Bæjarstjórn

3520. fundur 06. desember 2022 kl. 16:00 - 18:26 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Heimir Örn Árnason forseti bæjarstjórnar
  • Hlynur Jóhannsson
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir
  • Brynjólfur Ingvarsson
  • Gunnar Már Gunnarsson
  • Andri Teitsson
  • Halla Björk Reynisdóttir
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Andri Teitsson L-lista sat fundinn í forföllum Gunnars Líndal Sigurðssonar.

1.Breytingar í nefndum 2022-2026

Málsnúmer 2022030877Vakta málsnúmer

Tekin fyrir beiðni Gunnars Líndal Sigurðssonar L-lista dagsett 2. desember 2022 um að vera leystur undan störfum í bæjarstjórn Akureyrar og öðrum nefndum bæjarins til loka kjörtímabils.
Bæjarstjórn samþykkir lausnarbeiðnina með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Kosning bæjarráðs til eins árs 2022-2023 - breyting

Málsnúmer 2022050401Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga L-lista um að Halla Björk Reynisdóttir verði formaður bæjarráðs frá 1. janúar 2023 í stað Gunnars Líndal Sigurðssonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Kosning bæjarráðs til eins árs 2022-2023 - breyting

Málsnúmer 2022050401Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga L-lista um að Hulda Elma Eysteinsdóttir verði varamaður í bæjarráði frá 6. desember 2022 í stað Gunnars Líndal Sigurðssonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Álagning gjalda - útsvar 2023

Málsnúmer 2022110856Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 24. nóvember 2022:

Lögð fram tillaga um útsvarsprósentu í staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2023 í Akureyrarbæ.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir að útsvar verði 14,52% á árinu 2023 og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.

Til máls tók Gunnar Már Gunnarsson.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Álagning gjalda - fasteignagjöld 2023

Málsnúmer 2022110595Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 24. nóvember 2022:

Lögð fram tillaga að álagningu fasteignagjalda á árinu 2023.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögu um álagningu fasteignagjalda 2023 til afgreiðslu bæjarstjórnar að undanskyldu sorphirðugjaldi.

Hlynur Jóhannsson kynnti.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir og Gunnar Már Gunnarsson.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir framlagða tillögu um álagningu fasteignagjalda 2023.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista sátu hjá.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað:

Áætlað er að tekjur Akureyrarbæjar vegna fasteignaskatts hækki um 400 m.kr. milli ára, eða um 15,3%. Gangi áætlanir eftir munu tekjur sveitarfélagsinns vegna fasteignaskatts aukast um ríflega hálfan milljarð króna frá árinu 2021 til ársins 2023, eða um 21,65%, samtals um 534 m.kr. Þessi tekjuaukning á sér stað þrátt fyrir að fasteignaskattsprósentan lækki, enda hefur fasteignamat hækkað verulega. Það er því sérkennilegt í þessu samhengi að rætt sé um að verið sé að lækka álögur.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað:

Við fögnum því að nú liggi fyrir lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði. Eftir standa þó, frá fyrri umræðu, óbreyttar hækkanir fasteignagjalda af atvinnuhúsnæði sem geta reynst íþyngjandi fyrir einstaklinga í atvinnurekstri. Við viljum því nýta tækifærið og minna á ábyrgð bæjarstjórnar þegar kemur að því að fylgjast með og tryggja að rekstrarumhverfi fyrirtækja í bænum sé eins heilbrigt og það getur orðið.

6.Fasteignagjöld 2023 - reglur um afslátt

Málsnúmer 2022110595Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 24. nóvember 2022:

Lögð fram tillaga að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2023.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir að vísa tillögu að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2023 til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Lára Halldóra Eiríksdóttir kynnti.

Til máls tók Hilda Jana Gísladóttir.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2023 með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Gjaldskrár Akureyrarbæjar 2023

Málsnúmer 2022110941Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 1. desember 2022:

Lögð fram tillaga að gjaldskrám Akureyrarbæjar 2023.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hag- og áætlanadeildar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista sat fundinn undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum framlagða tillögu að gjaldskrám Akureyrarbæjar fyrir árið 2023 og vísar þeim til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Hilda Jana Gísladóttir greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Í verðsamanburði 20 stærstu sveitarfélaga landsins eru leikskólagjöld á Akureyri þau fjórðu dýrustu, sé miðað við eitt barn í 8 tíma með fæði. Miðað við breytingar á gjaldskrá kemur þetta gjald til með að hækka, en réttara væri að lækka það. Þá væri æskilegt að falla frá hækkun á gjaldskrá á heimsendum mat fyrir eldri borgara, en verðskráin hjá Akureyrarbæ er nokkuð há í samanburði við önnur sveitarfélög.

Andri Teitsson kynnti.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir framlagðar gjaldskrár.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista greiddu atkvæði gegn tillögunni og óska bókað:

Það er miður að meirihlutinn ætli bæði að hækka verð á heimsendum mat til eldri borgara og hækka gjöld foreldra vegna leikskólavistar barna, að meðtöldum fæðiskostnaði. Báðar þessar gjaldskrár eru háar í samanburði við önnur sveitarfélög, en sem dæmi eru leikskólagjöld á Akureyri nú þegar þau fjórðu dýrustu, sé miðað við eitt barn í 8 tíma á dag með fæði, í samanburði 20 stærstu sveitarfélaga landsins.

8.Velferðarráð - gjaldskrá fyrir félagslegt húsnæði 2021-2022

Málsnúmer 2021111421Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 1. desember 2022:

Liður 1 í fundargerð velferðarráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Lagt fram minnisblað dagsett 18. nóvember 2022 frá Kristínu Baldvinsdóttur forstöðumanni hagþjónustu og áætlanagerðar um tillögur að hækkun á gjaldskrá félagslegra íbúða.

Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu, Guðni Örn Hauksson húsnæðisfulltrúi og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð samþykkir fyrir sitt leyti tillögur að hækkun á gjaldskrá félagslegra íbúða samkvæmt minnisblaðinu og vísar málinu áfram til bæjarráðs.

Anna Fanney Stefánsdóttir L- lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista, Hermann Ingi Arason V-lista, Karl Liljendal Hólmgeirsson M-lista samþykktu tillöguna.

Alfa Dröfn Jóhannsdóttir B-lista var á móti.

Elsa María Guðmundsdóttir S-lista, Alfa Dröfn Jóhannsdóttir B-lista, Hermann Ingi Arason V-lista og Málfríður Þórðardóttir F-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Samhliða mögulegri hækkun á leigu þá er afar brýnt að fram fari heildarendurskoðun á félagslega húsnæðiskerfinu, enda bíða um 160 einstaklingar eftir húsnæði og því augljóst að fjölga þarf félagslegum íbúðum, þannig að færri bíði í styttri tíma. Eins er afar brýnt að flýta eins og kostur er uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk, enda er þar töluverður biðlisti þar sem fólk hefur beðið lengi.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista sat fundinn undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum gjaldskrá fyrir félagslegt húsnæði og vísar henni til afgreiðslu bæjarstjórnar. Hilda Jana Gísladóttir S-lista sat hjá.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista og Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Það er ótækt að aðeins sé farið í breytingar á gjaldskrám fyrir félagslegt húsnæði, án þess að samhliða sé tekist á við það aðkallandi verkefni að stytta biðlista. Bæjarstjórn ber ábyrgð á og á að hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Líklega bíða nú um 160 einstaklingar eftir félagslegu húsnæði í sveitarfélaginu og er mikilvægt að tryggja fleirum öruggt húsnæði sem á því þurfa að halda sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Jana Salóme I. Jósepsdóttir og Gunnar Már Gunnarsson.
Gjaldskráin var samþykkt með sjö atkvæðum.

Brynjólfur Ingvarsson óflokksbundinn greiddi atkvæði gegn framlagðri gjaldskrá og Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista sátu hjá.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað mikilvægi þess að við næstu fjárhagsáætlunargerð verði unnið samhliða að tekjuviðmiðum sértæks húsnæðisstuðnings og gjaldskrá félagslegs húsnæðis.

9.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2023-2026 - seinni umræða

Málsnúmer 2022042596Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 1. desember 2022:

Unnið að gerð fjárhagsáætlunar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Gunnar Már Gunnarsson B-lista sat fundinn undir þessum lið og þá sat Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2023-2026 til seinni umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti fjárhagsáætlun.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Hlynur Jóhannesson, Jana Salóme I. Jósepsdóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir og Heimir Örn Árnason.

Hilda Jana Gísladóttir S- lista lagði fram eftirfarandi tillögu:

Gerð verði sú breyting á fjárhagsáætlun 2023-2026, að framkvæmdir við íbúakjarna fyrir fatlað fólk í Nonnahaga færist fram um eitt ár og gert sé ráð fyrir framkvæmdunum á árunum 2024 og 2025, en undirbúningur hefjist eftir sem áður á næsta ári.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista lagði fram eftirfarandi breytingartillögu til viðbótar við tillögu Hildu Jönu Gísladóttur að framkvæmdin verði fjármögnuð með sölu eigna, þannig að hún orðist svo:

Gerð verði sú breyting á fjárhagsáætlun 2023-2026, að framkvæmdir við íbúakjarna fyrir fatlað fólk í Nonnahaga færist fram um eitt ár og gert sé ráð fyrir framkvæmdunum á árunum 2024 og 2025, en undirbúningur hefjist eftir sem áður á næsta ári. Auk þess verði gerð sú breyting á framkvæmdaáætlun, að farið verði í sölu eigna.

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Mikilvægt er að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna og ferðaþjónustuaðila. Lagt er til að bæjarstjórn samþykki viðbótarfjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu að upphæð 10 milljónum.

Breytingartillaga Höllu Bjarkar Reynisdóttur L-lista við tillögu Hildu Jönu Gísladóttur S-lista var borin upp til atkvæða:

Tillagan var samþykkt með tíu atkvæðum. Brynjólfur Ingvarsson óflokksbundinn sat hjá.

Tillaga Gunnars Más Gunnarssonar og Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur B-lista var borin upp til atkvæða:

Tillagan er felld með sex atkvæðum. Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista og Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista greiddu atkvæði með tillögunni og Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Brynjólfur Ingvarsson óflokksbundinn sátu hjá.

Meirihlutinn óskar bókað við framangreinda tillögu:

Við teljum þessa vinnu við atvinnustefnu vera hafna. Gert er ráð fyrir fjármagni til þess að endurskoða atvinnustefnu bæjarins. Nú þegar hefur verið gerð samkeppnisgreining fyrir bæinn, vinna er hafin á vettvangi SSNE á innviðagreiningu fyrir svæðið ásamt því að verið er að vinna að svæðisborgarstefnu. Sú stefna var mörkuð á síðasta kjörtímabili að binda stefnumótun að mestu að því sem er á valdi sveitarfélagsins að hafa áhrif á, svo sem leikskólapláss, samgöngur, lóðaframboð, markaðssetningu ofl. Fyrir liggur að aðalskipulagið verður endurskoðað þar sem farið verður yfir húsnæðiskafla og atvinnukafla og tækifæri gefst til að móta framtíðarsýn fyrir sveitarfélgið.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista, leggja fram eftirfarandi tillögu:

Nýta skal kosti almennra útboða við framkvæmdir og vöru- og þjónustukaup þar sem því verður við komið. Sérstök áhersla verður lögð á að ná ítrustu hagkvæmni í innkaupum, markmiðum sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum og meta endurnýjunarþörf búnaðar sérstaklega. Gerðir skulu þjónustusamningar við félög, fyrirtæki og stofnanir á þeim sviðum sem hagkvæmni slíkra samninga getur notið sín.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.


Fjárhagsáætlun er lögð fram og greidd atkvæði um hvern lið.


a)
Samstæðureikningur Akureyrarbæjar A- og B-hluti

Samstæðureikningur Sveitarsjóðs A-hluti

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2023

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2024

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2025

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2026

Framkvæmdayfirlit Akureyrarbæjar 2023-2026


A-hluta stofnanir:

Aðalsjóður

Eignasjóður gatna o.fl.

Fasteignir Akureyrarbæjar

Framkvæmdamiðstöð


B-hluta stofnanir:

Félagslegar íbúðir

Bifreiðastæðasjóður Akureyrar

Byggingarsjóður Náttúrufræðistofnunar

Gjafasjóður ÖA

Hafnasamlag Norðurlands

Hlíðarfjall

Norðurorka hf.

Strætisvagnar Akureyrar


Aðalsjóður:

Aðalsjóður með rekstrarniðurstöðu 2023 að fjárhæð -881.853 þús. kr. og niðurstöðu á efnahagsreikningi 2023 að fjárhæð 15.310.680 þús. kr. borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með sjö atkvæðum.

Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista sátu hjá.


A-hluta stofnanir:

I. Eignasjóður gatna, rekstrarniðurstaða 2023 að fjárhæð 130.206 þús. kr.

II. Fasteignir Akureyrarbæjar, rekstrarniðurstaða 2023 að fjárhæð 521.245 þús. kr.

III. Framkvæmdamiðstöð, rekstrarniðurstaða 2023 að fjárhæð 1.408 þús. kr.

Allir þessir liðir A-hluta stofnana bornir upp í einu lagi og samþykktir með sex atkvæðum.

Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista og Brynjólfur Ingvarssonar óflokksbundinn sátu hjá.


Samstæðureikningur:

Samstæðureikningur A-hluta með rekstrarniðurstöðu 2023 að fjárhæð -228.994 þús. kr. og niðurstöðu á efnahagsreikningi 40.260.601 þús. kr. er borinn upp til atkvæða og samþykktur með sex atkvæðum.

Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista og Brynjólfur Ingvarssonar óflokksbundinn sátu hjá.


B-hluta stofnanir:

Nöfn stofnana og rekstrarniðurstöður 2023 eru:

I. Bifreiðastæðasjóður Akureyrar, rekstrarniðurstaða 35.004 þús. kr.

II. Byggingarsjóður Náttúrufræðistofnunar, rekstrarniðurstaða 122 þús. kr.

III. Félagslegar íbúðir, rekstrarniðurstaða -100.321 þús. kr.

IV. Gjafasjóður ÖA, rekstrarniðurstaða -118 þús. kr.

V. Hafnasamlag Norðurlands, rekstrarniðurstaða 301.257 þús. kr.

VI. Hlíðarfjall, rekstarniðurstaða -171 þús. kr.

VII. Norðurorka hf., rekstrarniðurstaða 192.816 þús. kr.

VIII. Strætisvagnar Akureyrar, rekstrarniðurstaða -2.880 þús. kr.

Áætlanir allra þessara B-hluta stofnana bornar upp í einu lagi og samþykktar með sex atkvæðum. Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista og Brynjólfur Ingvarssonar óflokksbundinn sátu hjá.


Samstæðureikningur Akureyrarbæjar:

Samstæðureikningur Akureyrarbæjar A- og B-hluti með rekstrarniðurstöðu 2023 að fjárhæð 228.061 þús. kr. og niðurstöðu á efnahagsreikningi 2023 að fjárhæð 65.686.615 þús. kr. borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með sex atkvæðum meirihluta.

Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista og Brynjólfur Ingvarssonar óflokksbundinn sátu hjá.


Framkvæmdayfirlit Akureyrarbæjar 2023:

Aðalsjóður 1.580.000 þús. kr.

A-hluti 1.982.000 þús. kr.

B-hluti 3.094.000 þús. kr.

Samantekinn A- og B-hluti 5.076.000 þús. kr.

Framkvæmdayfirlitið borið upp og samþykkt með með sex atkvæðum meirihlutans.

Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista og Brynjólfur Ingvarssonar óflokksbundinn sátu hjá.


Eftirfarandi tillögur að bókunum vegna fjárhagsáætlunar 2023 lagðar fram:


a) Kaup á vörum og þjónustu

Nýta skal kosti almennra útboða við framkvæmdir og vöru- og þjónustukaup þar sem því verður við komið. Sérstök áhersla verður lögð á að ná ítrustu hagkvæmni í innkaupum, markmiðum sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum og meta endurnýjunarþörf búnaðar sérstaklega. Gerðir skulu þjónustusamningar við félög, fyrirtæki og stofnanir á þeim sviðum sem hagkvæmni slíkra samninga getur notið sín.


a)
liður samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


b)
Áherslur við framkvæmd fjárhagsáætlunar 2023

Bæjarstjórn ítrekar tilmæli til stjórnenda bæjarins um að gæta ítrasta aðhalds í öllum rekstri bæjarins á árinu 2023. Mikilvægt er að allri yfirvinnu sé haldið í lágmarki og þeim eindregnu tilmælum er beint til stjórnenda að meta vandlega yfirvinnuþörf og leita leiða til að draga úr henni. Jafnframt skulu stjórnendur meta sérstaklega þörf á nýráðningum og möguleika á hagræðingu með breyttu verkferli þegar störf losna. Allar slíkar breytingar þarf að leggja fyrir viðkomandi nefnd og bæjarráð.


b) liður samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


Bæjarstjórn lítur svo á að með afgreiðslu frumvarpsins hafi verið afgreidd erindi og tillögur um fjárveitingar sem borist hafa bæjarráði og vísað hefur verið til gerðar fjárhagsáætlunar.


Forseti lýsir því yfir að 9. liður dagskrárinnar ásamt 2. lið í fundargerð bæjarráðs frá 1. desember 2022 séu þar með afgreiddir.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista óskar bókað:

Það er miður að ekki sé gert ráð fyrir því að fjölga nægjanlega félagslegum íbúðum í eigu bæjarins með það að markmiði að stytta biðlista, en nú bíða þar um 160 einstaklingar. Þá er miður að meirihlutinn ætli að hækka gjöld á heimsendum mat til eldri borgara, sem og gjöld vegna leikskóla barna með fæði hækki. Ég hef efasemdir um að áætlað fjármagn vegna uppbyggingar leikskóla nægi og hef þar að auki áhyggjur af stöðu mannvirkja þeirra leikskóla sem komnir eru til ára sinna og eru jafnvel í óheppilegu húsnæði.

Ég fagna því hins vegar að margar af áherslum Samfylkingarinnar hafi náð inn í fjárhagsáætlun á milli umræðna í bæjarstjórn, t.d. er varða að gera yfirleitt ráð fyrir uppbyggingu leikskóla, flýta undirbúningi að uppbyggingu íbúakjarna fyrir fatlað fólk, koma á lægra gjaldi fyrir forgangshópa í frístund, rýmka svigrúm sérstaks húsnæðisstuðnings og afslátta af fasteignaskatti fyrir tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega sem og að dregið hafi verið úr áður ætluðum gjaldskrárhækkunum.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað að við gerð fjárhagsáætlunar árið 2023 verði í hvívetna unnið eftir ferli fjárhagsáætlunar sem samþykkt var í bæjarráði þann 28. apríl síðastliðinn. Verkefnin forgangsröðuð og unnið markvissara í átt að sjálfbærni í rekstri. Við það gefst einnig tækifæri til lækkunar á álögum á íbúa sveitarfélagsins. Unnið verði að framtíðarsýn sveitarfélagsins í atvinnumálum sem eykur verðmæti og tekjur sveitarfélagsins til lengri tíma.


Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, óskar bókað vegna B-hluta stofnanir:

Forsenda þess að breyta ferðavenjum og vinna að heilnæmara umhverfi er að auka þjónustustig strætó, það er ekki að sjá á fjárhagsáætlun þessa árs og í raun ljóst að leiðanet verði veikt með stækkun bæjarins og útvíkkun kerfisins.


Þá óskar Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista bókað við fjárhagsáætlun í heild:

Það er miður að sjá að ekki er gert ráð fyrir að fjármagna aðgerðaráætlun með nýsamþykktri Umhverfis- og loftslagsstefnu og engu fjármagni ætlað til að hækka þjónustustig strætó.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista, leggja fram eftirfarandi tillögu að viðbót við umrædda bókun:

„Nýta skal kosti almennra útboða við framkvæmdir og vöru- og þjónustukaup þar sem því verður við komið. Sérstök áhersla verður lögð á að ná ítrustu hagkvæmni í innkaupum, markmiðum sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum og meta endurnýjunarþörf búnaðar sérstaklega. Gerðir skulu þjónustusamningar við félög, fyrirtæki og stofnanir á þeim sviðum sem hagkvæmni slíkra samninga getur notið sín.“

10.Hvannavellir 10-14 - nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2021120847Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Kynningu á drögum að deiliskipulagi fyrir Hvannavelli 10-14 lauk 5. nóvember sl.

Fjögur athugasemdabréf bárust auk umsagna frá Minjastofnun Íslands og Norðurorku.

Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að deiliskipulagi með þeirri breytingu að byggingarreitur við Furuvelli færist innar á lóð þannig að framhlið byggingar verði í beinni línu við byggingar við Furuvelli 1 og 3 og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jón Hjaltason greiðir atkvæði gegn tillögu skipulagsráðs.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 10 atkvæðum framlagða tillögu að deiliskipulagi með þeirri breytingu að byggingarreitur við Furuvelli færist innar á lóð í samræmi við bókun skipulagsráðs. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Brynjólfur Ingvarsson óflokksbundinn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

11.Oddeyrarbót 2 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2022110731Vakta málsnúmer

Liður 7 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Erindi dagsett 16. nóvember 2022 þar sem Jóhann Einar Jónsson f. h. Hvalaskoðunar Akureyri sækir um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar.

Breytingin felur í sér að nýtingarhlutfall lóðarinnar Oddeyrarbótar 2 er hækkað úr 0,426 í 0,64 og að innan byggingarreits verði heimilt að reisa tveggja hæða byggingu með hámarks mænishæð 7,5 m. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagsskilmálum er heimilt að byggja allt að 200 m² hús á einni hæð á lóðinni.

Meðfylgjandi eru tillöguteikningar.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar skv. 1. gr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til samræmis við fyrirliggjandi erindi. Í breytingunni verði gert ráð fyrir sambærilegum skilmálum á öllum þremur lóðum við Oddeyrarbót.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti og leggur til svofellda bókun:

Bæjarstjórn leggur jafnframt áherslu á að ákvæði í núgildandi deiliskipulagi um að drög að útliti húsa skuli lagðar fyrir skipulagsráð verði virt og beinir því til skipulagsráðs að hugað verði að léttu yfirbragði bygginga.

Til máls tók Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með 11 atkvæðum að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar skv. 1. gr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til samræmis við fyrirliggjandi erindi. Í breytingunni verði gert ráð fyrir sambærilegum skilmálum á öllum þremur lóðum við Oddeyrarbót. Bæjarstjórn leggur jafnframt áherslu á að ákvæði í núgildandi deiliskipulagi um að drög að útliti húsa skuli lagðar fyrir skipulagsráð verði virt og beinir því til skipulagsráðs að hugað verði að léttu yfirbragði bygginga.

12.Leikskóli og hjúkrunarheimili - breyting á deiliskipulagi Síðuskóla

Málsnúmer 2022010712Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Kynningu á tillögu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla vegna áforma um hjúkrunarheimili og leikskóla lauk 26. október sl.

Sex athugasemdabréf bárust auk umsagna frá öldungaráði Akureyrarbæjar, Síðuskóla, Norðurorku, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Minjastofnun Íslands.

Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs 9. nóvember sl. og var afgreiðslu frestað.

Eru nú lagðar fram tvær tillögur að útfærslu svæðisins, annars vegar Tillaga A þar sem fyrirhugað hjúkrunarheimili er staðsett norðan við núverandi hjúkrunarheimili og sunnan við fyrirhugaðan leikskóla og hins vegar Tillaga B þar sem fyrirhugaður leikskóli er staðsettur norðan við núverandi hjúkrunarheimili og sunnan við fyrirhugað hjúkrunarheimili.

Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki Tillögu B að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla með minniháttar lagfæringum til samræmis við umræður á fundinum og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jón Hjaltason situr hjá við afgreiðslu málsins.

Er nú lagður fram í bæjarstjórn deiliskipulagsuppdráttur skv. tillögu B. Umrædd tillaga kallar á breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 þar sem reitir S30 og S31 fyrir samfélagsþjónustu sameinast í einn reit.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Síðuskóla skv. tillögu B og að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 til samræmis við breytingu á deiliskipulagi. Að mati bæjarstjórnar er um óverulega breytingu að ræða í samræmi við 2. mgr. 36.gr. skipulagslaga þar sem breytingin hefur hvorki í för með sér breytingar á landnotkun né er hún líkleg til að hafa áhrif á einstaka aðila eða stór svæði.

13.Reglur um úthlutun lóða - endurskoðun 2022

Málsnúmer 2022030533Vakta málsnúmer

Liður 14 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Lögð fram tillaga að breytingum á reglum Akureyrarbæjar um úthlutun lóða.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlögð drög að breytingum á reglum Akureyrarbæjar um úthlutun lóða með smávægilegum breytingum í samræmi við umræður á fundinum.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með 11 atkvæðum endurskoðaðar reglur Akureyrarbæjar um úthlutun lóða.

14.Reglur velferðarsviðs um stoðþjónustu

Málsnúmer 2022090994Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð velferðarráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Lagðar fram til afgreiðslu reglur um stoðþjónustu.

Halldóra Hauksdóttir lögfræðingur, Bergdís Ösp Bjarkadóttir, Elfa Björk Gylfadóttir og Hlynur Már Erlingsson forstöðumenn sátu fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð samþykkir reglur um stoðþjónustu fyrir sitt leyti og vísar þeim áfram til samþykktar í bæjarstjórn.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaðar reglur velferðarsviðs um stoðþjónustu með 11 samhljóða atkvæðum.

15.Reglur velferðarsviðs um notendasamninga

Málsnúmer 2022090995Vakta málsnúmer

Liður 5 í fundargerð velferðarráðs dagsettri 23. nóvember 2022:

Lagðar fram til afgreiðslu reglur um notendasamninga.

Halldóra Hauksdóttir lögfræðingur, Bergdís Ösp Bjarkadóttir, Elfa Björk Gylfadóttir og Hlynur Már Erlingsson forstöðumenn sátu fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð samþykkir reglur um notendasamninga fyrir sitt leyti og vísar þeim áfram til samþykktar í bæjarstjórn.

Lára Halldóra Eiríksdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaðar reglur velferðarsviðs um notendasamninga með 11 samhljóða atkvæðum.

16.Bæjarstjórn - áætlun um um fundi 2022-2026

Málsnúmer 2022060869Vakta málsnúmer

Lögð fram áætlun um fundi bæjarstjórnar árið 2023.
Bæjarstjórn samþykkir áætlun um fundi bæjarstjórnar árið 2023 samhljóða með 11 atkvæðum.

17.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2022010392Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 16. og 24. nóvember og 1. desember 2022
Bæjarráð 17. og 24. nóvember og 1. desember 2022
Fræðslu- og lýðheilsuráð 21. nóvember 2022
Skipulagsráð 23. nóvember 2022
Umhverfis- og mannvirkjaráð 15. nóvember 2022
Velferðarráð 23. nóvember 2022

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 18:26.