Skipulagsnefnd

170. fundur 15. janúar 2014 kl. 08:00 - 11:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Árni Páll Jóhannsson
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurður Guðmundsson
  • Ragnar Sverrisson áheyrnarfulltrúi
  • Stefán Friðrik Stefánsson áheyrnarfulltrúi
  • Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
Dagskrá
Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi B-lista mætti á fundinn kl. 8:22

1.Naustahverfi 3. áfangi - Hagar, deiliskipulag, skipulagslýsing

Málsnúmer SN080099Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing fyrir Naustahverfi 3. áfanga var auglýst í Dagskránni þann 12. desember 2012. Umsagnir bárust frá:
1) Isavia, dagsett 10. desember 2012.
Ekki er hægt að sjá hæðir húsa á þessu stigi og því er vísað í skipulagsreglur Akureyrarflugvallar um hæðir húsa og hindranalýsingu.
2) Skipulagsstofnun dagsett 19. desember 2012.
Ekki er gerð athugasemd við lýsinguna.
3) Norðurorku dagsett 14. janúar 2013.
Æskilegt er að í greinargerð fyrir nýtt hverfi komi kafli sem fjalli um veitur og veitukerfi. Taka þarf mið að því að lóðir fyrir mannvirki veitna falli vel að öðrum umhverfis- og skipulagsþáttum sbr. upptalningu matsþátta í kafla 4.1 um skipulagsferlið. Minnt er á hugsanlegar skipulagskvaðir vegna lagna veitna sbr. skipulagslög og skipulagsreglugerð.
4) Fornleifavernd, dagsett 21. janúar 2013.
Taka þarf tillit til fornleifa innan skipulagssvæðisins. Æskilegt er að tóftaþyrpingu og garði sunnan Naustagils verði ekki raskað en vegtenging gæti valdið þar raski. Óheimilt er að raska á nokkurn hátt fornleifum nema með leyfi og að uppfylltum skilyrðum Minjastofnunar.
5) Umhverfisstofnun dagsett 21. janúar 2013.
Umhverfisstofnun er hlynt áætlunum um opið svæði upp frá Naustagili og að leitað verði grænna lausna varðandi fráveitukerfi og meðferð ofanvatns. Engar athugasemdir eru gerðar.

Skipulagsstjóri lagði fram drög að tillögu að deiliskipulagi 3ja áfanga Naustahverfis, Hagahverfis. Tillagan er unnin af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf.

Svör við umsögnum við lýsingu:

1) Í greinargerð deiliskipulagsins verður vísað í skipulagsreglur Akureyrarflugvallar um hæðir og hindranalýsingu. Samráð verður haft við ISAVIA um þessi atriði áður en tillagan verður auglýst.

2) Gefur ekki tilefni til svars.

3) Samráð verður haft við Norðurorku um lagnakerfi og lóðir undir spenni- og dælustöðvar.

4) Teikningar af minjum í minjaskrá voru lagðar ofan á loftmyndir og færðar á sem réttastan stað á frumstigi skipulagsverkefnisins. Hætta er á að einhverjar minjar komi í ljós við lagningu tengibrautarinnar austan svæðisins og verður því haft náið samráð við Minjavörð Norðurlands eystra áður en og á meðan framkvæmdir standa yfir.

5) Gefur ekki tilefni til svars.

 

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

Skipulagsnefnd þakkar Árna Ólafssyni fyrir kynninguna.

2.Akstursíþrótta- og skotsvæði á Glerárdal, deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2013010054Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst frá 13. nóvember til 27. desember 2013.
Umsagnir voru sendar til 19 umsagnaraðila og bárust 9 umsagnir um deiliskipulagstillöguna:
1) Norðurorka dagsett 20. nóvember 2013. Norðurorka gerir ekki athugasemd við tillöguna.
2) Skotfélag Akureyrar dagsett 23. desember 2013.
a) Veruleg truflun yrði á starfsemi riffilvallarins ef aksturssvæðið yrði stækkað eins og tillagan gerir ráð fyrir.
b) Ekki hefur verið gerð úttekt af lögreglu á hættu vegna fyrirhugaðrar stækkunar á svæði KKA en svæðið er að hluta til í skotlínu riffilbrautar. Slíka úttekt þyrfti að gera áður en tillaga um stækkun KKA svæðisins yrði samþykkt.
c) Nýr vegur liggur í gegnum verðandi aksturssvæði og þyrfti að leysa það með undirgöngum.
3) Bílaklúbbur Akureyrar dagsett 20. desember 2013.
a) Gerð er athugasemd við göngustíg meðfram Glerá og spurt hvort ekki sé nauðsynlegt að girða hann af þannig að ekki verði hægt að horfa á keppnir BA án þess að greiða aðgangseyri.
b) BA hefur áhyggjur af landsvæði vegna vatnstanks Norðurorku sem klúbburinn telur að þrengi að svæði BA við enda brautar vegna vegar sem þarf að komast fyrir þar.
c) BA hefur áhyggjur af hvernig staðið verði að drenlögnum á svæðinu og hvaða raski það muni valda á lóð BA.
4) Skipulagsstofnun dagsett 18. desember 2013.
a) Stofnunin telur umhverfisskýrslu ófullnægjandi hvað varðar umfjöllun um hljóðvist. Í viðauka við reglugerð um hávaða nr. 724/2008 eru viðmiðunarmörk fyrir hávaða, m.a. á frístundasvæðum og að mati stofnunarinnar þarf að koma fram hver þau mörk eru og að leggja eigi mat á hvort hægt verði að uppfylla þau mörk, með eða án hljóðmana. Ef óvissa ríkir um hvort hægt sé að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar, þótt bætt verði við hljóðmönum, þarf að koma fram hvernig brugðist verði við starfsemi á skipulagssvæðinu, svo sem varðandi takmörkun á starfstíma.
b) Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir vöktun á hávaða, en ekki kemur fram hvað sú vöktun hefur þegar leitt í ljós.
c) Bent er á að gerð hljóðmana á síðari stigum geti kallað á frekari breytingar á deiliskipulagi.
5) Vegagerðin dagsett 18. desember 2013.
Vegagerðin gerir ekki athugasemd við tillöguna.
6) Vetraríþróttamiðstöð Íslands dagsett 27. desember 2013.
Viðbótarsvæði KKA, sem verið er að leggja til að stækki, mun hindra frekari uppbyggingu skíðasvæðisins neðar í fjallinu. Með því að skipuleggja lyftu á umræddu svæði myndu möguleikar skíðasvæðisins margfaldast. Er því óskað eftir að tekið verði tillit til hugsanlegra framtíðaráforma Vetraríþróttamiðstöðarinnar um lyftuframkvæmdir á viðbótarsvæði KKA.
7) Umhverfisstofnun dagsett 3. janúar 2013.
Stofnunin leggur áherslu á hljóðvist og að ekki verði meiri hávaði en svo að hægt verði að stunda þá útivist sem er í boði í nágrenninu. Einnig telur stofnunin mikilvægt að áhersla verði lögð á nýtingu staðargróðurs við uppgræðslu.
8) Íþróttaráð dagsett 23. nóvember 2013.
Íþróttaráð gerir ekki athugasemd við tillöguna.
9) Umhverfisnefnd dagsett 11. desember 2013.
Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við tillöguna.

Engar athugasemdir bárust við deiliskipulagstillöguna á auglýsingartíma.

Svör við umsögnum:

1) Gefur ekki tilefni til svars.

2) a) Í deiliskipulagstillögunni eru sýnd öryggismörk skotsvæðis og þurfa því skot frá riffilbrautum og "skeet" svæðum að lenda innan þeirra marka. Því er gerð krafa um að öryggismön vestan riffilbrautar Skotfélagsins verði nægilega há til þess að tryggja öryggi vegfarenda um göngustíg norðan og vestan skotsvæðisins og gagnvart svæði KKA. Þá er gerð krafa um að öryggiskröfur um skotsvið í skothúsum riffilbrauta verði uppfylltar samkvæmt stöðlum. Einnig er gerð krafa um öryggisgirðingu á milli göngustígs og skotsvæðis.

b) Ef viðeigandi öryggiskröfur er uppfylldar sbr. lið 2a) ætti ekki að vera þörf á sérstakri úttekt lögreglu á svæðinu. Sjá nánar svar við nr. 2a).

c) Í deilskipulagstillögunni er gert ráð fyrir undirgöngum (röri) undir nýja aðkomu að svæði KKA og SA.

3) a) Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir að svæði BA verði girt af frá göngustígnum meðfram Glerá en Bílaklúbbnum er heimilt að skerma svæði sitt tímabundið frá stígnum ef talin er þörf á því.

b) Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir svokölluðum "tilbaka vegi" meðfram öryggissvæði bremsubrautar sem á að fullnægja þörf ökutækja til þess að komast af brautinni.

c) Fyrirhugaðar drenlagnir ofan svæðis og innan svæðis BA eru nauðsynlegar til þess að hindra ofanflóð vegna vatnsflaums. Sem stendur eru farvegir ofanjarðar fyrir þessa læki sem fyrirhugað er að koma fyrir í drenrörum sem lögð verða í jörðu. Þannig er reynt að tryggja að ekki verði skemmdir á aðstöðusvæði BA.

4) a) Ítarleg umhverfisskýrsla var unnin við gerð deiliskipulagsins 2008 og heldur hún gildi sínu. Komi í ljós að neikvæð áhrif á nærumhverfi frá stækkuðu svæði KKA á hljóðvist séu umfram viðmiðunarmörk 4. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008, töflu 1 í viðauka, verði hljóðmön framlengd til mótvægis meðfram Hlíðarfjallsvegi og upp fyrir frístundabyggðina í Hálöndum. Samhliða verði sett ákvæði í starfsleyfi svæðisins til að uppfylla kröfur um viðmiðunarmörk um hávaða. Vegna sérstakra viðburða félaganna á skipulagssvæðinu verði stuðst við ákvæði og viðmið 10. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

b) Starfsemi á svæðinu er nú mjög takmörkuð þar sem framkvæmdum er langt því frá lokið. Ekki er því talið rétt að viðhafa vöktun á svæðinu þar sem slíkar niðurstöður myndu ekki gefa rétta mynd af heildaráhrifum þess á umhverfið í framtíðinni.

c) Gefur ekki tilefni til svars.

5) Gefur ekki tilefni til svars.

6) Starfsemi KKA hefur vaxið mikið á síðustu misserum og því nauðsynlegt að mæta þeim kröfum sem kalla á aukið landsvæði til íþróttarinnar, sem dregur að sér ferðamenn ekki síður en skíðaáhugafólk. Því er talið nauðsynlegt að úthluta félaginu stærra svæði. Tekið skal fram að um afturkræfa framkvæmd er að ræða og ætti því ekki að fyrirbyggja hugsanlegar hugmyndir um lyftuframkvæmdir tengdar skíðasvæðinu í framtíðinni.

7) Skipulagsnefnd tekur undir umsögnina sem gefur að öðru leyti ekki tilefni til svars.

8) Gefur ekki tilefni til svars.

9) Gefur ekki tilefni til svars.

 

Niðurstaða:

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar. 

Edward H. Huijbens V-lista sat hjá við afgreiðsluna og óskaði bókað að stækkun akstursíþróttasvæðis KKA og skotsvæðis SA sé misráðin og að huga þurfi að annarri staðsetningu fyrir starfsemi klúbbana. Edward minnir á ítrekaðar bókanir V-lista um nauðsyn þess að skipuleggja útivist og afþreyingu í Hlíðarfjalli heildstætt. Ljóst má vera að vaxandi frístundabyggð og fjölgandi útivistarmöguleikum á svæðinu er skorinn of þröngur stakkur með því að stækka svæði undir aksturs- og skotíþróttir. Fyrirsjáanlegt er að til árekstra komi í framtíðinni og því stækkun svæðanna misráðin. 

3.Drottningarbraut - umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir göngustíg

Málsnúmer 2014010104Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 9. janúar 2014 þar sem framkvæmdadeild Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir göngustíg meðfram Drottningarbraut austanverðri frá Torfunefsbryggju að gatnamótum Drottningarbrautar og Miðhúsabrautar.
Meðfylgjandi eru þversnið, planmyndir og tillöguteikning af legu göngustígsins unnin af framkvæmdadeild Akureyrarbæjar. Einnig fylgir nánari hönnum göngustígsins og áningastaða unnin af Landslagi ehf.

Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmda við lagningu göngustígsins, sem er í samræmi við samþykkt aðalskipulag, og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 4. gr.- g  "Samþykktar um skipulagsnefnd".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

4.Eyjafjarðarbraut - umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir flughlað

Málsnúmer 2013100259Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. desember 2013 þar sem Bergur Steingrímsson f.h. Isavia ohf., kt. 550210-0370, sækir um framkvæmdaleyfi vegna jarðvegsframkvæmda við nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli við Eyjafjarðarbraut.
Í bréfi Skipulagsstofnunar dagsettu 5. janúar 2012 um matskyldu framkvæmdarinnar vegna gerð flughlaðs við Akureyrarvöll, kemur fram að það sé niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna jarðvegsframkvæmda við nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 4. gr.- g  "Samþykktar um skipulagsnefnd".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

Skipulagsnefnd tekur undir niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matskyldu framkvæmdanna þar sem ítrekað er mikilvægi þess að ISAVIA og aðrir sem að framkvæmdinni koma viðhafi þá verktilhögun og mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum.

Skipulagsnefnd samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 4. gr.-g "Samþykktar um skipulagsnefnd".

5.Borgargil 1 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2013120025Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagsbreytingu vegna Borgargils 1 f.h. Fasteigna Akureyrarbæjar, kt. 710501-2380, unna af Form ehf. og dagsetta 2. janúar 2014.

Einungis er um að ræða breytingu á lóðarstærð og er breyting sem varðar Akureyrarkaupstað og lóðarhafa. Þess vegna leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 2. málslið, 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Stórholt - Lyngholt - breyting á deiliskipulagi, Lyngholt 7

Málsnúmer 2013110221Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. nóvember 2013 þar sem Sigurður Sigþórsson óskar eftir stækkun á byggingarreit fyrir bílskúr við hús nr. 7 við Lyngholt. Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 11. desember 2013 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi ásamt tillöguteikningu af bílgeymslunni.
Tillagan er dagsett 15. janúar 2014 og unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi ehf.

Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Miðhúsabraut-Súluvegur - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2013110170Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagsbreytingu vegna Súluvegar 2 f.h. Norðurorku, kt. 550978-0169. Tillagan er unnin af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf. og dagsetta 12. desember 2013.

Einungis er um að ræða breytingu á nýtingarhlutfalli og er breyting sem varðar Akureyrarkaupstað og lóðarhafa. Þess vegna leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 2. málslið, 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Edward H. Huijbens V-lista bar upp vanhæfi sitt við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hann af fundi við afgreiðslu þess.

8.Naustatangi 1 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2013080178Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 21. ágúst 2013 þar sem Logi Már Einarsson f.h. Slippsins Akureyri ehf., kt. 511005-0940, óskar eftir leyfi skipulagsyfirvalda til að framlengja grjótgarð og stækka uppfyllingu austan við athafnasvæði fyrirtækisins við Naustatanga 1. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Loga Má Einarsson.
Óskað var eftir umsögn Hafnasamlags Norðurlands sem barst með tölvupósti 13. desember 2013.

Fram kemur í svari Hafnasamlagsins eftir skoðun siglingasviðs Vegagerðarinnar á tillögunni að fara þurfi í mótvægisaðgerðir vegna endurkasts öldu frá grjótgarðinum sem muni valda aukinni ókyrrð framan við flotkvína. Einnig er bent á að mjög er þrengt að athafnarými sem dráttarbátarnir hafa til að færa skip í og úr flotkvínni.

Sem mótvægi leggja sérfræðingarnir til að stefnu grjótgarðsins verði breytt og að gerður verði nýr varnargarður norðan flotkvíarstæðis eins og sýnt er á meðfylgjandi uppdrætti.
Niðurstaða:

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og heimilar umsækjanda að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Skipulagsbreytingin skal unnin í samráði við skipulagsstjóra og hafnarstjóra.

9.Þingvallastræti 10 - grenndarkynning vegna viðbyggingar

Málsnúmer 2012090012Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. september 2012, þar sem Þröstur Sigurðsson f.h. Páls Sigurjónssonar óskar eftir leyfi til að byggja viðbyggingu við húsið Þingvallastræti 10, var grenndarkynnt á ný frá 12. desember til 9. janúar 2014.
Ein athugasemd barst frá Tómasi B. Haukssyni og Elínu A. Ólafsdóttur, Lögbergsgötu 9, dagsett 9. janúar 2014.
Þau eru sáttari við nýjar tillöguteikningar en hefðu kosið að hafa lengra bil frá viðbyggingu að lóðarmörkum. Óskað er eftir því að nýtingarhlutfall á lóð þeirra við Lögbergsgötu 9 verði sambærilegt við það sem samþykkt verður á lóð Þingvallastrætis 10 þegar deiliskipulag verður unnið að hverfinu.

Skipulagsnefnd hefur ákveðið að hefja vinnu við að deiliskipuleggja hluta Norðurbrekku og mun nýtingarhlutfall lóða þar verða ákveðin í þeirri vinnu.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsstjóra að afgreiða umsókn um byggingarleyfi þegar hún berst.

10.Klettagerði 6 - umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu

Málsnúmer 2013110094Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. nóvember 2013, þar sem Haraldur S. Árnason f.h. Arnar Inga Gíslasonar óskar eftir leyfi til að byggja viðbyggingu við húsið Klettagerði 6, var grenndarkynnt frá 28. nóvember til 27. desember 2013.
Engin athugasemd barst.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsstjóra að afgreiða umsókn um byggingarleyfi þegar hún berst.

11.Árstígur 6 - umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu

Málsnúmer 2014010109Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. janúar 2014 þar sem Steinar Magnússon f.h. Ferro Zink hf., kt. 460289-1309, sækir um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við hús nr. 6 við Árstíg. Meðfylgjandi er afstöðumynd, er sýnir umfang viðbyggingarinnar, móttekin 10. janúar 2014.





Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið en óskar eftir nánari gögnum varðandi viðbygginguna vegna grenndarkynningar.

12.Kotárgerði 8 - grenndarkynning vegna byggingar bílskúrs

Málsnúmer 2013040101Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. apríl þar sem Tryggvi Tryggvason f.h. Arnars Guðmundssonar og Margrétar Dóru Eðvarðsdóttur óskar eftir að byggja bílskúr við Kotárgerði 8. Skipulagsnefnd samþykkti að grenndarkynna erindið og barst ein athugasemd frá Þorgeiri V. Jónssyni og Kristínu Ólafsdóttur, Kotárgerði 10.
Þau benda á að lóð þeirra standi neðar en Kotárgerði 8 og mun því fyrirhuguð viðbygging skyggja á lóð þeirra.
Óskað er eftir skuggavarpsteikningum og afstöðumynd sem sýnir húsin nr. 8 og 10 séð frá götu.

Skipulagsnefnd óskar eftir skuggavarpsteikningum og ásýndarmynd sem sýnir húsin nr. 8 og 10 séð frá götu og felur skipulagsstjóra að grenndarkynna þeim er gerðu athugasemd við tillöguna.

Sigurður Guðmundsson A-lista bar upp vanhæfi sitt við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hann af fundi við afgreiðslu málsins.

13.Hamratún 8-10 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2013120133Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. desember 2013 þar sem Helgi Snorrason f.h. Byggingarfélagsins Hyrnu ehf., kt. 710594-2019, sækir um lóð nr. 8-10 við Hamratún.
Meðfylgjandi er staðfesting frá Íslandsbanka um greiðslugetu fyrirtækisins vegna framkvæmdanna.







Skipulagsnefnd samþykkir erindið með fyrirvara um byggingarhæfi lóðarinnar. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

14.Svæði fyrir geymsluaðstöðu

Málsnúmer 2013010288Vakta málsnúmer

Gunnar Jónsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 28. nóvember 2013.
Hann kom til að fylgja eftir erindi sem hann var með í viðtalstíma fyrr á árinu vegna óska um geymslusvæði fyrir verktaka.

Skipulagsnefnd óskar eftir afstöðu framkvæmdaráðs til erindisins.

15.Hólabraut - gatnamál, bílastæði og leikvöllur

Málsnúmer 2013120063Vakta málsnúmer

Jón Steinar Ólafsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa 5. desember 2013.
Hann spurðist fyrir um hvort ekki mætti nýta græna svæðið sunnan við íþróttavöllinn sem almenn bílastæði og leikvöll fyrir börn.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir almennu bílastæði á reitnum vestan götunnar sem á eftir að gera. Brekkan er nú nýtt sem leiksvæði en að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir sérstöku leiksvæði á reitnum.

16.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2013

Málsnúmer 2013010008Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 11. desember 2013. Lögð var fram fundargerð 473. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum.

 Lagt fram til kynningar.

17.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2013

Málsnúmer 2013010008Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 18. desember 2013. Lögð var fram fundargerð 474. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.

Lagt fram til kynningar.

18.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2014

Málsnúmer 2014010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 9. janúar 2014. Lögð var fram fundargerð 475. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 11 liðum.

Lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:00.