Velferðarráð

1241. fundur 07. desember 2016 kl. 14:00 - 17:30 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Erla Björg Guðmundsdóttir formaður
  • Róbert Freyr Jónsson
  • Guðlaug Kristinsdóttir
  • Svava Þórhildur Hjaltalín
  • Valur Sæmundsson
  • Guðrún Karitas Garðarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Guðrún Ólafía Sigurðardóttir framkvæmdastjóri
  • Halldór Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri
  • Jón Hrói Finnsson framkvæmdastjóri búsetudeildar
  • Kristbjörg Björnsdóttir fundarritari
Dagskrá
Erla Björg Guðmundsdóttir S-lista tók sæti aðalfulltrúa í velferðarráði í stað Sigríðar Huldar Jónsdóttur og verður jafnframt formaður nefndarinnar samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar þann 6. desember sl.

Guðlaug Kristinsdóttir B-lista mætti í forföllum Halldóru K. Hauksdóttur.

1.Velferðarráð - rekstraryfirlit 2016

Málsnúmer 2016020160Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar rekstraryfirlit búsetudeildar, fjölskyldudeildar og Öldrunarheimila Akureyrarbæjar fyrir 10 mánuði ársins 2016.

Kolbeinn Aðalsteinsson skrifstofustjóri búsetudeildar sat fundinn undir þessum lið.

2.Fundaáætlun velferðarráðs

Málsnúmer 2015060008Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að fundaáætlun velferðarráðs fyrir tímabilið janúar til júní 2017.

Kolbeinn Aðalsteinsson skrifstofustjóri búsetudeildar sat fundinn undir þessum lið.

3.Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030

Málsnúmer 2015110092Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að umsögn velferðarráðs um drög að tillögu að aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030.
Velferðarráð vill koma á framfæri eftirfarandi ábendingum við drög að aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030:

1.
Æskilegt væri að sett væru almenn ákvæði texta um skipulagningu nýrra íbúðarhverfa og þéttingarsvæða að ætíð sé hugað að félagslegri fjölbreytni með því að blanda saman mismunandi tegundum íbúðarhúsnæðis, dýru sem ódýru og stóru sem litlu. Á bls. 19 og 107 í drögunum er tekið fram að almennar félagslegar íbúðir skuli dreifast um hverfi bæjarins, en rétt er að hafa í huga að markmið um félagslega fjölbreytni á jafnt við um aðrar tegundir íbúðarhúsnæðis hvort heldur sem er á almennum fasteigna- eða leigumarkaði.

2.
Æskilegt væri að sett væru ákvæði í texta um deiliskipulagningu nýrra íbúðarhverfa að gera skuli ráð fyrir lóðum fyrir sérhæfða þjónustu- og íbúðakjarna, s.s. fyrir fatlað og/eða eldra fólk. Gera þarf ráð fyrir að slíkum kjörnum fjölgi að lágmarki í jöfnu hlutfalli við fjölgun íbúa Akureyrar. Það getur verið vandkvæðum bundið að finna slíku húsnæði stað í skipulagi hafi ekki verið gert ráð fyrir því í upphafi. Ætla má að einfaldara sé að breyta skipulagi lóða frá hinu sérhæfða til hins almenna síðar, reynist þörfin ekki vera fyrir hendi.

3.
Á aðalskipulagsuppdrætti er ekki gert ráð fyrir byggingu nýs öldrunarheimilis eða stækkun þeirra sem fyrir eru. Með sömu rökum og í lið 2 væri æskilegt að það verði gert. Bent er á svæðið norðan Lögmannshlíðar í því samhengi.

4.
Gott væri að tekið væri fram í umfjöllun um hönnun gönguleiða og annarra samgöngumannvirkja að taka þurfi tillit til þarfa fólks með skerta færni (s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, blindra og sjónskertra) við hönnun þeirra.

4.CONNECT - verkefnið

Málsnúmer 2014060231Vakta málsnúmer

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA kynnti nýja skýrslu frá Norrænu velferðarmiðstöðinni þar sem fjallað er um velferðartækni og menntun og þjálfun starfsfólks.

Í skýrslunni er tilmælum beint til stjórnvalda í hverju landi um að menntun og þálfun starfsfólks í velferðartækni verði markaður sess í opinberri stefnu og áhersla lögð á að hvetja sveitarfélög til að innleiða velferðartækni í starfsemi sína.

Þá er þeim tilmælum beint til sveitarstjórna að í auknum mæli verði forgangsraðað í þágu menntunar og þjálfunar starfsfólks varðandi velferðartækni, með áherslu á heildarsýn til bættrar þjónustu og starfsumhverfis.

5.ÖA - stefna og starfsemi

Málsnúmer 2013010214Vakta málsnúmer

Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA kynnti fyrirhugaðan fund Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem haldinn verður á Akureyri 8. desember nk.

Einnig greindi hann frá því að 10 ár væru síðan nýjasti hluti Hlíðar í Austurbyggð 17 var tekinn í notkun. Þar eru Aspar- og Beykihlíð og Eini- og Grenihlíð, auk eldhúss og matsalar. Aðstandendum og íbúum og starfsfólki var síðari hluta nóvember boðið til afmæliskaffis í tilefni tímamótanna.

Þá greindi framkvæmdastjóri frá þakkarbréfi aðstandenda til starfsfólks og stjórnenda.

Í lokin greindi framkvæmdastjóri frá vinnu með KPMG varðandi rekstur ÖA.
Velferðarráð þakkar fyrir kynninguna.

6.Umhverfis- og samgöngustefna

Málsnúmer 2015010196Vakta málsnúmer

Tekin fyrir til umsagnar drög að umhverfis- og samgöngustefnu.
Velferðarráð lýsir yfir ánægju með að fram sé komin umhverfis- og samgöngustefna og hefur ekki athugasemdir við hana.

7.Fjárhagsaðstoð 2016

Málsnúmer 2016010029Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit yfir veitta fjárhagsaðstoð frá janúar til október 2016.

Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu hjá fjölskyldudeild og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri á fjölskyldudeild sátu fundinn undir þessum lið.

8.Sérstakur húsnæðisstuðningur - reglur

Málsnúmer 2016120021Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að nýjum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri, Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu hjá fjölskyldudeild og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri á fjölskyldudeild sátu fundinn undir þessum lið.
Velferðarráð felur framkvæmdastjórum að vinna málið áfram sem verður tekið fyrir á næsta fundi.

9.Nýskipan húsnæðismála 1. janúar 2017 - mönnun verkefna

Málsnúmer 2016120029Vakta málsnúmer

Guðrún Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjölskyldudeildar og Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu hjá fjölskyldudeild lögðu fram minnisblað dagsett 7. desember 2016 vegna húsnæðisdeildar sem mun samkvæmt stjórnkerfisbreytingum flytjast til fjölskyldudeildar frá 1. janúar 2017.

Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri á fjölskyldudeild sat fundinn undir þessum lið.
Velferðarráð samþykkir fyrir sitt leyti að heimila ráðningu félagsráðgjafa í fullt starf vegna húsnæðisverkefnanna. Málinu vísað til bæjarráðs.

10.Félagslegt húsnæði - einstaklingsmál

Málsnúmer 2016080063Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi dagsett 9. ágúst 2016.

Laufey Þórðardóttir verkefnastjóri þjónustu búsetudeildar, Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu hjá fjölskyldudeild og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri á fjölskyldudeild sátu fundinn undir þessum lið.
Afgreiðsla einstaklingsmála er færð í trúnaðarbók velferðarráðs.



11.Fjárhagsáætlun 2017- velferðarráð

Málsnúmer 2016080074Vakta málsnúmer

Lögð fram uppfærð tillaga að fjárhagsáætlun búsetusviðs fyrir árið 2017 ásamt greinargerð, yfirliti yfir breytingar frá fyrri umræðu og uppfærðri starfsáætlun.

Laufey Þórðardóttir verkefnastjóri þjónustu búsetudeildar, Kolbeinn Aðalsteinsson skrifstofustjóri búsetudeildar og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri á fjölskyldudeild sátu fundinn undir þessum lið.
Velferðarráð samþykkir tillögu að breytingum.

Guðlaug Kristinsdóttir yfirgaf fundinn kl. 16:30.

12.Samningar um öryggisvistun 2016

Málsnúmer 2016110106Vakta málsnúmer

Unnið er að samningum við velferðarráðuneyti um greiðslur fyrir öryggisvistun skv. 62. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.

Jón Hrói Finnsson framkvæmdastjóri búsetudeildar kynnti stöðu viðræðna. Lögð fram drög að samningum ásamt tilkynningu um afgreiðslu ríkisstjórnar Íslands á minnisblaði hlutaðeigandi ráðuneyta á fundi sínum þann 4. október 2016.

Laufey Þórðardóttir verkefnastjóri þjónustu búsetudeildar og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri á fjölskyldudeild sátu fundinn undir þessum lið.

13.Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA)

Málsnúmer 2012080060Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um hækkun tímagjalds vegna NPA-þjónustu um 4,9% úr kr. 3.090 á klst. í kr. 3.241 á klst. frá og með 1. janúar 2017. Hækkunin miðast við áætlaða hækkun launakostnaðar á árinu 2017. Gert hefur verið ráð fyrir hækkuninni í tillögu að fjárhagsáætlun ársins 2017.

Laufey Þórðardóttir verkefnastjóri þjónustu búsetudeildar og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri á fjölskyldudeild sátu fundinn undir þessum lið.
Velferðarráð samþykkir hækkun tímagjalds vegna NPA-þjónustu.

Fundi slitið - kl. 17:30.