Leikskóli og hjúkrunarheimili - breyting á deiliskipulagi Síðuskóla

Málsnúmer 2022010712

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 379. fundur - 06.04.2022

Lagðar fram tillögur Landslags ehf. að afmörkun lóða fyrir nýtt hjúkrunarheimili annarsvegar og nýjan leikskóla og stækkun Síðuskóla hinsvegar.


Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista bar upp vanhæfi við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hún af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu. Er skipulagsfulltrúa falið að kynna tillögurnar fyrir fræðslu- og lýðheilsusviði, umhverfis- og mannvirkjasviði og Framkvæmdasýslu - Ríkiseignum og óska eftir viðbrögðum fyrir næsta fund ráðsins.

Fræðslu- og lýðheilsuráð - 9. fundur - 09.05.2022

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi kom á fundinn og kynnti breytingu á deiliskipulagi á lóð Síðuskóla.

Daníel Sigurður Eðvaldsson fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Elías Gunnar Þorbjörnsson fulltrúi grunnskólastjóra, Snjólaug Brjánsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Sylvía Dögg Hjörleifsdóttir verkefnastjóri grunnskóla sátu fundinn undir þessum lið.
Út frá fyrirliggjandi hugmyndum hefur fræðslu- og lýðheilsuráð áhyggjur af framtíðar möguleikum á stækkun Síðuskóla og byggingu nýs leikskóla á svæðinu vestan Síðuskóla sérstaklega með hliðsjón af uppbyggingu Móahverfis.

Skipulagsráð - 384. fundur - 06.07.2022

Lögð fram uppfærð tillaga Landslags ehf. að afmörkun lóðar fyrir nýtt hjúkrunarheimili við Vestursíðu og stækkun á lóð Síðuskóla fyrir framtíðar leikskóla. Umrædd tillaga er breytt frá fyrri tillögum sem lagðar voru fram á fundi skipulagsráðs þann 6. apríl sl. og í fræðslu- og lýðheilsuráði þann 9. maí sl. og sendar voru til umsagnar umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar og Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna (FSRE). Framlögð tillaga var unnin til að koma til móts við ábendingar sem fram komu í minnisblaði FSRE dags. 9. maí 2022.



Skipulagsráð frestar afgreiðslu málsins.

Skipulagsráð - 386. fundur - 24.08.2022

Lögð fram uppfærð tillaga Landslags ehf. að afmörkun lóðar fyrir nýtt hjúkrunarheimili við Vestursíðu og stækkun á lóð Síðuskóla fyrir framtíðar leikskóla. Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs þann 6. júlí sl. og var afgreiðslu þess frestað.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að hefja vinnu við gerð deiliskipulags í samræmi við fyrirliggjandi gögn.



Jón Hjaltason F-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað eftirfarandi:


Undirritaður telur mjög misráðið að byggja umrætt hjúkrunarheimili nánast á skólalóð Síðuskóla. Bent er á að í gildandi aðalskipulagi er lögð áhersla á „að auka möguleika á að ferðast gangandi eða hjólandi á milli staða.“

Það gefur augaleið að hornsteinn slíkrar stefnu er að þróa íbúðabyggð í nágrenni grunnskóla. Þá virðist misráðið að þjarma að Síðuskóla með þessum hætti, ekki síst í ljósi væntanlegrar uppbyggingar í Móahverfi. Í þriðja lagi á að virða búseturétt aldraðra þannig að þeim bjóðist valkostir um búsetu eftir hverfum, jafnvel þótt þeir gangi ekki heilir til skógar.

Því vill undirritaður eindregið fara þess á leit að væntanlegu hjúkrunarheimili verði fundinn annar staður.

Skipulagsráð - 388. fundur - 28.09.2022

Lögð fram tillaga Landslags ehf. að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun skipulagssvæðisins til vesturs að Vestursíðu, afmörkun lóðar fyrir nýtt hjúkrunarheimili á suðvesturhluta svæðisins og nýjum leikskóla sem tengist Síðuskóla á norðvesturhluta svæðisins.
Skipulagsráð samþykkir að kynna drög að tillögu að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

Öldungaráð - 22. fundur - 12.10.2022

Í kynningu eru drög að tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Síðuskóla í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagstillagan gerir ráð fyrir stækkun skipulagssvæðisins til vesturs að Vestursíðu, afmörkun lóðar fyrir hjúkrunarheimili á tveimur hæðum á suðvesturhluta svæðisins og nýjum leikskóla sem tengist Síðuskóla á norðvesturhluta þess.
Öldungaráði finnst mikilvægt að vandað sé til verka við staðsetningu hjúkrunarheimilisins og vill að skoðað sé hvort aðrir betri kostir séu fýsilegir með tilliti til framtíðaruppbyggingar svæðisins vestur af Síðuskóla.

Skipulagsráð - 391. fundur - 09.11.2022

Kynningu á drögum að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla vegna áforma um hjúkrunarheimili og leikskóla lauk þann 26. október sl.

Sex athugasemdir bárust. Umsagnir bárust frá öldungaráði Akureyrarbæjar, Norðurorku, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjastofnun Íslands og Síðuskóla.
Afgreiðslu frestað.

Jón Hjaltason óskar bókað eftirfarandi:

Í desember 2020 sameinuðust Heilbrigðisráðuneytið og Akureyrarbær um byggingu hjúkrunarheimilis við Vestursíðu 9 á Akureyri sem á að vera risið í árslok 2023. Undirritaður skilur vel ótta við frekari frestun framkvæmda. Því er mikilvægt að finna heimilinu þegar í stað annað byggingarsvæði þar sem hugsað verður til langrar framtíðar með það markmið að á ókomnum árum rísi við hjúkrunarheimilið íbúðir fyrir 60 ára og eldri með líku fyrirkomulagi og til dæmis í Mörkinni við Suðurlandsbraut í Reykjavík.

Skipulagsráð - 392. fundur - 23.11.2022

Kynningu á tillögu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla vegna áforma um hjúkrunarheimili og leikskóla lauk 26. október sl.

Sex athugasemdabréf bárust auk umsagna frá öldungaráði Akureyrarbæjar, Síðuskóla, Norðurorku, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Minjastofnun Íslands.

Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs 9. nóvember sl. og var afgreiðslu frestað.

Eru nú lagðar fram tvær tillögur að útfærslu svæðisins, annars vegar Tillaga A þar sem fyrirhugað hjúkrunarheimili er staðsett norðan við núverandi hjúkrunarheimili og sunnan við fyrirhugaðan leikskóla og hins vegar Tillaga B þar sem fyrirhugaður leikskóli er staðsettur norðan við núverandi hjúkrunarheimili og sunnan við fyrirhugað hjúkrunarheimili.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki Tillögu B að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla með minniháttar lagfæringum til samræmis við umræður á fundinum og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jón Hjaltason situr hjá við afgreiðslu málsins.

Bæjarstjórn - 3520. fundur - 06.12.2022

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Kynningu á tillögu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla vegna áforma um hjúkrunarheimili og leikskóla lauk 26. október sl.

Sex athugasemdabréf bárust auk umsagna frá öldungaráði Akureyrarbæjar, Síðuskóla, Norðurorku, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Minjastofnun Íslands.

Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs 9. nóvember sl. og var afgreiðslu frestað.

Eru nú lagðar fram tvær tillögur að útfærslu svæðisins, annars vegar Tillaga A þar sem fyrirhugað hjúkrunarheimili er staðsett norðan við núverandi hjúkrunarheimili og sunnan við fyrirhugaðan leikskóla og hins vegar Tillaga B þar sem fyrirhugaður leikskóli er staðsettur norðan við núverandi hjúkrunarheimili og sunnan við fyrirhugað hjúkrunarheimili.

Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki Tillögu B að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla með minniháttar lagfæringum til samræmis við umræður á fundinum og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jón Hjaltason situr hjá við afgreiðslu málsins.

Er nú lagður fram í bæjarstjórn deiliskipulagsuppdráttur skv. tillögu B. Umrædd tillaga kallar á breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 þar sem reitir S30 og S31 fyrir samfélagsþjónustu sameinast í einn reit.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla skv. tillögu B og að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 til samræmis við breytingu á deiliskipulagi. Að mati bæjarstjórnar er um óverulega breytingu að ræða í samræmi við 2. mgr. 36.gr. skipulagslaga þar sem breytingin hefur hvorki í för með sér breytingar á landnotkun né er hún líkleg til að hafa áhrif á einstaka aðila eða stór svæði.