Fræðsluráð

8. fundur 12. apríl 2019 kl. 13:30 - 16:00 Fundarsalur 1. hæð Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen formaður
  • Heimir Haraldsson
  • Hildur Betty Kristjánsdóttir
  • Rósa Njálsdóttir
  • Þórhallur Harðarson
  • Þuríður Sólveig Árnadóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs ritaði fundargerð
  • Árni Konráð Bjarnason forstöðumaður rekstrardeildar
Fundargerð ritaði: Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs
Dagskrá
María Aldís Sverrisdóttir fulltrúi leikskólakennara mætti í forföllum Ellýjar Drafnar Kristjánsdóttur.
Sveinn Leó Bogason fulltrúi grunnskólakennara boðaði forföll.

Formaður fræðsluráðs leitaði afbrigða í upphafi fundar og óskaði eftir að teknir væru tveir fundarliðir á dagskrá þ.e. nr. 10 um ráðningu skólastjóra Iðavallar og nr. 12 um húsaleigusamning vegna Krógabóls. Óskin var samþykkt einróma.

1.Leikskólabygging við Glerárskóla

Málsnúmer 2017120010Vakta málsnúmer

Erna Rós Ingvarsdóttir verkefnastjóri leikskóla kom á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála við hönnun leikskóla á lóð Glerárskóla.
Fræðsluráð samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti framlagðar teikningar og vísar þeim til umhverfis- og mannvirkjasviðs til áframhaldandi vinnu.

2.Skóladagatal leik- og grunnskóla 2019-2020

Málsnúmer 2019010117Vakta málsnúmer

Skóladagatöl grunnskóla Akureyrarbæjar fyrir árið 2019-2020 lögð fram til kynningar.

Samkvæmt lögum skulu á hverju skólaári vera að lágmarki 180 skóladagar í grunnskólum. Af þeim skulu að lágmarki vera 170 kennsludagar skv. viðmiðunarstundaskrá. Á skóladagatali eru skilgreindir þrenns konar skóladagar þ.e. kennslu- og uppbrotsdagar sem skulu að lágmarki vera 170 og síðan skertir dagar sem að hámarki mega vera 10 talsins.

Í verklagsreglum Akureyrarbæjar er heimilt að hafa tvo s.k. tvöfalda daga í tengslum við árshátíð. Skóladagatal hvers skóla skal leggja fyrir skólaráð til staðfestingar.

Allir grunnskólar uppfylla ofangreind skilyrði.
Fræðsluráð staðfestir skóladagatöl allra grunnskóla Akureyrarbæjar fyrir skólaárið 2019-2020.

3.Fimm ára deildir í grunnskólum

Málsnúmer 2017050139Vakta málsnúmer

Árið 2017 hófst starfsemi Lautarinnar, 5 ára deildar í Tröllaborgum, staðsett í Glerárskóla. Skráningar fyrir haustönn 2019 eru einungis 10 og því veikar rekstrarlegar forsendur fyrir því að halda starfseminni áfram sbr. meðfylgjandi minnisblað. Öllum foreldrum verðandi 5 ára barna var kynntur þessi valmöguleiki og bauðst að sækja um fyrir börn sín.
Fræðsluráð samþykkir samhljóða að starfsemi Lautarinnar verði lögð af frá og með 8. júlí 2019.

Starfsemi Lautarinnar verður flutt í Árholt 2. maí n.k. á meðan framkvæmdir við endurbætur á Glerárskóla standa yfir. Gert er ráð fyrir að Árholt verði áfram notað undir leikskólastarfsemi.

4.Starfshópur um aðkomu Akureyrarbæjar að listnámi

Málsnúmer 2019040026Vakta málsnúmer

Hildur Betty Kristjánsdóttir lagði fram til kynningar minnisblað dagsett 1. apríl 2019 frá starfshópi um aðkomu Akureyrarbæjar að listnámi.

5.Skólamáltíðir

Málsnúmer 2019030412Vakta málsnúmer

Þann 4. apríl 2019 vísaði bæjarráð 5. lið fundargerðar bæjarstjórnar unga fólksins frá 26. mars 2019 um skólamáltíðir til fræðsluráðs.

Lagt var fram minnisblað með samantekt á stöðu mötuneyta í leik- og grunnskólum.
Fræðsluráð samþykkir að komið verði á virku og reglubundnu eftirliti með matseðlum leik- og grunnskóla, hráefni og gæðum matarins.

Starfsfólki skrifstofu fræðslusviðs er falið að leggja fram tillögu að framkvæmd eftirlitsins.

6.Tíðavörur í grunnskólum

Málsnúmer 2019030416Vakta málsnúmer

Þann 4. apríl 2019 vísaði bæjarráð 8. lið fundargerðar bæjarstjórnar unga fólksins frá 26. mars 2019 um tíðarvörur í grunnskólum til fræðsluráð.

Lagt fram til kynningar.

7.Umhverfisþing barna og ungmenna á Akureyri

Málsnúmer 2019040160Vakta málsnúmer

Formaður fræðslusráðs gerði grein fyrir tillögu um að haldið verði umhverfisþing barna og ungmenna á Akureyri.
Fræðsluráð leggur til að leitað verði eftir samvinnu við samfélagssvið, umhverfis- og mannvirkjasvið og ungmennaráð um að haldið verði umhverfisþing barna og ungmenna á Akureyri sem tengist jafnframt verkefnum í leik- og grunnskólum.

Sviðsstjóra fræðslusviðs er falið að vinna málið áfram.

8.Nútímavæðing í skólum

Málsnúmer 2017080076Vakta málsnúmer

Minnisblað um þróun og stefnumörkun í upplýsingatækni í leik- og grunnskólum lagt fram til umræðu.
Áður en ákveðið verður hvernig verja skuli fjármunum sem ætlaðir eru í nútímavæðingu skólanna í ár felur fræðsluráð starfsfólki skrifstofu fræðslusviðs að vinna að úttekt á tækjakosti og tæknimálum í öllum skólum, hver staðan er í kennslu upplýsingatækni ásamt því hvernig starfsþróun er háttað.

9.Ráðning skólastjóra Giljaskóla

Málsnúmer 2019040087Vakta málsnúmer

Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs gerði grein fyrir ráðningu skólastjóra Giljaskóla.

Kristín Jóhannesdóttir var ráðin í starfið. Kristín hefur MPA-próf í opinberri stjórnsýslu, auk þess að vera með viðbótarmenntun í skólaþróun og stjórnun. Hún hefur sjö ára reynslu sem skólastjóri og var þar áður deildarstjóri í tvö ár. Kristín hefur sýnt í verki að vera öflugur faglegur leiðtogi og hefur haft frumkvæði að fjölmörgum þróunarverkefnum í skólastarfi bæði innlendum og fjölþjóðlegum.

Lagt fram til kynningar.

10.Ráðning skólastjóra Iðavallar

Málsnúmer 2019040196Vakta málsnúmer

Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs gerði grein fyrir ráðningu skólastjóra Iðavallar.

Anna Lilja Sævarsdóttir var ráðin í starfið. Hún hefur 17 ára starfsreynslu sem leikskólakennari þar af 14 ára farsæla reynslu í stjórnun á leikskólum. Meistaraprófsverkefnið hennar fjallaði um fjölmenningu í leikskólum. Auk þess hefur hún IPMA-vottun sem verkefnastjóri. Anna hefur verið í fararbroddi með starfsþróun af ýmsu tagi og hefur stýrt verkefnum bæði innan lands sem utan.

Lagt fram til kynningar.

11.Lundarsel - lausar kennslustofur

Málsnúmer 2019030134Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá 9. apríl 2019 með niðurstöðum útboðs á kennslustofum við Lundarsel.
Fræðsluráð samþykkir samhljóða að farið verið í framkvæmdir í Lundarseli skv. framlögðu minnisblaði. Áætlaður kostnaður er kr. 120.000.000 og er óskað eftir viðauka vegna þeirrar upphæðar. Ósk um viðauka er vísað til seinni umræðu í fræðsluráði mánudaginn 6. maí 2019.

12.Húsaleigusamningur vegna Krógabóls - viðauki

Málsnúmer 2019040223Vakta málsnúmer

Árni K. Bjarnason forstöðumaður rekstrar lagði fram drög að endurskoðuðum húsaleigusamningi milli Akureyrarbæjar og Lögmannshlíðarsóknar vegna leikskólans Krógabóls. Leigusamningurinn er framlengdur til júníloka 2026. Skv. samningnum tekur Akureyrarbær að sér endurbætur á loftræstikerfi skólans en á móti kemur engin hækkun húsaleigu fyrr en 1. júlí 2021. Áætlaður kostnaður bæjarins er kr. 6.000.000 og er óskað eftir viðauka vegna þeirra upphæðar.

Ingunn Högnadóttir og María Aldís Sverrisdóttir fóru af fundi undir þessum lið kl. 15:45.
Fræðsluráð samþykkir samhljóða framlagðan húsaleigusamning.

Ósk um viðauka er vísað til seinni umræðu í fræðsluráði mánudaginn 6. maí 2019.Fundi slitið - kl. 16:00.