Skipulagsráð

341. fundur 12. ágúst 2020 kl. 08:00 - 11:25 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Orri Kristjánsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Stígakerfi Akureyrar - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018020129Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem varðar nýtt stígakerfi innan sveitarfélagsins.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að tillagan með minniháttar lagfæringum verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson D-lista sat hjá en óskar bókað að hann telji að ekki sé æskilegt að leggja stofnstíg hjólreiða í gegnum miðbæ Akureyrar, eins og ráðgert er í Skipagötu, vegna hættu sem skapast getur fyrir gangandi vegfarendur. Frekar ætti að horfa til þess að hafa blandaða umferð líkt og í göngugötunni sem er vistgata með 10 km hámarkshraða. Æskilegra sé að á þessu svæði liggi stofnstígur samsíða Glerárgötu, aðalumferðargötunni í gegnum bæinn.

2.Hvannavallareitur - deiliskipulag

Málsnúmer 2015030191Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Glerárgata 36. Var tillagan auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 24. júní 2020 með athugasemdafresti til 5. ágúst. Bárust þrjú athugasemdabréf auk umsagna frá Vegagerðinni, Minjastofnun og Norðurorku.
Afgreiðslu frestað og sviðsstjóra skipulagssviðs ásamt formanni skipulagsráðs falið að ræða við umsækjendur um framhald málsins auk þess að ræða við aðra hagsmunaaðila á svæðinu sem gerðu athugasemd við deiliskipulagstillöguna. Sviðsstjóra er falið að gera tillögu að svörum við innkomnum athugasemdum og umsögnum.

3.Miðbær - uppfærsla deiliskipulags

Málsnúmer 2017010274Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað dagsett 9. júlí 2020 um endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Akureyrar.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að hefja vinnu við gerð breytingar á deiliskipulagi í samræmi við minnisblaðið og að farið verði í þær aðgerðir sem tilgreindar eru til að hægt verði að fara í framkvæmdir á miðbæjarsvæði við fyrsta tækifæri.

4.Gilsbakkavegur 15 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2018110149Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni auglýsingu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar sem nær til lóðarinnar Gilsbakkavegur 15 og svæðis sunnan við hana. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir stækkun núverandi húss til suðausturs sem felur í sér að lóðin stækkar um 39 m² auk þess sem færa þarf Gilsbakkaveg og bílastæði sem við hann liggja lítillega. Er gert ráð fyrir að húsið stækki um allt að 100 m² að grunnfleti og viðbyggingin geti verið á tveimur hæðum og risi. Tillagan var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 18. júní 2020 með athugasemdafresti til 22. júlí. Eitt athugasemdabréf barst.
Afgreiðslu frestað og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að vinna tillögu að umsögn um innkomna athugasemd.

5.Móasíða 1 - beiðni um grenndarkynningu á byggingaráformum

Málsnúmer 2020020705Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða íbúðarhús á lóðinni Móasíðu 1. Var umsóknin grenndarkynnt með bréfi dagsett 25. júní 2020 með fresti til að gera athugasemdir til 23. júlí. Átta athugasemdabréf bárust á kynningartíma.
Afgreiðslu frestað þar til fyrir liggja viðbrögð umsækjenda við efni fyrirliggjandi athugasemda.

6.Munkaþverárstræti 11 - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2020050224Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni grenndarkynningu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Munkaþverárstræti 11. Var tillagan kynnt með bréfi dagsettu 9. júní 2020 með fresti til að gera athugasemd til 8. júlí. Ein athugasemd barst og er hún meðfylgjandi. Þá liggja fyrir viðbrögð umsækjenda við efni athugasemda auk mynda sem sýna skuggavarp með og án viðbyggingar.
Skipulagsráð samþykkir deiliskipulagsbreytinguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 óbreytta og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að annast gildistöku hennar. Er tillaga að svari við athugasemd jafnframt samþykkt.

7.Sólvellir 4 - fyrirspurn um byggingaráform

Málsnúmer 2020050585Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni grenndarkynningu, fyrirspurn um viðbyggingu við Sólvelli 4 ásamt sérstæðum bílskúr. Var tillagan grenndarkynnt með bréfi dagsettu 24. júní 2020 með fresti til að gera athugasemdir til 22. júlí. Ein athugasemd barst á kynningartíma.
Að beiðni umsækjenda frestar skipulagsráð afgreiðslu málsins.

8.Glerárholt - umsókn um fjölgun íbúða

Málsnúmer 2020060753Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga um að fjölga íbúðum á efri hæð Glerárholts úr einni í tvær þannig að í húsinu verði þrjár íbúðir. Var tillagan kynnt með bréfi dagsett 29. júní 2020 með fresti til 27. júlí til að gera athugasemdir. Eitt athugasemdabréf barst.
Skipulagsráð samþykkir að breyta efri hæð Glerárholts í tvær íbúðir í samræmi við tillögu og samþykkir jafnframt fyrirliggjandi tillögu að svari við athugasemd. Umsókn um byggingarleyfi er vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

9.Höfðahlíð 4 - kvörtun vegna atvinnustarfsemi

Málsnúmer 2019080220Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs þann 28. ágúst 2019 fól skipulagsráð sviðsstjóra skipulagssviðs að koma því á framfæri við eigendur Höfðahlíðar 4 að atvinnustarfsemi á lóðinni væri ekki í samræmi við gildandi skipulag svæðisins og að gera þyrfti kröfur um úrbætur í samræmi við það. Hefur ástandið lítið breyst og er ljóst að nokkuð umfangsmikil starfsemi er rekin á staðnum og hafa kvartanir borist frá íbúum í næsta nágrenni.

Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs, í samráði við byggingarfulltrúa, að fara fram á að starfsemi sem er í ósamræmi við skipulag verði hætt strax með vísun í ákvæði gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

10.Spes streetfood ehf - fyrirspurn um kofa í miðbænum fyrir veitingasölu

Málsnúmer 2020070206Vakta málsnúmer

Erindi dagsett þann 6. júlí 2020 þar sem Ingi Þór Arngrímsson, fyrir hönd Spes - streetfood ehf sækir um leyfi til að setja tímabundið, til tveggja ára, upp lítið 10-16 fm hús í miðbænum til þess að selja veitingar.
Skipulagsráð telur að ekki sé hægt að verða við erindinu þar sem öll fastleigustæði í miðbænum er upptekin eins og er.

Skipulagsráð leggur áherslu á að endurskoðun á samþykkt um götu- og torgsölu verði hraðað.

11.Strandgata 11B - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2020071083Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn Hjörleifs Árnasonar móttekin 28. júlí 2020 um hvort heimilt yrði að breyta Strandgötu 11b í veitingastað og krá með opnunartíma til kl. 01.
Skipulagsráð tekur jákvætt í að í húsnæðinu verði starfrækt veitingahús og/eða krá í flokki II sbr. ákvæði 25. gr. lögreglusamþykktar Akureyrar. Eru áfengisveitingar þá heimilar frá 06.00 til kl. 23.00 alla daga.

12.Kríunes lóð L195050 - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2020071187Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Evu Huldar Friðriksdóttur móttekið 30. júlí 2020 um hvort heimilt yrði að breyta húsi á lóðinni Lambhagavegur/Kríunes í Hrísey, sem nú er skráð sem gæludýrahús, í íbúðarhús eða frístundahús. Lóðin er 1738,8 m² að stærð og er í aðalskipulagi skilgreind sem athafnasvæði.
Skipulagsráð bendir á að forsenda þess að hægt sé að breyta núverandi húsum í samræmi við erindi er að gerð verði breyting á aðalskipulagi svæðisins auk þess sem sækja þyrfti um byggingarleyfi fyrir nauðsynlegum breytingum. Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að ræða við umsækjendur um áframhald málsins og leita umsagnar hverfisráðs Hríseyjar.

13.Hafnarstræti 80 og Austurbrú 10-12

Málsnúmer 2020080119Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skipulagssviðs dagsett 6. ágúst 2020 um stöðu mála varðandi lóðirnar Hafnarstræti 80 og Austurbrú 10-12.
Skipulagsráð samþykkir að lóðirnar Hafnarstræti 80 og Austurbrú 10-12 verði auglýstar að nýju í samræmi við ákvæði um hugmyndasamkeppni sem fram koma í gr. 2.4 og 3.3 í reglum um lóðarveitingar. Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að útfæra reglur og forsendur hugmyndasamkeppninnar í samráði við formann skipulagsráðs og bæjarlögmann.

14.Skipulagssvið - skýrslur

Málsnúmer 2018120041Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt um hlutfall yfirvinnu af dagvinnu fyrir janúar - júlí 2020 samanborið við sama tímabil 2019 og árin 2013-2019.

15.Húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2019020182Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um þörf á uppfærslu á húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar. Þá er jafnframt lögð fram gildandi húsnæðisáætlun með viðbótum sem búsetusvið hefur unnið að.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs, í samráði við formann skipulagsráðs, að endurskoða tölulegar upplýsingar húsnæðisáætlunar í samræmi við upplýsingar um mannfjöldaþróun, lóðaframboð o.s.frv.

16.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 773. fundar, dagsett 10. júlí 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 13 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

17.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 774. fundar, dagsett 17. júlí 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

18.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 775. fundar, dagsett 23. júlí 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 3 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

19.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 776. fundar, dagsett 30. júlí 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 1 lið og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:25.