 athugasemdir bárust frá öðrum rekstraraðilum í syðsta hluta Hafnarstrætis. Er tillagan nú lögð fram með ósk um að gerð verði sú breyting frá auglýstri tillögu að heimilt verði að gera ráð fyrir allt að 518 fm kjallara undir Hafnarstræti 80 og 20 fm fyrir flóttastiga úr kjallara. Felur það í sér að nýtingarhlutfall hækkar úr 2,78 í 2,99. Jafnframt verða minniháttar breytingar á lóðamörkum sem felast í að lóð Hafnarstrætis 80-82 stækkar á kostnað Austurbrúar 10-18.
Að mati skipulagsráðs felur tillaga að breytingu á auglýstri tillögu ekki í sér grundvallarbreytingar þar sem eingöngu er verið að bæta við fermetrum í kjallara. Hefur sú breyting því ekki áhrif á útlit eða stærð mannvirkis séð frá öðrum hagsmunaaðilum en umsækjanda sjálfs. Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt með tilgreindum breytingum og að tillaga að svörum við athugasemdum verði samþykkt.
Jón Hjaltason óháður og Sunna Hlín Jóhannesdótir B-lista óska bókað:
Mikil fjölgun gistirýma (hótel og íbúðir) er fyrirsjáanleg, ekki aðeins á umræddu svæði í kringum Hafnarstræti 80-82, heldur einnig víðar í miðbæ Akureyrar. Jafnramt stefnir þar í töluverða fækkun bílastæða. Ofanrituð hvetja því til að lagður verði grundvöllur að byggingu bílastæðahúss í þeim anda sem drepið er á í greinargerð um aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 (dags. 28. feb. 2018, bls. 115-116).

 

8. 2024030726 - Verkefni nefnda og ráða 2024 - skipulagsráð

Umræða um helstu verkefni skipulagsráðs 2024.

 

9. 2023030859 - Móahverfi - gatnagerð og lagnir

Umræða um stöðu framkvæmda í Móahverfi.

 

10. 2024030724 - Kjarasamningar 2024

Rætt um aðkomu sveitarfélaga að nýgerðum kjarasamningum.

 

11. 2023010626 - Skýrsla bæjarstjóra

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fer yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.

 

Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 7. og 14. mars 2024
Bæjarráð 7. mars 2024
Fræðslu- og lýðheilsuráð 11. mars 2024
Skipulagsráð 12. mars 2024
Umhverfis- og mannvirkjaráð 5. mars 2024
Velferðarráð 14. og 28. febrúar og 13. mars 2024


Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Síðast uppfært 18. mars 2024