Æskulýðs- og tómstundamál

Æskulýðs- og tómstundastarf á Akureyri er af fjölbreyttum toga. Innan bæjarins er gróskumikið starf tómstundafélaga, menningarstarfsemi, íþróttafélaga og klúbba þar sem börn fá læra, æfa, miðla og upplifa. Auk þess rekur Akureyrarbær félagsmiðstöðvar í grunnskólum bæjarins og Ungmennahús á 4. hæð í Rósenborg. 

Félagsmiðstöðvar

Félagsmiðstöðvar eru mikilvægur þáttur í lífi barna og unglinga og gegna því veigamikla hlutverki að sinna tómstunda- og félagsmálum utan hefðbundins skólatíma. Markhópur félagsmiðstöðvanna er unglingar í 8. - 10. bekk. Einnig er í boði opið starf og klúbbastarf fyrir miðstig grunnskóla.

Félagsmiðstöð á að stuðla að jákvæðum og þroskandi samskiptum meðal barna og unglinga og örva félagsþroska þeirra og lýðræðisvitund. Starfsemi félagsmiðstöðvanna er skipulögð af unglingunum sjálfum í samráði við starfsfólk.

Boðið er upp á fjölbreytta klúbbastarfsemi og opin hús þar sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Mikilvægt er að börnin og unglingarnir finni að þau séu velkomin og talað sé við þau á jafnréttisgrundvelli. Einnig gegnir félagsmiðstöðin ákveðnu forvarnarhlutverki, hvort heldur sem er í gegnum leik eða skipulögðu forvarnastarfi.

Ungmennahús

Ungmennahúsið er upplýsinga- og menningarmiðstöð fyrir ungt fólk frá 16 ára aldri og er staðsett á efstu hæð Rósenborgar. Boðið er upp á innihaldsríka og uppbyggilega starfsemi á sviði menningar, lista, fræðslu og tómstunda. Starfsfólk Ungmennahúss hjálpar ungu fólki að koma góðum hugmyndum í framkvæmd og veitir aðstöðu fyrir starfsemina. Í Ungmennahúsi eru starfandi ýmsir hópar og klúbbar og enn er laust fyrir fleiri! Boðið er upp á ráðgjöf og stuðning fyrir ungt fólk um ýmis mál.

 

Síðast uppfært 25. október 2021