Samkomulag milli Félags eldri borgara á Akureyri og Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2008010206

Vakta málsnúmer

Félagsmálaráð - 1120. fundur - 23.03.2011

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar og Olga Ásrún Stefánsdóttir forstöðumaður félagsmiðstöðva aldraðra sátu fundinn undir þessum lið. Fundargerð frá samráðsfundi Félags eldri borgara og fulltrúa Akureyrarbæjar 28. febrúar 2011 var lögð fram til kynningar. Samskipti og samstarf hafa gengið vel en fram komu ábendingar um óánægju ýmissa eldri borgara með nýtt fyrirkomulag á sorphirðu í bænum og að íbúar eru misvel í stakk búnir til að eiga í rafrænum samskiptum.

Félagsmálaráð vísar ábendingu um sorphirðu til framkvæmdaráðs og óskar eftir því að stjórnsýslunefnd kanni hug eldri borgara til rafrænna samskipta.

Stjórnsýslunefnd - 4. fundur - 22.06.2011

Á fundi sínum 23. mars sl. óskaði félagsmálaráð eftir því að stjórnsýslunefnd kannaði hug eldri borgara til rafrænna samskipta. Tilefnið var að í umræðum um samkomulag milli Félags eldri borgara á Akureyri og Akureyrarbæjar höfðu komið fram ábendingar um að íbúar séu misvel í stakk búnir til að eiga í rafrænum samskiptum.

Stjórnsýslunefnd telur að hér sé um þekkt vandamál að ræða og mun bregðast við því í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu.

Félagsmálaráð - 1143. fundur - 09.05.2012

Lögð var fram til kynningar fundargerð frá samráðsfundi Félags eldri borgara og fulltrúa Akureyrarbæjar sem haldinn var 21. febrúar 2012.

Félagsmálaráð vísar 3. lið fundargerðarinnar um sorphirðu hjá eldri borgurum til umhverfisdeildar og óskar eftir úrlausn.

Soffíu Lárusdóttur framkvæmdastjóra búsetudeildar falið að fylgja eftir öðrum liðum, eftir því sem við á.

Guðlaug Kristinsdóttir áheyrnarfulltrúi B-lista vék af fundi kl. 16:00.

Félagsmálaráð - 1167. fundur - 26.06.2013

Fundargerð samráðsfundar Félags eldri borgara og fulltrúa búsetudeildar Akureyrarbæjar lögð fram til kynningar og umræðu.

Framkvæmdastjóra búsetudeildar falið að fylgja eftir ábendingum.

Félagsmálaráð - 1177. fundur - 08.01.2014

Fundargerð samráðsfundar Félags eldri borgara og fulltrúa Akureyrarbæjar dags. 10. desember 2013 lögð fram til kynningar og umræðu.

Varðandi lið 2 þar sem fram kemur að bílar SVA stoppa langt frá Boganum og ferðir ekki aðgengilegar fyrir fólk úr suðurhluta bæjarins þá óskar félagsmálaráð eftir að málið verði tekið upp hjá framkvæmdaráði.

Samfélags- og mannréttindaráð - 151. fundur - 11.09.2014

Fundargerð samráðsfundar Félags eldri borgara og fulltrúa Akureyrarbæjar dagsett 26. ágúst 2014 lögð fram til kynningar og umræðu.

Samfélags- og mannréttindaráð - 159. fundur - 15.01.2015

Fulltrúar frá Félagi eldri borgara á Akureyri komu á fundinn og kynntu starf félagsins og samstarf við Akureyrarbæ. Rætt var um hugmyndir um sérstakt öldrunarráð og samþykktir fyrir það. Nokkrar slíkar samþykktir frá öðrum stöðum voru skoðaðar. Einnig var farið stuttlega yfir "Samkomulag milli Félags eldri borgara á Akureyri og Akureyrarbæjar" frá 11. apríl 2008. Fulltrúar félagsins sem sátu fundinn voru: Sigurður Hermannsson formaður og stjórnarfólkið Guðbjörg Bjarman, Anna G. Thorarensen, Númi S. Adolfsson og Halldór Gunnarsson.
Ráðið þakkar fyrir góðar upplýsingar og umræður. Varðandi samþykkt fyrir "öldungaráð" var ákveðið að fulltrúar Félags eldri borgara legðu fram tillögu eða hugmyndir sínar. Tengiliður ráðsins við félagið verður framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar.

Samfélags- og mannréttindaráð - 176. fundur - 03.12.2015

Lagt fram bréf dagsett 24.nóvember 2015 undirritað f.h. Félags eldri borgara á Akureyri af Sigurði Hermannssyni formanni.
Greint var frá samþykkt stjórnar félagsins þar sem óskað var eftir að samningur sem gerður var við félagið og tók gildi 1. janúar 2009 verði framlengdur til ársloka 2016. Samningnum var sagt upp með 6 mánaða fyrirvara þann 29. júní sl. Haldnir hafa verið viðræðufundir þar sem fulltrúar félagsins hafa mætt ásamt framkvæmdastjóra samfélags og mannréttindadeildar og forstöðumanni tómstundamál. Þar hefur verið farið yfir ýmis atriði í samstarfi félagsins og Akureyrarbæjar. Félag eldri borgara telur tímann til að fara enn betur yfir samninginn og gera nýjan of skamman.
Bergljót Jónasdóttir forstöðumaður tómstundamála sat fundinn undir þessum lið.
Samfélags- og mannréttindaráð telur að nýr samningur við Félag eldri borgara þurfi að liggja fyrir eigi síðar en í lok apríl 2016. Nýr samningur mun taka gildi frá 1. janúar 2016. Ráðið fellst því ekki á að eldri samningur verði framlengdur og felur framkvæmdastjóra að halda samningsgerð áfram.

Samfélags- og mannréttindaráð - 181. fundur - 10.03.2016

Greint var frá viðræðum við Félag eldri borgara á Akureyri um nýtt samkomulag við félagið. Einnig lagt fram bréf dagsett 2. mars 2016 frá félaginu, undirritað af Sigurði Hermannssyni formanni. Í bréfinu er kynnt bókun stjórnar félagsins í framhaldi af drögum sem lögð voru fram af hálfu samfélags- og mannréttindadeildar á viðræðufundi aðila 26. febrúar sl. Einnig er þess óskað að málið verði rætt í öldungaráði.
Samfélags- og mannréttindaráð vill halda sig við þann grunn sem lagður hefur verið fram af þess hálfu. Ráðið óskar eftir að viðræður um nýtt samkomulag og nánari útfærslu einstakra liða haldi áfram og að niðurstaða náist fyrir lok apríl.

Upplýst var að boðað hefði verið til fundar í öldungaráði nk. mánudag, þar sem málið verður á dagskrá. Ráðið óskar eftir að umræðan á fundi ráðsins verði kynnt í öldungaráði.

Samþykkt með 4 atkvæðum.

Bergþóra Þórhallsdóttir D-lista sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:

Í áætlun bæjarins um aðhaldsaðgerðir um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar þarf að tryggja að þjónusta við aldraða og samningur við Félag eldri borgara sem er í smíðum, taki mið af því að íbúar geti verið öruggir og sem lengst virkir í samfélaginu. Það verði gert með m.a. með því að bjóða þeim valdeflandi umhverfi sem hvetur til virkrar þátttöku í félags- og tómstundastarfi, hvetur þau til sjálfstæðis. Tryggja þarf öldruðum gott aðgengi og fjölbreytt val á félagsstarfi, líkamsrækt og tómstundum. Unnið verði áfram að því að virkja ungmenni í kennslu fyrir eldri borgara á tölvubúnað og að upplýsinga- og samskiptatækni í þágu aldraðra verði efld. Lögð verði áhersla á að samfélags- og mannréttindaráð taki ekki ákvarðanir um félags- og tómstundamál aldraðra nema að undangenginni kynningu og umsögn nýstofnaðs öldrunarráðs.

Öldungaráð - 3. fundur - 14.03.2016

Fyrri samningur rann út um sl. áramót, eftir að Akureyrarbær sagði honum upp með 6 mánaða fyrirvara. Viðræður um nýjan samning standa yfir og fulltrúar samfélags- og mannréttindaráðs hafa lagt fram grundvallarforsendur og hugmyndir um innihald.
Með bréfi dagsett 2. mars sl. óskaði Félag eldri borgara eftir að öldungaráð fjallaði um málið. Bréf félags eldri borgara fylgdi fundarboði.



Öldungarráð Akureyrarkaupstaðar leggur áherslu á að áfram verði rekið öflugt félagsstarf eldri borgara í tveimur félagsmiðstöðvum.



Öldungaráðið hvetur til þess að áfram verði leitað samkomulags Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara um fyrirkomulag og rekstur félagsmiðstöðvanna, þar sem áhersla verði lögð á valdeflingu, þ.e. að félagar hafi sem mest um þá þjónustu að segja sem þeir njóta.

Samfélags- og mannréttindaráð - 182. fundur - 31.03.2016

Formaður öldungaráðs Dagbjört Elín Pálsdóttir og framkvæmdastjóri deildarinnar greindu frá umræðum og ályktun á fundi öldungaráðs 14. mars sl. Fundargerð ráðsins dagsett 14. mars 2016 lögð fram.

Rætt um framhald viðræðna um nýtt samkomulag.
Samfélags- og mannréttindaráð tekur fram að það er markmið að áfram verði starf í Víðilundi og Bugðusíðu. Ráðið felur framkvæmdastjóra og forstöðumanni tómstundamála að halda áfram viðræðum við Félag eldri borgara um nýtt samkomulag.

Samfélags- og mannréttindaráð - 184. fundur - 12.05.2016

Lögð var fram bókun sem gerð var á stjórnarfundi Félags eldri borgara á Akureyri 19. apríl 2016.

Framkvæmdastjóri greindi frá viðræðufundi um nýtt samkomulag sem haldinn var 3. maí sl. og lögð verður fram tillaga að nýju samkomulagi.

Bergljót Jónasdóttir forstöðumaður tómstundamála sat fundinn undir þessum lið.
Samfélags- og mannréttindaráð samþykkir þessi drög að samkomulagi fyrir sitt leyti og felur framkvæmdastjóra að ljúka samningi.

Frístundaráð - 17. fundur - 09.11.2017

Lagt fram til kynningar drög að nýju samkomulagi við Félag eldri borgara á Akureyri.

Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundamála sat fundinn undir þessum lið.
Fullgerður samningur verður lagður fram til samþykktar á næsta fundi.

Frístundaráð - 18. fundur - 23.11.2017

Drög að nýjum samningi við Félag eldri borgara á Akureyri lagður fram.
Frístundaráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og vísar honum til endanlegrar afgreiðslu bæjarráðs.



Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundarmála sat fundinn undir þessum lið.

Bæjarráð - 3579. fundur - 07.12.2017

4. liður í fundargerð frístundaráðs dagsett 23. nóvember 2017:

Drög að nýjum samningi við Félag eldri borgara á Akureyri lagður fram.

Frístundaráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og vísar honum til endanlegrar afgreiðslu bæjarráðs. Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundarmála sat fundinn undir þessum lið.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir samninginn.

Frístundaráð - 64. fundur - 09.10.2019

Erindi dagsett 26. september 2019 frá Hauki Halldórssyni formanni Félags eldri borgara þar sem óskað er eftir endurskoðun á framlagi Akureyrarbæjar samkvæmt 6. gr. í samningi bæjarins og Félags eldri borgara á Akureyri.

Bryndís Elfa Valdemarsdóttir starfandi deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð samþykkir að verða við beiðni um hækkun á framlagi.

Bæjarráð - 3659. fundur - 31.10.2019

Lagður fram til kynningar liður 4 í fundargerð frístundaráðs dagsettri 9. október 2019:

Erindi dagsett 26. september 2019 frá Hauki Halldórssyni formanni Félags eldri borgara þar sem óskað er eftir endurskoðun á framlagi Akureyrarbæjar samkvæmt 6. gr. í samningi bæjarins og Félags eldri borgara á Akureyri.

Bryndís Elfa Valdemarsdóttir starfandi deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar sat fundinn undir þessum lið.

Frístundaráð samþykkir að verða við beiðni um hækkun á framlagi.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Öldungaráð - 8. fundur - 31.08.2020

Ársreikningur EBAK fyrir árið 2019 ásamt fundargerð aðalfundar frá því 2. júní 2020 lögð fram til kynningar.

Frístundaráð - 86. fundur - 02.12.2020

Erindi dagsett 21. október 2020 frá Hallgrími Gíslasyni formanni EBAK þar sem óskað er eftir endurnýjun á samningi sem undirritaður var í lok árs 2017 og rennur út 31. desember nk.

Í samningnum er ákvæði um að EBAK annist starfsmannahald í Bugðusíðu og segir félagið sig frá þeim hluta samningsins.
Nýr forstöðumaður tómstundamála kemur til starfa í janúar og verður honum falið að koma með útfærslu er varðar starfsmannahald og með hvaða hætti er hægt að samnýta starfsfólk sem vinnur í þjónustumiðstöðinni í Víðilundi.

Frístundaráð - 92. fundur - 17.03.2021

Samningur Akureyrarbæjar við EBAK, Félag eldri borgara á Akureyri, rann út um sl. áramót. Lögð voru fram drög að nýjum samningi.

Málið var til umfjöllunar á fundi ráðsins í byrjun desember sl. og þá var forstöðumanni tómstundamála falið að koma með útfærslur er varðar starfsmannahald og með hvaða hætti er hægt að samnýta starfsfólk sem vinnur í þjónustumiðstöðinni Víðilundi.

Bjarki Ármann Oddsson forstöðumaður tómstundamála sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð felur forstöðumanni tómstundamála að ganga frá nýjum samningi við félag eldri borgara og leggja fyrir ráðið til samþykktar á næsta fundi ásamt upplýsingum um fyrirkomulag á starfsmannahaldi í Víðilundi og Bugðusíðu.

Ráðið samþykkir jafnframt að félag eldri borgara fá greitt samkvæmt fyrri samningi fyrir janúar- og febrúarmánuð 2021.

Anna Hildur Guðmundsdóttir L-lista vék af fundi kl. 13:55.

Frístundaráð - 96. fundur - 08.06.2021

Samningur milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri lagður fram til samþykktar.

Bjarki Ármann Oddsson forstöðumaður tómstundamála sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og vísar honum til staðfestingar í bæjarráði.

Bæjarráð - 3731. fundur - 24.06.2021

Liður 2 í fundargerð frístundaráðs dagsettri 8. júní 2021:

Samningur milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri lagður fram til samþykktar.

Bjarki Ármann Oddsson forstöðumaður tómstundamála sat fundinn undir þessum lið.

Frístundaráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og vísar honum til staðfestingar í bæjarráði.
Bæjarráð staðfestir samninginn með fimm samhljóða atkvæðum.