Þingvallastræti, Dalsbraut - umsókn um endurnýjun skiltis

Málsnúmer 2021010035

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 350. fundur - 13.01.2021

Erindi dagsett 2. janúar 2021 þar sem Siguróli Magni Sigurðsson fyrir hönd Knattspyrnufélags Akureyrar sækir um endurnýjun skiltis við Þingvallastræti/Dalsbraut.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að afla meiri upplýsinga.

Skipulagsráð - 351. fundur - 27.01.2021

Lagt fram að nýju erindi dagsett 2. janúar 2021 þar sem Siguróli Magni Sigurðsson fyrir hönd Knattspyrnufélags Akureyrar sækir um endurnýjun skiltis við Þingvallastræti/Dalsbraut. Er gert ráð fyrir tveimur um það bil 22 m² skjáum sem snúa í átt að Þingvallastræti, í sitt hvora áttina eins og núverandi flettiskilti.
Í ljósi þess að um endurnýjun á eldra skilti er að ræða samþykkir meirihluti skipulagsráðs að settir verði upp LED skjáir í stað núverandi flettiskilta með þeim skilyrðum að ekki verði um hreyfimyndir eða blikkandi ljós að ræða og að minnsta kosti líði ein mínúta á milli auglýsinga.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óskar bókað að hún sé á móti því að settir verði upp LED skjáir í stað núverandi flettiskilta þar sem í samþykkt um skilti og auglýsingar, gr. 8.4.4, kemur fram að óheimilt sé að vera með áberandi ljósaskilti með blikkandi ljósum eða hreyfimyndum sem snúa að stofn- eða tengibrautum.

Skipulagsráð - 370. fundur - 24.11.2021

Erindi Ingvars Gíslasonar formanns KA dagsett 17. nóvember 2021 þar sem óskað er eftir undanþágu frá fyrri bókun skipulagsráðs frá 27. janúar 2021 í tengslum við leyfisveitingu fyrir LED skilti á lóð KA við Þingvallastræti. Er óskað eftir að heimilt verði að skipta um auglýsingu á um 8 sekúndna fresti í stað 60 sekúndna.
Meirihluti skipulagsráðs hafnar erindinu.

Þórhallur Jónsson D-lista og Orri Kristjánsson S-lista greiða atkvæði með erindinu og óska bókað eftirfarandi:

Ljóst er að mikil þörf er á að núgildandi samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarbæjar sæti endurskoðun þar sem hún er komin til ára sinna og tekur ekki mið af tækninýjungum sem fram hafa komið á undanförnum árum á þessu sviði. Þá liggur fyrir að ríkur vilji er hjá skipulagsráði að endurskoða nefnda samþykkt, m.a. af framangreindum ástæðum. Viðlíka reglur hafa verið endurskoðaðar undanfarin ár í öðrum sveitarfélögum t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu, til að taka mið af þróun tækni og samfélagsins. Það er skoðun þeirra sem hér bóka að réttast væri að fresta afgreiðslu á því erindi sem hér liggur fyrir þar til endurskoðuð samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarbæjar liggur fyrir og bregðast við erindinu í samræmi við endurskoðaða samþykkt.