Skipulagsráð

360. fundur 09. júní 2021 kl. 08:00 - 11:05 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Þórhallur Jónsson formaður
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson
  • Sindri Kristjánsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá
Jón Þorvaldur Heiðarsson L-lista mætti í forföllum Ólafar Ingu Andrésdóttur.

1.Skarðshlíð 20 - auglýsing lóðar

Málsnúmer 2021050995Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað dagsett 7. apríl 2021 varðandi möguleika á nýtingu lóðarinnar Skarðshlíð 20 fyrir norðurstöð heilsugæslu.
Skipulagsráð samþykkir að lóðin Skarðshlíð 20 verði auglýst í samræmi við ákvæði um hugmyndasamkeppni sbr. ákvæði gr. 2.4 og 3.3 í reglum um úthlutun lóða þegar aðalskipulagsbreyting sem heimilar byggingu á lóðinni tekur gildi. Yrði auglýsingin birt á sama tíma og Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsir eftir lóð og/eða nýlegu húsnæði fyrir norðurstöð heilsugæslu.

2.Tryggvabraut - deiliskipulag

Málsnúmer 2018040295Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrstu drög að deiliskipulagi Tryggvabrautar og atvinnusvæðis norðan hennar.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna deiliskipulagsdrögin fyrir hagsmunaaðilum við Tryggvabraut.

3.Grímsey - vindmyllur - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2021050949Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Ómars Ívarssonar dagsett 3. júní 2021, f.h. Fallorku, um leyfi til að setja upp tvær 6 kW vindmyllur í Grímsey sem tilraunaverkefni í eitt ár til prufu. Möstrin eru 9 m á hæð og spaðarnir 5,6 m í þvermál og er hæsti punktur frá jörðu því tæplega 12 m. Verða vindmyllurnar reistar á svæði sem í aðalskipulagi er skilgreint sem athafnasvæði þar sem fyrir eru fjarskiptamöstur og tæknibúnaður í eigu Mílu og Neyðarlínunnar. Ef vel gengur er gert ráð fyrir að setja upp samtals allt að 6 vindmyllur en ef ákveðið verður að fara ekki lengra með verkefnið tekur einn dag að taka þær niður án sjánlegs rasks á landi.
Skipulagsráð samþykkir að veita Fallorku tímabundna heimild til eins árs til að setja upp og reka tvær vindmyllur í samræmi við erindi.

4.Aðalstræti 12b - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2012030262Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni grendarkynningu tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Aðalstrætis 12b. Var tillagan kynnt með bréfi dagsettu 29. apríl 2021 með athugasemdafresti til 1. júní. Bárust þrjú athugasemdabréf á kynningartíma. Er jafnframt lögð fram tillaga að svari við efni innkominna athugasemda.
Skipulagsráð samþykkir tillögu að breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og jafnframt tillögu að svari við innkomnum athugasemdum. Sviðsstjóra skipulagssviðs er falið að sjá um gildistöku breytingarinnar.

5.Matthíasarhagi 8,10,12 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna deiliskipulags

Málsnúmer 2021051308Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 26. maí 2021 þar sem Ingólfur Guðmundsson fyrir hönd Kistu Byggingarfélags ehf. leggur inn fyrirspurn varðandi lóðir 8,10 og 12 við Matthíasarhaga. Óskað er eftir að fá að breyta lóðunum í lóð fyrir fimm íbúða raðhús með húsnúmerunum 8,10,12,14 og 16. Meðfylgjandi er greinargerð og tillöguuppdráttur.
Skipulagsráð hafnar því að breyta deiliskipulagi svæðisins í samræmi við umsókn.

6.Klettaborg 3 og 4 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna bílgeymslu

Málsnúmer 2021051352Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. maí 2021 þar sem Borghildur Guðmundsdóttir leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílgeymslu við hús nr. 3 og 4 við Klettaborg. Bílgeymslan yrði tvöföld þar sem annað bilið tilheyrði húsi nr. 3 og hitt húsi nr. 4. Fyrirspurnin er í samráði við eigendur Klettaborgar 4.
Skipulagsráð samþykkir ekki að afmörkuð verði lóð fyrir tvöfaldan bílskúr í enda götunnar. Bílskúr fyrir lóð 3 þyrfti að vera innan núverandi lóðar og það sama á við um lóð 4.

7.Suðurbyggð 15 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna viðbyggingar og bílgeymslu

Málsnúmer 2021051392Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. maí 2021 þar sem Hrafn Svavarsson leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílgeymslu og viðbyggingu við hús nr. 15 við Suðurbyggð. Meðfylgjandi eru skýringarmyndir. Fyrir liggur samþykki eigenda Suðurbyggðar 13.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna umsóknina skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir eigendum Suðurbyggðar 6, 8 og 10 og Jörvabyggðar 7, 9 og 11. Ef engar athugasemdir berast á kynningartíma er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

8.Fyrirspurn um lóð fyrir bílastæðahús við Gránufélagsgötu

Málsnúmer 2021060274Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Haraldar Árnasonar dagsett 3. júní 2021, f.h. Hrafnseyrar ehf., þar sem óskað er eftir að fá veitta lóð við Gránufélagsgötu til byggingar á bílastæðahúsi á þremur hæðum. Er um að ræða svæði suðvestan Ráðhúss, þar sem nú eru almenn bílastæði. Er gert ráð fyrir að á neðstu hæð yrðu áfram almenn bílastæði en á 2. og 3. hæð yrðu bílastæði sem tengjast fyrirhuguðu húsi á lóð Gránufélagsgötu 4. Meðfylgjandi eru myndir sem sýna hugmynd að byggingu.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við umsækjanda.

9.Heimaland 3 - fyrirspurn til skipulagssviðs vegna hótels

Málsnúmer 2021060278Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. júní 2021 þar sem Haraldur Sigmar Árnason fyrir hönd Hálanda ehf. leggur inn fyrirspurn vegna byggingar 24 eininga gististaðar á lóð nr. 3 við Heimaland. Í gildandi deiliskipulagi kemur fram að í hverju húsi skuli vera 8-12 herbergi en skipulagsráð samþykkti á fundi 31. mars að heimila 16 gistirými.
Þar sem stærð og staðsetning hússins breytist ekki telur skipulagsráð að um svo óverulegt frávik frá deiliskipulagi sé að ræða að ekki er talin þörf á breytingu á deiliskipulagi, með vísun í ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Jón Þorvaldur Heiðarsson L-lista fór af fundi kl. 10:15.

10.Reglur um úthlutun lóða - endurskoðun 2021

Málsnúmer 2021060309Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á reglum um úthlutun lóða sem samþykktar voru í bæjarstjórn 23. janúar 2018. Í breytingunni felst að ekki verður lengur krafa um að lokið verði við að steypa sökkla áður en lóðarsamningur er gefinn út. Í staðinn verður krafa um gerð sökkla áður en byggingarréttur er framseldur til þriðja aðila.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á reglum um úthlutun lóða verði samþykkt.

11.Álfabyggð 16 - umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 2021060003Vakta málsnúmer

Byggingarfulltrúi óskar umsagnar skipulagsráðs um erindi dagsett 31. maí 2021 frá Rögnvaldi Harðarsyni þar sem hann fyrir hönd Eyjólfs Árnasonar sækir um leyfi til að byggja viðbyggingu norðan við húsið Álfabyggð 16. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Rögnvald Harðarson.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna umsóknina skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir Ásabyggð 9 og 11 og Álfabyggð 18. Ef engar athugasemdir berast á kynningartíma er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

12.Nonnahagi 13 - umsókn um framkvæmdafrest

Málsnúmer 2020100507Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. maí 2021 þar sem Sverrir Gestsson sækir um framkvæmdafrest á lóð nr. 13 við Nonnahaga.
Skipulagsráð samþykkir að veita framkvæmdafrest til 1. apríl 2022.

13.Langtímabílastæði hópbifreiða - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2021060335Vakta málsnúmer

Erindi Samtaka ferðaþjónustunnar dagsett 3. júní 2021 þar sem óskað er eftir að hluti svæðis austan við Hof, sunnan Átaks, verði skilgreint tímabundið sem bílastæði fyrir hópbifreiðar. Yrði svæðið eingöngu notað sem stæði fyrir hópbifreiðar yfir nótt eða á meðan beðið er eftir farþegum en ekki sem langtíma geymslusvæði fyrir farartæki.
Skipulagsráð samþykkir að heimila nýtingu svæðisins fyrir bílastæði hópbifreiða út september 2021, eða þar til framkvæmdir hefjast á svæðinu. Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að ákveða afmörkun og merkingu svæðisins í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið.

14.Biðstöð almenningsvagna í landsbyggðaakstri - fyrirspurn til skipulagsráðs

Málsnúmer 2021060334Vakta málsnúmer

Erindi Samtaka ferðaþjónustunnar dagsett. 3. júní 2021 þar sem óskað er eftir að Akureyrarbær heimili almenningsvögnum í landsbyggðaakstri að taka upp farþega inni á bílastæði austan við Hof í staðinn fyrir á núverandi svæði í Strandgötu.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að skoða möguleika á að koma stoppustöð landsbyggðarstrætós fyrir á nýjum stað í samvinnu við umhverfis- og mannvirkjasvið.

15.Starfsáætlun skipulagssviðs 2021

Málsnúmer 2020060191Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulagssviðs fór yfir stöðu mála sem eru á starfsáætlun skipulagssviðs 2021.

16.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 815. fundar, dagsett 27. maí 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 9 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:05.