Akureyrarvöllur - skipulag

Málsnúmer 2023030895

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3526. fundur - 21.03.2023

Umræða um framtíðarskipulag Akureyrarvallar.

Málshefjandi er Hilda Jana Gísladóttir. Til máls tóku Andri Teitsson, Jón Hjaltason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Hilda Jana Gísladóttir, Hlynur Jóhannesson og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.
Meirihlutinn óskar bókað:

Mikil uppbygging er að fara af stað á miðbæjarsvæðinu og í starfsáætlun skipulagsráðs er gert ráð fyrir að farið verði í hugmyndasamkeppni um Akureyrarvöll. Vinna við það hefur dregist, meðal annars vegna manneklu og mikilla anna í öðrum verkefnum. Fyrir liggur að halda kynningarfund um skipulagsmál á vormánuðum og opna fyrir betra Ísland þar sem íbúum gefst þá kostur á að koma á framfæri hugmyndum sínum að skilmálum fyrir hugmyndasamkeppnina.


Jón Hjaltason óháður óskar bókað:

Áður en lengra er haldið skal gerð almenn skoðanakönnun meðal Akureyringa og spurt hvort þeir vilji að íþróttasvæðið við Hólabraut verði nýtt til þéttingar byggðar eða varðveitt sem almennt útivistarsvæði.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað:

Það er einkennandi fyrir framtaksleysi meirihlutans að ennþá hafi ekkert verið aðhafst vegna undirbúnings við uppbyggingu á svæði Akureyrarvallar. Úr því sem komið er eru allar líkur á að engar framkvæmdir hefjist á svæðinu á þessu kjörtímabili. Mikilvægt er að vinna án frekari tafa að nýtingu þessa verðmæta byggingarlands, sem gæti skipt bæði atvinnu- og mannlíf miku máli. Þá ætti að skoða alvarlega þann valkost að setja Glerárgötuna í stokk miðsvæðis, með framkvæmd á kostnaðargreiningu sem og viðræðum við Vegagerðina.

Skipulagsráð - 413. fundur - 29.11.2023

Samkvæmt starfsáætlun skipulagsráðs er gert ráð fyrir að vinna við gerð skipulags fyrir Akureyrarvöll hefjist árið 2024 auk þess sem umræða um uppbyggingu svæðisins var á dagskrá bæjarstjórnar 21. mars sl.
Meirihluti skipulagsráðs felur skipulagsfulltrúa að hefja samtal við Arkitektafélag Íslands varðandi útfærslu á hönnunarsamkeppni fyrir endurskipulagningu Akureyrarvallar.


Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við afgreiðslu málsins og óskar bókað eftirfarandi :

Áður en lengra er haldið skal kanna viðhorf Akureyringa til íþróttavallarins við Hólabraut. Vilja bæjarbúar fá þar friðlýst svæði til almenningsnota - fólkvang - eða skal völlurinn nýttur til þéttingar byggðar?