Hverfisnefndir

Hér er að finna gagnlegar upplýsingar fyrir stjórnir hverfisnefnda Akureyrarbæjar.

Form erinda frá hverfisnefndum

Leiðbeiningar um ritun fundargerða


Samþykkt fyrir hverfisnefndir á Akureyri

Stofnun og tilgangur

Bæjarstjórn Akureyrar telur mikilvægt að íbúar bæjarins hafi sem mest áhrif á ákvarðanir sem snerta líf þeirra og afkomu, m.a. með þátttöku í frjálsum samtökum íbúa í hverfum bæjarins. Í þeim tilgangi að greiða fyrir starfsemi slíkra samtaka beitir bæjarstjórn sér fyrir stofnun hverfisnefnda sem skulu kosnar af íbúum hverfanna og starfa í umboði þeirra. Með hverfi er hér átt við svæði sem er skýrt afmarkað t.d. skólahverfi en getur í sumum tilvikum verið skilgreint á annan hátt.

 Hlutverk:

Hlutverk hverfisnefnda er að vera vettvangur íbúanna til að hafa áhrif á næsta umhverfi sitt. Sem dæmi um starfsemi hverfisnefndar má nefna:

  • Hverfisnefnd getur staðið fyrir skemmtisamkomum íbúanna.
  • Hverfisnefnd getur staðið fyrir og auglýst fundi og boðið til þeirra kjörnum fulltrúum, embættismönnum og/eða öðrum aðilum sem mál varðar hverju sinni.
  • Hverfisnefnd getur beitt sér fyrir bættri umgengni, umhirðu og fegrun í hverfinu.
  • Hverfisnefnd getur komið með ábendingar um umferðarmál t.d. um umferðarhraða í hverfinu
  • Hverfisnefnd getur fjallað um skipulagstillögur varðandi hverfið sem eru í vinnslu hjá bænum og gert athugasemdir í tengslum við grenndarkynningar eða auglýstar breytingar á skipulagi.
  • Hverfisnefnd getur haft samráð við foreldrafélag grunn- og leikskóla í hverfinu um málefni barna og unglinga.
  • Hverfisnefndir hafa upplýsingasíðu á heimasíðu Akureyrarbæjar og bera þær ábyrgð á að koma réttum upplýsingum á framfæri við tengilið Akureyrarbæjar.

 Kosning nefndar:

Á stofnfundi hverfisnefndar sem íbúar hverfis eru boðaðir á eru 5 fulltrúar kosnir í nefndina og 2 til vara. Fulltrúar í hverfisnefnd eru kosnir til tveggja ára í senn.

Hverfisnefndir setja sér sjálfar starfsreglur sem samþykktar skulu á aðalfundum íbúa hverfanna en um starfshætti nefndanna gilda almenn ákvæði um frjáls félög og fundarsköp.

Ef hverfisnefnd segir öll af sér ber formanni að boða til aukaaðalfundar þar sem kosin er ný nefnd.

Þjónusta Akureyrarbæjar við hverfisnefndir:

Til að greiða fyrir starfsemi hverfisnefnda beinir Akureyrarbær þeim tilmælum til stofnana bæjarins að þær veiti hverfisnefndum aðstöðu til fundahalds án endurgjalds.

Bæjarráð ákveður ár hvert fjárframlag til hverfisnefndanna sem ætlað er til að greiða t.d. pappír, póstburðargjöld, veitingar og fleira í samræmi við hlutverk þeirra.

Skrifstofustjóri Ráðhúss er tengiliður Akureyrarbæjar við hverfisnefndirnar og aðstoðar þær við upplýsingaöflun úr bæjarkerfinu ásamt því að birta fundargerðir nefndanna á vefnum.

Fundargerðir hverfisnefnda eru birtar á vef Akureyrarbæjar íbúum hverfisins til upplýsingar. Fundargerðirnar eru teknar fyrir á fundum bæjarráðs sem vísar erindum sem fram koma í fundargerðum nefndanna áfram til viðkomandi deilda/nefnda í bæjarkerfinu eftir því sem tilefni er til. Erindunum ber að svara með bréfi eða tölvupósti.

Skipulagsdeild tilkynnir viðkomandi hverfisnefnd um þær skipulagstillögur sem eru til auglýsingar og varða hverfið.

 Samskipti

Æskilegt er að samráð og samvinna sé á milli hverfisnefndanna eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni.

Árlega boðar bæjarráð fulltrúa allra hverfisnefnda á fund ráðsins þar sem farið er yfir störf nefndanna, hlutverk þeirra og framtíðarsýn. 

Samþykkt í bæjarráði 7. mars 2013

Samþykkt í bæjarstjórn 9. apríl 2013

Síðast uppfært 14. febrúar 2017