Skipulagsráð

295. fundur 11. júlí 2018 kl. 08:00 - 10:35 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson varaformaður
  • Grétar Ásgeirsson
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá
Grétar Ásgeirsson B-lista mætti í forföllum Tryggva Más Ingvarssonar.
Ólína Freysteinsdóttir S-lista eða varamaður hennar mættu ekki til fundarins.

1.Holtagata 9 - umsókn um fjölgun eigna

Málsnúmer 2018050208Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarráðs þann 28. júní sl. var tekin fyrir beiðni Kristjáns E. Hjartarsonar f.h. eigenda Holtagötu 9, sem barst með bréfi dagsettu 31. maí um endurupptöku máls er varðar umsókn um skiptingu íbúðarhúss við Holtagötu 9 í tvær íbúðareignir. Skipulagsráð hafnaði umsókninni á fundi 30. maí þar sem hún samræmist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins. Féllst bæjarráð á endurupptöku másins vegna viðbótarupplýsinga sem borist hafa og vísar málinu að nýju til afgreiðslu skipulagsráðs.
Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag sem tók gildi 15. júlí 2015. Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að viðfangsefni deiliskipulagsins sé m.a. að endurskoða umferðarmál í hverfinu vegna umferðarvandamála þar sem víða eru þröngar götur sem sumar hverjar eru með einstefnu. Þá er tilgreint að um sé að ræða fullbyggt íbúðarhverfi og sérstaklega tekið fram að ekki sé heimilt að breyta fjölda íbúða í núverandi íbúðarhúsum fyrir utan Þingvallastræti 18. Var þetta ákvæði sett inn þar sem ekki var talið æskilegt að gefa möguleika á fjölgun íbúða í hverfinu sem aftur gæti aukið á fyrirliggjandi umferðarvanda. Með því að leyfa skiptingu Holtagötu 9 í tvær íbúðareignir væri verið að skapa fordæmi sem gæti haft neikvæð áhrif í för með sér til lengri tíma litið. Þá bendir skipulagsráð einnig á að inngangur inn í nýja íbúð er frá baklóð hússins.

Skipulagsráð hafnar því erindinu.

Arnfríður Kristjánsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.

2.Þórunnarstræti 106 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2018060611Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. júní 2018 þar sem Haraldur S. Árnason fyrir hönd Daníels Smárasonar sækir um fjölgun eigna í Þórunnarstræti 106 úr tveimur í þrjár íbúðir.
Skipulagsráð hafnar erindinu með vísun í ákvæði gildandi deiliskipulags um að ekki sé heimilt að breyta fjölda íbúða í núverandi íbúðarhúsum.

3.Hafnarstræti 102 - umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum og breyttri notkun

Málsnúmer 2018050225Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarráðs þann 5. júlí sl. var tekið fyrir erindi Ingólfs F. Guðmundssonar dagsett 26. júní 2018 f.h. LF2 ehf., eigenda húseignarinnar að Hafnarstræti 102, þar sem óskað var endurupptöku á afgreiðslu skipulagssviðs á beiðni eiganda um breytingu á notkun 4. hæðar hússins úr skrifstofuhúsnæði í hótel- og gistiaðstöðu. Féllst bæjarráð á endurupptöku og vísaði afgreiðslu málsins til skipulagsráðs.
í ljósi þess að húsið við Hafnarstræti 102 er allt skráð sem ein fasteign þar sem þegar er búið að breyta 1.- 3. hæð í veitinga- og gistihúsnæði gerir meirihluti skipulagsráðs ekki athugasemd við að 4. hæð verði breytt til samræmis við þá nýtingu. Byggingarfulltrúi afgreiðir umsókn um byggingarleyfi þegar hún berst.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista greiddi atkvæði gegn afgreiðslunni.

4.Naust 2 - ósk um viðræður og rekstrarleyfi fyrir glamping svæði

Málsnúmer 2018050291Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju, erindi Magna Rúnars Magnússonar og Hörpu Birgisdóttur, dagsett 12. maí 2018, um viðræður um rekstur á "glamping" (glamorous camping) á Naustum 2. Var afgreiðslu málsins frestað á fundi skipulagsráðs þann 27. júní sl. og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að ræða við umsækjendur um framhald málsins. Kom Magni á fund sviðsstjóra þann 3. júlí sl. og í kjölfarið var sent inn nýtt erindi dagsett 4. júlí.
Forsenda uppbyggingar á svæðinu er að gerð verði breyting á aðalskipulagi og deiliskipulagi svæðisins. Í nýstaðfestu aðalskipulagi sveitarfélagsins er umrætt svæði skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota þar sem heimilt er að nota þegar byggð hús til íbúðar.

Skipulagsráð telur að ekki séu forsendur að svo stöddu til að breyta stefnumörkun aðalskipulagsins og heimila uppbyggingu þjónustu í samræmi við fyrirliggjandi erindi.

5.Óseyri 33 - umsókn um byggingarleyfi fyrir hreinsistöð

Málsnúmer 2017020126Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. júlí 2018 þar sem Gísli Kristinsson fyrir hönd Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um undanþágu frá kröfum um breytingu á deiliskipulagi vegna óverulegra frávika á hæð byggingar fyrir hreinsistöð á lóð nr. 33 við Óseyri. Meðfylgjandi er teikning eftir Gísla Kristinsson.
Með vísun í ákvæði 3. mgr. 43. gr. skiplagslaga nr. 123/2010 telur skipulagsráð að um svo óverulegt frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að frávikið verði samþykkt.

6.Miðhúsavegur 4 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2018070085Vakta málsnúmer

Erindi móttekið 29. júní 2018 þar sem Jón Björnsson fyrir hönd Verkvals ehf., 530887-1709, sækir um leyfi til að setja upp olíugeymi og dælubúnað til hreinsunar olíumengaðs vatns auk safntanks og gáms til afvötnunar fitu úr fituskiljum við Miðhúsaveg 4. Meðfylgjandi er umsögn Norðurorku dagsett 28. júní 2018.
Frestað.

7.Þingvallastræti 31 - umsókn um niðurrif og endurbyggingu

Málsnúmer 2018060096Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. júní 2018 þar sem Valþór Brynjarsson fyrir hönd Sóllands ehf., kt. 490505-1210, sækir um leyfi til niðurrifs og endurbyggingar húss nr. 31 við Þingvallastræti. Meðfylgjandi er matsgerð og umsögn arkitekta um ástand hússins.
Skipulagsráð samþykkir umsókn um niðurrif á húsi nr. 31 við Þingvallastræti. Einnig er samþykkt að byggt verði nýtt hús á lóðinni en formlegri afstöðu til þess er frestað þar til fyrir liggja tillöguteikningar sem sýna útlit og afstöðu. Bent er á að gæta þarf samræmis á útliti nýs húss við nærliggjandi umhverfi. Byggingarfulltrúi afgreiðir umsókn um niðurrif og umsókn um byggingarleyfi fyrir húsi þegar umsókn um það berst.

8.Ránargata 27 - fyrirspurn vegna breytinga

Málsnúmer 2018060069Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. júní 2018 þar sem Ríkharður Ólafur Ríkharðsson og Bryndís Vilhjálmsdóttir leggja inn fyrirspurn varðandi endurbætur á húsi nr. 27 við Ránargötu. Fyrirhuguð er endurbygging þaks með kvistum og bygging á sólpalli á þaki bílgeymslu. Meðfylgjandi er uppdráttur sem sýnir grunnmynd og útlit hússins eftir breytingar.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna fyrirspurnina skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Fylgiskjöl:

9.Víðivellir 12 - umsókn um bílastæði og byggingarrétt

Málsnúmer 2016050013Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. júní 2018 þar sem Benedikt Sveinbjörnsson og Sólveig Jónsdóttir sækja um leyfi fyrir breytingu og stækkun íbúðar um u.þ.b. 30 fermetra auk þess sem þau endurnýja umsókn sína frá 29. apríl 2016 um bílastæði og byggingarrétt fyrir bílskúr á lóð sinni. Skipulagsnefnd tók málið fyrir 1. júní 2016 og vísaði því til gerð skipulags Oddeyrar. Umsækjendur óska eftir að skipulagsráð taki málið fyrir þar sem vinna við skipulagið er ekki hafin. Meðfylgjandi eru teikningar.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna erindi um stækkun íbúðarhúss þegar umsókn um byggingarleyfi fyrir henni berst.


Skipulagsráð getur ekki orðið við umsókn um nýtt bílastæði og bílskúrsrétt vegna staðsetningar á núverandi hraðahindrum. Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við umhverfis- og mannvirkjasvið um mögulega færslu hraðahindrunarinnar.

10.Tangabryggja - framkvæmdarleyfi

Málsnúmer 2018070073Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. júlí 2018 þar sem Pétur Ólafsson fyrir hönd Hafnasamlags Norðurlands, kt. 650371-2919, sækir um framkvæmdarleyfi fyrir lengingu á Tangabryggju til suðurs um 168 m. Eftir lengingu verður bryggjukanturinn í heild 370 m langur.
Framkvæmdin fellur undir lið 10.14 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Hún er tilkynningarskyld til leyfisveitanda, þ.e. Akureyrarkaupstaðar, sem ákvarðar hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum áður en framkvæmdarleyfi verður veitt. Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur Akureyrarkaupstaður farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila. Niðurstaða er að lenging Tangabryggju sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmdar við lengingu Tangabryggju, sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag, og samþykkir útgáfu framkvæmdarleyfisins á grundvelli 5. gr.- g "Samþykktar um skipulagsráð". Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdarleyfisins: Framkvæmdin skal vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarkaupstað en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

11.Hamrar moldarflutningar - framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2018070139Vakta málsnúmer

Erindi móttekið 5. júlí 2018 þar sem Kristinn Magnússon fyrir hönd umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, og Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um framkvæmdaleyfi til að flytja mold/jarðveg úr Hagahverfi upp á tjaldsvæðið að Hömrum þar sem moldin verður nýtt í landmótun fyrir nýjar tjaldflatir í samræmi við gildandi deiliskipulag. Einnig er sótt um gerð aðkomuslóða vegna þessa og færslu á læk fyrir ofanvatn. Meðfylgjandi er umsókn með afstöðumynd.
Framkvæmdirnar falla undir lið 2.04 og 12.07 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þær eru tilkynningarskyldar til leyfisveitanda, þ.e. Akureyrarkaupstaðar, sem ákvarðar hvort framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum áður en framkvæmdaleyfi verður veitt. Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur Akureyrarkaupstaður farið yfir tilkynningu framkvæmdaaðila. Niðurstaðan er að losun á mold/jarðvegi til að útbúa nýjar flatir fyrir tjaldsvæðið á Hömrum sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skulu framkvæmdirnar ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi gögn vegna framkvæmdanna, sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag, og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 5. gr.- g "Samþykktar um skipulagsráð".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins: Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarkaupstað en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

Umsækjandi skal hafa samráð við Norðurorku, Rarik og Landsnet vegna lagna þeirra á svæðinu.

12.Norðurvegur 17 - fyrirspurn um lóð til umráða og stöðuleyfi fyrir skúr

Málsnúmer 2017070016Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju erindi þar sem Þórdís Katla Einarsdóttir óskar eftir að sameina lóðirnar Norðurveg 17 og 17b í Hrísey samkvæmt mælingum og teikningu frá Karli M. Valtýssyni. Skipulagsráð frestaði erindinu 12. júlí 2017 og óskaði eftir útmælingu lóðanna samkvæmt fyrirliggjandi lóðasamningum.
Skipulagsráð samþykkir að lóðirnar verði sameinaðar en hafnar stækkun lóðarinnar að Brekkugötu.

13.Lækjargata 13 - lóð boðin til kaups

Málsnúmer 2018060307Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarráðs þann 21. júní sl. var tekið fyrir erindi dagsett 14. júní 2018 frá Matthildi Ágústsdóttur þar sem hún lýsir yfir áhuga á að leggja lóðina Lækjargötu 13 inn til Akureyrarbæjar ef semst um lóðarverð. Var samþykkt að vísa erindinu til umsagnar skipulagsráðs. Jafnframt að kanna hver staðan sé við vinnu vegna stefnu um uppkaup eigna sem á að færa eða rífa.
Skipulagsráð mælir með að lóðin Lækjargata 13 verði keypt ef semst um lóðarverð.

Vinna vegna stefnumótunar um uppkaup eigna sem þyrfti að færa eða rífa hefur ekki farið af stað enn sem komið er. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði sett af stað á næstu mánuðum.

14.Gudmannshagi 2 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2018060613Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. júní 2018 þar sem Björn Traustason fyrir hönd Bjargs íbúðafélags hses, kt. 490916-0670, sækir um lóðina nr. 2 við Gudmannshaga. Meðfylgjandi er staðfesting Akureyrarbæjar dagsett 13. nóvember 2017 á samstarfi við Bjarg íbúðafélags um úthlutun lóða undir 75 íbúðir á þremur árum og að lóðin Gudmannshagi 2 hafi verið tekin frá í þeim tilgangi.
Skipulagsráð samþykkir að úthluta lóðinni Gudmannshagi 2 til Bjargs íbúðafélags með vísun í áður útgefið vilyrði. Úthlutun er með fyrirvara um staðfestingu á stofnframlagi frá Íbúðalánasjóði og byggingarhæfi lóðarinnar. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

15.Goðanes 2 - umsókn um lóðarstækkun

Málsnúmer 2017100411Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi dagsett 24. október 2017 þar sem Guðmundur Hjálmarsson fyrir hönd G. Hjálmarssonar hf., kt. 630196-3619, sækir um lóðarstækkun á lóð nr. 2 við Goðanes. Um er að ræða 10.114 fermetra stækkun norðan núverandi lóðar. Meðfylgjandi er uppdráttur sem sýnir fyrirhugaða stækkun. Á fundi skipulagsráðs 15. nóvember 2017 var bókað að ekki væri hægt að verða við beiðni um stækkun vegna ósamræmis við aðalskipulag. Í nýstaðfestu aðalskipulagi hefur athafnasvæðið verið stækkað til að gera ráð fyrir mögulegri lóðarstækkun. Guðmundur Hjálmarsson ítrekar fyrra erindi um lóðarstækkun með bréfi dagsettu 14. júní 2018.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi til samræmis við fyrirliggjandi umsókn um lóðarstækkun í samráði við eigendur nágrannalóða. Umsækjandi greiði kostnað við breytingu deiliskipulagsins.
Fylgiskjöl:

16.Austurbrú 2-4 - skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis

Málsnúmer 2018070030Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. júlí 2018 þar sem Gunnar Karlsson fyrir hönd Austurbrúar 2-4 húsfélags, kt. 440618-1030, óskar eftir upplýsingum um hvernig Akureyrarbær muni haga umsögn um leyfi til að reka leyfisskyldan gistirekstur í húsinu, berist embættinu umsókn um það.
Skipulagssvið í samráði við Alta ráðgjafafyrirtæki er um þessar mundir að vinna að gerð stefnumótunar um rekstrarleyfisskylda gistingu á Akureyri. Þeirri vinnu er ekki lokið og liggur því ekki fyrir að svo stöddu hvernig skipulagsráð muni taka á umsögn um leyfi til að reka leyfisskyldan gistirekstur í Austurbrú 2-4. Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki á næstu mánuðum og ef niðurstaðan er að heimila leyfisskyldan gistirekstur í íbúðarhúsum á ákveðnum stöðum þarf að breyta aðalskipulagi sveitarfélagsins. Ef sú leið verður farin, verður slík breyting kynnt hagsmunaaðilum með formlegum hætti.

17.Hálönd - umsókn um heimild til deiliskipulags

Málsnúmer 2017030536Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að deiliskipulagi 3. áfanga Hálanda í landi Hlíðarenda. Tillagan var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga þann 16. maí 2018 með athugasemdafresti til 27. júní 2018. Engin athugasemd barst.

Á kynningartíma bárust nýjar umsagnir frá Vegagerðinni dagsett 26. júní 2018, Minjastofnun Íslands dagsett 5. júní 2018 og Norðurorku dagsett 27. júní 2018.

Er tillagan nú lögð fram með eftirfarandi breytingum frá auglýstri tillögu:


1. Gögn lagfærð með vísun í nýstaðfest aðalskipulag.

2. Bætt er við kvöð um lagnir í gegnum lóðir austast á skipulagssvæðinu (lóðir 6 og 8 í götu G1)sbr. umsögn Norðurorku.

3. Merking mögulegra fornleifa fjarlægð sbr. umsögn Minjastofnunar.

4. Tvær lóðir við götu G2 færast að götu G3. Númer lóða við götu G2 og G3 breytast til samræmis.

5. Leiksvæði við götu G3 færist til suðurs að enda götunnar.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagið með ofangreindum breytingum verði samþykkt og feli sviðsstjóra skipulagssviðs að annast gildistöku þess.

18.Tónatröð 2 og 4 - fyrirspurn

Málsnúmer 2018030427Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. apríl 2018 þar sem Júlíus Þór Júlíusson fyrir hönd Hoffells ehf., kt. 500118-0670, óskar eftir samþykki á breyttu skipulagi á lóðum nr. 2 og 4 við Tónatröð. Meðfylgjandi eru myndir sem sýna tillögu að útliti hússins auk afstöðumyndar.
Skipulagsráð hafnar erindinu þar ekki er talið að 6 íbúða fjölbýlishús samræmist útliti og yfirbragði nærliggjandi byggðar.

19.Oddeyrarbót 2 - ósk um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2018060488Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi Svans Daníelssonar fyrir hönd Hvalaskoðunar Akureyrar ehf., kt. 480116-0700, dagsett 19. júní 2018, þar sem óskað er eftir að skilmálum deiliskipulags sem ná til lóðarinnar Oddeyrarbót 2 verði breytt þannig að heimilt verði að byggja þar 300 fm hús á tveimur hæðum. Samkvæmt núgildandi skilmálum er heimilt að byggja allt að 200 fm hús á einni hæð. Meðfylgjandi eru drög að mögulegu útliti byggingar. Skipulagsráð frestaði afgreiðslu málsins á fundi 27. júní. Til viðbótar ofangreindum gögnum liggur nú fyrir bókun Hafnasamnlags Norðurlands frá 5. júlí sl. þar sem ekki er gerð athugasemd við breytingu á deiliskipulagi svæðisins.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir ekki að deiliskipulagi svæðisins verði breytt í samræmi við umsókn. Að mati ráðsins er mikilvægt að hús á þessu svæði verði lágstemmd og ekki áberandi í umhverfinu.

Þórhallur Jónsson D-lista greiddi atkvæði með umsókninni.

20.Tryggvabraut - deiliskipulag

Málsnúmer 2018040295Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs 2. maí 2018 var samþykkt að hefja vinnu við gerð deiliskipulags á svæði milli Tryggvabrautar og Glerár. Nú liggur fyrir lýsing deiliskipulags sem unnin er af Eflu fyrir svæði norðan Tryggvabrautar milli Þórsstígs og Hjalteyrargötu. Þegar lýsingin hefur fengið lögbundna meðferð er gert ráð fyrir að sameina deiliskipulagsvinnu þessa svæðis við gerð deiliskipulags sem hefur verið í gangi fyrir gatnamót Glerárgötu og Tryggvabrautar og svæðis að Þórsstíg. Þegar hefur verið kynnt skipulagslýsing fyrir það svæði.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að lýsingin verði samþykkt og að hún verði kynnt skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

21.Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 - beiðni um umsögn

Málsnúmer 2016110180Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi dagsett 6. júní 2018 þar sem Vigfús Björnsson fyrir hönd Eyjafjarðarsveitar vekur athygli á tillögu að aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 sem nú er til auglýsingar. http://www.esveit.is/is/stjornsysla/frettir/adalskipulag-eyjafjardarsveitar-2018-2030-tillaga-til-auglysingar .

Óskað er umsagnar Akureyrarbæjar. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi skipulagsráðs 20. júní og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að gera tillögu að umsögn.
Skipulagsráð gerir engar athugasemdir við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030.

22.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2018

Málsnúmer 2018010013Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 25. júní 2018. Lögð var fram fundargerð 682. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 16 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:35.