Skipulagsráð

348. fundur 25. nóvember 2020 kl. 08:00 - 11:30 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Þórhallur Jónsson formaður
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Orri Kristjánsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Stígakerfi Akureyrar - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018020129Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem varðar nýtt stígakerfi innan sveitarfélagsins ásamt innkomnum athugasemdum og umsögnum. Þá er lögð fram tillaga að viðbrögðum við efni athugasemda og umsagna. Er þar gert ráð fyrir að gerðar verði nokkrar breytingar á skipulagstillögunni til að koma til móts við efni athugasemda og umsagna.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt með minniháttar breytingum til að koma til móts við innkomnar athugasemdir og umsagnir. Jafnframt að tillaga að umsögn við athugasemdum verði samþykkt en þar er greint frá þeim breytingum sem gerðar verða á skipulagsgögnum.

2.Tjaldsvæðisreitur - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2020090736Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar umsagnir sem bárust við kynningu á lýsingu aðalskipulagsbreytingar sem felst í að breyta landnotkun "tjaldsvæðisreitar" við Þórunnarstræti í miðsvæði. Bárust umsagnir frá hverfisnefnd Brekku og Innbæjar, Minjastofnun, Norðurorku og Skipulagsstofnun. Þá er jafnframt lagður fram tölvupóstur frá Skipulagsstofnun frá 19. nóvember 2020 varðandi skipulag heilsugæslustöðvar við Skarðshlíð.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna að gerð tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir tjaldsvæðisreit og einnig verði gert ráð fyrir breytingu á íbúðarsvæði við Skarðshlíð þar sem fyrirhugað er að byggja heilsugæslustöð fyrir norðurhluta bæjarins.

3.Oddeyri - breyting á aðalskipulagi 2018-2030

Málsnúmer 2019090318Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem felur í sér breytingu á hluta athafnasvæðis á Oddeyri í íbúðarsvæði til að koma til móts við athugasemdir sem fram koma í bréfi Skipulagsstofnunar dagsett 22. október 2020.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við breytingar á skipulagsgögnum og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að senda lagfærð gögn til Skipulagsstofnunar til athugunar.

4.Holtahverfi norður - deiliskipulag

Málsnúmer 2016040101Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur að breytingu á útfærslu deiliskipulags fyrir nyrsta hluta Holtahverfis.
Skipulagsráð tekur vel í tillögu að breytingu á skipulagstillögu svæðisins og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna að lagfæringum á tillögunni í samráði við skipulagsráðgjafa, umhverfis- og mannvirkjasvið og Búfesti. Æskilegt er að deiliskipulagið verði tilbúið til auglýsingar á næsta fundi skipulagsráðs.

5.Hvannavallareitur - deiliskipulag

Málsnúmer 2015030191Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu, tillaga að deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Glerárgötu 36. Var tillagan auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 24. júní 2020 með athugasemdafresti til 5. ágúst. Bárust þrjú athugasemdabréf auk umsagna frá Vegagerðinni, Minjastofnun, Norðurorku, hverfisnefnd Oddeyrar, ungmennaráði og öldungaráði. Þá er lögð fram tillaga sviðsstjóra skipulagssviðs að umsögn um innkomnar athugasemdir og umsagnir. Deiliskipulagstillagan er lögð fram með þeirri breytingu að gert er ráð fyrir að lóðinni Glerárgötu 36 sé skipt í tvær sjálfstæðar lóðir auk minniháttar breytinga í greinargerð.

Fyrir liggur samkomulag við lóðarhafa um skiptingu lóðarinnar.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt með minniháttar breytingu hvað varðar skilgreiningu lóðarmarka og að sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er lagt til að bæjarstjórn samþykki fyrirliggjandi tillögu að umsögn um innkomnar athugasemdir.

6.Gilsbakkavegur 15 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2018110149Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar sem nær til lóðarinnar Gilsbakkavegur 15 og svæðis sunnan við hana. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir stækkun núverandi húss til suðausturs sem felur í sér að lóðin stækkar um 39 m² auk þess sem færa þarf Gilsbakkaveg og bílastæði sem við hann liggja. Er gert ráð fyrir að húsið stækki um allt að 100 m² að grunnfleti og viðbyggingin geti verið á tveimur hæðum og risi. Tillagan var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 18. júní 2020 með athugasemdafresti til 22. júlí. Eitt athugasemdabréf barst.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við umsækjanda í samræmi við umræður á fundinum.

7.Kaupvangsstræti 16 - umsókn um breytingu skipulags

Málsnúmer 2019090106Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Miðbæjar Akureyrar sem nær til lóðarinnar Kaupvangsstrætis 16 í samræmi við bókun skipulagsráðs frá 1. apríl 2020. Í breytingunni felst að heimilt verði að bæta hæð ofan á núverandi hús, sem nýtt verður fyrir hótelgistingu, með hámarkshæð upp á 14,5 m. Nýtingarhlutfall hækkar úr 1,111 í 1,375 og heimilt verður að setja svalir sem geta náð 1,8 m út fyrir byggingarreit.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu.

8.Umhverfis- og loftslagsstefna Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2020110192Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar að nýju drög að umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar sem kemur kemur í stað núverandi umhverfis- og samgöngustefnu.

9.Landsskipulagsstefna um loftslag, landslag og lýðheilsu

Málsnúmer 2019030286Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. nóvember 2020 þar sem Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn um tillögu að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Frestur til að gera athugasemdir er til 8. janúar 2021.
Lagt fram til kynningar og afgreiðslu frestað.

10.Austurvegur 11 - fyrirspurn vegna byggingar bílgeymslu

Málsnúmer 2020100478Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi dagsett 15. október 2020 þar sem Teitur Björgvinsson leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílgeymslu við hús nr. 11 við Austurveg. Liggur nú fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar.

Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi umsókn. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er ekki talin þörf á grenndarkynningu þar sem fyrir liggur samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að sjá um gildistöku breytingarinnar þegar umsækjandi hefur sent inn fullnægjandi skipulagsuppdrátt.

11.Brálundur - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna þéttingar

Málsnúmer 2020110205Vakta málsnúmer

Fyrirspurn dagsett 9. nóvember 2020 þar sem Karen Sigurbjörnsdóttir kannar þéttingarmöguleika við Brálund. Meðfylgjandi er greinargerð.
Skipulagsráð þakkar áhugavert erindi en telur að svæðið við Brálund henti ekki til byggingar á fleiri einbýlishúsum. Svæðið er mikilvægt snjólosunarsvæði.

12.Goðanes 5 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2020110433Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. nóvember 2020 þar sem Akurberg ehf. sækir um lóð nr. 5 við Goðanes. Meðfylgjandi eru yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

13.Sómatún 29 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2020110251Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 9. nóvember 2020 þar sem BF Byggingar ehf. sækja um lóð nr. 29 við Sómatún. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka. Umsækjandi fyrirhugar að sækja um breytt deiliskipulag lóðarinnar til að fá að byggja fjögurra íbúða hús.
Skipulagsráð hafnar því að breyta deiliskipulagi lóðarinnar til samræmis við erindi. Að mati skipulagsráðs er ekki æskilegt að gera ráð fyrir fjölbýlishúsi á lóðinni.

14.Boginn - umsókn um skilti

Málsnúmer 2020110617Vakta málsnúmer

Erindi Íþróttafélagsins Þórs dagsett 19. nóvember 2020 þar sem sótt er um leyfi til að setja upp auglýsingaskjá á vesturstafn Bogans.
Skipulagsráð samþykkir erindið.

Fylgiskjöl:
Guðmundur Baldvin Guðmundsson fór af fundi kl. 11:00.

15.Gleráreyrar 1 - beiðni um rökstuðning vegna stækkunar skiltis

Málsnúmer 2020110292Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. nóvember 2020 þar sem Eik rekstrarfélag ehf. óskar eftir rökstuðningi vegna ákvörðunar skipulagsráðs að hafna beiðni um stækkun skiltis á lóð nr. 1 við Gleráreyrar, Glerártorg.
Afgreiðslu frestað þar til umsögn Vegagerðarinnar liggur fyrir.

16.Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (uppbygging innviða og íbúðarhúsnæðis), 275. mál

Málsnúmer 2020110562Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 18. nóvember 2020 frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (uppbygging innviða og íbúðarhúsnæðis), 275. mál 2020. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 2. desember nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is. Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/151/s/00307.html
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að koma á framfæri athugasemdum ráðsins og sviðsstjóra skipulagssviðs við frumvarpið.

17.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 789. fundar, dagsett 5. nóvember 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

18.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 790. fundar, dagsett 12. nóvember 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

19.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 791. fundar, dagsett 19. nóvember 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:30.