Verkefnisstjórn um mótun atvinnustefnu

Málsnúmer 2011110167

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 111. fundur - 14.12.2011

Sigmundur Ófeigsson formaður verkefnisstjórnarinnar og Sævar Pétursson verkefnisstjóri atvinnumála fóru yfir stöðu mála og greindu frá næstu skrefum í vinnunni. Verkefnisstjórnin stefnir að því að skila stjórn Akureyrastofu áfangaskýrslu með tillögum um áframhaldið í lok janúar 2012.

 

Stjórn Akureyrarstofu - 112. fundur - 12.01.2012

Verkefnisstjóri atvinnumála hefur sagt starfi sínu lausi og mun láta af störfum í lok mars nk. Sævar Pétursson fráfarandi verkefnisstjóri atvinnumála kom á fundinn og dró saman reynslu sína af starfinu, áherslum, helstu verkefnum og skipulagi. Hann taldi reynsluna almennt góða en benti á nokkur atriði sem betur mega fara, eins og skipulag í kringum atvinnuátaksverkefni hjá sveitarfélaginu, skýrari verkaskipti milli aðila eins og Akureyrarstofu, AFE og Impru. Mynduð hafa verið tengsl við um 100 fyrirtæki í bænum og er það mat Sævars að Akureyrarbær hafi nú mun gleggri mynd af atvinnulífinu en áður.
Rætt um framhaldið, auglýsingu eftir nýjum starfsmanni og þær áherslur sem lagðar verða til grundvallar.

Stjórnin þakkar Sævari greinargóða samantekt og upplýsingar um starfið fyrsta árið.

Stjórnin samþykkir að óska eftir því að verkefnisstjórn um atvinnumál komi með tillögur um hvaða áherslur eigi að leggja í starfinu áður en það verður auglýst.

Helena Þ. Karlsdóttir fulltrúi S-lista lagði fram beiðni um skriflega skýrslu um störf verkefnisstjóra atvinnumála frá upphafi til dagsins í dag. Óskað er eftir að svör berist innan 21 dags.

Stjórn Akureyrarstofu - 115. fundur - 21.02.2012

Helena Þ. Karlsdóttir S-lista óskaði eftir því að fundargerðir verkefnisstjórnarinnar berist reglulega til stjórnar Akureyrarstofu.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að fela framkvæmdastjóra að fylgja þessari ósk eftir og jafnframt að sjá til þess að fundargerðir verkefnisstjórnarinnar verði birtar á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Stjórn Akureyrarstofu - 118. fundur - 21.03.2012

Lögð fram til kynningar og umræðu drög að skýrslu verkefnisstjórnar um atvinnumál. Gert er ráð fyrir að skýrslugerðinni ljúki í mars og verður hún lögð fram til formlegrar afgreiðslu í stjórn Akureyrarstofu um miðjan apríl.

Stjórn Akureyrarstofu - 122. fundur - 02.05.2012

Lögð fram formlega áfangaskýrsla verkefnisstjórnarinnar þar sem gerð er grein fyrir þeirri greiningar- og tengslavinnu sem fram hefur farið sl. ár og lagðar fram eftirfarandi tillögur:

1. Nauðsynlegt er að fara út í víðtækari stefnumótun þar sem kallaðir verða til helstu hagsmunaaðilar í atvinnulífinu með svipuðum hætti og gert var í vinnunni 1999 og fjallað er nánar um í þessari skýrslu. Skilgreindir verði sameiginlegir hagsmunir og kortlagðar leiðir til að ná þeim fram. Verkefnum verði forgangsraðað eftir því hvað hagsmunaaðilar eru tilbúnir að leggja af mörkum til þeirra. Tryggt verði að verkefni séu eign tiltekinna hagsmunaaðila sem vinna þeim framgang.
2. Áfram verði til sérstakur hópur sem hafi atvinnumál sem megin viðfangsefni, hlutverk hópsins er að vera verkefnastjóra atvinnumála innan handar og leiða saman hagsmunaaðila í atvinnulífinu.
3. Verkefnastjórn atvinnumála sér helstu hlutverk AFE vera þau að sinna stærri fjárfestingarverkefnum í Eyjafirði, koma á samstarfi milli svæða auk þess að efla samstarf sitt við Akureyrarstofu og Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi þegar það á við. Akureyrarstofa og AFE fari þegar í aðgerðir til að auka aðstoð við nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar verkefnisstjórninni góða vinnu og skýrsluna þar sem teknar eru saman niðurstöður þeirrar greiningarvinnu sem stjórnin hefur staðið fyrir og er mikilvægt veganesti fyrir framhaldið. Jafnframt samþykkir stjórnin að áfram verði til verkefnisstjórn sem haldi utan um ítarlegri stefnumótun og að undirbúningur hennar hefjist nú þegar.

Stjórn Akureyrarstofu óskar eftir því að fráfarandi verkefnisstjórn skipi tvo fulltrúa úr sínum hópi og að leitað verði til Háskólans á Akureyri um að skipa einn fulltrúa í nýja verkefnisstjórn sem mun annast undirbúning næsta fasa í vinnunni.

Stjórn Akureyrarstofu - 123. fundur - 10.05.2012

Lagt fram til kynningar minnisblað um störf verkefnisstjóra atvinnumála. Í því eru teknar saman upplýsingar sem svara spurningum sem fulltrúi S-lista lagði fram í stjórn Akureyrarstofu þann 12. janúar 2012, að því leyti sem þær koma ekki fram í áfangaskýrslu verkefnisstjórnar um atvinnumál sem lögð var fram á síðasta fundi stjórnar Akureyrarstofu þann 2. maí sl.

Stjórn Akureyrarstofu - 133. fundur - 20.11.2012

Lögð fram tillaga að erindisbréfi fyrir faglega verkefnisstjórn um áframhaldandi vinnu við mótun atvinnustefnu fyrir Akureyrarbæ. Fráfarandi verkefnisstjórn leggur til að tveir sem áttu sæti í henni starfi áfram að málinu og að tveir komi frá hagsmunaaðilum utan bæjarkerfisins. Hreinn Þór Hauksson verkefnisstjóri atvinnumála sat fundinn undir þessum lið.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir erindisbréfið.  Í verkefnisstjórninni munu sitja fyrir hönd stjórnar Akureyrarstofu Sigmundur Ófeigsson og Unnsteinn Jónsson.  Fjóla Björk Jónsdóttir, aðjunkt við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri og Ingibjörg Ringsted, framkvæmdastjóri Lostætis Akureyri sitja fyrir hönd annarra hagsmunaaðila í stjórninni.

Stjórn Akureyrarstofu - 134. fundur - 13.12.2012

Lögð fram tillaga verkefnisstjórnarinnar dags. 11. desember 2012 um næstu skref í stefnumótunarvinnunni, um utanaðkomandi ráðgjafa, tímaáætlun og kostnaðaráætlun.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir fyrirliggjandi tillögu verkefnisstjórnarinnar.

Stjórn Akureyrarstofu - 136. fundur - 07.02.2013

Sem kunnugt er hefur verið samið við ráðgjafafyrirtækið Netspor um vinnu við stefnumótun Akureyrarbæjar í atvinnumálum. Skipuð hefur verið sérstök fagstjórn um verkefnið sem í eiga sæti Fjóla Björk Jónsdóttir aðjunkt við viðskiptadeild HA, Ingibjörg Ringsted framkvæmdastjóri Lostætis Akureyri, Sigmundur Ófeigsson stjórnarmaður í stjórn Akureyrarstofu og Unnsteinn Jónsson áheyrnarfulltrúi í stjórn Akureyrarstofu.
Nú er nýlokið fyrsta fasa vinnunnar sem var að ná saman breiðum hópi sem víðast að úr athafnalífinu til að vinna að svonefndum sviðsmyndum fyrir Akureyri árið 2030. Um 50 manns tóku þátt í þessum fasa, þar sem greindir voru líklegir megindrifkraftar í þróun samfélagsins og dregnar upp ólíkar sviðsmyndir eftir því hvert þeir kraftar toga þróunina. Sviðsmyndirnar verða svo nýttar í hinni eiginlegu stefnumótunarvinnu sem fram fer á vormánuðum en áætlað er að vinnunni ljúki í maí.

Stjórn Akureyrarstofu - 137. fundur - 21.02.2013

Eins og fram kom á síðasta fundi stjórnar er nýlokið fyrstu vinnufundum við mótun atvinnustefnu bæjarins þar sem dregnar voru upp svonefndar sviðsmyndir af þróun Akureyrar og nágrennis til ársins 2030. Helena Þ. Karlsdóttir fulltrúi S-lista bar fram fyrirspurn um hvernig þátttakendur í fundunum voru valdir.
Fram kom að boðað var til sviðsmyndafundanna samkvæmt forskrift frá ráðgjafafyrirtækinu sem undirbjó og annaðist framkvæmd þeirra og að ekki var gert ráð fyrir að Akureyrarbær ætti þar fleiri fulltrúa en einstakir geirar atvinnulífsins.

Hildur Friðriksdóttir fulltrúi V-lista og Helena Þ. Karlsdóttir fulltrúi S-lista í stjórn Akureyrarstofu óska bókað:

Við viljum hér með lýsa furðu okkar yfir því að stjórn Akureyrarstofu skyldi ekki verið boðuð á ofangreinda fundi þar sem stjórn Akureyrarstofu ber ábyrgð á málaflokknum.

Stjórn Akureyrarstofu - 142. fundur - 23.05.2013

Farið var yfir stöðuna á vinnu við mótun atvinnustefnu fyrir Akureyri.

Stjórn Akureyrarstofu - 150. fundur - 14.11.2013

Hreinn Þór Hauksson verkefnisstjóri atvinnumála á Akureyrarstofu mætti á fundinn og fór yfir greiningu gagna frá Ríkisskattstjóra sem hann hefur unnið að. Greiningin gefur gleggri mynd af rekstri og umfangi mismunandi greina í atvinnulífinu á Akureyri en völ hefur verið á hingað til.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar Hreini fyrir afar greinargóðar upplýsingar og gagnlegar umræður.

Stjórn Akureyrarstofu - 153. fundur - 09.01.2014

Fjallað var sérstaklega um kafla um hlutverk sveitarfélagsins í atvinnustefnunni, hvernig það er afmarkað og hvað leiðir af þeirri afmörkun.
Hreinn Þór Hauksson verkefnisstjóri atvinnumála á Akureyrarstofu sat fundinn undir þessum lið.

Stjórn Akureyrarstofu - 155. fundur - 13.02.2014

Farið yfir lokadrög að kafla um hlutverk sveitarfélagsins í atvinnustefnunni. Gert er ráð fyrir að lokadrög að heildarstefnunni verði lögð fyrir næsta fund stjórnar.
Hreinn Þór Hauksson verkefnisstjóri atvinnumála á Akureyrarstofu sat fundinn undir þessum lið.

Stjórn Akureyrarstofu - 157. fundur - 06.03.2014

Lögð fram drög að atvinnustefnunni sem nú er í lokavinnslu.
Hreinn Þór Hauksson verkefnisstjóri atvinnumála á Akureyrarstofu sat fundinn undir þessum lið og fór yfir drögin. Stefnan verður tekin til endanlegrar afgreiðslu á næsta fundi stjórnar.

Stjórn Akureyrarstofu - 158. fundur - 20.03.2014

Farið var yfir nýjustu drög að atvinnustefnunni og athugasemdir við þau.
Hreinn Þór Hauksson verkefnisstjóri atvinnumála sat fundinn undir þessum lið.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að fela verkefnisstjóra atvinnumála og fulltrúum stjórnarinnar í fagstjórn stefnumótunarvinnunnar að taka afstöðu til breytingatillagna. Drögin verða tekin til lokaafgreiðslu á næsta fundi stjórnar.

Stjórn Akureyrarstofu - 159. fundur - 27.03.2014

Atvinnustefna Akureyrar tekin til lokaafgreiðslu frá stjórninni. Farið var yfir þær hugmyndir og tillögur sem fram komu á lokastigum vinnunnar þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn fóru sérstaklega yfir hana með verkefnisstjóra atvinnumála á Akureyrarstofu.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir fyrirliggjandi drög.

 

Jóhann Jónsson fulltrúi S-lista í stjórninni óskar bókað: Ég fagna þeirri vinnu sem hér hefur verið unnin og á mörgum þáttum hefur verið tekið m.a. hlutverki sveitarfélagins. Reynt hefur verið að ná sem mestri sátt meðal stjórnmálaflokka og ber að þakka fyrir það. Lítill tími hefur hins vegar gefist til að fara yfir breytingarnar sem hér eru til afgreiðslu og því sit ég hjá við þessa afgreiðslu.

Bæjarstjórn - 3353. fundur - 01.04.2014

1. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 27. mars 2014:
Atvinnustefna Akureyrar tekin til lokaafgreiðslu frá stjórninni. Farið var yfir þær hugmyndir og tillögur sem fram komu á lokastigum vinnunnar þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn fóru sérstaklega yfir hana með verkefnisstjóra atvinnumála á Akureyrarstofu.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir fyrirliggjandi drög.

Jóhann Jónsson fulltrúi S-lista í stjórninni óskar bókað: Ég fagna þeirri vinnu sem hér hefur verið unnin og á mörgum þáttum hefur verið tekið m.a. hlutverki sveitarfélagins. Reynt hefur verið að ná sem mestri sátt meðal stjórnmálaflokka og ber að þakka fyrir það. Lítill tími hefur hins vegar gefist til að fara yfir breytingarnar sem hér eru til afgreiðslu og því sit ég hjá við þessa afgreiðslu.

Bæjarstjórn samþykkir framlagða Atvinnustefnu Akureyrar 2014-2021 með 10 samhljóða atkvæðum.

Logi Már Einarssonar S-lista sat hjá við afgreiðslu.

Atvinnumálanefnd - 1. fundur - 27.02.2015

Atvinnustefna Akureyrarbæjar 2014-2021 lögð fram til kynningar.

Atvinnumálanefnd - 2. fundur - 01.04.2015

Farið var yfir verkefnalista atvinnustefnu Akureyrar 2014-2021 og rætt um næstu skref í tengslum við forgangsröðun og úrvinnslu verkefna.
Atvinnufulltrúa falið að vinna verkefnalistann áfram og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar.

Atvinnumálanefnd - 3. fundur - 10.04.2015

Farið var yfir stöðu verkefna úr atvinnustefnu Akureyrarbæjar.
Atvinnufulltrúa falið að vinna áfram að málinu.

Atvinnumálanefnd - 21. fundur - 11.05.2016

Ingibjörg Ólöf Isaksen formaður íþróttaráðs og Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála mættu til fundar við nefndina til að ræða verkefni í atvinnustefnu sem snúa að íþróttamálum. Undir þessum lið var einnig rætt um þær ábendingar sem komu fram í umræðum um stefnuræðu formanns atvinnumálanefndar á bæjarstjórnarfundi 1. mars síðastliðinn.Í framhaldi var farið í gegnum þær athugasemdir sem komu fram á bæjarstjórnarfundi við stefnuræðu formanns atvinnumálanefndar.
Atvinnumálanefnd þakkar Ingibjörgu og Ellerti fyrir komuna og fagnar því að góður gangur sé í verkefnum atvinnustefnu.

Atvinnumálanefnd - 23. fundur - 15.06.2016

Lögð var fram til umræðu samantekt um stöðu verkefna atvinnustefnu.

Stjórn Akureyrarstofu - 313. fundur - 11.02.2021

Til umræðu endurskoðun á atvinnustefnu Akureyrarbæjar.

Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður Akureyrarstofu gerði grein fyrir vinnu við endurskoðun stefnunnar.