Skipulagsráð

324. fundur 09. október 2019 kl. 08:00 - 11:20 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Orri Kristjánsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Ólafur Kjartansson
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá
Ólafur Kjartansson V-lista mætti í forföllum Arnfríðar Kjartansdóttur.

1.Í skugga valdsins #metoo - kynning

Málsnúmer 2019090491Vakta málsnúmer

Umfjöllun um endurskoðaðar siðareglur kjörinna fulltrúa Akureyrarbæjar, samskiptasáttmála kjörinna fulltrúa Akureyrarbæjar og leiðbeiningar um skráningu kjörinna fulltrúa hjá Akureyrarbæ á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum sem samþykktar voru í bæjarstjórn 17. september 2019. Einnig kynntir verkferlar mála sem upp kunna að koma.

Að umfjöllun lokinni undirrituðu nefndarmenn yfirlýsingu um siðareglur og samskiptasáttamála.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi sátu fund ráðsins undir þessum lið.

2.Aðalskipulagsbreyting - Krossaneshagi B-áfangi

Málsnúmer 2018080081Vakta málsnúmer

Breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 fyrir Krossaneshaga B-áfanga var auglýst frá 14. ágúst með athugasemdafresti til 25. september 2019. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuveri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu bæjarins. Bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Hörgársveit og Minjastofnun og eru þær meðfylgjandi. Þá var lögð fram tillaga að svörum Akureyrarbæjar um athugasemdir sem fram koma í umsögnum.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að svörum við umsögnum verði samþykkt og að aðalskipulagstillagan verði samþykkt, með minniháttar breytingum til að koma til móts við innkomnar athugasemdir, og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að senda hana Skipulagsstofnun til staðfestingar.

3.Aðalskipulagsbreyting vegna lóðar við Glerárskóla

Málsnúmer 2019010097Vakta málsnúmer

Breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem felur í sér stækkun skólalóðar Glerárskóla, merkt S27, vegna byggingar á nýjum leikskóla var auglýst frá 14. ágúst með athugasemdafresti til 25. september 2019 samhliða deiliskipulagi svæðisins auk breytinga á deiliskipulagi Hlíðahverfis og Glerárgils. Ein athugasemd barst við breytinguna og er hún meðfylgjandi ásamt tillögu að svari Akureyrarbæjar við henni.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að svari við athugasemd verði samþykkt og að aðalskipulagstillagan verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að senda hana Skipulagsstofnun til staðfestingar.

4.Glerárskóli - deiliskipulag

Málsnúmer 2018050142Vakta málsnúmer

Tillaga að deiliskipulagi fyrir lóð Glerárskóla var auglýst frá 14. ágúst til 25. september 2019. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að afmarkaður er byggingarreitur fyrir nýjan leikskóla með tengingu við suðurhlið núverandi íþróttahúss. Þá er gert ráð fyrir breytingum á núverandi bílastæðum auk nýrra bílastæða á suðvesturhluta svæðisins, með aðgengi frá Drangshlíð. Tvær athugasemdir bárust auk umsagna frá Norðurorku, Umhverfisstofnun, Minjastofnun og Rarik. Meðfylgjandi er tillaga að svörum Akureyrarbæjar um efni athugasemda og umsagna.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að svörum við athugasemdum og umsögnum verði samþykkt og að deiliskipulagstillagan verði samþykkt, með minniháttar breytingum til að koma til móts við innkomnar athugasemdir, og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista óskar bókað:

Ég tel að sleppisvæðið sé ekki nógu stórt og hvernig aðgengið er frá því að skólanum. Einnig er spurning um hvort gert sé ráð fyrir nógu mörgum bílastæðum. Á þessu svæði eru þrír skólar, tveir leikskólar og einn grunnskóli.

5.Glerárgil - breyting á deiliskipulagi v/Glerárskóla

Málsnúmer 2019080178Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Glerárgils var auglýst frá 14. ágúst til 25. september 2019. Í breytingunni felst að afmörkun skipulagssvæðisins breytist til samræmis við deiliskipulag skólasvæðis við Höfðahlíð. Ein athugasemd barst við breytinguna og er hún meðfylgjandi ásamt tillögu að umsögn Akureyrarbæjar um hana.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að svari við athugasemd verði samþykkt og að deiliskipulagstillagan verði samþykkt, með minniháttar breytingum til að koma til móts við innkomna athugasemd, og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

6.Hlíðahverfi - breyting á deiliskipulagi v/Glerárskóla

Málsnúmer 2019080187Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hlíðahverfis var auglýst frá 14. ágúst til 25. september 2019. Í breytingunni felst að afmörkun skipulagssvæðisins breytist til samræmis við deiliskipulag skólasvæðis við Höfðahlíð. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

7.Rangárvellir 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2018010252Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis á Rangárvöllum sem nær til lóða 3, 4 og 6 var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 21. ágúst 2019 með fresti til að gera athugasemdir til 4. október 2019. Bárust umsagnir frá Landsneti, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Norðurorku og hverfisnefnd Giljahverfis. Meðfylgjandi umsögn hverfisnefndar er undirskriftarlisti íbúa í Giljahverfi.
Afgreiðslu frestað og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að vinna tillögu að svörum við innkomnum athugasemdum í samráði við skipulagsráðgjafa. Samþykkt er að gera ráð fyrir að skipulagssvæðið verði minnkað þannig að það nái eingöngu utan um lóðir 4 og 6, en lóð nr. 3 verði fyrir utan breytingarsvæðið.

8.Rangárvellir 3 - fyrirspurn

Málsnúmer 2018100221Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. október 2019 frá Andra Páli Hilmarssyni fyrir hönd Rarik ohf., kt. 520269-2669, varðandi stækkun aðveitustöðvar á lóð 3 við Rángárvelli. Gert er ráð fyrir afmörkun byggingarreitar í breytingartillögu sem nú er í gangi (sjá mál nr. 7) en nú er verið að óska eftir að byggingarreiturinn stækki meira til norðurs auk þess að heimilt verði að byggja spennabása (7,5 x 20 m og 5 m háa) vestan til á lóðinni. Er óskað eftir að umsóknin verði afgreidd sem sér mál en ekki í samhengi við breytingar á öðrum lóðum.
Skipulagsráð heimilar umsækjanda að vinna að gerð breytingar á deiliskipulagi. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það í sér að gert verður ráð fyrir að skipulagssvæði áður auglýstrar deiliskipulagsbreytingar (sjá mál nr. 7) verði minnkað þannig að sú breyting nái ekki til lóðar 3.

9.Skipagata 12 - breyting á deiliskipulagi miðbæjar

Málsnúmer 2019030287Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar sem nær til lóðarinnar Skipagötu 12 var auglýst frá 21. ágúst til 2. október 2019. Tillagan gerir ráð fyrir því að nýtingarhlutfall hækkar, byggingarreitur er stækkaður og á 2. og 3. hæð verði heimilt að byggja svalir út fyrir byggingarreiti austur yfir Skipagötu. Engar athugasemdir bárust en fyrir liggur umsögn frá Norðurorku um tillöguna og er hún meðfylgjandi ásamt tillögu að umsögn Akureyrarbæjar um hana.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

10.Hafnarstræti 34 - umsókn um breytt deiliskipulag

Málsnúmer 2019090300Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð tillaga að hugmyndum um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á lóðinni Hafnarstræti 34. Var áður fjallað um hugmyndir að uppbyggingu á lóðinni á fundi skipulagsráðs 25. september 2019. Í þeirri tillögu sem nú er lögð fram er gert ráð fyrir stækkun lóðarinnar Hafnarstræti 34 og að byggð verði 3 íbúðarhús í stað núverandi atvinnuhúsnæðis.
Skipulagsráð heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér að byggð verði tvö íbúðarhús á svæðinu í samræmi við fyrri tillögu. Breytingin verði unnin í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs.

11.Kjarnagata 55 (var 57) - umsókn um lóð

Málsnúmer 2019090583Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. september 2019 þar sem Naustagata 13 ehf., kt. 480218-1080, sækir um lóð nr. 57 við Kjarnagötu. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka.
Skipulagsráð samþykkir erindið með fyrirvara um byggingarhæfi lóðarinnar. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

Heiti lóðarinnar verður Kjarnagata 55.

12.Hesjuvellir - umsókn um framkvæmdarleyfi til skógræktar

Málsnúmer 2019100081Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. október 2019 þar sem Jóhannes Már Jóhannesson og Helga Björg Jónasdóttir fyrir hönd Vallabúsins ehf., kt. 670608-0180, sækja um framkvæmdarleyfi til nytjaskógræktar á 20 hektara svæði í landi Hesjuvalla. Meðfylgjandi er skýringarmynd sem sýnir afmörkun svæðisins.
Framkvæmdin fellur undir lið 1.07 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Hún er tilkynningarskyld til leyfisveitanda, þ.e. Akureyrarbæjar, sem ákvarðar hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum áður en framkvæmdarleyfi verður veitt. Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur Akureyrarbær farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila. Niðurstaða er að skógrækt í landi Hesjuvalla sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.


Skipulagsráð hefur yfirfarið ósk um framkvæmdarleyfi, sem er í samræmi við gildandi aðalskipulag, og samþykkir útgáfu þess.

13.Opnun rafhlaupahjólaleigu á Akureyri - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2019100036Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 1. október 2019 þar sem Jóhannes Ólafsson leggur fram fyrirspurn um rekstur rafhlaupahjólaleigu á Akureyri. Til upplýsinga eru nýsamþykktar reglur Reykjavíkurborgar um slík farartæki.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið. Skipulagsráð felur skipulagssviði og umhverfis- og mannvirkjasviði að gera tillögu að verklagsreglum um slíka starfsemi í landi Akureyrarbæjar.

14.Klettaborg - breyting á deiluskipulagi - stjórnsýslukæra 120/2018

Málsnúmer 2018100043Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna breytingar á deiliskipulagi Klettaborgar. Hafnað var kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar um að samþykkja breytinguna.

15.Íþróttafélagið Þór - umferðaröryggi iðkenda

Málsnúmer 2018110232Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar tillaga umhverfis- og mannvirkjasviðs að aðgerðum til að minnka umferðarhraða á Skarðshlíð, rétt við gatnamót götunnar við Sunnuhlíð. Er gert ráð fyrir að setja tímabundið til reynslu upp tvennar þrengingar, sitt hvoru megin við gatnamótin.
Skipulagsráð samþykkir fyrirhugaða aðgerð en telur einnig að nauðsynlegt sé að yfir götuna verði merkt, máluð og upplýst gangbraut.

16.Jaðarsíða - framkvæmd við sameiginleg stæði og eyju

Málsnúmer 2019100099Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga umhverfis- og mannvirkjasviðs að útfærslu á sameiginlegum bílastæðum og umferðareyju í Jaðarsíðu. Er tillagan unnin til að koma til móts við ábendingar íbúa í götunni.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd. Að mati ráðsins er um svo óverulegt frávík frá deiliskipulagi að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er því ekki talið að gera þurfi breytingu á deiliskipulaginu. Er samþykktin með fyrirvara um að framkvæmdin verði kynnt íbúum við götuna.

17.Bílastæði í miðbænum

Málsnúmer 2019010086Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga umhverfis- og mannvirkjasviðs að afmörkun stæða fyrir fatlaða við Túngötu og Strandgötu.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði bílastæði samkvæmt tillögunni.

18.Umferðarskipulag - tillögur að breytingum

Málsnúmer 2019100100Vakta málsnúmer

Til umræðu er umferðarskipulag Akureyrarbæjar að beiðni Ólafs Kjartanssonar V-lista og Ólafar I. Andrésdóttur L-lista. Fyrir liggur erindi Ólafs dagsett 2. október 2019.
Skipulagsráð óskar eftir umsögn samráðsfundar skipulagssviðs og umhverfis- og mannvirkjasviðs um tillögurnar.

19.Skipulagssvið - skýrslur

Málsnúmer 2018120041Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt um hlutfall yfirvinnu af dagvinnu í september 2019 samanborið við september 2018 og árin 2013-2018.

20.Fjárhagsáætlun skipulagssviðs 2019

Málsnúmer 2018080708Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulagssviðs fór yfir stöðu mála í rekstri sviðsins fyrstu 9 mánuði ársins 2019.

21.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2019

Málsnúmer 2019010038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 740. fundar, dagsett 19. september 2019, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

22.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2019

Málsnúmer 2019010038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 741. fundar, dagsett 26. september 2019, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

23.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2019

Málsnúmer 2019010038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 742. fundar, dagsett 3. október 2019, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:20.