CONNECT - verkefnið

Málsnúmer 2014060231

Vakta málsnúmer

Félagsmálaráð - 1188. fundur - 02.07.2014

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA og Soffía Lárusdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar greindu frá erindi Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar (NVC) þar sem leitað er eftir þátttöku fulltrúa félagslegarar þjónustu sveitarfélagsins í norræna verkefninu CONNECT. Áformað er að tvö sveitarfélög frá hverju norðurlandanna taki þátt og mögulega líka fulltrúi frá landssamböndum sveitarfélaga. Um er að ræða áhersluverkefni á vegum NVC sem hefst með undirbúningi nú í haust 2014. Verkefnið felur í sér skipulagningu og innleiðingu á velferðartækni í framkvæmd velferðarþjónustu. Kostnaður vegna þátttöku er greiddur af NVC og ráðgert að innleiðingu fylgi fjárstyrkur til þeirra sveitarfélaga sem taka þátt verkefninu. Verkefninu er skipt í tvö stig þar sem fyrst er undirbúningur og skipulagning (2014) og síðan innleiðingarferli og prófun ásamt miðlun reynslu (2015-2016).

Félagsmálaráð samþykkir að Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA og Soffía Lárussdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar taki þátt í CONNECT verkefninu fyrir hönd Akureyrarbæjar.

Velferðarráð - 1204. fundur - 18.02.2015

Soffía Lárusdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar og Halldór Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar kynntu stuttlega (örkynning) norræna samstarfsverkefnið CONNECT sem Akureyri tekur þátt í. Þessi kynning er byrjun á fleiri örkynningum um velferðartækni og einstök verkefni á því sviði.
Velferðarráð þakkar kynninguna.

Velferðarráð - 1205. fundur - 04.03.2015

Örkynning og umræða um velferðartækni. Framhald fyrri umræðu í velferðarráði. Fjallað um Memaxi skipulags- og samskiptakerfi og prófanir á því í þjónustu á Akureyri.
Helga Þyrí Bragadóttir ráðgjafi á búsetudeild og Dagný Linda Kristjánsdóttir iðjuþjálfi í Lögmannshlíð lýstu notkun einstaklinga sem hafa verið að nýta Memaxi kerfið. Kynntu þær notagildi þess og möguleika út frá þeirri notkun sem reynd hefur verið.
Velferðarráð þakkar fyrir kynninguna.

Velferðarráð - 1206. fundur - 18.03.2015

Á fundinn mætti Dagný Linda Kristjánsdóttir iðjuþálfi við Öldrunarheimilin til að segja frá verkefnum á sviði velferðartækni. Kynnti hún ýmis verkefni m.a. notkun á spjaldtölvum sem hluta af iðju og félagsstarfi á heimilunum. Nefndi hún m.a. myndatökur, upptökur, leiki og afþreyingu, tónlist/'playlist'/ipod, fjölskyldufundi og myndsímtöl, fræðsluefni, skemmtiefni og fleira.

Velferðarráð - 1207. fundur - 15.04.2015

Lagt fram minnisblað Halldórs Sigurðar Guðmundssonar framkvæmdastjóra ÖA dagsett 16. mars 2015 um Rai mat í heimaþjónustu og dagþjónustu.

Anna Marit Níelsdóttir verkefnastjóri á búsetudeild og Halldór Sigurður Guðmundsson lýstu matstækinu og áformum um notkun þess.

Velferðarráð - 1208. fundur - 06.05.2015

Halldór Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA sagði frá öryggis- og brunakerfum, neyðahnappi og möguleikum fjarvöktunar.

Velferðarráð - 1210. fundur - 03.06.2015

Framkvæmdastjóri ÖA Halldór Sigurður Guðmundsson kynnti stuttlega og sýndi myndband frá norsku fyrirtæki sem hefur þróað búnað sem nýttur er við líkamsþjálfun eldra fólks og er tengdur við myndupptökur af nærumhverfi og æskuslóðum.

Velferðarráð - 1211. fundur - 24.06.2015

Soffía Lárusdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar greindi frá lausnum á sviði velferðartækni sem kynntar voru í nýafstaðinni vinabæjaheimsókn til Västerås í Svíþjóð. Västerås er eins og Akureyri þátttakandi í Connect verkefningu.
Velferðarráð þakkar kynninguna.

Velferðarráð - 1212. fundur - 26.08.2015

Soffía Lárusdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar sagði stuttlega frá því sem er að gerast á búsetudeild varðandi nýtingu á velferðartækni á vettvangi.
Halldór Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA greindi frá fundi þátttökulanda í Connect verkefninu sem hann mun sækja ásamt fulltrúa frá Reykjavíkurborg. Fundurinn verður haldinn 2. og 3. september nk. í Stokkhólmi.

Velferðarráð - 1220. fundur - 02.12.2015

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA greindi frá nýafstaðinni ráðstefnu/vinnustofu sem haldin var 18. nóvember sl. og velferðarráðuneytið skipulagði í samstarfi við nýsköpunar- og atvinnuvegaráðuneytið og ÖA.
Greindi framkvæmdastjóri ÖA frá áherslum í stefnuskjali um "nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu" sem fjallað var um á ráðstefnunni og nokkrum nýjum verkefnum sem kynnt voru á vinnustofunni.

Velferðarráð - 1226. fundur - 16.03.2016

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar kynnti tilrauna- og rannsóknaverkefni með Motitec, norsku fyrirtæki, um hjólaverkefni til aukinnar hreyfingar. Verkefnið er undir umsjón Ástu Þorsteinsdóttur sjúkraþjálfara. Í lok verkefnis fer fram mat á framhaldi og notkun þessa búnaðar innan ÖA.
Málinu frestað til næsta fundar.

Velferðarráð - 1227. fundur - 06.04.2016

Frestað frá síðast fundi.

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar kynnti tilrauna- og rannsóknarverkefni með Motitec, norsku fyrirtæki, um hjólaverkefni til aukinnar hreyfingar. Verkefnið er undir umsjón Ástu Þorsteinsdóttur sjúkraþjálfara. Í lok verkefnis fer fram mat á framhaldi og notkun þessa búnaðar innan ÖA.
Velferðarráð þakkar kynninguna, niðurstaða verkefnisins verður kynnt fyrir ráðinu í maílok.

Velferðarráð - 1233. fundur - 15.06.2016

Málinu var frestað á fundi ráðsins 6. apríl sl.

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar (ÖA) kynnti tilrauna- og rannsóknarverkefni um hjólaverkefni til aukinnar hreyfingar. Verkefnið er unnið í samvinnu við norskt fyrirtæki, Mototech, og var í umsjón Ástu Þorsteinsdóttur sjúkraþjálfara. Í lok verkefnis fór fram mat á framvindu og mögulegu framhaldi á notkun þessa búnaðar innan ÖA. Lögð var fram samantekt um verkefnið og greindi framkvæmdastjóri frá kostnaði við tækjakaup til að hægt sé að nýta þessa tækni til að styrkja hreyfigetu og lífsgæði íbúa.

Á opnum dögum/Gleðidögum ÖA sem voru 9.- 10. júní sl. var búnaðurinn kynntur sérstaklega og haldin kaffisala til fjáröflunar þessa verkefnis.
Velferðarráð þakkar kynninguna.

Velferðarráð - 1237. fundur - 05.10.2016

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór Guðmundsson, greindi stuttlega frá vinnufundi í Connect verkefninu. Fundurinn var haldinn í Osló dagana 21.- 23. september sl. og sóttu fundinn fulltrúar 10 sveitarfélaga á Norðurlöndunum sem sérstaklega vinna með velferðartækni.

Á fundinum var unnið með verkfæri eða þrep sem eiga að nýtast við skipulagningu og innleiðingu velferðartækni. Jafnfram voru lögð drög að kynningarfundum sem haldnir verða í öllum sveitarfélögunum í byrjun næsta árs. Áætlað er að fundirnir verði í Reykjavík og á Akureyri í maí 2017.

Velferðarráð - 1238. fundur - 19.10.2016

Lagt fram minnisblað dagsett 17. október sl. frá framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrarbæjar, Halldóri S Guðmundssyni, þar sem reifaðar eru hugmyndir um skipan vinnuhópa sem vinni að frekari útfærslu og þarfagreiningum um velferðartækni. Lagt er til að skipaðir verði þrír hópar, einn á hverju sviði, enda kunni áherslur að vera eitthvað ólíkar.
Velferðarráð Akureyrar samþykkir að settir verði á fót vinnuhópar um velferðartækni á hverju sviði, þ.e. búsetudeild, fjölskyldudeild og á Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar. Verkefni hópanna verði samhæfð og framkvæmdastjórum falið að vinna drög að erindisbréfi fyrir vinnuhópana í takti við áherslur fyrirliggjandi minnisblaðs og leggja fyrir næsta fund velferðarráðs. Hópunum verði ætlaður 12 mánaða starfstími, þá skuli fundargerðir þeirra kynntar í velferðarráði. Með hliðsjón af skilgreindum fösum eða þrepum sem Connect verkefnið vinnur með, verði hópunum falið að vinna að og móta framtíðarsýn, aðgerðaáætlun ásamt samskiptaáætlun og þarfagreiningu fyrir viðkomandi deild/starfseiningu út frá áherslum á velferðartækni. Leitast verði við að skýra og greina hverju mögulega megi fá breytt og áorkað með slíkum breytingum. Að ári liðnu verði framvindan metin og áherslur og vinnulag endurmetið.

Velferðarráð - 1239. fundur - 02.11.2016

Velferðarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum þann 19. október sl. að settir verði á fót vinnuhópar um velferðartækni á hverju sviði og var framkvæmdastjórum búsetudeildar, fjölskyldudeildar og ÖA falið að vinna drög að erindisbréfi fyrir vinnuhópana og leggja fyrir næsta fund velferðarráðs.
Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA kynnti verkefnið og nauðsyn þess að gera upplýsingar um velferðartækni aðgengilegar starfsfólki þar sem þróun tækninnar er mjög hröð. Kynningu erindisbréfa frestað til næsta fundar.

Velferðarráð - 1240. fundur - 16.11.2016

Velferðarráð samþykkti á fundi sínum þann 19. október sl. að settir verði á fót vinnuhópar um velferðartækni á hverju sviði og var framkvæmdastjórum búsetudeildar, fjölskyldudeildar og Öldrunarheimila Akureyrarbæjar falið að vinna drög að erindisbréfi fyrir vinnuhópana og leggja fyrir næsta fund velferðarráðs.
Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA kynnti drög að erindisbréfi fyrir vinnuhópana. Hópurinn skal, í samráði við samskonar hópa annarra deilda, rýna fjármögnunar- og styrkmöguleika til verkefna á sviði velferðartækni.

Að ári liðnu verði framvindan metin og áherslur og vinnulag endurmetið.

Velferðarráð óskar eftir að framvinda vinnu hópanna verði kynnt á fundi ráðsins í febrúar 2017.

Velferðarráð - 1241. fundur - 07.12.2016

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA kynnti nýja skýrslu frá Norrænu velferðarmiðstöðinni þar sem fjallað er um velferðartækni og menntun og þjálfun starfsfólks.

Í skýrslunni er tilmælum beint til stjórnvalda í hverju landi um að menntun og þálfun starfsfólks í velferðartækni verði markaður sess í opinberri stefnu og áhersla lögð á að hvetja sveitarfélög til að innleiða velferðartækni í starfsemi sína.

Þá er þeim tilmælum beint til sveitarstjórna að í auknum mæli verði forgangsraðað í þágu menntunar og þjálfunar starfsfólks varðandi velferðartækni, með áherslu á heildarsýn til bættrar þjónustu og starfsumhverfis.

Velferðarráð - 1247. fundur - 15.02.2017

Lagðar fram tilnefningar frá ÖA, búsetusviði og fjölskyldusviði í starfshópa um velferðartækni hjá hverju sviði.
Yfirlit yfir fulltrúa starfshópa um velferðartækni.

Starfshópur búsetusviðs: Laufey Þórðardóttir verkefnastjóri þjónustu, Kristinn Már Torfason forstöðumaður búsetuþjónustu Þrastarlundi og Jörvabyggð og Guðrún Sonja Kristinsdóttir iðjuþjálfi.

Starfshópur ÖA: Helga Hákonardóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri, Fanney Kristinsdóttir sjúkraliði dagþjónustu og Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir sérfræðingur dagþjónustu og félagsstarfi ÖA.

Ritari og aðstoð fyrir starfshóp ÖA: Kristbjörg Björnsdóttir verkefnastjóri á skrifstofu ÖA.

Starfshópur fjölskyldusviðs: Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður í félagsþjónustu, Jakobína Elva Káradóttir forstöðumaður PBI, Margrét I. Ríkarðsdóttir forstöðumaður Skógarlundi og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri félagssviðs.

Velferðarráð - 1250. fundur - 05.04.2017

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA lagði fram og kynnti nýlega samantekt sem unnin var á vegum Connect verkefnisins og varðar innleiðingu á velferðartækni í sveitarfélögum á Norðurlöndum.

Á vegum Connect verkefnisins verða haldnir fundir á öllum Norðurlöndum og í þeim 10 sveitarfélögum sem tóku þátt í verkefninu.

Á Íslandi verða fundir á Akureyri 26. maí nk. og í Reykjavík 29. maí.

Velferðarráð - 1253. fundur - 24.05.2017

Halldór S Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA sat fundinn undir þessum lið og dreifði og kynnti dagskrá málþings á vegum CONNECT verkefnisins sem verður hér á Akureyri nk. föstudag 26. maí. Umfjöllunarefni er innleiðing velferðartækni hjá sveitarfélögum.

Málþingið er sérstaklega ætlað sveitarstjórnarfólki, stjórnendum og starfsmönnum á vegum sveitarfélaga og öðrum sem áhuga hafa.

Vakti hann sérstaka athygli á breyttum fundarstað, en málþingið verður haldið í samkomusal Hlíðar.

Velferðarráð - 1255. fundur - 21.06.2017

Lagt fram minnisblað sem inniheldur slóð inn á upptöku af málþingi Connect verkefnisins sem haldið var 29. maí sl.

Í framhaldi af verkefninu velti Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA upp hvort tilefni væri til að huga að stefnumótun í þessum verkefnum á vettvangi Akureyrarbæjar.

Velferðarráð - 1272. fundur - 21.02.2018

Skýrsla verkefnahópa um velferðartækni lögð fram til kynningar.