Málsnúmer 2013010054Vakta málsnúmer
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst frá 13. nóvember til 27. desember 2013.
Umsagnir voru sendar til 19 umsagnaraðila og bárust 9 umsagnir um deiliskipulagstillöguna:
1) Norðurorka dagsett 20. nóvember 2013. Norðurorka gerir ekki athugasemd við tillöguna.
2) Skotfélag Akureyrar dagsett 23. desember 2013.
a) Veruleg truflun yrði á starfsemi riffilvallarins ef aksturssvæðið yrði stækkað eins og tillagan gerir ráð fyrir.
b) Ekki hefur verið gerð úttekt af lögreglu á hættu vegna fyrirhugaðrar stækkunar á svæði KKA en svæðið er að hluta til í skotlínu riffilbrautar. Slíka úttekt þyrfti að gera áður en tillaga um stækkun KKA svæðisins yrði samþykkt.
c) Nýr vegur liggur í gegnum verðandi aksturssvæði og þyrfti að leysa það með undirgöngum.
3) Bílaklúbbur Akureyrar dagsett 20. desember 2013.
a) Gerð er athugasemd við göngustíg meðfram Glerá og spurt hvort ekki sé nauðsynlegt að girða hann af þannig að ekki verði hægt að horfa á keppnir BA án þess að greiða aðgangseyri.
b) BA hefur áhyggjur af landsvæði vegna vatnstanks Norðurorku sem klúbburinn telur að þrengi að svæði BA við enda brautar vegna vegar sem þarf að komast fyrir þar.
c) BA hefur áhyggjur af hvernig staðið verði að drenlögnum á svæðinu og hvaða raski það muni valda á lóð BA.
4) Skipulagsstofnun dagsett 18. desember 2013.
a) Stofnunin telur umhverfisskýrslu ófullnægjandi hvað varðar umfjöllun um hljóðvist. Í viðauka við reglugerð um hávaða nr. 724/2008 eru viðmiðunarmörk fyrir hávaða, m.a. á frístundasvæðum og að mati stofnunarinnar þarf að koma fram hver þau mörk eru og að leggja eigi mat á hvort hægt verði að uppfylla þau mörk, með eða án hljóðmana. Ef óvissa ríkir um hvort hægt sé að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar, þótt bætt verði við hljóðmönum, þarf að koma fram hvernig brugðist verði við starfsemi á skipulagssvæðinu, svo sem varðandi takmörkun á starfstíma.
b) Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir vöktun á hávaða, en ekki kemur fram hvað sú vöktun hefur þegar leitt í ljós.
c) Bent er á að gerð hljóðmana á síðari stigum geti kallað á frekari breytingar á deiliskipulagi.
5) Vegagerðin dagsett 18. desember 2013.
Vegagerðin gerir ekki athugasemd við tillöguna.
6) Vetraríþróttamiðstöð Íslands dagsett 27. desember 2013.
Viðbótarsvæði KKA, sem verið er að leggja til að stækki, mun hindra frekari uppbyggingu skíðasvæðisins neðar í fjallinu. Með því að skipuleggja lyftu á umræddu svæði myndu möguleikar skíðasvæðisins margfaldast. Er því óskað eftir að tekið verði tillit til hugsanlegra framtíðaráforma Vetraríþróttamiðstöðarinnar um lyftuframkvæmdir á viðbótarsvæði KKA.
7) Umhverfisstofnun dagsett 3. janúar 2013.
Stofnunin leggur áherslu á hljóðvist og að ekki verði meiri hávaði en svo að hægt verði að stunda þá útivist sem er í boði í nágrenninu. Einnig telur stofnunin mikilvægt að áhersla verði lögð á nýtingu staðargróðurs við uppgræðslu.
8) Íþróttaráð dagsett 23. nóvember 2013.
Íþróttaráð gerir ekki athugasemd við tillöguna.
9) Umhverfisnefnd dagsett 11. desember 2013.
Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við tillöguna.
Engar athugasemdir bárust við deiliskipulagstillöguna á auglýsingartíma.