Skipulagsráð

370. fundur 24. nóvember 2021 kl. 08:15 - 11:40 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Þórhallur Jónsson formaður
  • Orri Kristjánsson
  • Grétar Ásgeirsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þorvaldur Helgi Sigurpálsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • María Markúsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
Dagskrá
Orri Kristjánsson S-lista mætti í forföllum Sindra Kristjánssonar.
Eggert Ásgeirsson B-lista mætti í forföllum Guðmundar Baldvins Guðmundssonar.
Þorvaldur Helgi Sigurpálsson M-lista mætti í forföllum Helga Sveinbjörns Jóhannssonar.

1.Dalvíkurlína - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2021110081Vakta málsnúmer

Lögð fram skipulags- og matslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 ásamt aðalskipulagi Hörgársveitar og Dalvíkurbyggðar vegna Dalvíkurlínu 2. Lýsingin er unnin af Verkís fyrir hönd Landsnets.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að framlögð skipulags- og matslýsing verði samþykkt og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Oddeyri - breyting á aðalskipulagi 2018-2030

Málsnúmer 2019090318Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu tillaga að breytingu á aðalskipulagi á Oddeyri. Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs þann 23. júní sl. og var afgreiðslu þá frestað. Um er að ræða breytingu á aðalskipulagi sem hefur verið í ferli í rúm tvö ár en lýsing skipulagsbreytingarinnar var kynnt á fundi í Hofi þann 21. október 2019, drög að breytingu voru kynnt 6. maí 2020 og var tillaga að breytingu síðan auglýst 6. janúar 2021 með athugasemdafresti til 17. febrúar. Að athugasemdafresti loknum samþykkti bæjarstjórn að fara í íbúakosningu um breytingu á aðalskipulagi svæðisins. Ráðgefandi íbúakosning fór fram frá 27. til 31. maí 2021 og var málið tekið fyrir í bæjarstjórn að nýju þann 15. júní sl. Var málinu þá vísað aftur til umfjöllunar skipulagsráðs.
Með vísun í niðurstöðu íbúakönnunar leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að falla frá auglýstri tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Oddeyri. Er mælt með að málefni uppbyggingar á Oddeyri verði tekin til umræðu að nýju að loknum kosningum og þegar bæjarstjórn metur hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið, sbr. ákvæði 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Hjúkrunarheimili - nýbygging 2018-2022

Málsnúmer 2018120188Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Framkvæmdasýslu ríkisins/Ríkiseigna dagsett 19. nóvember 2021 varðandi byggingu hjúkrunarheimilis við Vestursíðu. Er óskað eftir að gerð verði breyting á aðalskipulagi svæðis sem í aðalskipulagi er merkt S31 til að koma megi fyrir hjúkrunarheimili á einni hæð.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagi verði ekki breytt til samræmis við fyrirliggjandi erindi. Að mati ráðsins er ekki vel farið með takmarkað byggingarland að gera ráð fyrir um 4.000 m² hjúkrunarheimili á einni hæð og með því minnka það svæði sem afmarkað var í aðalskipulagi til nýtingar fyrir Síðuskóla. Er meðal annars gert ráð fyrir byggingu leikskóla á lóðinni í framtíðinni. Frekar ætti að líta til uppbyggingar á fleiri hæðum líkt og gert er við byggingu á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík og gert hefur verið í uppbyggingu hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu, t.d. við Sléttuveg, Sóltún og í Mörkinni.

4.Hálönd 3. áfangi - stærðir húsa

Málsnúmer 2021111050Vakta málsnúmer

Erindi Halldórs Jóhannssonar dagsett 18. nóvember 2021, fyrir hönd Hálanda ehf., um heimild til að auka byggingarmagn lóða í 3. áfanga Hálanda, þ.e. Hyrnulandi 1-5 og 10-16 og Hörpulandi 1-15 úr 120 m² í 125 m². Engar breytingar verða á byggingarreitum.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við fyrirliggjandi erindi. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki er talin þörf á grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga. Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að sjá um gildistöku breytingarinnar þegar fullnægjandi skipulagsgögn liggja fyrir.

5.Hvannavellir 10 - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021090328Vakta málsnúmer

Erindi Ómars Ívarssonar hjá Landslagi ehf. dagsett 19. nóvember 2021 fyrir hönd BB Bygginga ehf. þar sem óskað er eftir heimild til að hefja vinnu við deiliskipulag lóðarinnar Hvannavellir 10. Fyrir liggur að skipulagsráð samþykkti á fundi 15. september sl. að hefja vinnu við deiliskipulag lóðarinnar og næsta nágrennis þar sem gert verði ráð fyrir fjölbýlishúsi á lóð Hvannavalla 10. Hafa BB Byggingar ehf. nýlega tekið yfir lóðina af fyrri eiganda.
Skipulagsráð samþykkir að heimila umsækjanda að hefja vinnu við deiliskipulag svæðisins í samvinnu við Akureyrarbæ. Er gert ráð fyrir að deiliskipulagssvæðið nái til lóðanna Hvannavalla 10, 12, 14 og 14b.

6.Þingvallastræti, Dalsbraut - umsókn um endurnýjun skiltis

Málsnúmer 2021010035Vakta málsnúmer

Erindi Ingvars Gíslasonar formanns KA dagsett 17. nóvember 2021 þar sem óskað er eftir undanþágu frá fyrri bókun skipulagsráðs frá 27. janúar 2021 í tengslum við leyfisveitingu fyrir LED skilti á lóð KA við Þingvallastræti. Er óskað eftir að heimilt verði að skipta um auglýsingu á um 8 sekúndna fresti í stað 60 sekúndna.
Meirihluti skipulagsráðs hafnar erindinu.

Þórhallur Jónsson D-lista og Orri Kristjánsson S-lista greiða atkvæði með erindinu og óska bókað eftirfarandi:

Ljóst er að mikil þörf er á að núgildandi samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarbæjar sæti endurskoðun þar sem hún er komin til ára sinna og tekur ekki mið af tækninýjungum sem fram hafa komið á undanförnum árum á þessu sviði. Þá liggur fyrir að ríkur vilji er hjá skipulagsráði að endurskoða nefnda samþykkt, m.a. af framangreindum ástæðum. Viðlíka reglur hafa verið endurskoðaðar undanfarin ár í öðrum sveitarfélögum t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu, til að taka mið af þróun tækni og samfélagsins. Það er skoðun þeirra sem hér bóka að réttast væri að fresta afgreiðslu á því erindi sem hér liggur fyrir þar til endurskoðuð samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarbæjar liggur fyrir og bregðast við erindinu í samræmi við endurskoðaða samþykkt.

7.Hlíðarfjallsvegur - deiliskipulag athafnasvæðis AT16

Málsnúmer 2021090194Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að lýsingu deiliskipulags fyrir athafnasvæði við Hlíðarfjallsveg, merkt AT16 í gildandi aðalskipulagi.
Skipulagsráð samþykkir lýsinguna og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna hana skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Oddeyri, suðurhluti - Gránufélagsgata 22, deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018030161Vakta málsnúmer

Lögð fram umsögn Minjastofnunar dagsett 8. nóvember 2021 um tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Gránufélagsgötu 22.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að útbúa útboðsskilmála fyrir úthlutun lóðarinnar í samræmi við ákvæði um hugmyndasamkeppni sem fram koma í gr. 2.4 og 3.3 í reglum um lóðarveitingar.

9.Engimýri 10 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna breytinga

Málsnúmer 2021110338Vakta málsnúmer

Erindi Valgerðar Guðmundsdóttur dagsett 5. nóvember 2021 þar sem lögð er fram fyrirspurn varðandi breytingar á húsi nr. 10 við Engimýri. Fyrirhugað er að grafa út hluta kjallara og útbúa herbergi/íbúð ásamt því að bæta við útidyrahurð á austurhlið. Meðfylgjandi eru skýringarmyndir.

Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu.
Málinu er vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

10.Kotárgerði 8 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna bílgeymslu

Málsnúmer 2021110709Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. nóvember 2021 þar sem Tryggvi Tryggvason fyrir hönd Arnars Guðmundssonar og Margrétar Dóru Eðvarðsdóttur leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílgeymslu við hús nr. 8 við Kotárgerði. Meðfylgjandi eru greinargerð og tillöguteikningar.

Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna byggingaráformin í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar fullnægjandi gögn hafa borist. Grenndarkynnt skal fyrir húseigendum í Kotárgerði 10.

11.Hafnarstræti 29 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna fjölgunar íbúða

Málsnúmer 2021110734Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. nóvember 2021 þar sem Ketill Ketilsson fyrir hönd Fasteignafélagsins Langeyrar ehf. leggur inn fyrirspurn varðandi breytt deiliskipulag fyrir hús nr. 29 við Hafnarstræti. Fyrirhugað er að fjölga íbúðum úr þremur í sex. Umrætt hús er byggt árið 1907.
Afgreiðslu frestað og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að vinna að málinu áfram.

12.Hulduholt 20-24 - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2021110867Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. nóvember 2021 þar sem Byggingarfélagið Stafninn ehf. sækir um breytt deiliskipulag fyrir lóðir nr. 20-24 við Hulduholt sem felur í sér fjölgun íbúða eða lækkun nýtingarhlutfalls. Þrennt kemur til greina:

1) 150 m2 íbúð á efri hæð og minni íbúð og bílskúr á neðri hæð sem felur í sér að íbúðir verði sex í staði þriggja.

2) Lenging og mjókkun hússins til að koma fyrir 5 íbúðum á tveimur hæðum. Byggingarmagn yrði það sama.

3) Lækkun nýtingarhlutfalls þannig að það verði um 600 m2 í stað 900 m2, þ.e. um 200 m2/íbúð í stað 300 m2.
Skipulagsráð hafnar erindinu.

13.Sólskógar - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2021110912Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. nóvember 2021 þar sem Ingvar Ívarsson fyrir hönd Gróðrarstöðvarinnar Sólskóga ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kjarnaskóg - Gróðrarstöð. Um er að ræða stækkun á byggingarreit D um 610 m², aukningu á byggingarmagni innan reitsins um 400 m² og aukningu á hámarkshæð bygginga um 1 m. Meðfylgjandi er uppdráttur.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við breytingu á deiliskipulagi. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fallið er frá grenndarkynningu í samræmi við ákvæði 3. mgr. 44 gr. skipulagslaga þar sem ekki er um aðra hagsmunaaðila en umsækjanda og Akureyrarbæ.

14.Týsnes 10 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2021110791Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. nóvember 2021 þar sem Kraftkranar ehf. sækja um lóð nr. 10 við Týsnes. Meðfylgjandi er yfirlýsing viðskiptabanka og greinargerð um byggingaráform.
Skipulagsráð samþykkir erindið með fyrirvara um byggingarhæfi lóðarinnar og lagfærða yfirlýsingu viðskiptabanka. Deiliskipulagsskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

15.Höfðahlíð 2 - auglýsing lóðar

Málsnúmer 2021111016Vakta málsnúmer

Breyting á deiliskipulagi Höfðahlíðar 2 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 11. október 2021. Fyrir liggur uppfært mæliblað til samræmis við deiliskipulagið og er lóðin því tilbúin til úthlutunar. Núverandi hús hefur ekki verið fjarlægt.
Skipulagsráð leggur til að lóðinni verði úthlutað með útboði í samræmi við ákvæði gr. 2.3 og 3.2 í reglum Akureyrarbæjar um úthlutun lóða, með þeirri kvöð að núverandi hús verði fjarlægt og að byggt verði í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála. Er ákvörðun um útboð vísað til bæjarráðs.

16.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 839. fundar, dagsett 11. nóvember 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:40.