Skipulagsráð

413. fundur 29. nóvember 2023 kl. 08:15 - 11:47 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson
  • Sif Jóhannesar Ástudóttir
  • Jón Hjaltason
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sindri Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • María Markúsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Einar Sigþórsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá

1.Tjaldsvæðisreitur - endurskoðun deiliskipulags

Málsnúmer 2022061538Vakta málsnúmer

Lögð fram kynningargögn sem varða drög að endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit auk þess sem lögð eru fram drög að skýrslum er verða BREEAM vottun skipulagsins.
Jón Hjaltason óflokksbundinn óskar bókað eftirfarandi :

Á vestanverðum tjaldsvæðisreitnum, frá Hrafnagilsstræti að núverandi bílastæði við Berjaya hótel, skal koma fyrir neðanjarðar u.þ.b. 270 bílastæðum. Í þessu sambandi fer undirritaður fram á að bæjaryfirvöld láti kanna og svari eftirfarandi:


1. Hver eru möguleg áhrif slíkrar framkvæmdar á byggð vestan Byggðavegar?

Minni á í því sambandi jarðsig sem orðið hefur víða hér í bæ við framræsingu vatns, t.d. í Mýrunum.


2. Um langan aldur hefur jarðvatn leitað um tjaldsvæðið niður af brekkunni.

Mun umræddur bílakjallari stöðva þá framrás og þá með hvaða afleiðingum fyrir nálæga byggð?


3. Lagt verði mat á:

a. hvaða lagnir þarf að færa vegna framkvæmdanna,

b. kostnað við þær framkvæmdir,

c. hver komi til með að bera þann kostnað?


4. Hver er áætlaður kostnaður við að rífa húsin við Þórunnarstræti 97, verslunarhúsið við Byggðaveg 98 og spennistöð við Byggðaveg 98a?

Hverjum er ætlað að bera þann kostnað?


Þórhallur Jónsson D-Lista óskar bókað eftirfarandi :

Ég legg til að skoðað verði með að byggja þéttar og hærra allt að 5-6 hæðir á suðaustur hluta Tjaldstæðisreitsins og nýta betur. Á þeim hluta mætti fjölga íbúðum um allt að 40-60 og setja bílakjallara undir það hús. Skuggavarp af því húsi væri að mestu á bílaplan Íþróttahallarinnar. Þannig mætti gera það enn hagkvæmara að byggja á svæðinu.

2.Akureyrarvöllur - skipulag

Málsnúmer 2023030895Vakta málsnúmer

Samkvæmt starfsáætlun skipulagsráðs er gert ráð fyrir að vinna við gerð skipulags fyrir Akureyrarvöll hefjist árið 2024 auk þess sem umræða um uppbyggingu svæðisins var á dagskrá bæjarstjórnar 21. mars sl.
Meirihluti skipulagsráðs felur skipulagsfulltrúa að hefja samtal við Arkitektafélag Íslands varðandi útfærslu á hönnunarsamkeppni fyrir endurskipulagningu Akureyrarvallar.


Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við afgreiðslu málsins og óskar bókað eftirfarandi :

Áður en lengra er haldið skal kanna viðhorf Akureyringa til íþróttavallarins við Hólabraut. Vilja bæjarbúar fá þar friðlýst svæði til almenningsnota - fólkvang - eða skal völlurinn nýttur til þéttingar byggðar?

3.Akureyrarflugvöllur - umsókn um endurskoðun deiliskipulags

Málsnúmer 2023030991Vakta málsnúmer

Auglýsingu tillögu að endurskoðun deiliskipulags Akureyrarflugvallar lauk þann 20. nóvember sl. Ein athugasemd barst ásamt umsögnum frá Minjastofnun og Landsneti.
Afgreiðslu frestað þar til liggja fyrir viðbrögð umsækjanda við athugasemdum.

4.Hulduholt 31 - umsókn um nýja lóð

Málsnúmer 2023111013Vakta málsnúmer

Erindi þar sem Ágúst Hafsteinsson f.h. Guðlaugs Óla Þorlákssonar óskar eftir því að lóð við Hulduholt 31, þar sem Guðlaugur er lóðarhafi, verði felld út og Guðlaugi verði úthlutað lóð nr. 29 í staðinn.

Einnig er óskað eftir að lóð nr. 29 verði stækkuð til austurs til að koma til móts við erfitt byggingarland.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu þar til fyrir liggur álit óháðs sérfræðings um byggingarhæfi lóðarinnar.

5.Goðanes 3 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2023111075Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 29. október 2023 þar sem Rögnvaldur Harðarson f.h. BB byggingar ehf., sækir um byggingaráform og byggingarleyfi fyrir atvinnuhúsnæði á lóð nr. 3 við Goðanes. Einnig er sótt um hækkun á gólfkóta um 40 cm. Innkomnar teikningar eftir Rögnvald Harðarson.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún grenndarkynnt skv. 44. gr. laganna. Grenndarkynnt skal fyrir lóðarhöfum Goðanesi 1b, 4, 6 og 8 ásamt lóðarhöfum Njarðarnesi 4, 6 og 8. Einnig skal leitað umsagna Norðurorku og umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

6.Stækkun á lóð Hlíðarbrautar 2 - fyrirspurn

Málsnúmer 2023111082Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Ómars Ívarssonar hjá Landslagi dagsett 24. nóvember 2023, f.h. Orkunnar ehf., þar sem óskað er eftir stækkun lóðarinnar til norðurst um 25 m eða 2.200 fm. Er gert ráð fyrir að á því svæði sem stækkun nær til verði reist bílaþvottastöð og vetnisstöð til áfyllingar fyrir vetnisbíla.
Skipulagsráð hafnar erindi um stækkun lóðar þar sem á þessu svæði er samkvæmt deiliskipulagi lóð fyrir verslun- og þjónustu með umtalsverðu byggingarmagni. Er gert ráð fyrir að lóðin verði auglýst á næstu vikum.

7.Strandgata 49 - umsókn um breytta notkun

Málsnúmer 2023110871Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 21. nóvember 2023 þar sem Róbert Hasler Aðalsteinsson sækir um breytta notkun/breyttan rekstur á/í húsnæði við Standgötu 49, einnig þekkt sem Gránufélagshúsið, úr veitingastað í gistiheimili. Umsækjandi er eigandi húsnæðisins, lóðarinnar sem og aðliggjandi lóðar til norðurs.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna fyrir lóðarhöfum Strandgötu 47, 51 ásamt Kaldbaksgötu 1 og 2 umsókn um breytta notkun þar sem svæðið er í aðalskipulagi skilgreint sem athafnasvæði með fjölbreytta starfsemi.

8.Oddagata 7 - umsókn um svalir

Málsnúmer 2023110677Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. nóvember 2023 þar sem Ingibjörg Baldursdóttir f.h. eigenda að húseigninni Oddagötu 7 sækir um leyfi til að bæta við svölum á suðurhlið hússins á báðum hæðum.

Minjastofnun hefur móttekið erindi frá umsækjanda og samþykkir að af stað sé farið en vilji fylgjast með þar sem húsið er byggt 1933.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna áformin skv. 44. gr skipulagslaga 123/2010.

Grenndarkynnt skal fyrir lóðarhöfum Oddagötu 5 og 9 ásamt lóðarhöfum Gilsbakkarvegar 5 og 7.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

9.Vesturgil 22 - ósk um lóðarstækkun

Málsnúmer 2023110508Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. nóvember 2023 þar sem Tryggvi Tryggvason óskar eftir lóðarstækkun sbr. þær stækkanir sem Akureyrarbær bauð íbúum í þessum hluta Giljahverfis í kringum 2010.
Skipulagsráð hafnar erindinu.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

10.Gránufélagsgata 45 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2023021244Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi lóðarhafa Gránufélagsgötu 45 dagsett 22. nóvember 2023 þar sem óskað er eftir leyfi til að endurbyggja núverandi hús á lóðinni. Fram kemur að það sé mat Haraldar Árnasonar að stór hluti burðarvirkis sé ónýtt og það sama á við um þak og klæðningu. Er óskað eftir leyfi til að byggja léttbyggt hús sem er möguleiki á að færa til síðar. Yrði það svipað stórt og núverandi hús.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við að húsið verði endurbyggt með þeim hætti sem fram kemur í erindinu með þeim skilyrðum að húsið verði færanlegt.


Sindri Kristjánsson, S-lista óskar bókað eftirfarandi :

Áður en skipulagsráð tekur ákvörðun í þessu máli þarf að mínu áliti að liggja fyrir mat á fordæmisáhrifum þeirrar ákvörðunar fyrir svæðið í heild. Ég er ekki mótfallinn hugmyndum og áformum lóðarhafa en tel að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir samkvæmt framansögðu svo ákvörðunin geti talist upplýst að fullu.

11.Brekkugata 13A - rekstrarleyfi fyrir íbúð í skammtímaleigu

Málsnúmer 2023110235Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. nóvember 2023 þar sem Hjörtur Logi Dungal óskar eftir rekstrarleyfi fyrir íbúð að Brekkugötu 13A.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna fyrir lóðarhöfum Brekkugötu 11, 13b, 15, 6 og 8 umsókn um breytta notkun þar sem svæðið er í aðalskipulagi skilgreint sem miðsvæði.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

12.Grímsey - lóðir fyrir smáhýsi

Málsnúmer 2023110473Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. nóvember 2023 þar sem að hverfisráð Grímseyjar óskar eftir því að útbúin verði lóð fyrir smáhýsi í Grímsey sem geti leyst tímabundinn húsnæðisvanda sem verður til yfir háannatímann á sumrin.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsfulltrúa að ræða við hverfisnefnd Grímseyjar.

13.Vegagerðin - hringtorg við Lónsbakka

Málsnúmer 2023111015Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 23. nóvember 2023 þar sem Rúna Ásmundsdóttir f.h. Vegagerðarinnar óskar eftir því að skipulagsráð taki til umfjöllunar drög að hringtorgi við Lónsbakka.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við áformin.

14.Hörgársveit - beiðni um umsögn um endurskoðun Aðalskipulags Hörgársveitar 2012-2024

Málsnúmer 2023110602Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. nóvember 2023 þar sem Hörgársveit óskar umsagnar Akureyrarbæjar um skipulags- og matslýsingu fyrir endurskoðun Aðalskipulags Hörgársveitar 2012-2024.

Umsagnarfrestur er veittur til 13. desember 2023.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við skipulags- og matslýsingu fyrir endurskoðun Aðalskipulag Hörgársveitar. Bent er á ákvæði Landsskipulagsstefnu og Svæðisskipulags Eyjafjarðarðar um uppbyggingu nýrra þéttbýlisstaða.

15.Dalvíkurlína 2 - umsagnarbeiðni frá Hörgársveit

Málsnúmer 2022100587Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. nóvember 2023 þar sem Hörgársveit óskar umsagnar Akureyrarbæjar um tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 vegna Dalvíkurlínu 2 ásamt breytingu á legu reiðleiða og göngu- og hjólaleiðar.

Umsagnarfrestur er veittur til 1. janúar 2024.

Meðfylgjandi eru aðalskipulagsuppdráttur og greinargerð.
Skipulagsráðs gerir ekki athugasemd við aðalskipulagsbreytinguna.

16.Lækjargata - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2023101265Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn Stefáns Ármans Hjaltasonar dagsetta 26. október 2023 um óbyggðar lóðir í Lækjargili. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi eru lóðir á svæðinu sem ekki hefur verið úthlutað og hefur hann áhuga á að fá eina af þeim úthlutað til uppbyggingar í samræmi við skilmála deiliskipulagsins.
Árið 2018 hófst vinna við breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóða við Lækjargötu en sú vinna fór í bið sama ár. Í þeirri vinnu var m.a. verið að skoða hvort að gera þyrfti breytingar á aksturstefnu götu auk annarra minniháttar breytinga. Að mati skipulagsráðs er breyting á gildandi deiliskipulagi ekki forsenda þess að hægt sé að úthluta lóðum á svæðinu. Er skipulagsfulltrúa falið að undirbúa skilmála fyrir úthlutun lóða á svæðinu og leggja fyrir skipulagsráð.

17.Húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2019020182Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar 2024 auk þess sem lögð eru fram drög að samkomulagi við Innviðaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Akureyrarbæ og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis.

18.Fundaáætlun skipulagsráðs

Málsnúmer 2018120052Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að fundaáætlun skipulagsráðs fyrir árið 2024.

19.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022-2026

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 941. fundar, dagsett 16. nóvember 2023, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

20.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022-2026

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 942. fundar, dagsett 23. nóvember 2023, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:47.