Skipulagsráð

308. fundur 30. janúar 2019 kl. 08:00 - 11:10 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá
Tryggvi Már Ingvarsson formaður ráðsins bar upp tillögu um að liður 8, Oddeyri - deiliskipulag íbúðasvæðis, liður 14, Lóðir í deiliskipulagi við Melgerðisás og Skarðshlíð - úthlutunaraðferð, og liður 19, Niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði, verði teknir út af dagskrá og var það samþykkt.

1.Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna - innleiðing

Málsnúmer 2014030109Vakta málsnúmer

Alfa Aradóttir deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar og Bryndís Elfa Valdemarsdóttir verkefnastjóri á skrifstofu samfélagssviðs kynntu aðgerðaráætlun vegna innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Akureyri 2018-2019.
Skipulagsráð þakkar Ölfu og Bryndísi fyrir kynninguna.

2.Glerárskóli - aðalskipulagsbreyting vegna leikskólalóðar

Málsnúmer 2019010097Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi Teiknistofunnar Kollgátu ehf. dagsett 8. janúar 2019 fyrir hönd umhverfis- og mannvirkjasviðs þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi á svæði vestan við núverandi lóð Glerárskóla að götunni Drangshlíð. Svæðið er í dag skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota en þar sem fyrirhugað er að byggja nýjan leikskóla á svæðinu er óskað eftir að landnotkun verði breytt í svæði fyrir samfélagsþjónustu, þ.e. að svæði Glerárskóla, merkt S27, verði stækkað. Fyrir liggur tillaga að lýsingu aðalskipulagsbreytingarinnar.

Á fundinn komu Guðríður Friðriksdóttir sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs og Ingólfur Freyr Guðmundsson hjá Kollgátu og kynntu tillögu að hönnun fyrirhugaðs leikskóla.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi lýsing aðalskipulagsbreytingar verði samþykkt og feli skipulagssviði að kynna hana skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Miðbær - uppfærsla deiliskipulags

Málsnúmer 2017010274Vakta málsnúmer

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að skoða forsendur fyrir uppbyggingu í miðbæ Akureyrar í samræmi við gildandi deiliskipulag. Landslag vann greinargerð um staðarval samgöngumiðstöðvar vorið 2017 og fyrri part árs 2018 vann Efla minnisblað um kostnað við færslu Glerárgötu auk þess sem Teiknistofa arkitekta skoðaði möguleika á staðsetningu bílastæðahúss. Eru ofangreind gögn lögð fram til kynningar.

Á fundinn komu Ingólfur Freyr Guðmundsson og Valþór Brynjarsson frá Kollgátu, sem vann að gerð deiliskipulagsins, og fóru yfir helstu forsendur deiliskipulagsins.
Skipulagsráð þakkar Ingólfi Frey og Valþóri fyrir kynninguna.

4.Glerárgata 7 - breytt deiliskipulag

Málsnúmer 2018090257Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Valþórs Brynjarssonar dagsett 22. janúar 2019, fyrir hönd Norðureigna ehf., kt. 461195-2029, þar sem óskað er eftir að gerðar verði breytingar á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Glerárgötu 7. Er óskað eftir:

1) að hámarkshæð fari úr 16,2 m í 18 m.

2) að hámarksstærð bílakjallara verði 905 m² í stað 800 m².

3) að nýtingarhlutfall verði 2,710 í stað 2,600.

4) að B lokun rýma teljist ekki til nýtingarhlutfalls.

5) að byggingarreitir A og B stækki.

6) að ákvæði um fjölda bílastæða verði breytt.

7) að heimilt verði að rífa núverandi mannvirki á lóðinni.

Á fundinn komu Ingólfur Freyr Guðmundsson og Valþór Brynjarsson frá Kollgátu og kynntu erindið.
Skipulagsráð þakkar Ingólfi Frey og Valþóri fyrir kynninguna.

Skipulagsráð tekur jákvætt í fyrirliggjandi erindi en samþykkir ekki að gerð verði breyting í samræmi við lið 4 og 6. Afgreiðslu frestað þar til lagfærð gögn liggja fyrir.

5.Skipulagssvið - skýrslur

Málsnúmer 2018120041Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar niðurstaða fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018.

6.Efnisvinnsla í Hrísey - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2019010270Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. janúar 2019 þar sem Anna Bragadóttir hjá Eflu fyrir hönd umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir efnislosun (sprengingar) og efnisvinnslu í námu D (Duggaraklettur) og hörpun efnis á svæði A (Akur/Saltnes) í Hrísey. Meðfylgjandi eru teikningar og verklýsing.
Framkvæmdirnar falla undir lið 2.04 og 12.07 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þær eru tilkynningarskyldar til leyfisveitanda, þ.e. Akureyrarkaupstaðar, sem ákvarðar hvort framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum áður en framkvæmdaleyfi verður veitt. Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur Akureyrarkaupstaður farið yfir tilkynningu framkvæmdaaðila. Niðurstaðan er að efnistakan er ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skulu framkvæmdirnar ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi gögn vegna framkvæmdanna, sem er í samræmi við samþykkt aðalskipulag, og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins: Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarkaupstað en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

7.Akureyrarflugvöllur - umsókn um framkvæmdaleyfi til landfyllingar og jarðvegsskipta vegna uppsetningar aðflugsbúnaðar

Málsnúmer 2019010298Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. janúar 2019 þar sem Efla fyrir hönd Isavia ohf., kt. 550210-0370, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir landfyllingu og jarðvegsskiptum vegna uppsetningar aðflugsbúnaðar við Akureyrarflugvöll. Meðfylgjandi er ákvörðun Skipulagsstofnunar dagsett 3. september 2018 um matsskyldu, skýrsla um tækni- og verklýsingu og yfirlitsmyndir af vinnusvæðinu.
Skipulagsráð samþykkir að gefið verði út framkvæmdaleyfi í samræmi við fyrirliggjandi erindi. Eins og fram kemur í ákvörðun um matsskyldu þá koma fyrirhugaðar framkvæmdir til með að raska leirum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúvernd m.s.br. og forðast ber að raska nema brýna nauðsyn beri til. Að mati ráðsins eru fyrirhugaðar framkvæmdir nauðsynlegar til að tryggja öryggi flugvallarins en eins og fram kemur í fyrirliggjandi gögnum verða gerðar ráðstafanir til að takmarka umfang framkvæmdasvæðis og núverandi aðkomuleiðir nýttar eins og mögulegt er.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins: Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarkaupstað en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

Bent er á að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir tengihúsum og loftnetum.

8.Glerárvirkjun II - breytingar á deiliskipulagi vegna stíga

Málsnúmer 2019010088Vakta málsnúmer

Lögð fram að tillaga að breytingum á deiliskipulagi Glerárvirkjunar II í samræmi við beiðni Fallorku ehf., kt. 600302-4180, sem tekin var fyrir á fundi skipulagsráðs 12. desember 2018. Eru breytingarnar settar fram á þremur uppdráttum og fela í sér breytingu á legu og gerð göngustíga, staðsetningu bílastæðis/áningarstaðar, lagfæringu á legu aðrennslispípu til samræmis við verkhönnun og endanlega legu. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi skipulagsráðs þann 16. janúar 2019. Til viðbótar við áður innsend gögn liggur nú fyrir bréf frá Fallorku, dagsett 21. janúar 2019, þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir útfærslu stíga við Glerárstíflu.
Skipulagsráð leggur áherslu á að þverun Glerár yfir stíflumannvirki Glerárvirkjunar II verði hvoru tveggja greiðfær og örugg gangandi sem og hjólandi vegfarendum.

Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna tillögu að útfærslu í samvinnu við Fallorku og frestar erindinu milli funda.

9.Glerárdalur - breyting á deiliskipulagi akstursíþrótta- og skotsvæðis

Málsnúmer 2019010089Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi akstursíþrótta- og skotsvæðis á Glerárdal í samræmi við beiðni Fallorku ehf., kt. 600302-4180, sem tekin var fyrir á fundi skipulagsráðs 12. desember 2018. Í breytingunni felst að lega göngustígs breytist lítillega á um 1500 m kafla, öryggismörk skotsvæðis minnka auk minniháttar breytinga á legu aðrennslispípu til samræmis við verkhönnun og endanlega legu.
Skipulagsráð frestar erindinu milli funda.

10.Oddeyrarbryggja - umsókn um breytt deiliskipulag vegna þjónustuhúss

Málsnúmer 2019010311Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. janúar 2019 þar sem Pétur Ólafsson fyrir hönd Hafnasamlags Norðurlands, kt. 650371-2919, sækir um breytingu á deiliskipulagi við Oddeyrarbryggju vegna fyrirhugaðs þjónustuhúss. Meðfylgjandi er uppdráttur af breyttu skipulagi.
Að mati skipulagsráðs er um óverulega breytingu að ræða og samþykkir hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu sbr. heimild í 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

11.Gróðrarstöð í Kjarnaskógi - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2019010310Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. janúar 2019 þar sem Ómar Ívarsson fyrir hönd Sólskóga ehf., kt. 511296-2189, og Skógræktarfélags Eyfirðinga, kt. 600269-4299, sækir um heimild til að leggja fram breytt deiliskipulag fyrir gróðrarstöðina í Kjarnaskógi og einnig breytt deiliskipulag fyrir Kjarnaskóg og Hamra. Ástæða breytinganna er ósk um heimild til að byggja nýtt gróðurhús fyrir Sólskóga, skemmu fyrir Skógræktarfélag Eyfirðinga og stækka ræktunarsvæði. Meðfylgjandi er uppdráttur sem sýnir afmörkun fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis.
Skipulagsráð samþykkir að heimila umsækjendum að láta vinna tillögur að breytingum á deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi beiðni.

12.Rangárvellir 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2018010252Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar umsagnir Landsnets, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, SS Byggis ehf. og hverfisnefndar Giljahverfis um tillögur að breytingu á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis á Rangárvöllum sem ná til lóða 3, 4 og 6.
Afgreiðslu frestað þar sem umsagnir Norðurorku og Rarik liggja ekki fyrir.

13.Miðhúsavegur 4 - umsókn um lóðarstækkun

Málsnúmer 2019010138Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. janúar 2019 þar sem Þröstur Sigurðsson fyrir hönd Verkvals ehf., kt. 530887-1709, sækir um stækkun lóðar nr. 4 við Miðhúsabraut og að afmarkaður verði byggingarreitur fyrir allt að 300 fm iðnaðarhúsnæði, nýbyggingu. Meðfylgjandi er afstöðumynd sem sýnir fyrirhugaða lóðarstækkun ásamt afmörkun á byggingarreit.
Skipulagsráð hafnar innkomnu erindi vegna ósamræmis við gildandi aðalskipulag. Skipulagsráð felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við lóðarhafa um mögulega þróun svæðisins.

14.Hafnarstræti 69 - umsókn um frest

Málsnúmer 2016110132Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. janúar 2019 þar sem Daníel Snorrason fyrir hönd Hótel Akureyri ehf., kt. 640912-0220, sækir um framkvæmdafrest á lóð nr. 69 við Hafnarstræti til 30. apríl 2019. Teikningar munu koma á næstu dögum.
Skipulagsráð samþykkir fyrirliggandi erindi um framkvæmdafrest til 30. apríl.

15.Oddeyri - deiliskipulag athafnasvæðis neðan Hjalteyrargötu

Málsnúmer 2018030400Vakta málsnúmer

Helgi Örn Eyþórsson verkefnastjóri hjá SS Byggi og Orri Árnason frá Zepppelin arkitektum komu á fundinn og kynntu hugmyndir SS Byggis ehf. um uppbyggingu á lóð þeirra, Kaldbaksgötu 1, og svæðinu þar í kring.
Skipulagsráð þakkar Helga og Orra fyrir kynninguna og vísar hugmyndunum til skoðunar við vinnslu deiliskipulags svæðisins.

16.Akvegur frá Hlíðarfjallsvegi að reiðhöll og dýraspítala

Málsnúmer 2018090259Vakta málsnúmer

Umhverfis- og mannvirkjasvið vísar erindi varðandi nýjan veg frá reiðhöllinni og inn á Hlíðarfjallsveg til skipulagsráðs.

Sigfús Helgason mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa.

Akvegur frá Hlíðarfjallsvegi upp að reiðhöll og dýraspítalanum. Vegurinn verður mjög fljótt ófær í snjókomu þar sem hann liggur að hluta ofan í hvilft. Vill helst fá veg beint suður af reiðhöllinni og inn á Hlíðarfjallsveg. Hann segir veginn vera ónýtan og ekki dugað þó starfsmenn bæjarins hafi reynt að lagfæra hann. Hann segir að jafnaði 40-50 bíla keyra veginn á degi hverjum fyrir utan alla umferð hestamanna. Hann bendir á að bílaplanið fyrir utan reiðhöllina sé einnig óklárað.
Skipulagsráð bendir á að lagning á nýjum veg frá reiðhöll og inn á Hlíðarfjallsveg felur í sér bæði breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og deiliskipulagi hesthúsahverfisins auk þess sem fara þyrfti yfir land í einkaeigu. Í ljósi þessa mælir skipulagsráð ekki með að veginum verði breytt heldur verði frekar gerðar ráðstafanir til að lagfæra núverandi veg.

17.Ægisgata 13 Hrísey - umsókn um stöðuleyfi fyrir gáma

Málsnúmer 2019010143Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. janúar 2019 þar sem Anton Steinarsson fyrir hönd Björgunarsveitar Hríseyjar, kt. 581088-2569, sækir um stöðuleyfi fyrir tvo gáma á lóð húss nr. 13 við Ægisgötu. Meðfylgjandi eru myndir.

Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu en vísaði erindinu til áframhaldandi skoðunar og afgreiðslu skipulagsráðs sem deiliskipulagsmáli.
Að mati skipulagsráðs er forsenda leyfis að gerð verði breyting á deiliskipulagi.

Skipulagsráð felur sviðsstjóra að ræða við umsækjanda.

18.Oddagata 11 - fyrirspurn vegna bílskúrs

Málsnúmer 2019010294Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. janúar 2019 þar sem Ágúst Leifsson leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílskúrs við hús nr. 11 við Oddagötu. Meðfylgjandi er skýringarmynd.

Þar sem erindið fjallar um hugsanlega breytingu á deiliskipulagi áframsendir byggingarfulltrúi fyrirspurnina til fullnaðarafgreiðslu skipulagsráðs.

Meðfylgjandi er samþykki meðeiganda.
Að mati skipulagsráðs þurfa að liggja fyrir nákvæmari gögn um stærð og umfang bílskúrs áður en afstaða er tekin til umsóknarinnar.

19.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2019

Málsnúmer 2019010038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 706. fundar, dagsett 17. janúar 2019, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

20.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2019

Málsnúmer 2019010038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 707. fundar, dagsett 24. janúar 2019, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:10.