Samfélags- og mannréttindaráð

181. fundur 10. mars 2016 kl. 14:00 - 15:45 Fundarherbergi á 2. hæð í Rósenborg
Nefndarmenn
  • Siguróli Magni Sigurðsson varaformaður
  • Dagbjört Elín Pálsdóttir
  • Inda Björk Gunnarsdóttir
  • Bergþóra Þórhallsdóttir
  • Vilberg Helgason
  • Hlín Garðarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Sigríður Stefánsdóttir framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar ritaði fundargerð
Dagskrá
Siguróli Magni Sigurðsson varaformaður stýrði fundi í fjarveru Silju Daggar Baldursdóttur formanns.

Inda Björk Gunnarsdóttir L-lista sat fundinn í fjarveru Silju Daggar.

1.Félag eldri borgara á Akureyri - samkomulag

Málsnúmer 2008010206Vakta málsnúmer

Greint var frá viðræðum við Félag eldri borgara á Akureyri um nýtt samkomulag við félagið. Einnig lagt fram bréf dagsett 2. mars 2016 frá félaginu, undirritað af Sigurði Hermannssyni formanni. Í bréfinu er kynnt bókun stjórnar félagsins í framhaldi af drögum sem lögð voru fram af hálfu samfélags- og mannréttindadeildar á viðræðufundi aðila 26. febrúar sl. Einnig er þess óskað að málið verði rætt í öldungaráði.
Samfélags- og mannréttindaráð vill halda sig við þann grunn sem lagður hefur verið fram af þess hálfu. Ráðið óskar eftir að viðræður um nýtt samkomulag og nánari útfærslu einstakra liða haldi áfram og að niðurstaða náist fyrir lok apríl.

Upplýst var að boðað hefði verið til fundar í öldungaráði nk. mánudag, þar sem málið verður á dagskrá. Ráðið óskar eftir að umræðan á fundi ráðsins verði kynnt í öldungaráði.

Samþykkt með 4 atkvæðum.

Bergþóra Þórhallsdóttir D-lista sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:

Í áætlun bæjarins um aðhaldsaðgerðir um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar þarf að tryggja að þjónusta við aldraða og samningur við Félag eldri borgara sem er í smíðum, taki mið af því að íbúar geti verið öruggir og sem lengst virkir í samfélaginu. Það verði gert með m.a. með því að bjóða þeim valdeflandi umhverfi sem hvetur til virkrar þátttöku í félags- og tómstundastarfi, hvetur þau til sjálfstæðis. Tryggja þarf öldruðum gott aðgengi og fjölbreytt val á félagsstarfi, líkamsrækt og tómstundum. Unnið verði áfram að því að virkja ungmenni í kennslu fyrir eldri borgara á tölvubúnað og að upplýsinga- og samskiptatækni í þágu aldraðra verði efld. Lögð verði áhersla á að samfélags- og mannréttindaráð taki ekki ákvarðanir um félags- og tómstundamál aldraðra nema að undangenginni kynningu og umsögn nýstofnaðs öldrunarráðs.

2.Ferðamálastefna

Málsnúmer 2014110220Vakta málsnúmer

Lögð voru fram drög að nýrri ferðamálastefnu Akureyrar. Óskað er eftir ábendingum og athugasemdum frá nefndum bæjarins.
Fulltrúar úr ráðinu munu senda ábendingar til framkvæmdastjóra, sem kemur þeim síðan á framfæri.

3.Aðgerðarhópur um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar - samfélags- og mannréttindaráð

Málsnúmer 2016020127Vakta málsnúmer

Umræður um starfsemi, rekstur og hugmyndir um mögulegan sparnað og hagræðingu í þeim málaflokkum sem falla undir samfélags- og mannréttindaráð.
Samfélags- og mannréttindaráð hefur fjallað um hugmyndir til hagræðingar. Ráðið telur mikilvægt að verja þjónustu, ekki síst við viðkvæma hópa samfélagsins, en leita annarra leiða til hagræðingar. Ráðið er reiðubúið að vinna áfram að verkefninu.

Bergþóra Þórhallsdóttir D-lista óskar bókað:

Markmið með aðhaldsaðgerðum þurfa ávallt að vera greinileg og skýr bæjarbúum. Því er mikilvægt að vinna að því að auka upplýsingagjöf með rafrænni stjórnsýslu bæði til að auka kostnaðarvitund notenda þjónustunnar sem heyra undir ráðið og til að hvetja íbúa til aðkomu að ákvarðanatöku í einstökum málum ráðsins. Mikilvægt er einnig að gefa íbúum kost á að greiða álitamálum í aðhaldsaðgerðum atkvæði. Við forgangsröðun verkefna er brýnt að það bitni ekki á viðkvæmum einstaklingum sem nýta þjónustuna í dag þegar verkefnum er forgangsraðað og að haft verði samráð við hagsmunaaðila sem heyra undir ráðið. Leitað verði leiða til útvistunar verkefna þar sem það er talið hagkvæmt í þeim aðhaldsaðgerðum sem framundan eru.

Fundi slitið - kl. 15:45.