Stjórn Akureyrarstofu

137. fundur 21. febrúar 2013 kl. 16:00 - 19:00 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Jón Hjaltason
  • Sigmundur Einar Ófeigsson
  • Helena Þuríður Karlsdóttir
  • Hildur Friðriksdóttir
  • Matthías Rögnvaldsson áheyrnarfulltrúi
  • Sigfús Arnar Karlsson áheyrnarfulltrúi
  • Unnsteinn Jónsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Dagskrá

1.Endurskoðun menningarstefnu Akureyrarbæjar - 2013-2018

Málsnúmer 2011020012Vakta málsnúmer

Farið yfir síðustu breytingar á drögum að stefnu Akureyrarbæjar í menningarmálum.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að senda drögin til umsagnar hjá þeim nefndum og stofnunum sem við sögu koma í menningarstefnunni.

2.Sjónlistamiðstöðin á Akureyri - skipulag og þróun

Málsnúmer 2012040129Vakta málsnúmer

Farið yfir drög að samþykkt fyrir Sjónlistamiðstöðina og síðustu breytingar á þeim.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir drögin með áorðnum breytingum.

3.Artic Services - klasasamstarf

Málsnúmer 2012110041Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu samþykkti í nóvember sl. að taka þátt í klasasamstarfi á vegum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, sem hefur það markmið að koma fyrirtækjum og þjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu á framfæri við mögulega verkkaupa á Grænlandi í tengslum við auðlindanýtingu. Samstarfið fór formlega af stað þann 15. febrúar sl. og er þátttaka í því mun meiri en gert var ráð fyrir í upphafi.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar því að verkefnið er komið af stað með þeim krafti sem raun ber vitni. Akureyrarstofa hefur mjög góða reynslu af klasasamstarfi um verkefni á sviði þróunar og eflingar ferðaþjónustu. Aðferðin mun vafalítið, einnig í þessu tilfelli, skila meiri krafti og árangri en einstakir aðilar gætu náð einir sér.

4.Starfslaun listamanna 2013 - Menningarsjóður

Málsnúmer 2013020041Vakta málsnúmer

Rætt um breytingu á starfslaunum listamanna. Stjórn Akureyrarstofu gerði tillögu til bæjarráðs á síðasta ári um að rekstrarafgangur sá sem Menningarfélagið Hof skilaði til Akureyrarbæjar, að upphæð 1,5 mkr. yrði nýttur til að auka svigrúm Menningarsjóðs Akureyrar.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að nýta aukið svigrúm Menningarsjóðs þannig að starfslaunamánuðum verði fjölgað um 2 næstu þrjú ár en afgangurinn renni í Menningarsjóð á þessu ári.

5.Atvinnumál - upplýsingarit Akureyrarstofu

Málsnúmer 2013020233Vakta málsnúmer

Akureyrarstofa hefur í tilraunaskyni hafið útgáfu upplýsingarits um atvinnumál á Akureyri og nágrenni. Tilgangurinn er að að skapa reglubundna umræðu um málaflokkinn almennt og koma á framfæri þeim verkefnum sem Akureyrarstofa vinnur að hverju sinni á þessu sviði. Í ritinu munu birtast greinar skrifaðar af mætu áhugafólki um málaflokkinn, viðtöl og sögulegar frásagnir. Hugmyndin er að ritið komi út 6-8 sinnum á þessu ári og framhaldið verði metið að því loknu.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar útkomu upplýsingaritsins og bindur vonir við að það geti orðið til þess að auka sýnileika málaflokksins í samfélaginu.

Matthías Rögnvaldsson áheyrnarfulltrúi A-lista vék af fundi kl. 18:10.

6.Atvinnu- og nýsköpunarhelgin 2013 - aðkoma Akureyrarstofu

Málsnúmer 2013020239Vakta málsnúmer

Rætt um Atvinnu- og nýsköpunarhelgina 2013 og aðkomu Akureyrarstofu að henni. Til skoðunar er nú að halda hana helgina 5.- 7. apríl eða 19.- 21. apríl nk. Á síðasta ári lagði stjórn Akureyrarstofu 1 mkr. til verkefnisins auk þess að greiða kostnað vegna starfsmanns sem ráðinn var tímabundið í samvinnu við Vinnumálastofnun.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að leggja verkefninu lið með fjármunum og aðstoð við ráðningu starfsmanns fyrir allt að 1,2 mkr. Stuðningur Akureyrarstofu miði eins og á síðasta ári, að því að auka eftirfylgni og stuðning við þau verkefni sem lengst þróast, eftir að Atvinnu- og nýsköpunarhelginni lýkur.

7.Strandsiglingar til Akureyrar

Málsnúmer 2008020144Vakta málsnúmer

Stjórn Samskipa tilkynnti þá ákvörðun í dag að hefja strandsiglingar. Siglingaleiðin verður frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar og Reyðarfjarðar og þaðan til Immingham í Bretlandi og Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Kollafirði í Færeyjum. Frá Rotterdam heldur skipið heim á leið aftur til Reykjavíkur. Fram kemur í tilkynningu félagsins að viðkomustöðum verður hugsanlega fjölgað í framtíðinni.

Stjórn Akureyrarstofu fagnar þeirri beinu leið sem nú opnast við viðskiptalönd okkar í Evrópu.

8.Verkefnisstjórn um mótun atvinnustefnu

Málsnúmer 2011110167Vakta málsnúmer

Eins og fram kom á síðasta fundi stjórnar er nýlokið fyrstu vinnufundum við mótun atvinnustefnu bæjarins þar sem dregnar voru upp svonefndar sviðsmyndir af þróun Akureyrar og nágrennis til ársins 2030. Helena Þ. Karlsdóttir fulltrúi S-lista bar fram fyrirspurn um hvernig þátttakendur í fundunum voru valdir.
Fram kom að boðað var til sviðsmyndafundanna samkvæmt forskrift frá ráðgjafafyrirtækinu sem undirbjó og annaðist framkvæmd þeirra og að ekki var gert ráð fyrir að Akureyrarbær ætti þar fleiri fulltrúa en einstakir geirar atvinnulífsins.

Hildur Friðriksdóttir fulltrúi V-lista og Helena Þ. Karlsdóttir fulltrúi S-lista í stjórn Akureyrarstofu óska bókað:

Við viljum hér með lýsa furðu okkar yfir því að stjórn Akureyrarstofu skyldi ekki verið boðuð á ofangreinda fundi þar sem stjórn Akureyrarstofu ber ábyrgð á málaflokknum.

Fundi slitið - kl. 19:00.