Skipulagsráð

287. fundur 14. mars 2018 kl. 08:00 - 11:20 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Ólafur Kjartansson
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Anna Bragadóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Helgi Snæbjarnarson L-lista mætti í forföllum Evu Reykjalín Elvarsdóttur.
Ólafur Kjartansson V-lista mætti í forföllum Edwards Hákonar Huijbens.

1.Miðbær - uppfærsla deiliskipulags

Málsnúmer 2017010274Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulagssviðs og formaður skipulagsráðs lögðu til þann 26. apríl 2017 að ráðist yrði í kostnaðargreiningu og áfangaskiptingu miðbæjarskipulags. Ennfremur hvaða úrbætur væru nauðsynlegar, t.a.m. vegna friðunar húsa, afmörkunar byggingarreita og möguleika á uppbyggingu bílastæðahúss.

Á fundinn mættu Kristinn Magnússon frá Eflu og Árni Ólafsson frá Teiknistofu arkitekta, Gylfa Guðjónssonar og félaga.
Skipulagsráð þakkar Kristni og Árna fyrir kynninguna.

2.Skipulagssvið - skipting í skipulags- og byggingarhluta

Málsnúmer 2018030048Vakta málsnúmer

Lagt er til að skipulagssviði verði skipt upp í tvo hluta, skipulagshluta og byggingarhluta. Yfirmaður skipulagshluta verði skipulagsfulltrúi og yfirmaður byggingarhluta verði byggingarfulltrúi. Lögð fram tillaga sviðsstjóra að skipuriti ásamt yfirliti yfir helstu verkefni sviðsins.
Skipulagsráð tekur jákvætt í tillöguna og vísar erindinu til bæjarráðs.

3.Ársskýrsla skipulagssviðs

Málsnúmer 2015020123Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulagssviðs lagði fram til kynningar ársskýrslu skipulagssviðs og yfirlit yfir byggingaframkvæmdir ársins 2017.
Lagt fram til kynningar.

4.Íbúa- og atvinnuþróun - rannsóknarverkefni

Málsnúmer 2018030138Vakta málsnúmer

Tekin fyrir tillaga sviðsstjóra skipulagssviðs að unnin verði rannsókn á mannfjöldaþróun eftir aldursþrepum og tengslum hennar við atvinnuþróun bæjarins. Lögð fram rannsóknaráætlun sviðsstjóra. Markmiðið er að fá áreiðanlegri mannfjöldaspá, hvernig aldursskipt íbúaþróun tengist eftirspurn eftir húsnæði og hvert/hvernig atvinnuþróun í bænum tengist því. Hæg mannfjöldaþróun hefur undanfarin ár verið í aldursflokkum 0 - 50 ára, en mun hraðari þróun í eldri aldurshópum. Þetta hefur áhrif á eftirspurn eftir húsnæði, og einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á fólksflutninga til Akureyrar er samsetning vinnumarkaðarins. Markmið rannsóknarinnar er að finna samspil þessara þátta og hvernig bæjaryfirvöld geta brugðist við því.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra að hefja undirbúning verksins. Leitað verði eftir aðkomu aðila svo sem Sambands íslenkra sveitarfélaga, Samtaka iðnaðarins, Byggðastofnunar, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Háskólans á Akureyri o.fl. varðandi fjármögnun og aðstoð við gagnaöflun.

5.Breytingar á mannvirkjalögum - umsagnarbeiðni

Málsnúmer 2018030061Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. mars 2018 þar sem Karl Björnsson fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga bendir á að nú eru í umsagnarferli breytingar á mannvirkjalögum.
Skipulagsráð gerir eftirfarandi athugasemdir:

Akureyrarbær gerir athugasemd við 12. gr., breytingu á 6. mgr. 29. gr. laganna, að byggingarstjóri annist úttekt eigin verka, enda hlýtur hann að teljast vanhæfur, jafnvel þótt hann hafi vottað gæðakerfi. Gera verður kröfu um að óháður aðili annist þessar úttektir.

Sama athugasemd á við 15. gr., breytingu á 34. gr. laganna a og b lið.

Tekið er undir athugasemd Sambands íslenskra sveitarfélaga að krafa um faggildingu eigi að eiga við um mannvirki umfram tiltekna stærð og vandastig, þ.e. að einfaldar framkvæmdir séu undanþegnar faggildingu, það er að ekki verði gerðar sömu kröfur um faggildingu til öryggis- og lokaúttekta og yfirferðar aðal- og séruppdrátta vegna einfaldari íbúðarhúsa/atvinnuhúsnæðis annarsvegar og flóknari mannvirkja hinsvegar, sem krefjast í mörgum tilvikum sérfræðiþekkingar.

6.Hamrar - fyrirspurn vegna byggingar smáhýsa

Málsnúmer 2018030006Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 28. febrúar 2018 þar sem Tryggvi Marinósson fyrir hönd Hamra, útilífs/umhverfismiðstöðvar skáta, kt. 430698-3469, leggur inn fyrirspurn hvort leggja megi fram deiliskipulagsbreytingu vegna byggingar smáhýsa á Hömrum. Stækka þarf byggingarreit vegna smáhýsanna sem verða um 10 m² og án hreinlætisaðstöðu.
Skipulagsráð heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Borgarbraut, Glerárgata, Tryggvabraut, Hörgárbraut - deiliskipulag

Málsnúmer 2017120224Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing fyrir deiliskipulag gatnamóta Borgarbrautar, Hörgárbrautar, Tryggvabrautar og Glerárgötu var auglýst í Dagskránni 14. febrúar 2018 og send til umsagnar.

Sex umsagnir og ábendingar bárust:

1) Festi fasteignir ehf., dagsett 6. mars 2018.

Hafa þarf til hliðsjónar við gerð deiliskipulagsins teikningar, tillögur og önnur gögn sem félagið hefur lagt fram og kynnt fyrir skipulagsyfirvöldum á Akureyri varðandi skipulag á Hvannavallareit. Festi leggur áherslu á að litið verði til þess að hringtorg verði á gatnamótum Hvannavalla og Tryggvabrautar og að aðgengi inn á Glerárgötu 36 verði tryggt frá Tryggvabraut.

2) Höldur, dagsett 1. mars 2018.

a) Mótmælt er harðlega skerðingu á lóð félagsins við Tryggvabraut 5 vegna gerðar nýs hringtorgs. Möguleiki er að minnka hringtorgið, hliðra því vestur og suður, setja umferðarljós eða setja hringtorg á gatnamót Tryggvabrautar og Hjalteyrargötu.

b) Engin þörf er á göngustíg niður með Glerá að sunnan þar sem stígur er norðan við ána og gangstétt meðfram Tryggvabraut. Göngustígur skerðir verulega notkunargildi Hölds á lóðinni.

c) Ef Tryggvabraut verður þrengd þá þarf að gera bílastæði meðfram götunni að sunnan og bæta aðgengi að þjónustu sem þar er.

3) Norðurorka, dagsett 1. mars 2018.

Minnt er á umsókn Norðurorku um framkvæmdaleyfi vegna nýrrar Hjalteyrarlagnar sem liggur gegnum umrætt svæði og tryggja að ekkert í fyrirhuguðu deiliskipulagi hindri væntanlega framkvæmd Norðurorku.

4) Vegagerðin, dagsett 1. mars 2018.

Gerð er athugasemd við að lýsingin taki til stækkunar á ljósastýrðum krossgatnamótum sem er þvert á niðurstöðu frumdragaskýrslu sem unnin var fyrir gatnamótin. Niðurstaða óháðs umferðaröryggismats var afdráttarlaus að tvöfalt hringtorg væri betri kostur en stækkuð ljósastýrð krossgatnamót með tilliti til umferðaröryggis. Brýnt er að markmið deiliskipulagsins sé að tryggja öryggi allra vegfarenda.

5) Umhverfis- og mannvirkjasvið, tæknideild, móttekið 7. mars 2018.

a) Hafa þarf í huga mögulegar lausnir á umferðarmálum gatnamótanna. Á hvaða forsendum hefur verið ákveðið að útfæra gatnamótin með fjögurra fasa umferðarljósum þvert á niðurstöðu vinnuhóps.

b) Ekki er minnst á undirgöng í lýsingunni.

c) Skoða þarf endingartíma mismunandi lausna.

d) Skoða þarf mismun hjóðvistar m.t.t. ljósastýrðra gatnamóta og hringtorgs.

Mikill ábyrgðarhluti er að afskrifa hringtorg í þessari skipulagsvinnu. Fyrir því þurfa að vera góð rök.

6) Skipulagsstofnun, dagsett 7. mars 2018.

Skipulagsstofnun hefur farið yfir lýsinguna og telur hana gera fullnægjandi grein fyrir áformum deiliskipulagstillögunnar.
Málinu frestað og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að gera tillögu að viðbrögðum.

8.Búfesti - fyrirspurn um skipulagsreiti

Málsnúmer 2018030089Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. mars 2018 þar sem Benedikt Sigurðarson fyrir hönd Búfesti hsf., kt. 560484-0119, óskar eftir aðgengi að lóðum á þéttingarsvæði við Naust 3 og að undirbúningur hefjist að deiliskipulagi á reitnum með það fyrir augum að Búfesti hsf. komi að tillögu að forsögn og síðan útfærslu deiliskipulags svæðisins. Jafnhliða er óskað eftir upplýsingum um hvort Búfesti hsf. eigi möguleika á að koma að undirbúningi deiliskipulags þéttingarsvæða við Vestursíðu eða annars staðar í eldri hverfum bæjarins.
Skipulagsráð bendir á að þegar hefur verið tekin ákvörðun um að deiliskipuleggja svæði við Naust 3. Þegar er hafin vinna við skipulagslýsingu fyrir verkið.

Það er stefna/vilji skipulagsráðs að einstakar lóðir þar verði auglýstar og úthlutað til umsækjenda að skipulagi loknu. Búfesti mun þá gefast tækifæri til að sækja um lóðirnar á jafnréttisgrundvelli. Búfesti hefur nú þegar vilyrði fyrir lóð á mun stærra þéttingarsvæði í Holtahverfi, og á næstunni verður hafið skipulag á stóru svæði meðfram Síðubraut og Borgarbraut. Tekin verður afstaða til aðkomu Búfesti að skipulagi þess hverfis verði þess óskað.

9.Borgarsíða 1 - fyrirspurn um viðbyggingu

Málsnúmer 2017110033Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. nóvember 2017 þar sem John Júlíus Cariglia og Þóra Pétursdóttir leggja inn fyrirspurn um hvort byggingarleyfi fáist fyrir viðbyggingu við hús nr. 1 við Borgarsíðu.

Skipulagsráð heimilaði umsækjanda þann 15. nómvember 2017 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi.

Tillagan er dagsett 29. nóvember 2017 og unnin af Steinmari Rögnvaldssyni.
Gerð er krafa um að byggingatæknilegar lausnir verði notaðar við hönnun byggingar vegna hljóðvistar og verði það fært inn á deiliskipulagsuppdráttinn.

Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða samþykkir skipulagsráð að tillagan þannig breytt verði grenndarkynnt samkvæmt 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

10.Græn bílastæði í miðbæ Akureyrar

Málsnúmer 2017050071Vakta málsnúmer

Lögð var fram beiðni til umhverfis- og mannvirkjaráðs frá Vistorku ehf. dagsett 28. apríl 2017 um fjölgun grænna bílastæða við Skipagötu. Umhverfis- og mannvirkjaráð vísaði erindinu til skipulagsráðs á fundi 12. maí 2017 en lagði jafnframt til að ákvörðunum um bílastæðamál í miðbænum verði frestað þar til framkvæmdum við Austurbrú lýkur. Lögð var fram tillaga fyrir skipulagsráð þann 14. febrúar 2018 að nýtingu bílastæða í miðbænum, er varða græn stæði, rafmagnsstæði, klukkustæði, frístæði, fastleigustæði og stæði fyrir fatlaða, samkvæmt meðfylgjandi korti. Skipulagsráð tók jákvætt í fjölgun grænna bílastæða en tók ekki afstöðu til annars. Vegna framkvæmda og útboða þarf sú afstaða að liggja fyrir.
Skipulagsráð frestar erindinu.

11.Hlíðahverfi suðurhluti - Höfðahlíð 2, deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018030150Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulagssviðs leggur til við skipulagsráð að deiliskipulagi Hlíðahverfis suðurhluta verði breytt fyrir lóð nr. 2 við Höfðahlíð. Í stað tveggja íbúða húss verði skoðað að komið verði fyrir fleiri íbúðum á lóðinni.
Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að skoða mögulegar útfærslur.

12.Oddeyri, suðurhluti - Gránufélagsgata 22, deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018030161Vakta málsnúmer

Lagt er til við skipulagsráð að deiliskipulagi Oddeyrar suðurhluta verði breytt fyrir lóðir nr. 22 og 24 við Gránufélagsgötu. Leitað verði umsagnar Minjastofnunar Íslands um niðurrif hússins sem byggt var 1923 og leyfis til að rífa geymslu sem byggð var 1915.
Skipulagsráð vísar málinu til vinnslu nýs deiliskipulags fyrir Oddeyri.

13.Rangárvellir 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2018010252Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. janúar 2018 þar sem Haraldur S. Árnason fyrir hönd SS Byggis ehf., kt. 620687-2519, óskar eftir viðbótarlóð við lóð nr. 4 við Rangárvelli til norðurs samkvæmt heimild í deiliskipulagi. Einnig er óskað eftirtaldra breytinga á deiliskipulagi:

1) Byggingarreitur stækki og verði 45x55 m.

2) Nýtingarhlutfall verði 0,300.

3) Mesta hæð bygginga (sílóa) verði allt að 12,0 m frá gólfi efri hæðar. Meðfylgjandi er mynd.

Umsagnir:

1) Norðurorka, dagsett 8. febrúar 2018.

Tveir kostir eru í stöðunni ef færa á strengjasett sem liggja yfir svæðið:

a. Takmarka lóðarstækkun SS Byggis til norðurs þannig að milli lóða 4 og 6 verði um 10 metra ræma sem þjónustuleið fyrir bæði strengjasettin. Hér mætti líka taka af lóð nr. 6 til suðurs til að skapa nægjanlegt pláss.

b. Leggja nýja leið norður Rangárvelli og til austurs við enda götunnar. Um ræðir lengri leið og stærri framkvæmd. Eðlilega er sú krafa gerð að lóðarhafar kosti framkvæmdina á móti Norðurorku sem í þessu tilfelli bæri hluta kostnaðar samkvæmt ákveðnu skiptimódeli sem ræðst af lífaldri strengjanna. Nú er okkur ekki ljóst hver fer með forræði á lóð nr. 6 og við hvern er að semja. Norðurorka hefur ekki gert kostnaðaráætlun um færslu strengjanna en er tilbúin í það, háð þeirri lausn sem aðilar telja heppilegasta.

2) Isavia, dagsett 12. febrúar 2018.

a. Á svæðinu gilda skipulagsreglur fyrir Akureyrarflugvöll. Umrædd lóð stendur upp úr hindranafleti en þar gildir að heimilt er að gera ráð fyrir og reisa byggingar allt að 18 metra upp fyrir óhreyft land. Ekki er lagst gegn breytingunni séu hæðir innan þessara marka. Í tilfelli sem þessu er gert ráð fyrir að bygging kunni að vera hindranalýst og óskað er eftir að þörf á því verði skoðuð í samráði við byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar.

b. Um uppsetningu krana eða annarra tímabundinna hindrana gilda sömu reglur og um varanlegar hindranir. Ekki má víkja frá hæðartakmörkunum nema með samþykki Samgöngustofu.

3) Samgöngustofa, dagsett 15. febrúar 2018.

Rangárvellir 4 stendur upp úr hindrunarfleti Akureyrarflugvallar og þarf því að takmarka hæð bygginga og meta mögulega þörf á merkingum og hindranalýsingu bygginga á svæðinu. Einnig þarf samráð um mögulegar merkingar og hindranalýsingu á tímabundnum hindrunum s.s. byggingakrönum.

Að ofangreindum skilyrðum uppfylltum setur Samgöngustofa sig ekki á móti væntanlegri stækkun lóðarinnar Rangárvellir 4 og fyrirhugaðri byggingu á þeirri lóð.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu þann 28. febrúar 2018 og fól sviðstjóra skipulagssviðs að ræða við umsækjanda og umsagnaraðila.
Skipulagsráð frestar erindinu.

14.Hesjuvellir landnr. 212076 - deiliskipulag

Málsnúmer 2015080002Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 21. júlí 2015 frá Guðmundi Helga Gunnarssyni f.h. Rósu Maríu Stefánsdóttur þar sem lögð er fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Hesjuvelli, landnr. 212076. Tillaga að deiliskipulagi Hesjuvalla var auglýst frá 10. janúar til 21. febrúar 2018. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu bæjarins.

Á deildarfundi umhverfis- og mannvikjasviðs og skipulagssviðs þann 6. febrúar 2018 kom fram að tryggja þarf framtíðarsvæði fyrir vegstæði Lögmannshlíðarvegar, talið 15 m út frá miðlínu vegar, sem geti þjónað framtíðaruppbyggingu vegarins og reiðleiðar.

Tvær umsagnir bárust:

1) Minjastofnun Íslands, dagsett 21. febrúar 2018.

Engar skráðar minjar eru á skipulagssvæðinu og gerir Minjastofnun Íslands ekki athugasemd við deiliskipulagstillöguna. Vakin er athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar.

2) Landsnet, 19. febrúar 2018.

Af öryggisástæðum skal skilgreina lágmarksfjarlægðir háspennulína til annarra mannvirkja. Helgunarsvæði eru ekki af staðlaðri stærð, heldur ákvörðuð í hverju tilviki. Lágmarks viðmið helgunarsvæða fyrir 66kV loftlínu er 25 m og fyrir 132 kV loftlínu er 35-45 m. Innan helgunarsvæðis gildir byggingabann og þar er ekki hægt að viðhafa skógrækt. Ef upp koma áform um að reisa mannvirki og/eða breyta landnotkun nærri helgunarsvæði er mikilvægt að haft verði samband við Landsnet til að yfirfara lágmarksfjarlægðir. Tryggja þarf að helgunarsvæði séu virt og að tryggja aðgang vegna eftirlits.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu á fundi 28. febrúar 2018.

Umsækjandi lagði fram breytta tillögu þar sem brugðist hefur verið við athugasemd um veghelgunarsvæði og helgunarsvæði raflína.
Skipulagsráð samþykkir að veghelgunarsvæði og helgunarsvæði raflína verði sett inn á deiliskipulagsuppdrátt samanber umsögn Landsnets.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði samþykkt og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að annast gildistöku hennar samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 með síðari breytingum.

15.Sunnuhlíð 12 - fyrirspurn hvort skrá megi bil 0204 og 0110 sem íbúðarhúsnæði

Málsnúmer 2018020465Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. febrúar 2018 þar sem Jóhannes S. Ólafsson fyrir hönd IMPACT Lögmanna slf., kt. 590913-0650, leggur inn fyrirspurn um hvort breyta megi rýmum 0204 og 0110 í húsi nr. 12 við Sunnuhlíð í íbúðarhúsnæði.
Í gildandi aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir íbúðum á reitnum þar sem hann er skilgreindur fyrir verslunarmiðstöð. Skipulagsráð tekur því neikvætt í fyrirspurnina.

16.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2018

Málsnúmer 2018010013Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 22. febrúar 2018. Lögð var fram fundargerð 667. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum.
Lagt fram til kynningar.

17.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2018

Málsnúmer 2018010013Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 1. mars 2018. Lögð var fram fundargerð 668. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:20.