Skipulagsnefnd

114. fundur 18. maí 2011 kl. 08:00 - 11:13 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Haraldur Sveinbjörn Helgason
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Auður Jónasdóttir
  • Pálmi Gunnarsson
Starfsmenn
  • Leifur Kristján Þorsteinsson staðgengill skipulagsstjóra
  • Stefanía G Sigmundsdóttir fundarritari
Dagskrá

1.Miðbær norðurhluti - breyting á deiliskipulagi, Hólabraut - Laxagata

Málsnúmer 0Vakta málsnúmer

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu fyrir norðurhluta miðbæjar Akureyrar ásamt húsakönnun, var auglýst 9. mars með athugasemdarfresti til 20. apríl 2011. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaðinu og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 1. hæð og á heimasíðu Akureyrarkaupstaðar: www.akureyri.is undir: Stjórnkerfið / Skipulags- og byggingarmál / Auglýstar skipulagstillögur.
Þann 17. febrúar 2011 var haldinn íbúafundur og fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting kynnt.
Í viðtalstíma bæjarfulltrúa þann 3. mars 2011 komu fram tvær athugasemdir (sjá mál 2011020151).
1) Frímann Jónsson, er óánægður með að ÁTVR skuli halda rekstri áfram á þessum stað.
2) Jón Ólafsson, hefur efasemdir um að rétt leið sé farin.
Umsögn barst frá Fornleifavernd dags. 8. apríl 2011.
Engin athugasemd er gerð.

Fjórar athugasemdir bárust á auglýstum athugasemdatíma:

1)Elín V. Bjarnadóttir og Derek Vaughan dags. 14. apríl 2011.
Þau eru mótfallin breytingum á lóðamörkum og frekari útbreiðslu ÁTVR á svæðinu. Mótmælt er að leyfilegt verði að byggja 7m háa byggingu svo nálægt lóðarmörkum Laxagötu 3.

2) JP lögmenn f.h. 17 eigenda og íbúa á skipulagssvæðinu, dags. 19. apríl 2011.
a) Skipulagslýsing var ekki gerð og kynnt íbúum.
b) Ákvörðun um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Hólabraut 16 var kærð og felld úr gildi. Með þessari breytingu á skipulagi er nýtingarhlutfall ekki aukið, heldur eru lóðir sameinaðar til að gera þetta kleift. Með þessu er sveitastjórn að misfara með skipulagsvald og um er að ræða "skipulagssniðgöngu".
c) Vísað er í athugasemdir í úrskurði úrskurðarnefndarinnar.
d) Í gildandi skipulagi segir að ekki séu ráðgerðar frekari nýbyggingar og komi til endurskoðunar verði það gert í samhengi við reit nr. 17. Ekki er skilgreint hvaða forsendur liggja að baki því að breyta skipulagi. Ef ætlunin er að breyta skipulagi þarf að taka til endurskoðunar á bæði reit 17 og 18.
e) Tillagan felur í sér mismunun á nýtingarmöguleikum.
f) Ekki hefur verið gerð könnun á áhrifum breytingarinnar á umferð og bílastæðaþörf.
g) Um er að ræða verulegt inngrip í réttindi íbúa sem hefur veruleg neikvæð áhrif á verðmæti fasteigna þeirra.
Gerð er sú krafa að tillögunni verði hafnað. Áskilinn er réttur til að tefla fram frekari sjónarmiðum á síðari stigum.

3) Þórkatla Sigurbjörnsdóttir, Laxagötu 3a, dags. 17. apríl 2011.
a) Mótmælir að byggingarreitur við Hólabraut 16 sem liggur að lóðamörkum hennar sé stækkaður þar sem fyrirhuguð viðbygging muni skerða sólarljós, birtu og útsýni á lóð, auka snjósöfnun og vind.
b) Ákvæði um fjarlægð frá lóðamörkum og bil milli húsa skv. byggingarreglugerð eru ekki virt. Aukin eldhætta þar sem bil milli húsa verður aðeins um 5-6 metrar. Ekki er talað um aðgengi slökkvibifreiða eða brunahættu í greinargerð.
c) Akstur þungra vörubifreiða verður í 3-4 metra fjarlægð frá svefnherbergjum og öðrum vistarverum í húseign hennar sem er með öllu óásættanlegt. Útakstursleið er hættuleg fyrir gangandi vegfarendur vegna blindhorns við lóðamörkin.
d) Tillagan tekur hagsmuni eins aðila fram yfir hagsmuni íbúa. Óásættanlegt er að hagsmunir verslunar séu teknir fram yfir hagsmuni íbúa. Stækkun núverandi húsnæðis að Hólabraut 16 og sameinaðar lóðir mun skerða lífsskilyrði bæði utan og innandyra í fasteign hennar og rýra verðgildi.

4) Brynhildur Ólöf Frímannsdóttir og Guðjón Hreinn Hauksson, dags. 20. apríl 2011.
a) Mótmæla áframhaldandi veru ÁTVR á þessum stað án þess að til komi önnur verslun í bænum til þess að dreifa álagi. Bílastæði anna ekki þörf viðskiptavina sem gerir íbúum erfitt með að komast til og frá húsum sínum.
b) Mótmæla breytingu Hólabrautar í botnlangagötu sem býður uppá endalausar umferðarstíflur.
c) Mótmæla tillögunni þar sem einungis er verið að gera ÁTVR mögulegt að byggja við verslunina. Verðgildi annarra eigna skerðast. Viðbygging mun auka umsvif ÁTVR sem leiðir til meiri umferðar við verslunina.
d)Aðgangur neyðarbíla skerðist verulega á álagstímum.

Frestað.

Auður Jónasdóttir mætti á fundinn kl. 8:10.

2.Undirhlíð 1-3 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2011030057Vakta málsnúmer

Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Undirhlíð - Miðholt. Breytingin felst í breytingu á kvöð um aldur eigenda í húsgerð F1 úr 55 ára í 50 ára. Tillagan er unnin af Kollgátu og dagsett 1. maí 2011.

Um er að ræða breytingu á kvöð sem Akureyrarbær setti á húsin og liggur fyrir samþykki eigenda eigna Undirhlíðar 1 og 3 fyrir breytingu á kvöðinni um lækkun á aldri eigenda í húsinu.
Í ljósi þessa leggur meirihluti skipulagsnefndar til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Pálmi Gunnarsson (A) sat hjá við afgreiðslu málsins.

3.Undirhlíð - Miðholt, deiliskipulagsbreyting vegna spennistöðvar

Málsnúmer 2011050007Vakta málsnúmer

Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Undirhlíð - Miðholt. Breytingin felst í að gerð er ný lóð fyrir spennistöð við Langholt á opnu svæði norðan Undirhlíðar 1. Tillagan er unnin af Kollgátu og dagsett 1. maí 2011.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Hlíðarfjall - deiliskipulag skíðasvæðis (SN070129)

Málsnúmer 2010030004Vakta málsnúmer

Tillaga að deiliskipulagi fyrir skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, var auglýst 9. febrúar 2011 með athugasemdafresti til 23. mars 2011. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Dagskránni.

Ein athugasemd barst.
1) Jóhannes Árnason, dags. 21. mars 2011
a) Efasemdir af hans hálfu um að greinargerðin uppfylli kröfur aðalskipulags um upplýsingar. Hann telur að það þurfi mat á umhverfisáhrifum þegar unnið er að skipulagi mannvirkja í Hlíðarfjalli. Mat á áhættu á mengun neysluvatns skortir og mat á umhverfisáhrifum vegna mannvirkja og jarðrasks. Ef ekki verður fallist á að betra mat þurfi á umhverifsáhrifum er farið fram á að tilgreindar verði heimildir um náttúrufar, rannsókna- og athugunarskýrslur um það hvers konar náttúru er verið að tala um. Einnig vantar að fjalla um umsvif á svæðinu og hversu marga skíðaiðkendur það geti borið og nánari útlistun á hvernig svæðið verði notað á sumrin
b) Lagst er gegn því að byggðir verði stakir gistiskálar á svæðinu vegna hættu af veðri og öðrum náttúrulegum atburðum og vegna aukins álags á umhverfið sem fylgir slíkri byggð.
c) Mótmælt er að notast verði við rotþrær á svæðinu vegna hættu á mengun í grunnvatni í nágrenni neysluvatnslinda.

16 umsagnir bárust:
1) Samstarfsnefnd um ferilmál fatlaðra, dags. 10. febrúar 2011.
Óskað er eftir að gert verði ráð fyrir 4 bílastæðum fyrir fatlaða framan við fyrirhugaða þjónustumiðstöð.
2) Vegagerðin, dags. 23. febrúar 2011.
Til að geta gefið umsögn er óskað eftir frekari gögnum um m.a. langhalla vegar frá þeim stað sem hann víkur frá núverandi vegi, beygjuradíusa og nánari útfærslu á tengingum bílastæða við veg.
Önnur umsögn frá Vegagerðinni barst 23. mars 2011.
Ekki er hægt að leggja mat á hvort vegur og tengingar við hann uppfylli kröfur Vegagerðarinnar um bratta og beygjur né hvort umferðaröryggi sé tryggt. Því er lagst gegn umræddri veglínu og tengingum.
Þriðja umsögn Vegagerðarinnar, dags. 29. apríl 2011.
Vegagerðinni bárust frekari gögn vegna deiliskipulagsins. Svo virðist sem vegurinn geti uppfyllt kröfur Vegagerðarinnar, þó með fyrirvara um endanlega hönnun. Þó þarf að skoða betur svæðið þar sem efsta bílaplanið tengist inn á veginn og einnig þarf að skoða beygjuna við bílaplanið. Vegagerðin samþykkir því tillöguna með því skilyrði að samráð verði haft um endanlega útfærslu á vegi og tenginga við hann.
3) Vetraríþróttamðstöð Íslands, dags. 16. mars 2011.
a) Óskað er eftir að gamla gönguhúsið fái að standa áfram af öryggisástæðum.
b) Gerð verði skíðaleið sunnan Stromplyftu.
c) Skíðaleið norðan Strýtu verði breikkuð.
d) Snjóframleiðsla í Norðurbakka og einnig við nýja diskalyftu.
e) Lögð er áhersla á að göngu- og skíðastígur frá skíðasvæðinu og niður að Hlíðarenda verði svo langt frá veginum að ekki stafi af slysahætta.
4) Norðurorka, dags. 23. mars 2011.
Þar sem skíðasvæðið í Hlíðarfjalli liggur langt ofan þrýstisvæðis hitaveitu og löng leið er að dreifikerfi hitaveitu þá gætu aðrir kostir verið heppilegri til upphitunar mannvirkja á svæðinu.
5) Umhverfisnefnd, dags. 8. mars 2011.
Ekki eru gerðar athugasemdir en bent er á að ýtrustu varkárni skal gætt innan vatnsverndarsvæðis. Lagt er til að þjónustuvegum á svæðinu verði lokað fyrir vélknúnum ökutækjum á sumrin til að sporna við utanvegaakstri.
6) Íþróttaráð, dags. 17. febrúar 2011.
Engin athugasemd er gerð.
7) Fornleifavernd ríkisins, dags. 15. des. 2010.
Umsögn á við eldri tillögu en þá sem auglýst var.
Óskað er eftir að fjallað verði um þá fornleifaskráningu sem þegar liggur fyrir. Í framhaldi af því mun Fornleifavernd meta hvort frekari aðgerða sé þörf.
Ný umsögn barst 6. apríl 2011.
Þar sem engin framkvæmd er fyrirhuguð nálægt fornleifum, er engin athugasemd gerð.
8) Eyjafjarðarsveit, dags. 29. mars 2011.
Engin athugasemd er gerð.
9) Jóhannes M. Jóhannesson f.h. Vallabúsins ehf. dags. 6. apríl 2011.
Engin athugasemd er gerð.
10) Heilbrigðiseftirlit Noðurlands eystra, dags. 7. apríl 2011.
Vakin er athygli á mengunarhættu sem skapast af umferð snjótroðara og annara vélknúinna farartækja á vatnsverndarsvæði. Skylt er að banna notkun á hættulegum efnum sem mengað geta grunnvatn. Því er mælst til að umferð glussaknúinna snjótroðara verði bönnuð á grannsvæði vatnsbóla í landi Hesjuvalla eða að þar verði eingöngu notaðir snjótroðarar með umhverfisvænum glussaolíum. Um stærð rotþróa og frágang á siturlögnum er vísað til leiðbeininga Umhverfisstofnunar. Skylt er að leita til heilbrigðisfulltrúa varðandi úttekt á rotþróm og siturlögnum.
11) Umhverfisstofnun dags. 7. apríl 2011.
Að mati Umhverfisstofnunar mun skipulagið hafa neikvæð áhrif á gróður, og er mikilvægt að vel verði staðið að uppgræðslu og staðbundnar tegundir notaðar. Umfjöllun skortir um mat á umhverfisáhrifum söfnunarlóna, sem skv. áætlun á að byggja á svæðinu, og eldra lóns sem áætlunin gerir ráð fyrir að verði gert meira að rúmtaki. Umhverfisstofnun bendir einnig á að galvanhúðaðir staurar innihalda þungmálma sem berast út í umhverfið og geta valdið gróðurskemmdum og jafnvel borist í grunnvatn. Ekki kemur fram í greinargerð hvort íblöndunarefni verði notuð við snjóframleiðslu en Umhverfisstofnun telur að varast eigi slík efni m.a. vegna vatnsverndar. Stofnunin ítrekar einnig að þess sé gætt að mannvirki falli sem best að svipmóti lands.
12) Veðurstofa Íslands, dags. 7. apríl 2011.
Ráðstafarnir þarf að gera vegna snjóflóðahættu með tilkomu "sviflyftu" upp á stallinn neðan Brúnar og jafnvel færa endastöð hennar. Ákjósanlegt væri að verja það svæði og einnig toppstöð núverandi T-lyftu á varanlegan hátt með varnarvikjum. Álit um mögulegar varnir þyrfti að fá hjá sérfræðingum. Virkar aðgerðir, þ.e. kerfisbundnar sprengingar, kæmu einnig til greina. Sérfræðingar þyrftu þá að koma að gerð áætlunar og uppsetningu kerfis. Mælt er með að upphafsstöð fyrirhugaðrar sviflyftu verði færð norðar vegna farvegs mögulegra snjóflóða úr Hlíðarhryggnum.
13) Skíðafélag Akureyrar, dags. 12. apríl 2011
Harmað er að ekki hafi verið haft samráð við SKA á vinnslustigi tillögunnar.
a) Í tillöguninni er ekki gert ráð fyrir aðstöðu fyrir æfingar eða keppnir, m.a. fyrir lokaðar æfinga- og keppnisbrekkur.
b) Ekki er gert ráð fyrir t.d. start- og markhúsi, áhorfendaaðstöðu og lögnum vegna þessa og sjónvarpsútsendinga.
c) Aðstaðan í Strýtuskála er of lítil. Gera þarf ráð fyrir að stækka skálann mikið eða skilgreina nýjan byggingarreit fyrir skála fyrir SKA.
d) Mikilvægt er að koma fyrir snyrtiaðstöðu við lyftuhús, sérstaklega í Hóla- og Hjallabraut. Ekki er skilgreint aðstöðuhús við nýja stólalyftu.
e) Uppi á Hlíðarfjalli er möguleiki á að koma fyrir sumaræfingasvæði. Tillagan þyrfti að fjalla um aðkomumöguleika vegna nýtingar þess og að umgengnisreglur sem tillagan gerir ráð fyrir taki mið af því.
f) Tillagan þarf að skilgreina skíðaleiðir frá skíðasvæði og að Hlíðarenda og mikilvægt er að þær leiðir séu öruggar og þjónustaðar.
g) Betra væri að staðsetja bílastæði meira miðsvæðis til að skapa heildstætt skíðasvæði. Svæðið, sem hefur verið notað þegar flestir eru í fjallinu, er ætlað fyrir smáhýsi. Aðkoma að gönguskíðasvæði er nánast falin.
h) Útfærsla aðkomuvegar er ekki góð, en kröpp beygja er sett á veginn þar sem mesti snjóþungi er á núverandi leið.
i) Staðsetning barna/byrjendasvæðis er óviðunandi. Fjarlægð frá þjónustuhúsi og bílastæðum er allt of mikil.
j) Ekki eru sýnd bílastæði við hótelreiti. Bílageymslur uppfylla vart bílastæðaþörf starfseminnar.
k) Hámarks hæðarkótar eru of lágir miðað við uppgefinn fjölda hæða.
l) Hvatt er til að aðstaða sé skilgreind fyrir fjallahjól í tillögunni, en svæðið er mikið notað af fjallahjólafólki.
m) Mikilvægt er að Akureyrarbær eignist landið ofan vatnsverndarsvæðis þar sem skíðabrautin liggur eða að gerður sé langtímasamningur um að brautin liggi um land Hesjuvalla.
n) Farið er framá að gamla gönguskíðahúsið fái að vera áfram á sínum stað sem neyðarskýli fyrir skíðafólk.
14) Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi, dags. 18. apríl 2011.
Engin athugasemd er gerð.
15) Hörgársveit, dags. 15. apríl 2011.
Engin athugasemd er gerð.
16) Skipulagsstofnun, dags. 1. mars 2011.
a) Ef markmið sveitarfélagsins er að halda raski í lágmarki, eins og kemur fram í kafla 3.5.2., þá þarf að setja það fram sem skilyrði í skilmálum
b) Í bréfi Skipulagsstofnunar frá 21. október 2010 kemur fram að framkvæmdaraðila beri að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar. Það er nú ítrekað.
c) Ef til er deiliskipulag fyrir diskalyftu sem byggð var 2010 þá þarf að geta þess í kaflanum "Tengsl við aðrar áætlanir".
d) Í kaflanum "Tengsl við aðrar áætlanir" þarf að gera grein fyrir stöðu deiliskipulags fyrir svifbraut frá 2001.
e) Niðurfelling deiliskipulags fyrir svifbraut er háð samþykki Hörgársveitar.
f) Í greinargerð með skipulaginu þarf að gera grein fyrir þeim áætlunum sem verið er að fella úr gildi.
g) Minnt er á ákvæði 9. gr. laga nr. 105/2006 um afgreiðslu áætlunar.

Leitað var eftir samþykki sveitastjórnar Hörgársveitar fyrir því að fella niður deiliskipulag svifbrautar í Hlíðarfjalli. Samþykki hennar liggur fyrir í bréfi dags. 15. apríl 2011.

Frestað.

5.Hlíðarfjallsvegur 7-13 - umsókn um bráðabrigða ökugerði

Málsnúmer 2011050048Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. maí 2011 þar sem Halldór Jóhannsson f.h. Bílaklúbbs Akureyrar, kt. 660280-0149, óskar eftir samþykki fyrir merkingu og notkun á bílastæðum og byggingarreitum við Hlíðarfjallsveg 7-13 vegna starfsemi ökugerðis í samræmi við meðfylgjandi teikningu. Notkunin á að vara óskilgreindan tíma á meðan heildarsvæðið er í uppbyggingu. Einnig er óskað eftir að fá að reisa tímabundið skrifstofu- og kennsluhús vegna ökukennslunnar sunnan innkeyrslunnar á svæðið.

Skipulagsnefnd samþykkir tímabundna breytta notkun á bílastæðasvæðum samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir starfsemi ökugerðis til þriggja ára. Einnig heimilar skipulagsnefnd að reist verði tímabundið skrifstofu- og kennsluhús vegna ökukennslunnar sunnan innkeyrslunnar á svæðið.

Byggingarleyfisumsókn vegna framkvæmdanna verður afgreidd þegar hún berst.

6.Aðalstræti 24b - umsókn um breytingar og viðbyggingu

Málsnúmer 2011050030Vakta málsnúmer

Erindi dagestt 3. maí 2011 þar sem Magnús Guðlaugsson, kt. 210553-4879, óskar eftir leyfi til að breyta og byggja við inngang íbúðar sinnar að Aðalstræti 24b. Nánari skýringar eru í meðfylgjandi bréfi og á ljósmynd.

Erindinu er vísað í vinnu deiliskipulags af Innbænum sem nú er í vinnslu.

7.Sjávargata - Hrísey - tímabundin afnot af lóð

Málsnúmer 0Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 28. apríl 2011 þar sem Bjarni Thorarensen, kt. 140946-7619, óskar eftir að fá framlengt leyfi fyrir landskika þeim við Sjávargötu 2 er hann hefur haft til afnota síðastliðin 2 ár. Meðfylgjandi er lýsing á fyrirhuguðu tjaldi á landsskikanum.

Skipulagsnefnd samþykkir framlengingu leyfis fyrir landskika við Sjávargötu 2 til tveggja ára.

Sækja skal um stöðuleyfi til skipulagsstjóra fyrir tjaldinu til allt að eins árs í senn.

8.Ósvör 6 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2011050020Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. maí 2011 þar sem Heiðar Rögnvaldsson f.h. Trésmiðjunnar Aspar, kt. 590279-0219, sækir um lóð nr. 6 við Ósvör til að byggja á verbúð. Meðfylgjandi er staðfesting á greiðslugetu frá Landsbanka Íslands.

Skipulagsnefnd samþykkir erindið. Skipulags- og byggingarskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

9.Sómatún 4. - Umsókn um lóðarstækkun.

Málsnúmer 0Vakta málsnúmer

Í framhaldi af umsóknum lóðarhafa Sómatúns 2 og 4 um stækkun lóðanna og bókun nefndarinnar 7. júlí 2010 lagði staðgengill skipulagsstjóra fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi 2. áfanga Naustahverfis unna af Teiknum - ráðgjöf og hönnun dags. 5. maí 2011. Breytingin felst í stækkun lóðanna nr. 2 og 4 við Sómatún að göngustíg.

Þar sem einungis er um að ræða minniháttar breytingu á lóðum og er breyting sem varðar Akureyrarbæ og lóðarhafa leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

10.Grímseyjargata 1 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2011040085Vakta málsnúmer

Í framhaldi af bókun nefndarinnar þann 4. maí s.l. lagði staðgengill skipulagsstjóra fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæða sunnan Glerár.
Breytingin fellst í breytingu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Tillagan er unnin af S.S.Á. teiknistofu dags. 9.maí 2011.

Þar sem einungis er um að ræða minniháttar breytingu á nýtingarhlutfalli til að gera milliloft innanhúss og er því breyting sem varðar Akureyrarbæ og lóðarhafa leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

11.Stekkjartún 26-28-30

Málsnúmer 2011050082Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. maí 2011 þar sem Fanney Hauksdóttir f.h. Byggingarfélagsins Hyrnu, kt. 710594-2019, óskar eftir leyfi til breytingar á deiliskipulagi á lóðunum við Stekkjartún 26, 28 og 30. Meðfylgjandi er tillaga að breytingum.

Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda, með fyrirvara um leyfi lóðarhafa, að láta gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðanna. Gjald vegna deiliskipulagsbreytinga verður innheimt í samræmi við gjaldskrá Akureyrarbæjar.

12.Gámasvæði vegna sorpflokkunar. - Leyfi fyrir staðsetningu.

Málsnúmer 0Vakta málsnúmer

Erindi ódagsett, móttekið 13. maí 2011 þar sem Helgi Már Pálsson f.h. framkvæmdadeildar óskar eftir leyfi til að setja niður grenndargáma til sorpflokkunar á eftirtöldum stöðum á Akureyri:
1) Við Síðuskóla í stað áður samþykktra gáma við gæsluvöll við Bugðusíðu. Meðfylgjandi er samþykki húseiganda og skólastjóra Síðuskóla.
2) Gleráreyrar 1, á lóð Glerártorgs vestan dælustöðvar NO. Meðfylgjandi er samþykki Glerártorgs.

Meirihluti skipulagsnefnd heimilar þessa staðsetningu umbeðinna grenndargáma til sorpflokkunar til eins árs á grundvelli gr. 71.2 í byggingarreglugerð.

Auður Jónasdóttir (VG) situr hjá við lið 1. og óskar bókað: Ég hef áhyggjur af umferðaröryggi í kringum Síðuskóla og vil sjá meira samráð við hlutaðeigandi, t.d. foreldrafélag og hverfisnefnd.

13.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010-2011

Málsnúmer 2010010128Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð dagsett 4. maí 2011. Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram fundargerð 346. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 14 liðum.

14.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010-2011

Málsnúmer 2010010128Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð dagsett 11. maí 2011. Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram fundargerð 347. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum.

Fundi slitið - kl. 11:13.