Skipulagsnefnd

208. fundur 12. ágúst 2015 kl. 08:00 - 11:20 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Leifur Þorsteinsson staðgengill skipulagsstjóra ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson Staðgengill skipulagsstjóra
Dagskrá
Formaður bar upp ósk um að fá að taka fyrir lið nr. 19, Fjárhagsáætlun 2015 - skipulagsdeild sem ekki var í útsendri dagskrá og einnig að taka af dagskrá lið 5, Miðbær suðurhluti - umsókn um breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits, í útsendri dagskrá og var það samþykkt.

1.Aðalskipulagsbreyting - Hörgársveit - tilfærsla Lónsins og sveitarfélagamarka við sláturhús B. Jensen

Málsnúmer 2013050008Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. maí 2015 frá Snorra Finnlaugssyni sveitarstjóra Hörgársveitar sem óskar eftir breytingu á sveitarfélagamörkum með tilfærslu Lónslækjar til suðurs á móts við sláturhús B. Jensen í Hörgársveit, þannig að hægt verði að koma fyrir viðbyggingu við þá starfsemi sem þar er.

Skipulagsnefnd fól skipulagsstjóra að láta vinna aðalskipulagsbreytingu á sveitarfélagamörkunum vegna færslu Lónslækjar í samræmi við umræður á fundi skipulagsnefndar 13. maí 2015.

Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram tillögu að aðalskipulagsbreytingu dagsetta 15. júli 2015 unna af Árna Ólafssyni frá Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf.
Breyting þessi felur ekki í sér stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda, sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er hún því ekki háð lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Breytingin er óveruleg og hefur hvorki áhrif á ósnortna náttúru, jarðmyndanir og vistkerfi, sem njóta sérstakrar verndar, verndarsvæði né skráðar fornminjar. Breytingin hefur ekki í för með sér neikvæð áhrif á nágranna eða landnotkun og nýtingu aðliggjandi svæða.


Skipulagsnefnd leggur því til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

2.Melgerðisás - deiliskipulag

Málsnúmer 2015050023Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing var auglýst í Dagskránni 15. júlí 2015 og send til umsagnar.

Fimm umsagnir bárust:

1) Skipulagsstofnun, dagsett 15. júlí 2015.

Skipulagslýsingin uppfyllir ekki þær kröfur sem eru gerðar til lýsingar vegna aðalskipulagsbreytingar. Gera þarf lýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi.

2) Vegagerðin, dagsett 22. júlí 2015.

Engar athugasemdir eru gerðar en óskað er eftir að haft verði samráð um gerð skipulags vegna hljóðvistar í nýjum húsum.

3) Norðurorka, dagsett 22. júlí 2015.

a) Fráveita - lögn frá Hamri að Hraunholti er með helgunarkvöð. Þurfi að færa lögnina fellur kostnaður á Akureyrarbæ. Ekki er ljóst hvernig fráveitulagnir liggja frá eldri húsum.

b) Hitaveita - Götustofnar eru grannir og munu ekki fæða nýtt hverfi né stórar byggingar nema til komi endurnýjun lagna upp Skarðshlíð.

c) Vatnsveita og dreifiveita rafmagns - ekki eru sjáanlegir annmarkar sem hamla uppbyggingu á svæðinu. Líklega þarf að sprengja eitthvað af lögnum inn í Melgerðisásinn.

4) Íþróttafélagið Þór, dagsett 28. júlí 2015.

a) Skilgreind íþrótta- og æfingasvæði eiga að halda þeirri notkun.

b) Skoða ætti hvort hægt verði að koma fyrir fjölbýlishúsi við Undirhlíð.

c) Skoða ætti að koma fyrir tvíbýlishúsi neðst á Kvenfélagsreitnum næst Skarðshlíð.

d) Ef lóðir verða skilgreindar á Melgerðisás upp að svæði félagsins er mögulegt að það verði sléttað alveg út að mörkum.

e) Hæðarmunur milli svæða félagsins og utan þess gæti verið nokkur. Óhjákvæmilega kemur það fyrir að fótboltar fari út fyrir girðingar.

5) Ungmennafélag Akureyrar, dagsett 29. júlí 2015.

Reiturinn við Skarðshlíð er æfingasvæði Ungmennafélagsins. Þegar frjálsíþróttaleikvangurinn var gerður á Þórsvellinum var þessi kastvöllur ein af forsendum þess að það gengi upp. Mikið af æfingum fer fram á þessum velli og verður hann að vera til staðar fyrir frjálsíþróttafólk. Lokun Skarðshlíðar við hlið Bogans væri kostur til að auka möguleika á uppbyggingu.
Frestað.

3.Langamýri 1 - umsókn um lyftingu þaks

Málsnúmer 2015060159Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. júní 2015 þar sem Haraldur Árnason f.h. Hjördísar Blöndal sækir um að fá að lyfta þaki húss nr. 1 við Löngumýri.

Tillagan var grenndarkynnt frá 30. júní - 28. júlí 2015 og bárust engar athugasemdir.
Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsstjóra að afgreiða umsókn um byggingarleyfi þegar hún berst.

4.Hvannavallareitur - deiliskipulag

Málsnúmer 2015030191Vakta málsnúmer

Innkomið erindi dagsett 20. mars 2015 frá Oddi Víðissyni arkitekt, f.h. Festi fasteigna ehf., kt. 581113-1100, þar sem óskað er eftir að lóð félagsins að Glerárgötu 36 verði deiliskipulögð.

Fulltrúar Festi ehf. mættu á fundinn og kynntu áform þeirra um nýtingu reitsins.
Skipulagsnefnd þakkar fulltrúum Festi fasteigna ehf. fyrir kynninguna.

Afgreiðslu erindisins er frestað.

5.Miðhúsabraut 1 - Skautahöll - byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingum

Málsnúmer 2015060060Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. júní 2015 þar sem Gísli Kristinsson f.h. Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, sækir um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingum á húsi nr. 1 við Miðhúsabraut. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Gísla Kristinsson.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið fyrirliggjandi uppdrætti og gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við innra skipulag, form eða útlit hússins. Skipulagsstjóra er falið að afgreiða umsókn um byggingarleyfi.

6.Tengir - framkvæmdaleyfi fyrir ljósleiðara 2015

Málsnúmer 2015040168Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. júlí 2015 þar sem Gunnar Björn Þórhallsson f.h. Tengis hf., kt. 660702-2880, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu ljósleiðara frá fjarskiptahúsinu ofan við Sómatún að tjaldsvæðinu að Hömrum. Meðfylgjandi eru uppdrættir af fyrirhugaðri lagnaleið.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi framkvæmdagögn og telur þau uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Um er að ræða leyfi fyrir lagningu ljósleiðara frá Sómatúni að Hömrum sbr. meðfylgjandi yfirlitsuppdrátt.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

- Útgáfa framkvæmdaleyfis er háð yfirferð á frágangi fyrri framkvæmda.

- Skrifleg framkvæmdaleyfi fyrir nánar skilgreinda verkþætti verða ekki gefin út fyrr en öll fylgigögn og sérteikningar hafa borist og þær yfirfarnar af framkvæmdadeild Akureyrar og afgreidd á afgreiðslufundi skipulagsstjóra.

- Framkvæmdir skulu gerðar í samræmi við verklagsreglur Akureyrarbæjar um yfirborðsfrágang í bæjarlandinu. Nákvæm lega lagna í bæjarlandinu skal ákveðin í samráði við framkvæmdadeild og veitustofnanir bæjarins.

- Framkvæmdaleyfið gildir í eitt ár frá útgáfu leyfis og gildir einungis fyrir svæði utan íbúðarhúsalóða og annarra úthlutaðra lóða. Leyfishafi skal afla samþykkis lóðarhafa vegna lagna innan íbúðarhúsalóða og leggja fram áður en framkvæmdaleyfi verður gefið út.

- Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

Skipulagsnefnd samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 4. gr.-g 'Samþykktar um skipulagsnefnd'.

7.Landsnet hf. - kynning á kerfisáætlun 2015-2024 og umhverfisskýrsla

Málsnúmer 2014050056Vakta málsnúmer

Landsnet kynnir nú tillögu að kerfisáætlun 2015-2024 í samræmi við raforkulög nr. 65/2003 m.s.br. og umhverfisskýrslu í samræmi við lög nr. 105/2006, en í umhverfisskýrslu er lagt mat á umhverfisáhrif kerfisáætlunar.

Hægt er að nálgast skýrslur og gögn á heimasíðu Landsnets.
Lagt fram til kynningar.

8.Sjafnarnes 2 og Ægisnes 3 - búnaður utan og innan lóða

Málsnúmer 2015060117Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. júlí 2015 þar sem Þór Kornráðsson f.h. Sjafnarness hf., kt. 691206-3270, og Margrét Konráðsdóttir f.h. Steypustöðvar Akureyrar ehf., kt. 540208-1150, og Skútabergs ehf., kt. 510108-0350, sækja um ótímabundið stöðuleyfi fyrir gámum, aðstöðuhúsi vinnubúðum og ýmsum búnaði á lóð nr. 2 við Sjafnarnes og lóð nr. 3 við Ægisnes samkvæmt meðfylgjandi bréfi og myndum.

Jafnframt er óskað eftir fresti til 25. ágúst 2015 til að fjarlægja tæki og annan búnað sem er utan lóðarmarka og leyfi til að starfsmannaaðstaða og vinnubúðir fái að standa út fyrir lóðarmörk, eins og þær gera í dag, þar til starfmannaaðstaða hefur verið byggð á lóðinni.
Skipulagsnefnd samþykkir að vinnubúðagámar merktir 2-A og 2-B megi standa á lóðinni ótímabundið þar sem um er að ræða gáma sem eru til notkunar á vinnusvæðum en aðeins til geymslu á lóðunum þess á milli. Þó skal fjarlægja þá gáma sem ekki eru nothæfir sem slíkir og þá sem standa utan lóðarmarka.

Skipulagsnefnd samþykkir stöðuleyfi í eitt ár fyrir sumarbústað, sem notaður er sem skrifstofa, og umbeðna gáma á lóðunum.

Skipulagsnefnd samþykkir einnig umbeðinn frest til að fjarlægja tæki, gáma, annan búnað og drasl sem er utan lóðarmarka lóðanna.

Taka skal til á lóðunum þannig að lóðirnar og umhverfi þeirra verði snyrtilegt.

9.Hafnarstræti 94 - umsókn um breytingar

Málsnúmer 2015070119Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. júlí 2015 þar sem Þröstur Sigurðsson f.h. Gersemi Þröstur ehf., kt. 520556-0289, sækir um leyfi til að setja upp skyggni yfir aðalinngang að Götubarnum við Hafnarstræti 94. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Þröst Sigurðsson.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið fyrirliggjandi útlitsuppdrætti og gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við erindið er varðar form og útlit hússins. Skipulagsnefnd bendir á að fyrirhugaðar eru breytingar á göngugötunni í tengslum við framkvæmd nýs deiliskipulags og því er aðeins hægt að veita tímabundið leyfi fyrir framkvæmdinni.

Skipulagsstjóra er falið að afgreiða umsókn um byggingarleyfi.

10.Hafnarstræti 107b - umsókn um framlengingu stöðuleyfis

Málsnúmer 2013050023Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. júlí 2015 þar sem Ingibjörg Baldursdóttir f.h. Ingimarshúss ehf, kt. 670511-0220, sækir um framlengingu á leyfi fyrir sólpalli utan lóðar við Hafnarstræti 107b.
Skipulagsnefnd heimilar afnot af umbeðnu svæði við lóðina Hafnarstræti 107b til tveggja ára, þó þannig að núverandi gönguleið skerðist ekki og að almenn gönguleið verði áfram um göngustíginn.

11.Krókeyrarnöf 12, 14 og 21 - fyrirspurn vegna ófrágenginna lóða

Málsnúmer 2015070085Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. júlí 2015 þar sem Brynjar Bragason spyrst fyrir um frest lóðarhafa til að klára framkvæmdir á lóðum nr. 12, 14 og 21 við Krókeyrarnöf.
Akureyrarbær tók þá afstöðu eftir hrun haustið 2008 að ganga ekki eftir almennum skilmálum um framkvæmdahraða við byggingarframkvæmdir. Eingöngu var og hefur verið horft til atriða er varða öryggi fólks.

Nú er liðinn nokkur tími frá hruni og fasteignamarkaðurinn virðist vera að jafna sig.

Því telur skipulagsnefnd ástæðu til að aflétta þeim afsláttum sem ákveðnir voru og felur skipulagsstjóra og formanni nefndarinnar að knýja á um að byggingu húsa verði nú fram haldið í samræmi við almenna byggingarskilmála þó þannig að gefnir verði eðlilegir frestir til þess miðað við stöðu byggingarframkvæmda húsanna.

Varðandi spurningu bréfritara um skildu lóðarhafa vegna sameiginlegrar aðkomu að lóðum húsanna þá er það skilda þeirra að ná samkomulagi sín á milli um frágang aðkomunnar og skipta kostnaði við það jafnt. Akureyrarbær tekur ekki þátt í þeim kostnaði.

12.Hjalteyrargata 2 - umsókn um breytingar utanhúss

Málsnúmer 2015070111Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 21. júlí 2015 þar sem Jón Jónsson sækir um breytingar á útliti hússins nr. 2 við Hjalteyrargötu og leyfi til að girða lóðina. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Jónas Vigfússon.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið fyrirliggjandi útlitsuppdrætti og gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við erindið er varðar form og útlit hússins eða girðingu.

Skipulagsstjóra er falið að afgreiða umsókn um byggingarleyfi.

13.Hafnarstræti, göngugata - verklagsreglur um lokun

Málsnúmer 2015070016Vakta málsnúmer

Erindi frá Vilborgu Jóhannsdóttur þar sem hún óskar eftir svörum við spurningum er varða ákvörðun skipulagsnefndar frá 8. júlí sl. um lokun göngugötunnar í Hafnarstræti í júlí og ágúst 2015.
Svör skipulagsnefndar er eftirfarandi:

1. Að stuðla að líflegri miðbæ. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af því að ekki var sátt meðal helstu hagsmunaaðila um hvernig standa bæri að lokun götunnar. Fram að ákvörðuninni hafði verið unnið eftir óformlegu samkomulagi sem kvað á um að fjöldi ferðamanna og veðurfar stýrði því hvort og hvenær götunni yrði lokað. Túlkunaratriði sem olli töluverðum deilum. Með því að festa lokunina við ákveðna daga taldi skipulagsnefnd að aukinn stöðugleiki myndi skapast, bæjarbúar sem og verslunareigendur gætu þá gengið að því vísu hvenær göngugatan yrði lokuð og miðað sitt skipulag við það.

2. Framkvæmdadeild. Hún hefur jafnframt heimild til þess að framvísa ábyrgðinni.

3. Nei. Sami háttur verður á út þetta sumar. Hinsvegar væri áhugavert að skoða möguleika á öðrum búnaði til lokunar í framtíðinni. Það yrði verkefni samráðshóps sem skipulagsnefnd mun hafa frumkvæði af að mynda nú í haust.

4. Sjá einnig lið 1. Punktarnir hér að neðan lista þær meginforsendur sem skipulagsnefnd hafði til hliðsjónar við ákvörðunartöku:


- Það er tilfinning skipulagsnefndar að almenn ánægja hafi verið meðal bæjarbúa með lokun göngugötunnar.

- Ljóst þótti að það samkomulag sem hafði verið um lokun göngugötunnar meðal helstu hagsmunaaðila héldi ekki út sumarið. Eins þótti of seint að hefja formlegt samráð við hagsmunaaðila um lokunina á miðju sumri.

- Ákvörðun um lokun á föstudögum og laugardögum miðaðist við það að þá eru lokunardagar svipað margir og ef lokanir hefðu miðast við fyrra skipulag.

- Tímasetning miðaðist við að verslunarrekendur eigi auðvelt með aðföng á morgnana og að lokunin nái yfir þann tíma þegar sól er sem hæst á lofti.

- Lokunin á ekki að hafa áhrif á aðgengi hreyfihamlaða þar sem þeir hafa heimild til þess að koma frá Ráðhústorgi.

- Aðgengi að heilsugæslustöð ætti ekki að skerðast enda er aðalinngangur frá Gilsbakkavegi. Bílastæði í göngugötu eru einnig einungis 15 mínútna stæði sem gagnast lítið þeim sem þurfa að sækja þjónustu heilsugæslunnar.

- Fjöldi bílastæða eru í næsta nágrenni, s.s. við Skipagötu og Drottningarbrautareit.

5. Ekki var horft til þessara atriða sérstaklega við ákvörðunartökuna en gæti mögulega verið verkefni samstarfshóps þegar fram í sækir.

6. Nei. Mögulega verkefni samstarfshóps.

7. Nei. Mögulega verkefni samstarfshóps.

14.Drottningarbrautarreitur - lóðaúthlutanir

Málsnúmer 2015070064Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. júlí 2015 þar sem Helgi Örn Eyþórsson f.h. SS Byggis ehf., kt. 620687-2519, óskar eftir viðræðum við Akureyrarbæ um lóðir nr. A 2-4, A 4-6 og A 10-12 á Drottningarbrautarreit.
Skipulagsnefnd felur formanni skipulagsnefndar að ræða við bréfritara.

15.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 10. júlí 2015. Lögð var fram fundargerð 548. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 9 liðum.
Lagt fram til kynningar.

16.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 17. júlí 2015. Lögð var fram fundargerð 549. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.
Lagt fram til kynningar.

17.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 23. júlí 2015. Lögð var fram fundargerð 550. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum.
Lagt fram til kynningar.

18.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 30. júlí 2015. Lögð var fram fundargerð 551. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum.
Lagt fram til kynningar.

19.Fjárhagsáætlun 2015 - skipulagsdeild

Málsnúmer 2014090166Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri kynnti stöðuna á rekstri skipulagsdeildar fyrstu sex mánuði ársins 2015.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:20.