Skipulagsráð

372. fundur 22. desember 2021 kl. 08:15 - 10:00 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Þórhallur Jónsson formaður
  • Sindri Kristjánsson
  • Grétar Ásgeirsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • María Markúsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
Dagskrá
Grétar Ásgeirsson B-lista sat fundinn í forföllum Guðmundar Baldvins Guðmundssonar.

1.Stofnana- og athafnasvæði við Súluveg - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2021111548Vakta málsnúmer

Gera þarf breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 í tengslum við gerð deiliskipulags fyrir athafna- og stofnanalóðir við Súluveg.

Breytingin felst í því að athafnasvæði sem merkt er AT13 á aðalskipulagsuppdrætti stækkar um 0,2 ha til austurs. Um leið minnkar svæði SL7; græni trefillinn, samsvarandi.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að breyting á aðalskipulagi verði samþykkt. Að mati skipulagsráðs er um óverulega breytingu að ræða í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem breytingin hefur hvorki í för með sér verulegar breytingar á landnotkun né er hún líkleg til að hafa áhrif á einstaka aðila eða stór svæði.

Þórhallur Jónsson D-lista og Grétar Ásgeirsson B-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins.

2.Deiliskipulag Hvannavalla 10-14

Málsnúmer 2021120847Vakta málsnúmer

Lögð fram lýsing skipulagsverkefnis vegna deiliskipulags sem nær til lóða nr. 10-14 við Hvannavelli til samræmis við samþykkt skipulagsráðs frá 24. nóvember 2021 (mál 2021090328).
Skipulagsráð samþykkir að lýsingin verði kynnt skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Akureyrarflugvöllur - umsókn um breytingu á skipulagi vegna aðflugsljósa

Málsnúmer 2021120528Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. desember 2021 þar sem Snævarr Örn Georgsson fyrir hönd Isavia Innanlandsflugvalla ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi Höepfnersbryggju vegna uppsetningar aðflugsljósa. Meðfylgjandi er vinnuteikning.
Breytingin er í samræmi við Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 og leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að breyting á deiliskipulagi Höepfnersbryggju í samræmi við tillögu umsækjanda verði samþykkt og auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar fullnægjandi skipulagsgögn liggja fyrir.

4.Akureyrarflugvöllur, aðflugsljós - beiðni um umsögn

Málsnúmer 2021120354Vakta málsnúmer

Erindi Skipulagsstofnunar dagsett 7. desember 2021 þar sem óskað er umsagnar Akureyrarbæjar um hvort fyrirhuguð framkvæmd við jarðvinnu í tengslum við aðflugsljós norðan við flugbraut Akureyrarflugvallar sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Frestur til að skila umsögn er veittur til 10. janúar 2022.

Meðfylgjandi er tilkynning um framkvæmd til ákvörðunar um matsskyldu, unnin af Eflu verkfræðistofu f.h. Isavia innanlandsflugvalla í október 2021.
Það er mat Akureyrarbæjar að í tilkynningunni sé ágætlega gerð grein fyrir umræddri framkvæmd en þó skortir á umfjöllun um gerð og virkni aðflugsljósanna, s.s. styrk lýsingar, lit ljósa, tímalengd og samfellu lýsingar ásamt hugsanlegum áhrifum af ljósmengun á umhverfi. Þá skortir jafnframt umfjöllun um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á sjávarföll sunnan Leiruvegar.

Akureyrarbær telur þó ekki ástæðu til að umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, að því gefnu að tryggðar verði mótvægisaðgerðir til varnar hugsanlegum áhrifum á sjávarföll.

5.Sjafnarnes - breyting á deiliskipulagi B-áfanga Krossaneshaga

Málsnúmer 2021100029Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar drög að breytingu á deiliskipulagi B-áfanga atvinnulóða við Krossaneshaga.
Afgreiðslu frestað.

6.Spítalavegur 15A og 15B - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2021120326Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. desember 2021 þar sem Þórdís Katla Einarsdóttir sækir um breytt skipulag lóðar nr. 15 við Spítalaveg. Óskað er eftir skiptingu lóðarinnar í Spítalaveg 15A og 15B þar sem Spítalavegur 15A verður tvíbýlishúsið sem nú stendur innan lóðarmarka eignarlóðarinnar en Spítalavegur 15B verður ný byggingarlóð á leigulóð. Jafnframt er óskað eftir 230 m² stækkun leigulóðar og að gerður verði lóðarleigusamningur. Meðfylgjandi er greinargerð.
Þar sem hafin er vinna við breytingu á aðal- og deiliskipulagi svæðisins vísar skipulagsráð erindinu til skoðunar í þeirri vinnu.

7.Nonnahagi 3 - umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 2021110335Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. desember 2021 þar sem Karen Sigurbjörnsdóttir og Stefán Helgi Waagfjörð sækja um framkvæmdafrest á lóð nr. 3 við Nonnahaga. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í maí 2022.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Málinu er vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

8.Moldhaugnaháls - beiðni um umsögn vegna breytingar á aðalskipulagi

Málsnúmer 2021120353Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. desember 2021 þar sem Sigríður Hrefna Pálsdóttir fyrir hönd sveitarstjórnar Hörgársveitar óskar eftir umsögn Akureyrarbæjar um skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024. Breytingin tekur til skilmála fyrir athafnasvæði AT1 og afþreyingar- og ferðamannasvæði AF2 á Moldahaugnahálsi. Umsögn óskast eigi síðar en 3. janúar 2022. Meðfylgjandi er greinargerð.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við lýsinguna.

9.Borun vegna jarðhita - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2021120697Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. desember 2021 þar sem Stefán H. Steindórsson fyrir hönd Norðurorku sækir um framkvæmdaleyfi fyrir borun rannsóknarhola innan Akureyrarbæjar vegna rannsókna á jarðhita. Meðfylgjandi er greinargerð.
Skipulagsráð heimilar útgáfu framkvæmdaleyfis þegar fullnægjandi gögn hafa borist til samræmis við ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

10.Miðgarðakirkja Grímsey - umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

Málsnúmer 2021120733Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. desember 2021 þar sem Hjörleifur Stefánsson fyrir hönd Sóknarnefndar Miðgarðakirkju sækir um byggingarleyfi fyrir kirkju í Grímsey, sama staðsetning og kirkjan sem brann í september á þessu ári. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Hjörleif Stefánsson.
Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu en þar sem framkvæmdin er í samræmi við aðalskipulag gerir skipulagsráð ekki athugasemdir við umsóknina með vísun í ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem kirkjan verður byggð á sama stað og eldri kirkja er ekki talin þörf á grenndarkynningu. Er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

11.Oddeyrarbót 3 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2021120881Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Steingríms Birgissonar dagsett 17. desember 2021 fyrir hönd AC ehf. um lóðina Oddeyrarbót 3.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að lóðinni verði úthlutað til AC ehf. án auglýsingar með vísun í heimild í gr. 2.3 í Reglum Akureyrarbæjar um úthlutun lóða. Árið 2016 fékk fyrirtækið úthlutað lóðunum Torfunefi nr. 1 og 3. Lóð 1 varð aldrei byggingarhæf og nú hefur verið ákveðið að breyta skipulagi á því svæði og draga fyrri úthlutanir lóða við Torfunef til baka. Skipulagsákvæði lóðanna eru sambærileg m.t.t. byggingarmagns og starfsemi. Fengi AC ehf. úthlutaðri lóðinni Oddeyrarbót 3 í stað Torfunefs 1.

12.Gatnagerðargjöld 2021

Málsnúmer 2020120094Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á Gjaldskrá gatnagerðargjalda í Akureyrarbæ. Breytingin felst í því að 3. mgr. 8. gr. er felld út.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að breytingin verði samþykkt og bæjarlögmanni verði falið að sjá um gildistöku hennar.

13.Gjaldskrá Akureyrarbæjar vegna afgreiðslu- og þjónustugjalda - endurskoðun 2016-2021

Málsnúmer 2016110141Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á 3. gr. Gjaldskrár Akureyrarbæjar fyrir gjöld skv. lögum um mann­virki og skipulagslögum og önnur afgreiðslu- og þjónustugjöld. Í breytingunni felst endurskoðun á gjaldi fyrir útmælingu lóða.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að breytingin verði samþykkt og bæjarlögmanni verði falið að sjá um gildistöku hennar.

14.Fundaáætlun skipulagsráðs

Málsnúmer 2018120052Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju tillaga að fundaáætlun fyrir skipulagsráð árið 2022.
Skipulagsráð samþykkir framlagða fundaáætlun með þeirri breytingu að fundur þann 18. maí 2022 fellur út.

15.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 843. fundar, dagsett 9. desember 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er hana að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

16.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2021

Málsnúmer 2020120557Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 844. fundar, dagsett 16. desember 2021, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er hana að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 10:00.