Skipulagsráð

391. fundur 09. nóvember 2022 kl. 08:15 - 10:07 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Jón Hjaltason
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sif Jóhannesar Ástudóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • María Markúsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá

1.Leikskóli og hjúkrunarheimili - breyting á deiliskipulagi Síðuskóla

Málsnúmer 2022010712Vakta málsnúmer

Kynningu á drögum að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla vegna áforma um hjúkrunarheimili og leikskóla lauk þann 26. október sl.

Sex athugasemdir bárust. Umsagnir bárust frá öldungaráði Akureyrarbæjar, Norðurorku, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjastofnun Íslands og Síðuskóla.
Afgreiðslu frestað.

Jón Hjaltason óskar bókað eftirfarandi:

Í desember 2020 sameinuðust Heilbrigðisráðuneytið og Akureyrarbær um byggingu hjúkrunarheimilis við Vestursíðu 9 á Akureyri sem á að vera risið í árslok 2023. Undirritaður skilur vel ótta við frekari frestun framkvæmda. Því er mikilvægt að finna heimilinu þegar í stað annað byggingarsvæði þar sem hugsað verður til langrar framtíðar með það markmið að á ókomnum árum rísi við hjúkrunarheimilið íbúðir fyrir 60 ára og eldri með líku fyrirkomulagi og til dæmis í Mörkinni við Suðurlandsbraut í Reykjavík.

2.Háskólasvæði - uppbygging á reit C

Málsnúmer 2021062236Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga AVH verkfræðistofu að breytingu á deiliskipulagi Háskólans á Akureyri. Í breytingunni felst eftirfarandi:

- Skipulagsmörk færast til austurs að Dalsbraut.

- Á svæði norðan Norðurslóðar, merkt reitur C, er afmarkaður byggingarreitur fyrir allt að 8.600 m² skrifstofuhúsnæði.

- Á svæði meðfram Dalsbraut eru afmarkaðar þrjár lóðir, merktar D, E og F, fyrir uppbyggingu stúdentagarða, samtals allt að 7.600 m², fyrir einstaklingsherbergi með sameiginlegri aðstöðu, stúdíó- og tveggja herbergja íbúðir.
Afgreiðslu frestað og formanni skipulagsráðs og skipulagsfulltrúa falið að ræða við umsækjanda um framhald málsins.


3.KA svæði Dalsbraut - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2022101088Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Kollgátu teiknistofu f.h. umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar að breytingu á deiliskipulagi KA svæðis - Lundarskóla - Lundarsels.

Breytingin felst í eftirfarandi:

- Hámarkshæð áhorfendastúku hækkar úr 9,5 m í 13 m og heildarfjöldi hæða í stúkubyggingu eykst í þrjár hæðir. Heildarbyggingarmagn minnkar úr 3.206 m² í 2.900 m².

- Heildarfjöldi hæða í tengibyggingu eykst í þrjár hæðir og hámarkshæð byggingar í 12,1 m.

- Byggingarreitur B breikkar um 4 m til suðurs og reitur fyrir sjónvarpsupptökuhús færist lítillega til suðurs og vesturs.

- Vallarstæði nýs aðalvallar er fært um 10 m til suðurs til að vernda trjágróður meðfram Þingvallastræti. Byggingarreitir fyrir ljósamöstur færast til samræmis.

- Kvaðir um frágang ljósamastra eru settar inn vegna ákvæða í flugvallareglugerð nr. 464/2007.

- Settir eru inn nýir byggingarreitir fyrir fjögur ljósamöstur.

- Hæð ljósamastra hækkar úr 25 m í 27 m.
Afgreiðslu frestað þar til umsögn ISAVIA og Norðurorku liggur fyrir.

4.Skarðshlíð 20 - ósk um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2022110175Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. nóvember 2022 þar sem Birgir Teitsson f.h. byggingarfélagsins Hyrnunnar sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 20 við Skarðshlíð.

Tillagan gerir ráð fyrir vinkilbyggingu sem er 5 hæðir í miðjunni en lækkar til hliðanna í 3 hæðir. Byggingin mun rúma 53 íbúðir með alls 78 bílastæðum, þar af 46 stæðum í bílakjallara.

Meðfylgjandi eru tillögu- og skýringaruppdrættir.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og leggur til við bæjarstjórn að breyting á deiliskipulagi til samræmis við fyrirliggjandi gögn að undanskilinni stækkun lóðarinnar til suðurs verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Dvergaholt 5-7-9 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2022100813Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 23. október 2022 þar sem Haraldur Sigmar Árnason f.h. Trétaks ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 5-7-9 við Dvergaholt. Meðfylgjandi eru greinargerð og uppdráttur.
Halla Björk Reynisdóttir bar upp vanhæfi við afgreiðslu málsins sem lóðarhafi Hulduholts nr. 29 og var það samþykkt. Vék hún af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 og breyting á deiliskipulagi Holtahverfis norður til samræmis við erindið.

Skipulagsráð telur að sérstakar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til að samþykkja breytingu á nýsamþykktu deiliskipulagi. Skipulagsráð telur þó að slíkar aðstæður séu fyrir hendi nú í ljósi landfræðilegrar legu umræddrar lóðar sem staðsett er ofan í hvilft.

Er skipulagsfulltrúa falið að láta vinna lýsingu að breytingu á aðalskipulagi og leggja fyrir bæjarstjórn.

6.Strandgata 27 - umsókn um niðurrif og endurbyggingu húss

Málsnúmer 2022100930Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. október 2022 þar sem Ingólfur Freyr Guðmundsson f.h. Vesturkants ehf. sækir um niðurrif byggingar á lóð nr. 27 við Strandgötu og endurbyggingu nýs húss á lóðinni. Meðfylgjandi er fyrirspurnarteikning.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu þar til umsögn Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.

7.Möðruvallastræti 1A - fyrirspurn varðandi viðbyggingu

Málsnúmer 2022110086Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. nóvember 2022 þar sem Jóhann Helgi Hlöðversson sækir um viðbyggingu við hús nr. 1A við Möðruvallastræti. Meðfylgjandi eru tillöguteikning og samþykki Minjastofnunar Íslands fyrir áformunum.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún grenndarkynnt skv. 44. gr. laganna. Grenndarkynnt skal fyrir lóðarhöfum Möðruvallastræti 1 þegar fullnægjandi skipulagsgögn hafa borist frá umsækjanda.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

8.Sjafnargata 2 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2022100948Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 26. október 2022 þar sem Frosti Ólafsson f.h. Olíuverzlunar Íslands hf. sækir um stækkun lóðar nr. 2 við Sjafnargötu. Markmið stækkunarinnar er að færa meginstarfsemi Olís á Akureyri á einn stað. Meðfylgjandi eru afstöðumynd og byggingarlýsing.
Skipulagsráð samþykkir að heimila umsækjanda að leggja fram drög að breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis við Grænhól til samræmis við erindið. Jafnframt samþykkir skipulagsráð að drögin verði kynnt skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

9.Krabbastígur 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2022070337Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. júlí 2022 þar sem Marco Pettinelli sækir um stækkun lóðar nr. 4 við Krabbastíg. Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs þann 26. október sl. Var afgreiðslu þess frestað og skipulagsfulltrúa falið að leita álits óháðs lögfræðings og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Skipulagsráð hafnar því að lóð Krabbastígs verði stækkuð til samræmis við erindið en samþykkir að unnið verði að breytingu á deiliskipulagi þannig að á þessu svæði verði aðkomuleið frá Krabbastíg 4 að Krákustíg um opið svæði í landi Akureyrarbæjar. Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að vinna að gerð deiliskipulagsbreytingar fyrir umrætt svæði.

10.Helgamagrastræti 11 - fyrirspurn varðandi bílgeymslu

Málsnúmer 2022100978Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 26. október 2022 þar sem Hlynur Halldórsson leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílgeymslu á lóð nr. 11 við Helgamagrastræti. Meðfylgjandi er skýringarmynd.
Skipulagsráð samþykkir að heimila umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skal hún grenndarkynnt skv. 44. gr. laganna þegar fullnægjandi gögn hafa borist. Grenndarkynnt skal fyrir lóðarhöfum Helgamagrastræti 9 og Þórunnarstræti 110 auk þess sem leita þarf umsagnar Minjasafnsins á Akureyri.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

11.Merkigil - breyting á hámarkshraða

Málsnúmer 2022110163Vakta málsnúmer

Skipulagsráð leggur til að hámarkshraði í Merkigili verði lækkaður úr 50 km/klst í 30 km/klst í samræmi við hámarkshraða í öðrum safngötum innan bæjarins.
Skipulagsráð samþykkir að hámarkshraða í Merkigili verði breytt í 30 km/klst og leggur áherslu á að settar verði upp viðeigandi merkingar.

Er skipulagsfulltrúa falið að auglýsa gildistöku breytinga á umferðarhraða í B-deild Stjórnartíðinda að fenginni umsögn Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra í samræmi við 3. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

12.Skálateigur, Víðilundur, Mýrarvegur, Klettastígur, Helgamagrastræti, Brekkugata - umsókn um framkvæmdaleyfi, ídráttur á blástursrörum

Málsnúmer 2022101006Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. október 2022 þar sem Grétar Ómarsson f.h. Mílu ehf. sækir um framkvæmdaleyfi fyrir ídrátt á blástursrörum í Skálateig, Víðilundi, Mýrarvegi, Klettastíg, Helgamagrastræti og Brekkugötu.

Framkvæmdatími er áætlaður frá 27. október til 20. nóvember 2022. Meðfylgjandi eru skýringarmyndir.
Skipulagsráð samþykkir erindið og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

13.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 887. fundar, dagsett 27. október 2022, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

14.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 886. fundar, dagsett 20. október 2022, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

15.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 888. fundar, dagsett 3. nóvember 2022, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 10:07.