Atvinnumálanefnd

23. fundur 15. júní 2016 kl. 16:00 - 18:00 Fundarsalur á 2. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Matthías Rögnvaldsson formaður
  • Jóhann Jónsson
  • Erla Björg Guðmundsdóttir
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Margrét Kristín Helgadóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Albertína Friðbjörg Elíasdóttir verkefnastjóri atvinnumála ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
Dagskrá
Elías Gunnar Þorbjörnsson D-lista boðaði forföll fyrir sig og varamann sinn.

1.Úthlutanir Tækniþróunarsjóðs

Málsnúmer 2016060071Vakta málsnúmer

Rætt var um styrkúthlutanir Tækniþróunarsjóðs og halla á úthlutun til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins.
Atvinnumálanefnd Akureyrar lýsir yfir áhyggjum eftir síðustu úthlutun Tækniþróunarsjóðs sem fór fram í lok maí síðastliðnum. Alls er úthlutað styrkjum til 67 fyrirtækja, stofnana og háskóla, allt að átta hundruð milljónum króna. Aðeins þrír styrkjanna fara til fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Þegar litið er til þess hluta úthlutunarinnar er snýr að hagnýtum rannsóknarverkefnum fer enginn styrkur til háskóla- eða rannsóknarstofnunar utan höfuðborgarsvæðisins. Þróun undanfarinna ára virðist vera á þann veg að hlutfall úthlutaðra styrkja til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins fari lækkandi.


Fjölmargar ástæður geta verið að baki. Atvinnumálanefnd telur mikilvægt að þessi halli verði tekinn til skoðunar með aðkomu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Kanna þarf hvort mögulega séu fáar umsóknir að berast utan höfuðborgarsvæðisins, hvort umsóknir utan höfuðborgarsvæðisins séu síðri eða hvort mögulega sé einhver hneigð í kerfinu til að styrkja frekar umsóknir sem berast frá aðilum á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar slíkrar athugunar yrði unnin áætlun um úrbætur.


Þá bendir atvinnumálanefnd á að aðeins einn fulltrúi í stjórn og fagráði Tækniþróunarsjóðs virðist vera búsettur utan höfuðborgarsvæðisins og er sá aðili í Borgarnesi. Þá verður að benda á að af þremur stærstu háskólum landsins eiga tveir þeirra fulltrúa í fagráði Tækniþróunarsjóðs, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík en Háskólinn á Akureyri engan. Þá á Háskólinn á Bifröst einnig fulltrúa í fagráðinu. Atvinnumálanefnd skorar á ráðherra iðnaðar- og viðskipta að stuðla að því að þessu verði breytt án tafar.

2.Reglur um stuðning við frumkvöðla og fyrirtæki

Málsnúmer 2003010019Vakta málsnúmer

Lögð var fram til umræðu samantekt verkefnastjóra atvinnumála um leiðir sem hafa verið farnar erlendis varðandi stuðning við frumkvöðlastarfsemi og smærri fyrirtæki.

3.Frumkvöðlasetur á Akureyri

Málsnúmer 2015110232Vakta málsnúmer

Lagt var fram minnisblað verkefnastjóra atvinnumála um stöðu mála vegna undirbúnings stofnunar frumkvöðlaseturs á Akureyri.
Verkefnastjóra atvinnumála falið að vinna málið áfram.

4.Atvinnustefna Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2011110167Vakta málsnúmer

Lögð var fram til umræðu samantekt um stöðu verkefna atvinnustefnu.

Fundi slitið - kl. 18:00.