Hjúkrunarheimili - nýbygging 2018-2022

Málsnúmer 2018120188

Vakta málsnúmer

Velferðarráð - 1311. fundur - 20.11.2019

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA greindi frá undirbúningsvinnu og stöðu máls, vegna frumathugunar á byggingu á nýju hjúkrunarheimili á Akureyri.

Bæjarráð - 3677. fundur - 02.04.2020

Lögð fram drög að samkomulagi um nýtt hjúkrunarheimili á Akureyri.

Bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Eva Hrund Einarsdóttir, Heimir Haraldsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð lýsir yfir vilja sínum til uppbyggingar hjúkrunarheimilis við Lögmannshlíð og felur bæjarstjóra að ræða við stjórnvöld um fyrirkomulag framkvæmda og samning.

Bæjarráð - 3680. fundur - 22.04.2020

Lögð fram ný drög að samkomulagi um nýtt hjúkrunarheimili á Akureyri.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga um uppbyggingu á hjúkrunarheimili en ítrekar að Akureyrarbær ætlar ekki að vera rekstraraðili nýs hjúkrunarheimilis.

Bæjarráð - 3683. fundur - 14.05.2020

Lögð fram endurskoðuð drög að samkomulagi um nýtt hjúkrunarheimili á Akureyri.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð Akureyrarbæjar ítrekar fyrri ósk um að 8. gr. í samningi um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Akureyri hljóði sem hér segir: „Sjúkratryggingar Íslands munu auglýsa eftir rekstraraðila fyrir hjúkrunarheimilið tólf mánuðum áður en verklok eru fyrirhuguð.“ Er þetta ákvæði orðað á sama hátt og ákvæði í gr. 3.3. í samningi um byggingu hjúkrunarheimilis í Hafnarfjarðarkaupstað, dagsettum 27. október 2016, sem tekið var í notkun árið 2019. Hér var um að ræða breytingu á áður gerðum samningi um byggingu hjúkrunarheimilis, þar sem orðalagið í fyrri samningi var á sama hátt og ráðuneytið gerir nú kröfu um að verði í nýjum samningi við Akureyrarbæ. Gera verður kröfu til þess að sveitarfélög sitji við sama borð hvað þetta varðar.

Samkvæmt lögum ber ríkið ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila. Hins vegar ber sveitarfélögum að greiða 15% af byggingarkostnaði hjúkrunarheimila á móti ríkinu sem greiðir þá 85%. Af hálfu Akureyrarbæjar verður staðið við þá kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins í byggingu nýs hjúkrunarheimilis.

Varðandi þá kröfu ráðuneytisins að setja sem skilyrði fyrir samningi um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á milli Akureyrarbæjar og ríkisins að Akureyrarbær ábyrgist rekstur hjúkrunarheimilisins er ljóst að með því er verið að mismuna sveitarfélögum. Jafnframt gæti ráðuneytið með þessu skilyrði verið að mismuna íbúum á Íslandi, sem eiga rétt á þjónustunni, ef skilyrðið er að viðkomandi sveitarfélag ábyrgist reksturinn sem það síðan fellst ekki á. Ríkinu ber að veita þessa þjónustu án þess að setja skilyrði varðandi reksturinn á þriðja aðila, sveitarfélagið. Fallist viðkomandi sveitarfélag ekki á kröfu ráðuneytisins með þeim afleiðingum að þjónustan falli niður er verið að mismuna íbúum í því sveitarfélagi með vísan til íbúa í öðru sveitarfélagi þar sem byggt væri nýtt hjúkrunarheimili án slíkra skilyrða.

Rétt er að árétta að ástæða þess að Akureyrabær fellst ekki á að ábyrgjast rekstur nýs hjúkrunarheimilis er að sveitarfélagið hefur undanfarin ár rekið hjúkrunarheimili á Akureyri með miklum halla og ítrekað óskað eftir frekari greiðslum frá ríkinu vegna þess sem ríkið hefur ekki fallist á. Fyrir liggur rekstrarúttekt frá KPMG þar sem fram kemur að rekstrarhalli er ekki til kominn vegna þess að Akureyrarbær sé að veita þjónustu umfram kröfulýsingu. Með hliðsjón af því hefur Akureyrarbær nýlega tilkynnt ráðuneytinu að hann muni hvorki endurnýja gildandi samning né gera nýjan samning um rekstur hjúkrunarheimilisins. Það er mat bæjarráðs Akureyrarbæjar með hliðsjón af framanrituðu að betur fari á því að ríkið annist rekstur hjúkrunarheimila eins og því ber samkvæmt lögum og sveitarfélagið nýti það fjármagn sem ella færi í að greiða niður hallarekstur hjúkrunarheimila í að efla lögbundna þjónustu sveitarfélagsins.

Bæjarráð - 3692. fundur - 13.08.2020

Erindi dagsett 28. júlí 2020 frá Guðrúnu Fanneyju Sigurðardóttur f.h. heilbrigðisráðherra þar sem send eru 5. drög að samningi um byggingu hjúkrunarheimilis.
Bæjarráð getur ekki fallist á að skilyrt sé í samningi um uppbyggingu hjúkrunarheimils að heilbrigðisráðuneytið og Akureyrarbær geri með sér samning um rekstur á hjúkrunarheimilinu og vísar að öðru leyti í bókun bæjarráðs frá 14. maí sl.

Bæjarráð - 3702. fundur - 22.10.2020

Rætt um stöðu viðræðna við ríkið um byggingu nýs hjúkrunarheimilis og flutning reksturs öldrunarheimila frá Akureyrarbæ til ríkisins.
Ásthildur Sturludóttir vék af fundi kl. 10:55.

Bæjarráð - 3704. fundur - 05.11.2020

Lögð fram drög að samningi um byggingu hjúkrunarheimilis á Akureyri.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusvið sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir drög að samningi um byggingu hjúkrunarheimilis á Akureyri með fimm samhljóða atkvæðum og felur bæjarstjóra að ganga frá samningnum, enda er tryggt með bókun í samningnum að sú skylda mun ekki hvíla á Akureyrarbæ að sjá um rekstur heimilisins.

Bæjarráð - 3741. fundur - 30.09.2021

Erindi dagsett 29. september 2021 þar sem Friðrik Ó Friðriksson f.h. Framkvæmdasýslunnar greinir frá því að verið sé að vinna í áætlunargerð fyrir nýtt hjúkrunarheimili á Akureyri og ætlunin sé að boða til samráðsfundar fljótlega. Akureyrarbær á að eiga tvo fulltrúa í starfshópi vegna verkefnisins skv. samningi. Óskað er eftir að þeir verði tilnefndir.
Bæjarráð tilnefnir Guðrúnu Sigurðardóttur sviðsstjóra velferðarsviðs og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóra fjársýslusviðs sem fulltrúa Akureyrarbæjar í starfshópnum.

Skipulagsráð - 370. fundur - 24.11.2021

Lagt fram erindi Framkvæmdasýslu ríkisins/Ríkiseigna dagsett 19. nóvember 2021 varðandi byggingu hjúkrunarheimilis við Vestursíðu. Er óskað eftir að gerð verði breyting á aðalskipulagi svæðis sem í aðalskipulagi er merkt S31 til að koma megi fyrir hjúkrunarheimili á einni hæð.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagi verði ekki breytt til samræmis við fyrirliggjandi erindi. Að mati ráðsins er ekki vel farið með takmarkað byggingarland að gera ráð fyrir um 4.000 m² hjúkrunarheimili á einni hæð og með því minnka það svæði sem afmarkað var í aðalskipulagi til nýtingar fyrir Síðuskóla. Er meðal annars gert ráð fyrir byggingu leikskóla á lóðinni í framtíðinni. Frekar ætti að líta til uppbyggingar á fleiri hæðum líkt og gert er við byggingu á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík og gert hefur verið í uppbyggingu hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu, t.d. við Sléttuveg, Sóltún og í Mörkinni.

Bæjarstjórn - 3503. fundur - 14.12.2021

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 24. nóvember 2021:

Lagt fram erindi Framkvæmdasýslu ríkisins/Ríkiseigna dagsett 19. nóvember 2021 varðandi byggingu hjúkrunarheimilis við Vestursíðu. Er óskað eftir að gerð verði breyting á aðalskipulagi svæðis sem í aðalskipulagi er merkt S31 til að koma megi fyrir hjúkrunarheimili á einni hæð.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagi verði ekki breytt til samræmis við fyrirliggjandi erindi. Að mati ráðsins er ekki vel farið með takmarkað byggingarland að gera ráð fyrir um 4.000 m² hjúkrunarheimili á einni hæð og með því minnka það svæði sem afmarkað var í aðalskipulagi til nýtingar fyrir Síðuskóla. Er meðal annars gert ráð fyrir byggingu leikskóla á lóðinni í framtíðinni. Frekar ætti að líta til uppbyggingar á fleiri hæðum líkt og gert er við byggingu á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík og gert hefur verið í uppbyggingu hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu, t.d. við Sléttuveg, Sóltún og í Mörkinni.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að aðalskipulagi verði ekki breytt til samræmis við fyrirliggjandi erindi.